Ástarjátning
Ástarjátning
Höfundur: Hannes Hafstein
Höfundur: Hannes Hafstein
- Ég elska þig bæði sem móður og mey,
- sem mögur og ástfanginn drengur,
- þú forkunnar tignprúða fjallgöfga ey!
- Ég fæ ekki dulist þess lengur.
- Þú háa meydrottning, heyr þú mig:
- Af hug og sálu ég elska þig.
- Sem móðir þú hefur mig faðmað og fætt
- og frætt mig og skemmt mér við sögur.
- Í anda mér hefur þú eldsneista glætt
- sem yngismey töfrandi fögur.
- Ég grátbæni drottin að gefa mér,
- að geti ég aftur hugnast þér.
- Ég veit ekki, hvernig mín ást til þín er,
- hvað einkum svo til þín mig dregur,
- hvort móðirin blíð eða mærin í þér
- á metunum drjúgara vegur.
- Ég finn aðeins hitt, hvernig hjarta mitt slær,
- er hugsa ég til þín, sem ert mér svo kær.
- Ég óska þess næstum, að óvinaher
- þú ættir í hættu að verjast,
- svo ég gæti sýnt þér og sannað þér,
- hvort sveinninn þinn þyrði´ ekki´ að berjast.
- Að fá þig hrósandi sigri að sjá
- er sætasta vonin, er hjarta mitt á.
- Ef verð ég að manni, og veiti það sá,
- sem vald hefur tíða og þjóða,
- að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,
- þótt lítið ég hafi að bjóða,
- þá legg ég, að föngum, mitt líf við þitt mál,
- hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.