Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/5

Eftir þetta safna þeir frændur liði miklu og búa ferð sína á Upplönd og svo norður um Dali og þaðan norður um Dofrafjall. Og þá er hann kom ofan í byggðina þá lét hann drepa menn alla og brenna byggðina. En er fólkið varð þessa víst þá flýði hver er mátti, sumir ofan til Orkadals, sumir til Gaulardals, sumir á markir, sumir leituðu griða og það fengu allir þeir er á konungs fund komu og gerðust hans menn.

Þeir fengu enga mótstöðu fyrr en þeir komu til Orkadals. Þar var safnaður fyrir þeim. Þar áttu þeir hina fyrstu orustu við konung þann er Grýtingur hét. Haraldur konungur fékk sigur en Grýtingur var handtekinn og drepið mikið lið af honum en hann gekk til handa Haraldi konungi og svarði honum trúnaðareiða. Eftir það gekk allt fólk undir Harald konung í Orkdælafylki og gerðust hans menn.