Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/38
Eiríkur konungur fór um veturinn eftir norður á Mæri og tók veislu í Sölva fyrir innan Agðanes. En er það spurði Hálfdan svarti fór hann til með her og tók hús á þeim. Eiríkur svaf í útiskemmu og komst út til skógar við fimmta mann en þeir Hálfdan brenndu upp bæinn og lið allt það er inni var. Kom Eiríkur á fund Haralds konungs með þessum tíðindum.
Konungur varð þessu ákaflega reiður og safnaði her saman og fór á hendur Þrændum. En er það spyr Hálfdan svarti þá býður hann út liði og skipum og verður allfjölmennur og lagði út til Staðs fyrir innan Þórsbjörg. Haraldur konungur lá þá sínu liði út við Reinsléttu. Fóru þá menn milli þeirra.
Guttormur sindri hét einn göfugur maður. Hann var þá í liði með Hálfdani svarta en fyrr hafði hann verið með Haraldi konungi og var hann ástvinur beggja þeirra. Guttormur var skáld mikið. Hann hafði ort sitt kvæði um hvorn þeirra feðga. Þeir höfðu boðið honum laun en hann neitti og beiddist að þeir skyldu veita honum eina bæn og höfðu þeir því heitið.
Hann fór þá á fund Haralds konungs og bar sættarorð millum þeirra og bað þá hvorntveggja þeirra bænar og þess að þeir skyldu sættast en konungar gerðu svo mikinn metnað hans að af hans bæn sættust þeir. Margir aðrir göfgir menn fluttu þetta mál með honum. Varð það að sætt að Hálfdan skyldi halda ríki öllu því er áður hafði hann haft, skyldi hann og láta óhætt við Eirík bróður sinn.
Eftir þessi sögu orti Jórunn skáldmær nokkur erindi í Sendibít:
- Harald frá eg, Hálfdan, spyrja
- herðibrögð, en lögðis
- sýnist svartleitr reyni
- sjá bragr, hinn hárfagra.