Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/23

Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
23. Vesturferð Haralds konungs

Haraldur konungur spurði að víða um mitt landið herjuðu víkingar þeir er á vetrum voru fyrir vestan haf. Hann hafði þá leiðangur úti hvert sumar og kannaði eyjar og útsker en hvar sem víkingar urðu varir við her hans þá flýðu allir og flestir á haf út.

En er konungi leiddist þetta þá varð það á einu sumri að Haraldur konungur sigldi með her sinn vestur um haf. Kom hann fyrst við Hjaltland og drap þar alla víkinga þá er eigi flýðu undan. Síðan siglir hann suður til Orkneyja og hreinsaði þar allt af víkingum. Eftir það fer hann allt í Suðureyjar og herjar þar. Hann drap þar marga víkinga þá er fyrir liði réðu áður. Hann átti þar margar orustur og hafði oftast sigur. Þá herjaði hann á Skotland og átti þar orustur. En er hann kom vestur í Mön þá höfðu þeir áður spurt hvern hernað hann hafði gert þar í landi. Þá flýði allt fólk inn á Skotland og var þar aleyða af mönnum. Braut var og flutt allt fé það er mátti. En er þeir Haraldur konungur gengu á land þá fengu þeir ekki herfang.

Svo segir Hornklofi:

Menfergir bar margar
margspakr, Niðar varga
lundr vann sókn á sandi,
sandmens í bý randir,
áðr fyr eljanfróðum
allr herr Skota, þverri
lögðis seið, af láði
læbrautar varð flæja.

Í þessu bili féll Ívar sonur Rögnvalds Mærajarls. En í bætur þess gaf Haraldur konungur Rögnvaldi jarli er hann sigldi vestan, Orkneyjar og Hjaltland en Rögnvaldur gaf þegar Sigurði bróður sínum bæði löndin og var hann vestur eftir þá er konungur sigldi austur. Gaf hann áður Sigurði jarldóm.

Þá kom til lags við hann Þorsteinn rauður, sonur Ólafs hvíta og Auðar hinnar djúpúðgu. Þeir herjuðu á Skotland og eignuðust Katanes og Suðurland allt til Ekkjalsbakka. Sigurður jarl drap Melbrigða tönn, jarl skoskan, og batt höfuð hans við slagólar sér og laust á kykvavöðva sínum á tönnina er skagði úr höfðinu. Kom þar í blástur og fékk hann þar af bana og er hann heygður á Ekkjalsbakka. Þá réð löndum Guttormur sonur hans einn vetur og dó barnlaus. Síðan settust í löndin víkingar, Danir og Norðmenn.