Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/1

Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
1. Hér hefur upp sögu Haralds konungs hárfagra

Haraldur tók konungdóm eftir föður sinn. Þá var hann tíu vetra gamall. Hann var allra manna mestur og sterkastur og fríðastur sýnum, vitur maður og skörungur mikill. Guttormur móðurbróðir hans gerðist forstjóri fyrir hirðinni og fyrir öllum landráðum. Hann var hertogi fyrir liðinu.

Eftir líflát Hálfdanar svarta gengu margir höfðingjar á ríkið, það er hann hafði leift. Var hinn fyrsti maður Gandálfur konungur og þeir bræður Högni og Fróði, synir Eysteins konungs af Heiðmörk, og Högni Káruson gekk víða yfir Hringaríki.

Þá byrjar ferð sína Haki Gandálfsson út á Vestfold með þrjú hundruð manna og fór hið efra um dali nokkura og ætlaði að koma á óvart Haraldi konungi en Gandálfur konungur sat í Lóndum með her sinn og þar ætlaði hann að flytjast yfir fjörðinn á Vestfold.

En er það spyr Guttormur hertogi safnar hann her og fer með Haraldi konungi og vendir fyrst móti Haka upp á land og finnast þeir í dal nokkurum. Varð þar orusta og fékk Haraldur konungur sigur. Þar féll Haki konungur og mikill hluti liðs hans. Þar heitir síðan Hakadalur.

Eftir það venda þeir aftur, Haraldur konungur og Guttormur hertogi, en þá var Gandálfur konungur kominn á Vestfold. Og fara nú hvorir móti öðrum og er þeir finnast verður orusta hörð. Þaðan flýði Gandálfur konungur og lét mestan hluta liðs síns og komst við svo búið í ríki sitt.

Og er þessi tíðindi spyrja synir Eysteins konungs á Heiðmörk væntu þeir sér skjótt hers. Þeir gera orð Högna Kárusyni og Guðbrandi hersi og leggja stefnu sína á Heiðmörk á Hringisakri.