Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/10

Heimskringla - Hálfdanar saga svarta
Höfundur: Snorri Sturluson
10. kafli

Hálfdan svarti ók frá veislu á Haðalandi og bar svo til leið hans að hann ók um vatnið Rönd. Það var um vor. Þá voru sólbráð mikil. En er þeir óku um Rykinsvík, þar höfðu verið um veturinn nautabrunnar en er mykrin hafði fallið á ísinn þá hafði þar grafið um í sólbráðinu. En er konungur ók þar um þá brast niður ísinn og týndist þar Hálfdan konungur og lið mikið með honum. Þá var hann fertugur að aldri.

Hann hafði verið allra konunga ársælstur. Svo mikið gerðu menn sér um hann að þá er það spurðist að hann var dauður og lík hans var flutt á Hringaríki og var þar til graftar ætlað þá fóru ríkismenn af Raumaríki og af Vestfold og Heiðmörk og beiddust allir að hafa líkið með sér og heygja í sínu fylki og þótti það vera árvænt, þeim er næðu. En þeir sættust svo, að líkinu var skipt í fjóra staði og var höfuðið lagt í haug að Steini á Hringaríki en hverjir fluttu heim sinn hluta og heygðu og eru það allt kallaðir Hálfdanarhaugar.