Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ólafur og Helga

Maður er nefndur Sigurður, góður bóndi og vel þokkaður. Hann átti efnilega og væna dóttur, sú hét Helga. Ólafur hét vinnumaður, ungur maður og efnilegur og vel að sér um alla hluti. Hann var prestsson og var þá faðir hans hniginn mjög á efri aldur þegar þessi saga gjörðist. Ólafur fekk skjótt góðan þokka á bóndadóttur og það orð lék á að það væri vingott á milli þeirra. Þótti mönnum vel til fallið og vildi bóndi að þau ættust því hann elskaði þau bæði innilega. Svo bar til eitt sumar að geldfé bónda hvarf allt og var þess lengi leitað, en fannst ei. Sumarið eftir týndust ær bónda og fór á sömu leið, að þær fundust ei. Þótti Ólafi það skaði mikill því hann var mjög húsbóndahollur og duglegur. Gjörðu menn sér ýmsar tilgátur um það hvernig á þessu stæði, en bóndi lét sér ekki mikið um verða og leið svo nokkra stund að ekki bar til tíðinda.

En um veturnætur bar svo til eitt kvöld að bóndadóttir fór út að gæta að þvotti og kom ei aftur. Þegar menn fór að lengja eftir henni var farið að vitja um hana. Sást hún þá hvergi. Síðan var leitað og safnað til mönnum og þrátt fyrir það fannst hún ekki. Þetta fekk mjög á alla, en þó mest á Ólaf. Hann lagðist í rekkju af sorg og neytti hvorki svefns né matar. Eina nótt þegar sætur svefn hafði runnið í brjóst honum dreymdi hann að honum þótti faðir sinn koma til sín og segja: „Mikið ertu huglaus og ístöðulítill, og ekki er það karlmannlegt að leggjast ráðalaus í rúmið þó eitthvað gangi á móti. Eða heldurðu að guð muni ekki geta greitt úr bágindum þínum þó óvænilega sýnist á horfast? Rístu upp, taktu þér nesti og nýja skó og haltu einatt í suður og hættu ekki fyrri en þú kemur að kringlóttum hól með lyngbrekkum umhverfis. Þar er lækur við hólinn; yfir hann skaltu fara og þá muntu komast á götu sem þú skalt ganga. Reiddu þig einungis á guð og láttu ekki vegalengd né ófærð snúa þér aftur.“

Þegar Ólafur vaknaði reis hann skjótt á fætur og klæddi sig. Bað hann fá sér nesti og þrenna leðurskó nýja. Bóndi spurði hvert hann ætlaði, en Ólafur lézt ekki vita það gjörla. Bóndi segir honum sé bezt að vera heima og sagðist mundi deyja ef hann missti Ólaf líka sem væri nú orðinn sín eina gleði og ellistoð. Ólafur bað hann að bera sig vel og örvænta ekki. Síðan fór hann af stað og kvaddi bónda grátandi. Hann fór eftir ávísan draumsins og gekk einatt í suður. Svona hélt hann áfram dag og nótt um holt og heiðar og þótti honum vegurinn ógreiðfær og gjörðist hann nú mjög göngumóður. Loksins kom hann að hólnum sem draumurinn hafði til tekið. Fór hann þá yfir lækinn og kom á götuslóða. Gjörðist hann þá hressari í huga og hélt enn lengi áfram.

En þegar hann hafði nokkra stund gengið heyrði hann skammt frá sér að hóað var og það fremur karlmannlega. Nú var liðið mjög á dag. Hann gekk á hljóðið og sér hvar maður mikill vexti og þreklegur rekur lambahóp stóran. Sá hafði öxi reidda um öxl og var í mórendri vaðmálsúlpu, með hött síðan á höfði. Ólafur gengur að honum og kastar á hann kveðju. Hinn tekur því heldur stutt og spyr hvað hann sé að fara. Ólafur segist vera að leita að sauðum. „Heldurðu þeir séu hérna?“ segir úlpumaðurinn. „En þú þarft ekki að ljúga að mér,“ segir hann, „því ég veit bæði hvað þú heitir og að hverju þú leitar. Þú leitar að Helgu bóndadóttur, en ekki sauðum, og skaltu vita það víst að hún er ekki langt héðan geymd og færðu hana aldrei framar. Ég vil því ráða þér til að fara sem skjótast heim aftur eða ég neyðist til að láta öxina þegar ríða í höfuð þér þó ég sé ekki vanur að vega menn.“ „Það er lítil frægð fyrir þig,“ segir Ólafur, „að níðast á mér, vopnlausum manni og ferðlúnum, og væri það jafnara að við glímdum og reyndum svo með okkur.“ Úlpumaður sagði að svo skyldi og vera og snaraði frá sér öxinni. Tóku þeir síðan glímutökum og gengust að heldur sterklega. Bárust þeir víða og lengi um völlinn og fann Ólafur að hér var við aflsmun að eiga. Sótti hann því ekki fast að, en varði sig einungis þangað til úlpumaðurinn tók að mæðast; neytti þá Ólafur þess að hann var glímnari og felldi hann á hælkrók. Þá sagði úlpumaður að það væri lítil frægð fyrir hann að fella sig, fimmtán ára gamlan ungling. Ólafur kvaðst nú samt mundi nota sér fallið og vildi draga úlpumann þangað sem öxin lá. Úlpumaður spurði hvað hann ætlaði. Ólafur kvaðst nú mundi neyðast til að vinna á honum, „þó ég geti líklega sagt það eins satt um mig og þú áðan að ég sé ekki vanur að vega menn.“ Úlpumaður sagði hann skyldi ekki drepa sig og kvaðst geta orðið honum að miklu liði. Ólafur lét þá til leiðast því honum leizt ekki ódrengilega á manninn. Hann reisti hann á fætur og lét hann vinna sér hollustueið. Ólafur bað hann nú segja sér hvar hann ætti heima og hver hann væri. Úlpumaður segir að hann eigi heima skammt þaðan og hann sé útilegumaður. „Ég heiti Kári,“ segir hann, „og á ég gamlan föður og móður. Tvo bræður á ég og eru þeir miklu eldri og sterkari en ég og en mestu tröll. Annar þeirra sótti Helgu og ætlar að eiga hana, en hún vill ekki þýðast hann og unir sér illa. Er hún höfð í varðhaldi og sitja systur mínar oft hjá henni til að hugga hana og allt er gjört til að gleðja hana sem verður. En það er allt til einskis. Hún neytir hvorki svefns né matar og er orðin náföl af harmi og sorg. Faðir minn er svo framsýnn að hann vissi allt um ferðir þínar, og þegar ég fór til lambanna í dag fékk hann mér þessa öxi og sagði mér að rjóða hana í blóði þínu; því hann sagði þú mundir koma til mín. Þess vegna veit ég nú að þér er bráður bani búinn ef faðir minn eða bræður fá færi á þér, svo ég vil nú ráða þér til að liggja hér í lambahúsinu í nótt og skal ég færa þér nógan mat heiman að.“ Ólafur segist vilja fara heim með honum og sjá bræður hans og sagði að svo yrði að fara sem auðið væri. Kári sagði að hann skyldi þá ráða, „og skal þá eitt yfir okkur báða ganga.“

Síðan gengu þeir ofan í dalverpi nokkurt. Sá Ólafur þar kotbæ í dalnum og ekki stóran. Þangað fóru þeir og sá Ólafur þar gamlan mann úti. Var hann tröllslegur mjög og illúðlegur. Það þóttist hann vita að væri faðir Kára. Ólafur kastaði kveðju á hann, en karlinn lét sem hann heyrði það ekki og leit illu auga til hans og Kára. Kári leiddi Ólaf inn með sér í bæinn. Voru þar lág og löng göng og niðamyrkur. Þeir komu síðan inn í baðstofu. Þar sá Ólafur stúlkur tvær unglegar og fagrar ásýndum. Honum leizt vel á þær og undraðist hvað vænlegar þær voru þar sem faðir þeirra var svo ljótur. Í öðrum enda baðstofunnar sá hann afhús dálítið. Þar sat gömul kerling og heldur ófrýnileg. Kári vísaði Ólafi til sætis og settist sjálfur hjá honum. Lét hann þá sækja mat og gefa honum. Nú kemur gamli karlinn inn og gengur hann í afhúsið til kerlingarinnar Skömmu síðar heyrir Ólafur hark mikið í göngunum og skóhljóð. Þar næst sér hann tvo menn koma inn í baðstofuna. Það voru bræður Kára og voru þeir honum mjög ólíkir. Líktust þeir meira tröllum en mennskum mönnum. Þeir ganga inn í húsið til karls og kerlingar og létu sem þeir sæju ekki Ólaf, en litu reiðuglega til Kára. Ólafur heyrði að þeir töluðust eitthvað lágt við feðgarnir. Ekki talaði Ólafur orð við nokkurn mann og ekki yrti heldur neinn á hann. Kári sat líka einatt þegjandi hjá honum.

Þegar þeir höfðu setið svona nokkra stund kemur karlinn fram á pallinn og segir: „Ætli það sé ekki komið mál til að fara að hátta?“ Tekur þá Kári í hönd Ólafi og leiðir hann fram göngin og inn í skála og segir þar eigi hann að sofa. Síðan gengur hann burtu. Myrkur var í skálanum og heldur óskemmtilegt og fannst Ólafi ekki til að gista þar. Nú kemur inn stúlka og dregur vosklæði af Ólafi. Ekki töluðust þau neitt við. En þegar hún var að þerra fætur hans fannst honum tár drjúpa á þær, og um leið og hún fór út sagði hún ofur lágt: „Vertu var um þig.“ En þegar hún var nýskeð farin út kemur Kári og segist vilja vera hjá Ólafi um nóttina. „Það þykir mér ekki ráðlegt,“ segir Ólafur, „því það getur orðið okkur báðum til tjóns.“ Kári sá að það var satt og biður hann að vera varan um sig og fara í fötin aftur. Hann leggur öxi fyrir framan Ólaf í rúmið og segir: „Þessi mun veita þér trúa fylgd þó allt annað bregðist, ef þér liggur á.“ Síðan gengur Kári burt, en Ólafur rís upp og klæðist skjótt. Hann tekur ábreiðuna ofan af rúminu og vefur henni um handleggi sér og brjóst. Síðan leggst hann niður og hefur höndina á axarskaftinu, en lætur hana þó ekki sjást. Þegar hann hafði skamma stund legið svona heyrir hann mannamál og skóhljóð fyrir framan skáladyrnar. Læzt hann þá sofa og hrýtur nú mikið. Því næst opnast hurðin og gamli karlinn kemur inn með sax mikið í hendinni. Annar eldri bróðirinn var með honum og bar ljós í annari hendi, en hníf í hinni. Þeir nema staðar á gólfinu og litast um. Þá segir karlinn: „Hann sefur,“ og í sama bili veður hann að rúminu og ætlar að kippa Ólafi fram á stokkinn. En Ólafur brá við skjótt og hjó höfuðið af honum. Þá kemur sonurinn og ætlar að hefna föður síns, en Ólafur lét skammt á milli verða áður hann hjó hann banahögg. Í þessu bili kemur inn eldri bróðirinn inn í skálann og var þá fremur ófrýnilegur. Ólafur ætlaði nú að vega að honum, en hann var vopnlaus. Snarar hann þá frá sér öxinni því hann vildi ekki níðast á vopnlausum manni. Tóku þeir þá fangbrögðum og glímdu heldur sterklega. Urðu þá sviptingar miklar og var eins og skálinn ætlaði að ríða niður. Fann Ólafur það skjótt að hér var við æði mikinn aflsmun að eiga, og svo lauk að Ólafur varð undir. Ætlaði þá hinn að draga hann að öxinni og drepa hann. En í því bili kemur Kári inn í skálann og sér hvar komið er. Tekur hann þá í bróður sinn og segir hann skuli hætta þessu. „Á ég þér ekki svo mikið gott að launa,“ segir hann, „þar sem þú hefur viljað gjöra mig að hinum versta manni.“ Þorði hann þá ekki annað en láta Ólaf standa á fætur og sverja honum hollustueið. Þakkar þá Ólafur Kára liðveizluna og segir að hann hafi höggvið æði nærri honum, „þar sem ég hef nú drepið bæði föður þinn og bróður“. Kári segir að hann hafi orðið að verja höndur sínar og skuli þeir ekki á það minnast. Leiðir þá Kári Ólaf þangað sem Helga var. Ætlaði þá Ólafur ekki að þekkja hana. Hún lá á bæn og flutu harmatár ofan eftir hennar fölnuðu kinnum. En þessi tár snerust nú í fögur fagnaðar- og gleðitár. Hún hafði verið kvenmaðurinn sem þjónaði honum til sængur. En gamli karlinn hafði staðið í skáladyrunum til að heyra hvort þau töluðu nokkuð. Hann hafði með þessu móti viljað svala grimmd sinni og særa hjarta hinnar sorgbitnu meyjar.

Ólafur dvaldi nú þarna nokkra daga í góðu yfirlæti. Síðan fór hann heim og tók með sér Kára og systur hans báðar. Vildi þá bróðir Kára ei vera einn eftir og fór líka með þeim. Ráku þeir sauðféð allt til byggða og tóku það sem fémætt var í kotinu, en lögðu eld í bæinn. Á ferðinni bar ekkert til tíðinda og komust þau öll með heilu og höldnu heim til Sigurðar bónda. Varð þar mikill fagnaðarfundur og var slegið upp gleðiveizlu.

Sat Ólafur þar nú um veturinn og félagar hans. En um vorið gekk hann að eiga Helgu bóndadóttur. Tók hann þá jörð og reisti bú og varð gildur bóndi. Hann gifti báðar systur Kára og fékk honum konu. Bróðir Kára kvæntist líka og settist að búi. Voru þeir æ mestu vinir Kári og Ólafur og lifðu lengi og nutu góðrar elli og almennings virðingar.