Íslands minni
höfundur Bjarni Thorarensen
Eldgamla Ísafold,
ástkæra fósturmold,
fjallkonan fríð,
mögum þín muntu kær,
meðan lönd gyrðir sær
og gumar girnast mær,
gljáir sól á hlíð.
Hafnar úr gufu hér
heim allir girnumst vér
þig þekka' að sjá;
glepur oss glaumurinn,
ginnir oss sollurinn,
hlær að oss heimskinginn
Hafnar slóð á.
Leiðist oss fjalllaust frón,
fær oss oft heilsu tjón
þokuloft léð;
svipljótt land sýnist mér
sífellt að vera hér,
sem neflaus ásýnd er
augnalaus með.
Öðruvísi´ er að sjá
á þér hvítfaldinn há
heiðhimin við;
eða þær krystallsár,
á hverjar sólin gljár,
og heiðar himinblár,
hájökla rið.
Eldgamla Ísafold,
ástkæra fósturmold,
fjallkonan fríð,
ágætust auðnan þér
upp lyfti, biðjum vér,
meðan að uppi er
öll heimsins tíð.