Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/28

Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
28. Hersaga til Hákonar konungs

Þá er Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafði verið konungur í Noregi sex vetur og tuttugu, síðan er Eiríkur bróðir hans fór úr landi, þá varð það til tíðinda að Hákon konungur var staddur á Hörðalandi og tók veislu í Storð á Fitjum. Hafði hann þar hirð sína og bændur marga í boði sínu.

En er konungur sat yfir dagverðarborði þá sáu varðmenn er úti voru að skip mörg sigldu sunnan og áttu eigi langt til eyjarinnar. Þá mælti hver við annan að segja skyldi konungi, að þeir hugðu að her mundi að þeim fara. En það þótti engum dælt að segja konungi hersögu því að hann hafði þar mikið við lagt hverjum er það gerði en það þótti þó ógeranda að konungur vissi eigi þetta. En þá gengur einnhver þeirra inn í stofuna og bað Eyvind Finnsson ganga út með sér skjótt, segir að hin mesta nauðsyn var á. Eyvindur gekk þegar er hann kom út þar er sjá mátti til skipanna.

Þá sá hann þegar að þar fór her mikill, gekk aftur þegar í stofuna og fyrir konung og mælti: „Lítil er líðandi stund en löng matmáls stund.“

Konungur leit móti honum og mælti: „Hvað fer?“

Eyvindur kvað:

Blóðöxar týja beiða
brynþings fetilstinga,
oss gerast hneppt, hins hvassa
hefnendr, setuefni.
Heldr er vant, en eg vildi
veg þinn, konungur, segja,
fám til fornra vápna
fljótt, hersögu dróttni.

Konungur segir: „Ertu svo góður drengur Eyvindur að þú munt eigi hersögu segja nema sönn sé.“

Lét þá konungur taka ofan borðið. Gekk hann þá út og sá til skipanna, sá þá að það voru herskip, mælti þá til manna sinna hvert ráð taka skyldi, hvort berjast skal með lið það er þeir hafa eða ganga til skipa og sigla norður undan.

„Er oss það auðsætt,“ segir konungur, „að vér munum nú berjast við liðsmun miklu meira en fyrr höfum vér átt og hefir oss oft þó þótt mikill misjafnaður liðs vors þá er vér höfum orustu átt við sonu Gunnhildar.“

Menn veittu hér ekki skjótan úrskurð.

Þá segir Eyvindur:

Samira, Njörðr, enn norðar,
naddregns, hvötum þegni,
vér getum bili að bölva,
borðmærar skæ færa.
Nú er það er rekr á Rakna
rymleið flota breiðan,
grípum vér í greipar
gunnborð, Haraldr sunnan.

Konungur svarar: „Hraustlega er þetta mælt og nær skaplyndi mínu en þó vil eg heyra fleiri manna úrskurð um þetta mál.“

En er menn þóttust skilja hversu konungur vildi vera láta þá svöruðu margir, sögðu að heldur vildu falla með drengskap en flýja fyrir Dönum að óreyndu, sögðu að oft höfðu þeir sigur fengið þá er þeir höfðu barist við minna lið.

Konungur þakkaði þeim vel orð sín og bað þá vopnast og svo gera menn. Konungur steypir brynju á sig og gyrðir sig með sverðinu Kvernbít, setur á höfuð sér hjálm gullroðinn, tekur kesju í hönd sér og skjöld á hlið. Þá skipar hann hirðinni í eina fylking og bóndum þar með og setti upp merki sín.