Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ólöf bóndadóttir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Ólöf bóndadóttir

Þess er getið að fyrr meir hafi verið prestur nokkur í Eyjafirði, kvæntur og átti nokkur börn. Hann tók til fósturs fátæks bónda dóttir í sveit sinni er Ólöf hét og var hún hin fríðasta mær og kurteisasta. Unni prestur henni ekki minna en sínum börnum og lét kenna henni hannyrðir og fleira er kvenmann mátti prýða. Ólöf var orðin fulltíða þegar saga þessi gjörðist. Presturinn fóstri hennar sótti um brauð nokkurt á Austurlandi um þessar mundir og fékk það; tók hann sig því upp snemma sumars til ferða austur með allt fólk sitt, konu og börn; er svo sagt að hann hafi ætlað hina skemmstu leið og liggur hún fyrir framan Bárðardal austur í gegnum Ódáðahraun og svo til Möðrudals. Segir ekki af ferðum prestsins fyrr en hann lagði upp frá efsta bæ í Bárðardal og er þá næsti áfangi í miðju Ódáðahrauni. Kom prestur þar að kvöldi með föruneyti sitt og slær niður tjaldi; en er hann hafði dvalið þar litla hríð komu úr hrauninu níu menn alvopnaðir; verður þar ekki af kveðjum því komumenn sækja þegar að presti og föruneyti hans. Verða þar skjót umskipti því prestur og hans menn vóru vopnlausir; drepa komumenn það allt saman nema Ólöfu; hana taka þeir og hafa með sér til skála síns sem þar var skammt í burtu; verður nú Ólöf þess vísari að þetta eru útilegumenn og lifa einungis á ránum og þjófnaði; þykist hún nú mjög illa komin og fær þó ei að gjört. Ekki gjörðu þeir henni neitt mein og vildu heldur gjöra henni ævina sem skemmtilegasta; sögðust þeir mundi, þegar vetraði og þeir settist að, varpa hlutkesti um hver hennar skyldi njóta, en matreiða skyldi hún handa þeim öllum og þjóna þeim. Að einum þeirra geðjast henni bezt; var hann yngstur þeirra og góðmannlegastur.

Líður nú sumarið allt til þess að hálfur mánuður er til gangna; þá búast skálabúar á braut og gjöra ráð fyrir að vera viku í burtu; skyldi þá draga að til vetrarins fé úr afréttum. En nokkrum dögum áður en þeir fara tekur hinn yngsti þeirra sótt og leggst veikur; er honum nokkuð í afturbata þegar þeir fara, en þó ekki svo að hann geti farið með þeim; er svo ráð fyrir gjört hann komi á eftir þeim ef honum fer batnandi. Fara nú skálabúar; en er þeir eru komnir á burt talar hinn ungi maður til Ólafar á þessa leið: „Von þyki mér þú þykist illa komin hér með okkur og skylda eg fyrir löngu hafa verið búinn að hjálpa þér á burt ef ég hefði séð nokkurn veg til þess; skaltu vita að ég var í fyrstu tekinn af þessum skálabúum og er ég bóndason úr Mjóvadal; hef ég verið hér í tvö ár og aldrei fengið færi á að komast héðan; hafa þeir mig með sér til rána og þjófnaðar, en þó alténd nauðugan. Gerði ég mér upp veiki þessa til þess að geta talað við þig í tómi og að við gætum tekið ráð okkar saman; vil ég nú að þú reynir til að komast í burtu meðan skálabúar eru ekki heima þó það sé áhætta mikil; skaltu með öllu fara eins og ég gef nú ráð til. Ég mun nú leggja af stað á morgun eftir skálabúum eins og þeir hafa fyrir mælt; svo skulu líða tveir dagar og skaltu þá vera albúin til ferðar. Þegar þú kemur út úr skálanum muntu sjá hest brúnskjóttan; hann skaltu taka og leggja við hann beizli og á hann reiðtygi þau er þú finnur hér í skálanum; þann hest á ég og er hann allra hesta fljótastur; er enginn annar hestur í eigu okkar skálabúa; þessum hesti stígur þú á bak og lætur hann ráða ferðinni, en ekki skaltu slá hann nema líf þitt liggi við; það skaltu og varast að fara ekki fyrri á stað en ég segi þér. Fari nú svo að þú komist klakklaust til byggða vil ég þú stuðlir til þess að eytt sé þessum óaldarflokki. En það er ekki svo auðvelt því skálabúar eru næsta varir um sig; er ekki að hugsa til þessa á þessu hausti og ekki fyrri en á öðru hausti þegar við förum í göngur; þá er það vani skálabúa að þeir liggja í dæld nokkurri við Skjálfandafljót nótt þá er menn almennt fara í fyrstu göngur; er þar auðvelt að ráðast að skálabúum; en þyki þér nú nokkurs vert um þessi ráð mín og geti þau komið þér að haldi þá sjáðu um að manni þeim er liggur yztur skálabúa verði gefið líf. Farðu nú að öllu eins og ég hef gefið þér ráð til og breyttu í engu út af; mun þá hamingjan fylgja þér.“

Ólöf þakkaði skálabúa tillögur sínar og kveðst hans ráðum hlýða mundi. Fer hann nú leiðar sinnar, en hún situr eftir óþolinmóð; leiðist henni nú meir en nokkru sinni fyrr og finnst næsti dagurinn lengri en heilt ár; kemur svo annar dagurinn og getur hún ekki að sér gjört nema fer og leitar að Skjóna. Finnur hún hann skammt frá skálanum; og með því henni þykir óskiljanlegt það geti gjört nokkuð til þó hún fari deginum fyrri en henni var sagt þá leggur hún af stað, og segir ekki af ferðum hennar fyrri en hún er komin á miðja leið, þá heyrir hún allt í einu hóað ekki langt frá sér og þekkir á hljóðinu að þetta muni vera einn skálabúi; þetta var líka orð og að sönnu; hafði einn þeirra orðið var við för hennar og þekkti hestinn sem hún reið; hrópaði hann því sem skjótast á félaga sína. Leið og ekki á löngu að þeir eru allir komnir saman og svo nærri henni að ekki var nema lítill spölur á milli. Fóru þeir svo hart sem fugl flygi, og þó Skjóni færi hart sér hún þó að þeir muni bráðum ná sér. Hún ræður það því af að hún slær hann og tók hann þá á sig kast mikið svo hún var nærri hrokkin af baki. Fer hann nú hálfu hraðar en fyrr og skildi fljótt með henni og skálabúum. Segir ekki af ferðum hennar fyrri en hún kemur í Mjóvadal. Var þá faðir hins unga manns enn á lífi og segir hún honum alla sögu af ferðum sínum og hvar sonur hans er niður kominn og svo hver ráð hann hefur lagt til að vinna skálabúa.

Líður nú af vetur hinn næsti og svo sumarið; taka sveitamenn sig saman um að ráða skálabúa af dögum á ákveðnum tíma og skyldi Ólöf vera formaður ferðarinnar. Er ekki að orðlengja það að skálabúar vóru allir drepnir nema sá sem yztur lá í dældinni og var það hinn ungi maður, bóndasonurinn úr Mjóvadal. Fór hann heim til föður síns; en með því hann þótti svo lengi hafa verið hluttakandi í illvirkjum skálabúa var hann á alþingi dæmdur líflaus og til konungs náðar; skyldi hann sigla næsta haust með Akureyrarskipi; hörmuðu margir forlög bóndasonar því að hann var hinn vænsti maður, og ekki sízt Ólöf því menn höfðu það fyrir satt að þeim færi vel saman. En áður bóndasonur sté á skip veik hann til Ólafar og bað hana giftast ekki í fimm ár ef hún frétti ekkert til sín. Hún gegndi engvu og skildu þau við það.

Liðu svo fram nokkrir tímar og hafðist Ólöf við hjá fólki sínu í Eyjafirði; gerðust ýmsir ungir menn og mikilhæfir til að biðja hennar því hún þótti afbragð kvenna þar um sveitir. En hún synjaði öllum ráðahags við sig og kvaðst hafa heitið því að giftast aldrei á ævi sinni; var þetta kennt einþykkni hennar og þunglyndi er hún mundi hafa fengið hjá skálabúum; vöndust menn því af konbónum við hana. Liðu svo þessi fimm ár að ekkert bar til tíðinda. Á hinu sjötta sumri kom skip af hafi við Eyjafjörð; var á því ungur maður, fríður sínum og hinn gjörvuglegasti, og talaði íslenzku. Var hann sendur af konungi og skipaður valdsmaður í Vaðlaþingi, því sá sem áður hafði verið var þá dauður; gjörðist hann brátt vinsæll og hugþekkur landsmönnum. En er hann hafði skammt eitt verið vildi hann reisa bú og fá sér bústýru og jafnvel konuefni. Vísuðu allir honum til Ólafar því hún væri beztur kvenkostur þar um sveitir, en sögðu þó hvert vandhæfi á var, að hún vildi ekki giftast. Sýslumaður kvaðst þó mundi hætta til bónorðs við hana og freista hvernig færi. Ríður hann brátt á fund hennar og vekur máls á um bónorðið; en hún tók því fjærri. En fyrir áleitni sýslumanns og aðbeining góðra manna lætur hún þó um síðir til leiðast. Er þá við brúðkaupi búizt og mörgu stórmenni til boðið. En að brúðkaupinu stendur sýslumaður upp og mælti: „Það vil ég öllum kunnugt gjöra að ég er hinn sami bóndasonur úr Mjóvadal sem tekinn var hjá útilegumönnum í Ódáðahrauni og dæmdur til konungs náðar; þegar konungur heyrði sögu mína og alla málavexti sannfærðist hann um sakleysi mitt og ekki einasta náðaði mig, heldur styrkti mig til lærdóms og menntunar; hef ég á þessum árum numið svo mikið í lögum og landsrétti að ég gat fengið sýslu þessa. Gleður það mig að kona sú er situr hér við hlið mér er sú hin sama sem gaf mér forðum líf þegar skálabúar vóru drepnir, og gefst mér nú tækifæri á að launa dyggð hennar og staðfestu.

Allir undruðust sögu sýslumanns því menn höfðu haldið bóndason fyrir löngu dauðan. Ólöf hafði verið mjög döpur og áhyggjufull, en nú snérist deyfð hennar í gleði og varð hún mjög fegin að hitta hér aftur vin sinn og lífgjafa, bóndason. Lyktaði svo veizlan; en þau reistu bú á góðri og fagurri jörðu í Eyjafirði og lifðu glöð og ánægð til ellidaga.