Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Útilegumaður biðst gistingar
Útilegumaður biðst gistingar
Það var einu sinni ríkur bóndi á bæ og var járnsmiður; hann sat oft í smiðju og var að smíða. Bærinn stóð nærri hrauni. So einu sinni sem oftar var hann að smíða og var þoka mikil og suddi. Þeir sita í smiðjunni. Þegar komið er kvöld kemur þar maður að dyrunum og þeir hafa aldrei séð hann; hann er í sauðsvörtum fötum með digurt birkiprik í hendinni. Hann stendur þar lengi og heilsar ekki né neitt talar so hann teygir fæturnar inn í dyrnar og þá sér bóndi að hann er búinn að ganga niðrúr sokkum og skóm. Bóndinn spyr hvort hann vilji ekki tylla sér á þröskuldinn; hann gerir það. Bóndi spyr hvort hann sé þyrstur; hann skyrpir þá. Hönum er færður fullur askur af mjólk og hann drekkur það; hann tekur í hendina á bóndanum þegjandi. Bóndi spyr hvort hann vilji vera í nótt; hann brosir þá. Bóndinn tekur í hendina á hönum og leiðir hann inn í eitt hús og þar er rúm. So fær hann að borða og so er hönum sagt að liggja í þessu rúmi og hann gerir það og talar ekkert orð; hann lætur birkiprikið fyrir ofan sig. Og so sagði bóndinn kvenfólkinu að ætla þessum manni sokka og skó hvur sem hann sé, hann sé berfættur. Hönum er fengið um morguninn nýir sokkar og skór og gefið að borða og so tekur hann í hendina á bóndanum og teymir hann norður fyrir garð og tekur tvær spesíur úr barmi sínum og fær hönum þegjandi. Og so snýr hann í sundur birkiprikið og þá er þar innan í tvíeggjað sverð og var eins langt og ljár, og snýr það so saman aftur, tekur so í hendina á hönum og stekkur so upp af öllum hraunum og so sér hann hann ekki meira. Og var haldið að það hafi verið útilegumaður og villzt þegar þokan var so mikil. Og endar so þessi saga.