eftir Stephan G. Stephansson

I. NORÐUR SLÉTTUNA

breyta
Um sléttur og flóa bar eimlestin oss
      í áttina norðrinu mót.
Á vinstri hlið silalegt aurana óð
      ið óslygna, skoluga fljót,
sem lyfti ei fæti í foss eða streng —
      því fjör, jafnvel straumanna, deyr,
að vaga um aldur með fangið sitt fullt
      af flatlendis svartasta leir.
Það blasti við útsýnið einkennalaust,
      nema aðeins þar skóggyðju hönd
á sléttuna lagði um lækjanna barm
      sín laufofnu kniplinga bönd.
Sjálft landið var útlits sem endalaust borð
      allt órifið kvistlaust og vænt,
sem náttúran hefði ögn hallað á röð
      og heflað og málað svo grænt.


Og byggðin var þunnskipuð, þéttust í kring
      um þorpsmælkin brautstöðvum hjá
með hlálega stafsett og stórfengleg nöfn,
      en strætin og húsin svo fá:
ein spírituslaumverslun, lyfsala nefnd,
      og lánsbúðir tvær eða þrjár,
en kirkjurnar fjórar — að fjöldanum til
      eins frjóvar og veitingakrár.
Um grundirnar nýbýlin stóðu svo stök
      sem strandsker við glælygnusæ,
og mannvirkin öll vóru líka svo lík
      og lagið á sérhverjum bæ,
öll nýplægða moldin jafnblakkleit á blæ
      og blágrænka akranna söm.
Hver mannsandi hlaut víst að hugsa þar eins,
      hver hönd vera álíka töm.


Því siðir og hugsanir dagsins í dag
      þar drottna með óskoruð völd,
sem frumbyggðin sprettur upp fortíðarlaus
      og fóstruð af samtíðar öld.
Og framförin mikla og menningin hér
      við minningar ei hefur töf,
ef endistu að plægja, þú akurland fær,
      er uppgefst þú: nafnlausa gröf.
— En saga og ævintýr öll hefur skreytt
      með örnefnum bændanna lönd,
og bæina óskírða upp vaxa lét
      ei öldin um dal eða strönd
á föðurleifð minni. Í myrknættið út,
      er minningar tendra sín bál,
um vallgróna haugana blossana ber,
      svo bjart er um feðranna sál.

XVIII. "SVO FYRIRDÆMI ÉG ÞIG EKKI HELDUR"

breyta
Og það var nú fráliðin tveggja ára tíð
      af atburðum sárlítið gleymt,
og Ragnheiðar ævi og endalok var
      nú öllum sem veðráttan gleymt. —
Í þorpinu sama og samfylgdarlaus
      eitt sumarkvöld staddur ég var.
— Ég glöggt mundi húsin og göturnar enn,
      en gleymst hafði mönnunum þar.
Mér hugkvæmdist eflaust af óþreyju samt,
      þó að því ei stór væru brögð —
að ganga út í reitinn inn rólega þann,
      þar Ragnheiður síðast var lögð.
— Til framandi landa ég bróðurhug ber,
      þar brestur á viðkvæmnin ein,
en ættjarðarböndum mig grípur hver grund,
      sem grær kringum Íslendings bein.
Ég skil, hví vort heimaland hjartfólgnast er:
      öll höppin og ólánin það,
sem ættkvísl þín beið, rifjar upp fyrir þér
      hver árhvammur, fjallströnd og vað.
Og það er sem holtin sjálf hleypi í mann þrótt,
      það hreystiraun einhver var drýgð,
og svo er sem mold sú sé manni þó skyld,
      sem mæðrum og feðrum er vígð.
— En legstaðinn fann ég — og varðaðan vel,
      þó var samt ei grafskriftin rétt,
því "Sally O'Hara" úr letri ég las
      í línu, sem efst var þar sett,
í næstu, hvern dag það í desember var,
      sem dó hún og ártalið þá
þar neðan við "Daisy" — svo fólk gæti fræðst,
      hvers "forlag" um kostnaðinn sá.