Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/11

Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
11. Fæddur Hákon hinn ríki

Þá er Hákon var konungur í Noregi var friður góður með búendum og kaupmönnum svo að engi grandaði öðrum né annars fé. Þá var ár mikið bæði á sjá og á landi.

Hákon konungur var allra manna glaðastur og málsnjallastur og lítillátastur. Hann var maður stórvitur og lagði mikinn hug á lagasetning. Hann setti Gulaþingslög með ráði Þorleifs spaka og hann setti Frostaþingslög með ráði Sigurðar jarls og annarra Þrænda þeirra er vitrastir voru. En Heiðsævislög hafði sett Hálfdan svarti sem fyrr er ritað.

Hákon konungur hafði jólaveislu í Þrándheimi. Hafði Sigurður jarl búið fyrir honum á Hlöðum. Hina fyrstu jólanótt ól Bergljót kona jarls sveinbarn.

Eftir um daginn jós Hákon konungur svein þann vatni og gaf nafn sitt og óx sveinn sá upp og varð síðan ríkur maður og göfugur. Sigurður jarl var hinn kærsti vinur Hákonar konungs.