Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Útilegumannakvæði
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Útilegumannakvæði
Útilegumannakvæði
1.
- Satt er efnið sem ég þér
- segja vil, mín kæra,
- frábæra;
- með lygabuldri ljótu hér,
- lindin gulls, ég ætla mér
- þig ekki að æra.
2.
- Upp í Hreppum bóndinn bjó,
- burðar Grana fleygir
- og sveigir;
- hestar eitt sinn hvurfu tveir
- honum, ekki fundust þeir;
- svo sagan segir.
3.
- Höfðu fyrrum haldið sig
- hófarekkar þessir
- ganghressir
- norðurfjalla afrétt í,
- átt þá kæra höfðu því
- er hríðin hvessir.
4.
- Um haustið bóndinn, það ég þyl,
- þjón sinn beiddi glaðan
- verkhraðan
- með litlum dreng að leita strax
- að ljónum skeifna, og snemma dags
- þeir þramma þaðan.
5.
- Nesti bæði og nýja skó
- njótar fleins nú rifu
- og þrifu
- strax í birting, satt það sver,
- svo af stað, ég inni þér,
- með diki drifu.
6.
- Stefndu greindan afrétt á
- ærið sporadrjúgir
- óbljúgir;
- um kvöldið lág þeir koma að,
- kúrðu um nótt í litlum stað
- þar hæðin hrúgir.
7.
- Þeir að morgni þaðan burt
- þreyttir víst að ganga
- leið langa,
- orðlengi ég ekki það,
- í engum hófadýrin stað
- þeir fá né fanga.
8.
- Þoldi ekki þetta strit
- þegninn yngri lengur
- því drengur
- var að aldri, en eftir á
- hinn eldri vildi heim sér slá
- svo spekist sprengur.
9.
- Þá var lítið loðnufjúk,
- líka hniginn dagur
- skinfagur;
- þetta kvöldið þá um síð
- þeir fram koma í eina hlíð,
- þar hefst upp hagur.
10.
- Fundu í brekku þeirri þá
- þegnar fáka báða
- óþjáða;
- fegnir urðu þeir við það,
- þann vildu nú hitta stað
- hvar nytu náða.
11.
- Skammt frá hittu djúpan dal
- dyggvir brekku undir
- um grundir;
- neðst í honum seggir sjá
- svo sem mosadyngjur þrjár
- á Þrásars sprundi.
12.
- Dyngjum þessum undir er
- ekki mikið hæli
- né bæli;
- en þar að hírast hugsa sér
- hvað sem upp á koma fer
- þó kulið kæli.
13.
- Eina skoðuðu allt í kring,
- á henni var þó hola
- með svola;
- tórði ljós í leynum þar,
- litu karl og kerling hvar
- með víli vola.
14.
- Æskublóminn af þeim var,
- ofan brýrnar hanga
- á vanga;
- niðursetzt í flókaflet
- farin voru að borða kjöt
- með krumlu-kranga.
15.
- Vinnumaðurinn mælti hátt:
- „Mun hér nokkur inni
- að sinni?“
- Hinum brá af hljóði því,
- hrukku saman kuðung í
- og skorpnu skinni.
16.
- Hrukku bitar hvoftum úr,
- hvesstu upp augun bæði,
- ég ræði;
- hvort á annað horfa tók,
- hún í pils, en karl í brók
- þau frá ég flæði.
17.
- Um síðir kerling svar til bjó:
- „Sízt mun þetta varið
- nú parið;
- hvaðan kemur hingað nú?
- Hefur víða, maður, þú
- um foldu farið?“
18.
- Allt hið sanna innti frá,
- ekki frásögn leyndi
- né treindi.
- „Hafið þið nokkurt hús að ljá,“
- hann spyr að, „ef liggur á?“
- rás er reyndi.
19.
- „Úti þarna,“ inna greitt,
- „undir mosarofi
- er kofi;
- þó ekki sé þar hýrt né heitt
- ég held þar skárra en ekki neitt
- að seggir sofi.“
20.
- Dyngju aðra fundu fljótt,
- furðulitla hyttu
- sem byttu;
- moldarhola mygluð var,
- minnstu sá ei spýtu þar
- í stoð né styttu.
21.
- Harla þröngt var holugrey
- höfðu rúm ei báðir
- langþjáðir;
- í arm að liggja urðu þeir
- andfætis að hvíla tveir
- og taka náðir.
22.
- Hallar drengurinn höfði sín
- hratt utan í dyrnar,
- mig firnar;
- hinn við stafninn hvílir sig,
- horfa' út vildi, grunar mig,
- ef starfið stirðnar.
23.
- Hinn yngri sofnar strax í stað,
- stóri maðurinn eigi
- þó þegi;
- lengi nætur lá svo kyrr,
- ljórum hvarma út um dyr
- svo miða megi.
24.
- Þegar gríman hér um bil
- hálfnuð var, ég inni
- að sinni,
- einhver vofa úti [f]er
- því olli myrkrið sjónargler
- það kenna ei kynni.
25.
- Þetta færðist nær og nær,
- nokkurja hafði glóru,
- ljóstóru;
- hvíluskála halsins að
- hægt og hægt sér miðar það
- og steig ei stórum.
26.
- Þetta karl og kerling er
- kæn um tíma drauga
- að spauga;
- héldu um keytu hulið skrín,
- höfðu ljós, að ætlun mín,
- og axarauga.
27.
- Þau upp ljósi bregða brátt,
- báðum augum hvima
- og skima;
- sín ráð taka saman þá
- svipill nokkuð til að sjá
- nær komu að kima.
28.
- Drenginn sjá þau dyrnar við,
- dæma því og virða
- að hirða
- sé fyrst betra segginn hinn
- seinna meir því hvæplinginn
- sé hægt að myrða.
29.
- Rólfær karlinn varla var,
- vífið sig nú glennti
- og spennti
- höndum axaraugað sitt
- yfrum kappans barka mitt
- á meðan henti.
30
- ……..
- ……..
- …..
- hann nam ekki skilja hvers kyns var,
- hugsar ekki að bila par
- við þý né þrælinn.
31.
- Hann upp eins og hugur manns
- til handa bæði og fóta
- nam þjóta;
- hruman karl og kerling með
- keyra undir sig hann réð;
- þau þrek nam þrjóta.
32.
- Kramdi bæði og kreisti fast
- kappinn orkuslyngur,
- geðflingur;
- þannig linnti þeirra leik
- þau svo búin slepptu steik
- og sleiktu um fingur.
33.
- [Vantar].
34.
- „Biðja viljum bæði þig
- brátt að fyrirgefa
- án efa
- það sem frömdum þér á mót,
- þar máttu' ekki upp á hót
- með stríði strefa.
35.
- Aldrei segðu okkar til,
- entu það sem maður
- tryggðhraður
- meðan lifir þegninn þú.“
- Þessu játar kappinn nú
- í geði glaður.
36.
- Sína ævisögu hann
- segja lét nú glanna
- og svanna;
- þau sögðust vera systkini;
- – „sök barneignar olli því
- við reistum ranna.
37.
- Hingað bæði og þangað þó
- þrálega höfum flakkað
- og pjakkað
- um óbyggðir Ísalands
- oft við höfum sauði manns
- í hægðum hakkað.
38.
- Þannig erum orðin við
- ærið kríkavisin
- og slysin;
- ei veit nær en út á hlið
- um koll velta strax án bið
- sem fjúki fisið.“
39.
- Þá Njörva jóðið nú af leið
- en niðji Dellings skaptur
- kom aftur,
- hesta grípur hratt sem má,
- heim stefna í byggð með þá
- nam randaraftur.
40.
- Aldrei meðan entist líf
- upp frá þessu greindi
- sem reyndi;
- eftir liðinn listamann
- lýsa því hinn yngri vann
- og engu af leyndi.