Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þórður Skagfirðingur
Þórður Skagfirðingur
Einu sinni bjuggu hjón ein framan til í Skagafjarðardölum. Ekki er getið nafna þeirra né heldur hvar þau áttu heima. Þau áttu son einn er Þórður hét. Hann var snemma stór og sterkur; bar hann af öllum jafnöldrum sínum í Skagafirði á þeim tíma. Hann menntaðist fyrst hér á landi eftir því sem föng voru á og var svo nokkur ár í siglingum landa á milli. Einu sinni meðan hann var utanlands gaf einn af kunningjum hans honum hund; hann var grár á lit og gróflega stórvaxinn. Sagði kunningi hans að Þórður myndi einhvern tíma fá sig fullreyndan og þá ekki veita af seppa líka þegar hann væri kominn heim til Íslands og setztur þar að. Ekki sagðist Þórður taka mikið mark á því sem hann segði um það, en þó tók hann við hundinum. Skömmu seinna hætti Þórður siglingum og settist að heima hjá föður sínum.
Nú er að segja frá því að heimtur voru oft mjög slæmar hjá Skagfirðingum þeim sem ráku suður á heiðar og eitt haust voru svo mikil brögð að því að bændur vantaði þetta þriðjung og fjórðapart af öllu fjallafé sínu. Föður Þórðar vantaði líka mikið af sínu fé og þar á meðal tvo forustusauði, annan mórauðan, en annan gráan; voru þeir mestu metfé. Vildu þá sumir fara í eftirleit eftir fénu, en sumir vildu það ekki; sögðu að menn mundu hætta sér í útilegumanna höndur eða máske trölla. Þó varð það úr að tuttugu menn, þeir er vaskastir voru, voru kosnir til eftirleitarinnar og skyldi Þórður vera foringi þeirra. Bjuggu þeir sig nú út með tjald og nesti og nýja skó og héldu suður á fjöll.
Þegar þeir voru komnir suðaustur undir jökla brast á þá hríð svo enginn treystist lengra að halda nema Þórður; hann vildi halda áfram. En þar sem enginn vildi halda áfram með honum þá fór hann einn með hest sinn og hund, en hinir settust að í tjaldinu. Gekk nú Þórður lengi, lengi svo hann vissi ekki hvar hann fór. Smám saman minnkaði hríðin og loks sá Þórður að hann var kominn fram á dalsbrún eina háa; sá hann þá niður í dalinn að þar var aðeins grátt. Þrjá bæi þóttist hann sjá í dalnum. Ekkert sá hann þar af mönnum. Leitaðist hann nú fyrir að komast niður í dalinn. og loks fann hann einstigi eitt sem hann gat komizt um niður í dalinn með hest sinn; seppi fylgdi honum. Þegar hann var kominn niður gekk hann að einu húsinu sem hann hélt að væri bær; en þegar hann kom fast að því sá hann að það var fjárhús. Setti hann þá hest sinn þar inn og gaf honum hey; síðan hélt hann heim að öðrum bænum. Þar barði hann að dyrum og kom ung stúlka til dyra. Þórður bað hana að útvega sér að drekka; stúlkan fór inn og kom að vörmu spori aftur með mjólk í könnu. Þegar hún fékk Þórði drykkinn sagði hún: „Varaðu þig!“ Þórður lét sem hann heyrði það ekki; en þegar hann var að enda við að drekka snaraðist karl einn fram úr dyrunum og hljóp undir Þórð. Í sama bili kom kerling út úr dyrunum og ætlaði líka að fljúga á Þórð, en hundurinn hljóp á móti henni og reif hana á hol. Á meðan hafði karlinn komið Þórði undir sig og ætlaði að fara að bíta hann á barkann, en þá kom seppi og tók aftan í hálsinn á honum og dró hann ofan af Þórði; gátu þeir svo báðir unnið á honum. Þegar þeir voru búnir að þessu gekk Þórður inn í bæinn; fann hann þar þá stúlkuna sem hafði fært honum að drekka og var hún nú öllu glaðlegri en áður. Þórður spurði hana að nafni og sagði að það væri undarlegt að henni skyldi ekkert fallast um dráp foreldra hennar eða hvort hún væri ekki dóttir hjúa þeirra sem hann hefði drepið. Stúlkan sagðist heita Björg og væri hún ekki dóttir þeirra karls og kerlingar, heldur hefði þau numið sig úr byggð. Þórður spurði nú hvað fleira fólk væri þar í dalnum. Sagði þá stúlkan honum að karlinn sem hann hefði drepið hefði átt þrjá syni og af þeim væri einn svo sterkur að hann hefði getað farið með karlinn eins og barn, en tveir væru hér um bil eins að burðum og faðir þeirra hefði verið; sagði hún að þeir væri allir hin mestu illmenni.
Á hinum bænum sagði hún að byggju önnur hjón sem ættu tvo syni og eina dóttur; sagði hún að í ráði hefði verið að dóttirin og sá sterkasti af sonum karlsins sem hann hefði drepið ættust og væri hann búinn að eiga með henni barn. Sagði hún að bræður stúlkunnar væru hin mestu illmenni. Hún sagði honum líka að þessir fimm synir þeirra karlanna væru í göngum sem stæði; sagði hún að þeirra hefði verið von heim fyrir viku síðan svo þeir hlytu að fara að koma. Hún sagði að fremst í dalnum væri hellir einn sem tæki fimm hundruð fjár og hættu þeir ekki göngunum fyr en þeir hefðu fyllt hellinn. Síðan sagði hún honum að hann skyldi fara á hinn bæinn og freista hvort hann gæti ekki drepið karl og kerlingu, en þyrma bað hún hann stúlkunni ef hann gæti. Sagði hún honum síðan að hann skyldi væla hana svo út að hann skyldi fara upp á bæ og difa fingrunum við skjágluggann sem væri á baðstofunni því svo væri stóri rumurinn ætíð [vanur] að gjöra þegar hann vildi finna hana.
Fór nú Þórður til hins bæjarins og fór þar upp á gluggann eins og stúlkan hafði sagt honum og difaði fingrinum til og frá úti fyrir honum; síðan gekk hann til dyra. Kom þá stúlkan strax út. Þórður hafði svo engar sveiflur á því nema hann tekur hana og ber hana út fyrir tún og hótar henni að hann skuli drepa hana ef hún bíði þar ekki kyr eftir honum þangað til hann komi aftur. Síðan fer hann heim á bæinn aftur og gengur inn í hann; einlægt fylgdi seppi hans með honum. Þegar hann kom inn undir baðstofudyrnar heyrði hann að kerlingin sagði: „Nú er Þórður sterki kominn og skulum við drepa hann.“ En í því snaraðist Þórður inn með seppa sinn og hljóp undir karl og fellti hann; síðan dró hann hníf upp úr vasa sínum og skar hann á háls, en á meðan hafði seppi gjört út af við kerlinguna. Þegar Þórður reis upp var stúlkan komin heim og inn; sagði hún að nú væri hann búinn að drepa foreldra sína. Þórður kvað satt vera, en þóttist hafa átt höndur sínar að verja. Bauð hann henni nú að koma með sér á hinn bæinn og það þáði hún. Kveikti hann fyrst eld og lagði karl og kerlingu á hann og brenndi þau til ösku; síðan fór hann með stúlkuna og barnið á hinn bæinn til Bjargar. Síðan var hann þar það sem eftir var dagsins og nóttina.
Daginn eftir sagðist hann ætla að fara að leita þeirra hinna dalbúanna og bað Björgu að passa hina stúlkuna svo hún hvorki færi í burtu né gjörði illt af sér. Björg lofaði því, en Þórður hélt af stað fram í dalinn. Þar fann hann hellinn eins og Björg hafði honum til vísað. Var hann æði stór; var dimmt innan til í honum. Þegar hann var nýkominn fram eftir heyrði hann hóað þar skammt í burtu; flýtti hann sér þá inn í hellinn með seppa sínum. Einnig tók hann nokkra hnöllungssteina með sér. Þegar hann hafði staðið dálitla stund inn í myrkrinu kom stór fjárhópur inn í hellinn og tveir menn með. Fyllti þetta fé hér um bil þriðjunginn af hellinum, en mennirnir stóðu fyrir dyrunum. Fóru þeir svo að tala saman og undra sig yfir að hinir kæmu ekki. Þórður sá sér nú færi og kastaði einum steininum á annan útilegumannanna og rotaði hann; síðan fleygði hann öðrum steininum og lenti hann í hausnum á þeim sem eftir var og rotaðist hann líka. Síðan stökk hann fram úr hellinum og tók skrokka þeirra og kastaði þeim í á sem rann þar skammt frá. Þegar hann var búinn að þessu heyrði hann enn hóað og miklu karlmannlegar en áður. Þóttist þá Þórður vita að þar myndi sá sterki kominn og fór inn í hellinn aftur. Þegar hann hafði verið þar skamma stund sá hann að fjárhópur miklu meiri en hinn fyrri kom inn í hellinn, og þekkti hann þar fremsta forustusauði föður síns. Þrír menn komu með fénu og var einn þeirra stór sem tröll. Þegar þeir komu að hellisdyrunum fór sá stóri að tala um hvar hinir væru. Sagðist hann ekki skilja í því nema ef þeim hefði orðið illt og hefði því flýtt sér heim; en í því rak hann augun í heilaslettur öðrumegin við dyrnar á berginu. Þóttist hann þá vita að þar væri einhver kominn sem ekki hefði sem bezt í huga og sagði við félaga sína: „Hér mun einhver vera inni sem ekki er sem hugheilastur og get ég þess helzt til að hann hafi drepið báða félaga okkar. Er nú ekki annað til en að fara inn í hellinn og taka hann.“ Síðan ætluðu þeir að snarast inn í hellinn, en þá kom steinn innan úr myrkrinu og felldi annan félaga stóra risans. Síðan snaraðist Þórður fram í hellinn og undir stóra manninn, en hann tók Þórð á loft og ætlaði að keyra hann niður, en Þórður var mjúkur fyrir og kom hinn mikli útilegumaður honum aldrei af fótum. Á meðan hafði rakki Þórðar fellt hinn útilegumanninn og kom nú húsbónda sínum til hjálpar; stökk hann upp á bakið á stóra manninum og tók aftan í hálsinum; varð Þórður þá laus. Lauk svo að Þórður gat drepið hann. Var hann nú svo dasaður að hann komst ekkert, en seppi hans hljóp heim og sótti stúlkurnar. Báru þær hann svo heim. Eftir þessa viðureign lá hann þarna í dalnum í viku, en stúlkurnar þjónuðu honum og pössuðu féð. Eftir þessa viku var Þórður orðinn ferðafær og hélt hann þá af stað með stúlkurnar og féð og allt það sem fémætt var í dalnum; voru þar margir hestar sem hann gat flutt á úr dalnum. Þegar þau komu þar sem Þórður skildi áður við eftirleitarmennina var faðir hans þar kominn að leita sonar síns; þóttist hann hafa heimt hann úr helju.
Héldu þeir nú niður í byggð og settust báðar stúlkurnar að hjá föður Þórðar. Voru þær menntaðar eftir því sem föng voru til. Þórður átti svo stúlkuna sem barnið átti, en hin fór heim til sinna átthaga. Sonurinn sem hún átti með stóra útilegumanninum varð mjög ófyrirleitinn og uppvöðslusamur þegar hann óx upp; fórst hann loks á bát einsamall og syrgðu hann fáir. Þórður varð gæfumaður og ríkismaður alla ævi. Unntust þau hjón vel og áttu margt barna. – Endar svo þessi saga.