Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/42
Aðalsteinn konungur lét skíra Hákon og kenna rétta trú og góða siðu og alls konar kurteisi. Aðalsteinn konungur unni honum svo mikið, meira en öllum frændum sínum, og út í frá unni honum hver maður er hann kunni. Hann var síðan kallaður Aðalsteinsfóstri. Hann var hinn mesti íþróttamaður, meiri og sterkari og fríðari en hver maður annarra. Hann var vitur og orðsnjallur og vel kristinn.
Aðalsteinn konungur gaf Hákoni sverð það er hjöltin voru úr gulli og meðalkaflinn en brandurinn var þó betri. Þar hjó Hákon með kvernstein til augans. Það var síðan kallað Kvernbítur. Það sverð hefir best komið til Noregs. Það átti Hákon til dauðadags.