Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þorsteinn Þorgrímsson og Bjarni bróðir hans
Þorsteinn Þorgrímsson og Bjarni bróðir hans
Þorgrímur hét bóndi og bjó á bæ nokkrum í Skagafjarðardölum; hann var auðugur að ganganda fé og átti margar jarðir í Skagafirði og öðrum sveitum. Tvo sonu átti hann með konu sinni; hét sá eldri Þorsteinn, en hinn yngri Bjarni. Það er sagt að Þorsteinn legði ekki á sig vinnu því hann lagðist strax á unga aldri í eldaskála og gjörði ekkert nema reif matinn af eldabuskunum þegar þær voru að matreiða, og þótti því föður hans minnkun að eiga slíkan son og kallaði hann því aldrei son sinn, heldur mannlirfu. En Bjarni lagði fyrir sig alla vinnu og þar að auki lærði hann að smíða af föður sínum því Þorgrímur var bezti smiður, en að lyktum varð Bjarni öngu síðri smiður en faðir hans þó hann væri einhver hinn mesti völundur. Það er sagt að þegar Bjarni var að smíða að Þorsteinn stæði hjá honum og horfði nákvæmlega á það sem hann var að smíða. Eitt sinn spyr Bjarni hann að, því hann standi hér og gjöri ekkert. „Það er af því,“ segir Þorsteinn, „að ég vil ekki láta foreldra mína sjá það að ég vinni.“
Það bar svo til einu sinni að Þorgrímur bóndi fór að efna niður í keröld, en af því að viðurinn var blautur gat hann ekki smíðað úr honum nema hann þornaði og lét hann þess vegna upp í eldaskála. Nokkrum dögum síðar fóru menn að taka eftir því að það var verið smátt og smátt að hefla stafina og ekki leið á löngu að allir stafirnir voru heflaðir. Þetta kom til eyrna Þorgríms bónda svo hann fór að spyrja menn að hvert enginn hefði gjört það, en allir kváðu nei við. Svo fór hann að spurja Bjarna hvert hann hafi ekki gert það, en hann kvað nei við. Hann segist þó vita fyrir víst að mannlirfan hann Þorsteinn hafi ekki gert það. En morguninn á eftir sannfærðist hann þó um það að hann hefði gert það, því þá stóð keraldið alsmíðað á eldaskálagólfinu og þá vissu allir að Þorsteinn hefði smíðað það. Það var svo vel smíðað að menn sögðust aldrei hafa séð jafnfallegan smíðisgrip og sögðu að Bjarni mætti herða sín ef hann smíðaði eins vel. Þegar Þorsteinn heyrði að móðir hans var að tala um að það þyrfti að gera við búsgögnin þá var hann ævinlega búinn að gera við það á morgnana. Það er sagt að móðir hans hafi gefið honum margan ósvikinn bita í staðinn.
Það bar svo við einn góðan þurrkdag að Þorgrímur bóndi átti mikið hey liggjandi so allir fóru út til að halda við heyinu nema Þorsteinn, en þegar á daginn leið fór hann að þykkna upp og líta út fyrir úrfelli svo allir hertu sín að taka saman eftir því sem þeim var framast unnt. Þá gengur Þorgrímur bóndi heim og tekur trékubba í hönd sér og gengur inn í eldaskála og ávarpar Þorstein með þessum orðum og reiðir upp trékubbann: „Hér liggur þú mannlirfan þín; þér þykir nær að liggja hér en að koma út á þurrkvöllinn, hvað sem við liggur.“ Þorsteinn sprettur á fætur og tekur trékubbann af föður sínum og segir að honum muni ekki verða þess auðið að berja sig í þetta sinn. Svo gengur Þorgrímur út og Þorsteinn í hámót á eftir og tekur tvö reipi og hnýtir þeim saman og svo fær hann sér verkfæri til þess að ýta með og síðan fer hann út á þurrkvöllinn og fer að ýta saman heyinu, og svo setur hann á reipið og ber upp í heyið sem faðir hans var að kasta, og svo var hann óður að þessu að allir urðu verklausir af því að horfa á hann. Þá segir Þorsteinn: „Það er til lítils að ég fari út á þurrkvöllinn þegar allir verða iðjulausir af því að horfa á mig.“ Svo tóku allir til verka og héldu vel áfram. Að litlri stundu liðinni lauk Þorgrímur við að kasta þessu heyinu og svo fór hann til að kasta öðru heyinu. En þegar það var frílega hálfnað kom Þorsteinn með bagga sinn og fleygði honum upp í heyið, en það vildi svo illa til að bagginn lenti á Þorgrím svo hann hrökk ofan úr heyinu og brotnuðu í honum tvö rifin. Þá segir Þorgrímur: „Það er orð og að sönnu að þú tekur ólúinn til verka enda ætlar þú að láta muna um það.“ Svo var Þorgrími hjálpað heim, en Þorsteinn fór að kasta heyinu. Svo þegar hann var búinn að kasta því þá fer hann að kasta þriðja heyinu og kastaði því hreint tilsagnarlaust og sögðu það allir sem viðstaddir voru að það væri eins fallegt og það sem Þorgrímur bóndi kastaði. Það er sagt að Þorsteinn hafi lagzt í eldaskála sinn þegar hann kom heim. Það er sagt að þegar komið var fram á útmánuði hafi komið færi á snjóinn og þá lét Þorgrímur bóndi húskalla sína fara að aka heim viði. Dreng tók Þorgrímur bóndi af vergangi er Bjarni hét. Hann var ærsmali á sumrum og þegar honum óx fiskur um hrygg var hann líka sauðasmali á vetrum. Um kvöldið þegar húskallar komu heim með ækið þá vantaði Bjarna smalamann nokkra sauði. Hann var kallaður það af því hann var smali á sumrum og vetrum. Um morguninn eftir biður Þorgrímur húskalla sína fara og sækja viðinn sem eftir var og biður Bjarna smalamann að fara með þeim og segir þegar þeir komi þá geti þeir farið svo margir sem þurfi að smala sauðunum. Svo fóru þeir á stað og sóttu viðinn, en þegar þeir voru komnir með hann heim undir túnið var orðið svo framorðið að þeir urðu að yfirgefa ækið og fara að smala sauðunum, en griðkonur fóru að sækja ækið, en þær gátu ekki hrært það úr stað. Þá gengur Þorgrímur inn í eldaskála og biður Þorstein að fara og hjálpa griðkonum til þess að koma heim ækinu. Þorsteinn rís á fætur og fer þangað sem ækið er, og tekur aktaugina af griðkonunum og segir að það sé ekki vant að setja griðkonur fyrir æki. Svo hleypur hann á stað með ækið sem ekkert væri þar til hann kemur heim undir bæinn; þá var brekka upp að fara til þess að komast heim á hlaðið og þá ýttu þær á eftir, en þegar Þorsteinn var búinn að koma heim ækinu lagðist hann í eldaskála sinn eins og hann var vanur. Þegar húskallar Þorgríms bónda komu heim sögðu þeir að sig hefði vantað fimmtíu sauði, en af því að nótt var komin gátu þeir ekki leitað meir að sauðunum. Svo sváfu þeir af um nóttina, en daginn á eftir var komið glórulaust snjóveður svo enginn treysti sér til að komast út í húsin sem stóðu á túninu. Bjarni smalamaður var mjög órór af því að sig skyldi vanta sauðina kvöldið fyrir og þar á ofan að komast ekki á beitarhúsin. Hann sagði að sauðirnir sem sig hefði vantað rækju sjálfsagt til jökla og óbyggða því það var meitilfæri á fjöllum og veðrið stóð rétt til jökla. Svo hleypur Bjarni fram í dyrnar og segir það vera ragmennsku að fara ekki á beitarhúsin og hleypur á stað. Þá þykir húsköllum sem áttu að passa húsin á túninu skömm að þora ekki í þau og svo fóru þeir út. Svo liðu þrír sólarhringir að ekki létti upp veðrinu og ekki kom Bjarni smalamaður; þá gengur Þorgrímur bóndi inn í eldaskála og biður Þorstein að láta sig sjá að hann sé mikill fyrir sér og leita nú að Bjarna smalamanni. Þorsteinn býr sig sem fljótast á stað, en áður en hann fór fékk móðir hans honum nesti og loðkápu sem hann átti að hafa yfir sér. Svo heldur hann á stað og kemst á beitarhúsin. Hann sér að nýbúið er að ganga frá öðru húsinu. Hann gengur inn og sér að nýbúið er að gefa í húsið, en sauðirnir í hinu húsinu voru búnir að éta. Svo gengur hann frá húsunum og fram dalinn. Það var gil skammt fyrir framan húsin. Hann hugsar með sér að hann skuli vara sig á því, því það var ekki hægt að komast yfir það nema á einum stað þar sem sauðirnir voru reknir yfir um og það rann þverá eftir gilinu og ofan í ána sem rann eftir dalnum, en Þorsteinn vissi ekki fyrri til en hann steyptist ofan í það. Svo kafar hann ofan eftir gilinu; þá heyrði hann að hundur Bjarna smalamanns gelti og í sama bili rak hann sig á veðrareku hans. Hann spyr hvert þar sé nokkur. Bjarni segir til sín. Þá leysir Þorsteinn upp malpoka sinn og réttir honum bita inn í snjóbyrgið og segir hann skuli borða. Hann segist ekki vilja fara inn til hans því það bráðni ofan í sig. Svo heldur hann á stað og út eftir ánni og var nokkuð hraðgengur, en Bjarni gat ekki fylgt honum á eftir. Þá tók hann Bjarna og vefur loðkápunni utan um hann, setti hann síðan á handlegg sér og ber hann heim. Þegar hann kom heim þá segir Þorgrímur bóndi: „Mikið drengilega hefur þú þetta af hendi leyst. Ég lagði mig fyrir meðan þú varst í burtu og dreymdi mig á þá leið að þegar þú leitar að Bjarna smalamanni í öðru sinni muntu komast í meiri mannraun en nú.“ Þorgrímur bóndi bað Bjarna smalamann að fara aldrei einsamall að leita sauðanna, en hann tók ekkert undir það.
Einhvern tíma var það að þegar Bjarni smalamaður var kominn á fætur segir hann að sig hafi dreymt að hann fara að leita sauðanna og ganga á jökul og eftir honum þar til hann kom ofan í djúpan og þröngvan dal. „Á þókti mér renna eftir dalnum, og mér þókti hann vera skógi vaxinn til beggja hliða og vafinn í víðir og grasi. Mér þókti ég ganga fram eftir dalnum og sjá margt fé. Mér þókti ég fara að reka það saman og þá kenndi ég sauði húsbónda míns í fénu. Mér þókti ég reka fjárhnappinn fram eftir dalnum þar til ég kom að höfða sem stóð í dalnum. Hann var allur skógi vaxinn svo ég þóktist aldrei hafa séð jafnstóran skóg. Mér þókti mikið undirlendi vera þeim megin árinnar sem ég var, en hinumegin þókti mér það minna. Mér þókti myndast eins og gil að ánni þar sem ég var og þar þókti mér vera allt einir hvammar niður við ána hjá höfðanum og þar þókti mér ég reka féð í áheldi og fara að draga úr sauði húsbónda míns, en þegar ég var sem óðast að því þókti mér renna að mér tveir vargar og veita mér aðsókn, en ég þóktist verja mig með birkiklumbu sem ég hafði í hendinni og svo lauk að ég drap báða vargana, en ég leið í ómegin, og upp frá því vissi ég ekki af mér fyrr en ég vaknaði.“ Þorgrímur bóndi sagðist ráða þenna draum svo að hann mundi fara að leita sauðanna þrátt fyrir allra þakk, en honum væri þó betra að fara að sínum ráðum og fara ekki einsamall, heldur hafa Þorstein son sinn með sér; honum væri betra hans fylgi en þriggja annara.
Nokkrum morgnum síðar segja griðkonur að Bjarna smalamann dreymi til sauðanna á hverri nóttu og muni það gjöra hann mjög órólegan. Það var nokkrum morgnum síðar að þegar allir voru komnir á fætur var Bjarna smalamanns saknað; menn héldu að hann væri kominn á beitarhúsin að láta út sauðina. Svo var farið á húsin og húsið var opið, en hann sást hvergi og svo var hans leitað um allan dal og nálægar afréttir, en allt kom fyrir ekkert, hann fannst hvergi. Þá segir bóndi að nú sé Bjarni feigur því hann hafi aldrei brotið út af skipan sinni fyrri. Það er sagt að bóndi hafi gengið fram í eldaskála og sagt: „Þorsteinn frændi, svo er mál með vexti að ég ætla að biðja þig að leita að Bjarna smalamanni og ætla ég að láta Bjarna bróður þinn fara með þér.“ Þorsteinn segir: „Meiri mun mér skemmtan að Bjarna bróður en styrkur.“ Síðan gengur Þorsteinn út úr eldaskála sínum og að rekabuðlungi sem stóð á hlaðinu og rífur hann í sundur. Í honum miðjum var ás nokkuð beinn; hann tók hann og smíðaði hann til. Síðan fer hann í smiðju og biður föður sinn að fá sér smíðatól. Svo smíðar hann sex tvíeggjaðar fjaðrir og flein nokkuð langan og hann rekur hann upp í ásinn; svo heflar hann ásinn sexkantaðan og svo hefur hann sína fjöður út úr hverjum kanti og síðan hleypti hann hólk ofan á kylfuna til þess að halda að fjöðrum og gaddinum sem stóð niður úr kylfunni. Hún var með svo miklum hagleik gjörð að enginn þóttist hafa séð jafngott vopn. Bjarni smíðaði sér öxi sem var þrjú kvartél fyrir egg. Það er sagt að Þorsteinn bæði móður sína að láta sig hafa mjólk á brúsa til þess ef þeir fyndu Bjarna illa á sig kominn. Þeir voru látnir hafa með sér tjald til þess þeir gætu skýlt sér með því. Þegar þeir voru ferðbúnir sagði bóndi að fá þeim hesta og áttu þeir að ríða á þeim svo langt sem þeir gætu. Svo héldu þeir á stað og riðu svo langt sem dalurinn náði. Þar stigu þeir af baki. Svo segir ekkert af ferðum þeirra fyrr en þeir komu á jökul nokkurn. Þar þókti þeim mjög torvelt yfir að fara því þar var hver jökulsprungan við aðra og var það jafnan þegar Þorsteinn var kominn yfrum sprungurnar að þegar hann leit aftur var Bjarni hinumegin og varð hann þá að fara yfir um til hans og hjálpa honum yfir sprungurnar. Einu sinni komu þeir að breiðri sprungu; þar stökk Þorsteinn yfir á kylfu sinni, en Bjarni stóð eftir. Þá fleygir Þorsteinn kylfunni yfir til Bjarna; þá gat hann naumast loftað henni; þá stekkur Þorsteinn yfir til hans; svo gengu þeir fram með henni þar til hún mjókkaði nokkuð; þá stekkur Þorsteinn yfir, en Bjarni komst ekki yfir; þá stekkur Þorsteinn yfir og tekur bróður sinn undir hönd sér og stekkur yfir sprunguna og segir: „Fyrr sagði ég það að meiri mundi mér skemmtan að þér en styrkur.“
Svo segir ekkert af ferðum þeirra fyrri en þeir komu ofan í þröngvan dal og þar tóku þeir náttstað. Dalurinn var allur skógi vaxinn með svo stórum timburskógi að hann var langt fyrir ofan höfuð á þeim og á milli skógarrunnanna var allt vafið í víðir og grasi. Á rann eftir dalnum. Þeir sáu bæði fé og hesta í skógnum. Þegar þeir komu lengra fram í dalinn komu þeir á skógivaxinn höfða og þar gengu hvammar upp frá ánni og þeim megin árinnar var mikið undirlendi, en hinumegin ekkert, en þeim megin sem hvammarnir voru voru allt einir hellrar. Svo heyrðu þeir hundsgelt og heyrðist þeim það líkt hunds gelti Bjarna smalamanns og allt í einu kom hann til þeirra og flaðraði mikið upp á þá og allra helzt upp á Þorstein. Svo hélt hundurinn á stað og þeir á eftir þar til þeir komu í eina laut; þar lágu tveir menn dauðir og voru í sauðsvörtum klæðum; og þeir þóttust vita að Bjarni smalamaður muni hafa fundið þá. Svo gengu þeir dálítið lengra; þá fundu þeir hann liggjandi milli tveggja kletta nær dauða en lífi. Hann gat valla talað svo vel skildist. Þá segir Þorsteinn: „Illa ert þú nú útleikinn Bjarni fóstbróðir og hefði þér verið nær að hlýða skipan húsbónda þíns þar þú hefur aldrei breytt út af skipan hans fyrri, og má segja við þig að bregður hverjum á banadægri.“ Svo tekur Þorsteinn mjólkurbrúsa sinn og dreypir á hann, en hann var svo aðframkominn að honum gat valla runnið niður. Svo bindur Þorsteinn spelkur við hann því bein hans voru víða brotin, jafnvel þó hann hefði lítil áhöld til þess; svo óf hann loðkápu sinni utan um hann og veitti honum svo mikla aðhjúkrun sem hann gat. Svo segir hann bróður sínum að vera hjá honum meðan hann gengi á sjónarberg að vita hvert hann yrði nokkurs vísari. Svo gengur hann inn eftir höfðanum þar til að opnast fyrir honum dalur. Níu reyki sá hann í dalnum. Þá snýr hann aftur og fer til þeirra nafna og varð bróðir hans honum mjög feginn, því hann var einlægt á glóðum meðan hann var í burtu að einhverjir kæmu og dræpu sig. Hann spyr Þorstein að hvert hann væri vísari. „Já, víst er ég það,“ segir hann, „því allskammt hér frá oss er dalur og er hann vissulega byggður því ég sá níu reyki í honum og er það grunur minn að gott fólk sé á fimm bæjunum annars vegar árinnar, en á hinum slæmt.“ „Af hverju geturðu vitað það?“ segir Bjarni. „Það er hugboð mitt,“ segir Þorsteinn, „og það mun sannast.“ Bjarni segir að það sé ekki annað ráð en halda heim. „Það kalla ég óráð,“ segir Þorsteinn, „því ekki skil ég Bjarna eftir, en það er ómögulegt að koma honum til byggða og held ég það ráðið bezt að halda áfram og sjá hvað gjörist.“
Síðan tekur Þorsteinn Bjarna smalamann upp og setur hann á handlegg sér og lætur hann hvíla upp við öxl sér og segir Bjarna bróður sínum að bera fararbagga þeirra og fylgja sér á eftir og vera óhræddur, því hann megi þó hugga sig við það að þó hann verði drepinn skuli hann hefna hans. Svo héldu þeir áfram ferð sinni þar til var farið að bregða birtu og voru þeir þá komnir ofan að ánni og heyrðu þeir að var verið að smala beggja vegna árinnar og féð rann í hnöppum saman ofan á slétturnar. Hinumegin sýndist þeim standa hús. Þorsteinn segir að þar muni vera bezt að berast fyrir í nótt; hann segir þeim megin árinnar muni vera betra fólk. Svo leggur Þorsteinn út í ána og kafar með Bjarna smalamann yfir hana og leggur hann niður í grasið. Svo fer hann yfir ána og sækir bróðir sinn því hann treysti sér ekki til að vaða ána því hún var í mitti á Þorsteini. Svo tekur Þorsteinn Bjarna upp og svo halda þeir heim að húsunum og voru það þá fjögur hús hvert við hliðina á öðru og tvö hey við. Svo gengu þeir inn og fóru að vita hvar þeir gætu borizt fyrir. Svo gengu þeir inn í kuml og bjuggu þar um Bjarna smalamann. Svo tóku þeir til nestis síns, en þegar þeir voru nýsetztir niður rennur fé heim að húsunum. Það þókti þeim undarlegt að þeim megin árinnar skyldi féð vera hýst í sumarauðri jörðinni, en hinumegin skyldi það ganga sjálfala. Rétt í þessu rekur hundur Bjarna smalamanns upp gelt og þá sáu þeir stóra fjárbreiðu úti fyrir dyrum og í sama bili sér hann mann mikinn vexti úti fyrir dyrunum sem spyr hvert þar sé nokkur. Þorsteinn segir til sín og gengur út og rekur kylfuna á undan sér. Þegar hann kemur út verður honum annars hugar við þegar hann sá mann mikinn vexti standa þar, fríðan sýnum, og unglegan kvenmann standa hjá honum mjög svo fríða. „Hvert er nafn þitt þú hinn fríði og tröllslegi maður?“ segir dalbúi. „Nafn mitt er Þorsteinn og er ég úr Skagafirði.“ „En hver er sá hinn litli strákshvelplingur er hjá þér stendur og skelfa undir lærin?“ segir dalabúi. „Hann heitir Bjarni,“ segir Þorsteinn, „og er bróðir minn.“ „Ukkar mun aldursmunurinn nokkur,“ segir dalabúi. Þorsteinn segir: „Þremur árum er ég eldri og er ég nú fullra átján ára.“ Þorsteinn segir: „Hvert er nafn þitt, þú hinn fríði og vænlegi maður og hver er sú hin fríða stúlka er hjá þér stendur?“ „Nafn mitt er Sigmundur, en stúlka sú er hjá mér stendur heitir Signý og er systir mín. En til hvers ertu kominn hingað, mikli maður?“ segir dalbúi, „ertu kominn hingað til þess að drepa okkur alla dalbúa með þínu hræðilega vopni?“ Þorsteinn glottir við og segir: „Hug hef ég á að hefna Bjarna smalamanns.“ „Hver er sá Bjarni smalamaður sem þú um talar og hvar hefurðu fundið hann?“ segir dalbúi. Þorsteinn segir honum hvaðan hann var og að þeir hefðu fundið hann á timburhöfðanum hinumegin árinnar nær dauða en lífi. „Þar var við að búast,“ segir Sigmundur, „því þeim megin árinnar er illþýði. Það eru fjórir bæir þeim megin,“ segir Sigmundur, „en samt eru ekki manndráparar nema á þremur. Jón heitir gamall maður og er hreppstjóri og býr á bæ innst í dalnum og er bæði stór og sterkur, en hann gjörir öngvum saklausum mein. Það eru svo skýr landamerki á milli hans og þrælanna að það rennur á ofan fjallið og ofan í dalsána og er svo stórt gil að henni að engin skepna kemst yfir hana.“ „Þangað fýsir mig að fara sem fljótast og hefna Bjarna smalamanns,“ segir Þorsteinn. „Það skaltu ekki gjöra,“ segir Sigmundur, „ég held það ráðið bezt að þið farið heim með Bjarna smalamann og skulum við svo bræðurnir fara með þér, Árni og Sigurður, og er ég þeirra elztur.“ „Það vil ég ekki,“ segir Þorsteinn, „ég bið þig einungis að sjá um bróður minn og Bjarna smalamann, en ég vil finna þá strax í kvöld.“ „Fyrst þú vilt ekki annað en fara,“ segir Sigmundur, „þá vara ég þig við því að það ríður á lífi þínu ef þú sofnar og undireins okkar dalbúa því þeir hafa svo mikið traust á því mikla vopni er þú hefur.“ Þorsteinn segist ekki vera hræddur um að hann geti ekki vakað eina nótt. Þorsteinn spyr hvaða skjóttur hestur það sé sem var á balanum hjá girðingunni sem var í kringum húsin. Sigmundur segist eiga hann og ætla að reiða Bjarna smalamann á honum. Svo fóru þeir þangað sem hann lá og þókti Sigmundi mjög ólíkt að hann ætti langt eftir ólifað. Síðan tekur Sigmundur Skjóna sinn og leggur á hann það áðurnefnda tjald þeirra bræðra. Svo tekur hann Bjarna smalamann vafinn innan í loðkápu þeirri er áður var nefnd; svo sezt hann á bak og reiðir hann fyrir framan sig. Svo segir hann systur sinni að taka hana Skjónu hennar sem var þar skammt í burtu. „En þú Bjarni, taktu gráa hestinn sem þarna er. En þú Þorsteinn, taktu móalótta hestinn og ríddu honum yfir ána.“ Þorsteinn segir: „Ég þarf ekki hest yfir ána því ég get vaðið hana.“ Sigmundur segir: „Þú munt vera maður þverlyndur þar þú vilt ekki þýðast neins manns ráð og máttu gjöra það sem ég segi, en mundu mig um það að sofna ekki því það er mikill skaði að þvílíkum dreng sem þú ert og þar munu líka fleiri mannsblóð á eftir fara ef þú verður drepinn.“
Síðan stígur Þorsteinn á bak og ríður yfir ána. Þar stígur hann af baki og gengur heim þar til hann kemur að húsaþorpi og þá var orðið svo dimmt að hann sá ekki ofan fyrir fæturna á sér. Hann gengur þangað sem honum virtist baðstofan vera. Hann sér þar inn um skjáglugga kall og kerlingu í öðrum enda baðstofunnar, en þar fyrir framan sér hann sitja þrjár stúlkur á flétjutötri. Svo kallar hann inn og segist vilja finna húsráðandann. En kall lætur sem hann heyri ekki; þá segir ein stúlkan: „Faðir minn, það er maður á glugganum sem vill finna þig.“ En karl lætur sem hann heyri ekki. Svo kallar Þorsteinn í öðru og þriðja sinni, en það kom allt fyrir ekkert, karl tók ekki undir. Þá tekur Þorsteinn kylfu sína og setur högg ofan í baðstofuhliðina svo það brakaði í hverju bandi í henni; þá stendur karl á fætur og segir: „Hvert þú ert fjandi eða maður þá mun ég þora að koma út fyrir þig.“ „Svo ætlast ég til,“ segir Þorsteinn og gengur ofan á hlaðið. Þegar karl kemur út heilsar Þorsteinn honum þannig því honum leizt mjög illa á hann og vildi því ekki heilsa honum með kossi: „Sértu svo heill sem þú vilt vera heill og sértu svo sæll sem þú vilt vera sæll.“ Karl segir: „Ég mun vera svo heill og sæll sem ég er fyrir þinni hingaðkomu.“ Svo biður Þorsteinn hann að lofa sér að vera í nótt. Karl segist skuli gjöra það ef hann láti af við sig vopn hans. „Það mun ég ekki gjöra,“ segir Þorsteinn, „allt svo lengi sem ég get haldið á því.“ Svo voru þeir lengi að akast á erindum um þetta þar til Þorsteinn segir: „Ég held að ég spyrji þig ekki leyfis,“ og reiðir upp kylfuna og gjörir sig líklegan til að berja hann. Þá hopar karl aftur á bak inn í dyrnar, en Þorsteinn á eftir og rekur kylfuna á undan sér og leikurinn berst svoleiðis inn í baðstofu; þar vísar karl honum til sætis á hinn óæðra bekk sem var steinn einn skammt fyrir innan baðstofudyrnar. Þorsteinn spyr karl að hvert hann ætli ekki að láta taka af sér vosklæðin. Karl lætur sem hann heyri ekki. Þorsteinn segir að sér þyki hér fúlmannlegt að koma. „Það er þó í byggð ekki látið lengi bíða þegar gestir koma, að draga af þeim vosklæðin, allra helzt þegar þeir koma votir upp í mitti eins og ég.“ Eftir það fer Þorsteinn að kveða, því hann hafði falleg hljóð. Þegar hann var nokkuð lengi búinn að kveða fara systur að stinga saman nefjum og hvísla hver að annari; eftir það draga þær vosklæðin af honum og fá honum þurr föt til að fara í. Síðan tína þær saman leifar sínar af diskum sínum sem voru riðnir úr tágum, og létu það allt á einn disk og fengu Þorsteini. Þegar Þorsteinn var búin að borða fór hann að skálda lofbrag um þær. En mitt í því heyrði hann dunur fram í bæjardyrum. Svo koma inn fjórir karlmenn hver öðrum stærri og illilegri. Hann sér að það glaðnar mikið yfir karli þegar þeir komu. Karl spurði þá að hvar tveir synir sínir séu. Þeir segja að þessi mannhundur sem hér sitji muni víst vita hvar þeir séu. Þá varð karl nokkuð hljóður þegar hann heyrði það, en segir samt að þeir skuli ekki leggja neitt til hans því það sé einhver hinn sterklegasti sem hingað hefur komið. Eftir það taka þeir til matar og borða eftir þörfum. Að því búnu fóru þau sex fram og tóku ljósið svo dimmt varð í baðstofunni, en systurnar voru eftir hjá Þorsteini. Þá tekur ein þeirra til máls og segir: „Hættu nú kveðskapnum, þú hinn mikli og vænlegi maður, því nú er verið að ráðgast um að drepa þig. Það hafa margir vænlegir menn komið hingað og hafa þeir allir verið drepnir og er það skaði að slíkir menn séu myrtir sem þú.“ Þorsteinn segir: „Hafið þökk fyrir viðvörunina, en látið ykkur ekki bregða þó færri kunni inn að koma en fram fóru.“ Síðan gengur hann fram þar til hann heyrir á mannahjaldur og sér ljósbirtu leggja fram úr eldhúsi. Þá fer hann að vita um hvert hann komi ekki við kylfunni, en göngin voru svo lág að hann kom henni ekki við. Þá tók hann til lensu er hann hafði smíðað sér og hafði í skeiðum á milli brjósta sér. Svo fór hann að taka eftir því sem skrafað var og heyrir að karl segir: „Við skulum fara klóklega að við þenna mann. Við skulum vera mjög vinaleg við hann og gefa honum vel að borða; og síðan skulum við vísa honum til þess rúms sem við höfum fleirum vísað og búa þar vel um hann, en þegar hann er sofnaður þá skulum við gjöra við hann hvað okkur lízt. Svo skulum við taka það mikla vopn hans og fara norður fyrir ána og drepa alla karlmenn, en smána kvenfólkið. En að því búnu skulum við liggja á vegum fyrir lestamönnum og drepa þá, en taka lestirnar.“ Þetta ráð líkaði hinum vel. Svo ætlar karl að ganga inn og þreifar fyrir sér í dyrunum, en þegar hann kemur þangað sem Þorsteinn var þá dregur Þorsteinn lensu sína úr skeiðum og leggur í gegnum karl, en hann rak upp ógurlegt hljóð. Þá varð bræðrum mjög bilt við, einn kom með ljósið, annar tók eldibrand í hönd sér því eldur var á glæðum. Þorsteinn leggur lensunni í gegnum þann sem á ljósinu hélt og svo í gegnum þann sem hafði eldibrandinn, en hinir tveir sem eftir voru ötluðu að fljúga á hann, en hann setti kylfuna í höfuð þeim svo þeir duttu dauðir niður. En það er að segja af kerlingu að þegar hún sá þessi ósköp sem á gengu varð hún svo hrædd að hún hljóp upp á hlóðarsteininn og datt svo ofan í eldinn svo fæturnar vísuðu upp, en höfuðið niður. Að þessu búnu tekur Þorsteinn skíðahlaða sem þar var og ber á eldinn. Svo fleygir hann öllum skrokkunum á eldinn og þá varð svo mikil svæla að honum lá við andköfum. En þegar hann var búinn að því starfi fór hann inn í baðstofu og sér að þær eru að gráta. Hann segir: „Ukkur er vorkunn, en ég sagði að þið skylduð ekki láta ukkur bregða þó færri kynnu inn að koma en fram fóru, en ég hef nú höggið æði nálægt ukkur.“ Þær segja að honum hafi verið nokkur vorkunn á þar hann hafi átt hendur sínar að verja, „og ætlum við að biðja þig að sjá eitthvað fyrir okkur“. Þorsteinn segir: „Ég á ekki ráð á miklu núna sem stendur, en ég skal hugsa til ukkar.“ Svo sofnuðu þær á flétjunni, en Þorsteinn setti sig niður á steininn og hallaði sér aftur á bak og spennir greipur um kylfu sína og þorði ekki að sofna um nóttina því hann var hræddur um að systur kynnu að ráða sér bana ef hann sofnaði. En þegar komið var undir dag sofnaði hann, en þegar hann vaknaði sváfu systur vært á flétju sinni. Svo gengur hann út og fer að skoða til veðurs. Veður var milt og þykkmikið. Þá þókti honum slæmt að rata hvergi og gengur inn og vekur systur og biður þær að fá sér plögg sín. Þær ganga þegjandi fram. Svo fá þær honum plöggin og svo að borða, en þegar hann ætlar að fara á stað segist hann ætla að biðja þær að vísa sér til vegar. Þá segir ein þeirra í hálfum hljóðum: „Láttu augun vísa þér leiðina,“ en önnur segist skuli fylgja honum á leið. Svo halda þau á stað, en á leiðinni segir hún við hann: „Ég ætla að biðja þig að ganga okkur í föðurs stað þar þú hefur höggið svo nálægt okkur, þó þér sé nokkur vorkunn á, þar þú áttir líf þitt að verja, annaðhvort að útvega okkur sæmilegt ráð eða að eiga einhverja okkar.“ Þorsteinn segir: „Ekki þarftu að hugsa það að ég eigi nokkra ukkar því mér þykir ekki gott að eiga undir dánumennsku ykkar að eiga nokkra ykkar fyrir eiginkonu þar ég hefi höggið svo nærri ykkur, en það eina skal ég enda sem ég hefi lofað ykkur að ef ég á ráð á nokkru, að sjá þá eitthvað fyrir ykkur.“ Þau halda áfram þar til þau mæta manni sem rak á undan sér fjárhnapp og hafði stóra birkiklumbu í hendi. Þá segir stúlkan: „Nú mun verða slátrað.“ „Ef þú dugir að hræra í blóðinu,“ segir Þorsteinn. Svo hélt hún heim til sín, en Þorsteinn gengur á móti manninum og ætlar að vita hvert hann gjöri sér nokkuð. En strax sem aðkomumaður kom til Þorsteins þá reiddi hann upp klumbuna og ætlaði að slá hann í rot, en Þorsteinn varð fyrri til að setja kylfuna í hausinn á honum svo hann datt dauður til jarðar. Síðan heldur Þorsteinn leiðar sinnar þar til hann sér reyk eins og upp af kolagröf. Hann ætlar að fara klóklega að og ganga eftir reyknum og koma þeim svo á óvart, en hann vissi ekki fyrri til en að það runnu að honum þrír menn, allir með axir í höndum, og réðust þegar að honum og veittu honum harða aðsókn. En Þorsteinn varðist vel og drengilega og svo lauk að hann drap þá alla. Síðan gengur hann þangað sem tveir menn voru að gjöra til kola. Annar var að höggva til kola og hann setti kylfuna í hausinn á honum svo hann datt dauður niður, en hinn var að bera kurl á eldinn; svo setti hann kylfuna á hann miðjan svo hann datt dauður á eldinn og lét þar líf sitt. Síðan tekur hann hinn skrokkinn og fleygir honum líka í kolagröfina. Síðan heldur hann leiðar sinnar þar til hann kemur að bæ nokkrum. Þar sá hann karl á hlaði og var að höggva brum af stórri birkihríslu og dreng hjá honum. Karl ræðst þegar að Þorsteini og veitir honum harða aðsókn með birkihríslunni, en svo lauk að hann féll. En rétt í því heyrði Þorsteinn eins og axarþyt fyrir aftan sig og var þar þá kominn strákurinn með uppreidda öxi og ætlaði að setja hana í hausinn á Þorsteini, en þegar Þorsteinn sá hvað hann ætlaði sér þá setti hann kylfuna í hausinn á honum og varð það hans bani. Það er ekki getið um að hann hafi grennslazt um neitt á þessum bæ. Svo hélt hann leiðar sinnar, en þegar hann var kominn miðja vega inn á milli bæjanna hitti hann þar þrjá menn sem voru að gjöra til kola og höfðu allir axir í höndum. Þeir réðust þegar að honum og veittu honum harða aðsókn, en svo lauk að hann drap þá alla. Rétt í því verður honum litið yfir á áarbakkana og sér hvar fjórir menn koma ríðandi. Hann þykist þekkja þar Sigmund sem reið á undan og bræður hans sem á eftir riðu, en Bjarna bróður sinn sem aftast reið.
Þorsteinn heldur svo heim að bænum, en þegar hann kom í hlaðið kom Sigmundur þar og þeir sem áður var um getið. Síðan stíga þeir af baki og heilsa Þorsteini. Síðan tekur Sigmundur til máls og segir: „Mikið karlmannlega hefur þú þetta af hendi leyst.“ Síðan segir Þorsteinn honum hvað marga hann væri búinn að drepa á þessum bæ. Sigmundur segir: „Þá eru ekki eftir af karlmönnum á þessum bæ nema karl og kemur hann hérna framan túnið og ætla ég að biðja þig að ljá mér kylfuna því ég hef gaman af að drepa þenna karl vegna þess að ég á honum fyrir grátt að gjalda.“ Síðan ræðst hann að honum og drap hann (það er ekki getið um í þessari sögu hvað margt kvenfólk hafi verið á þessum tveimur bæjum). Svo gaf Sigmundur Þorsteini Skjóna sinn með öllum reiðtygjunum. Þá segir Þorsteinn: „Hvaða reiðhest hefur þú nú?“ Sigmundur segir: „Eitthvað mun mér til leggjast,“ – og tekur rauðan reiðhest er karl hafði átt. Síðan stíga þeir allir á bak og halda á stað. Á leiðinni töluðu þeir um ýmislegt meðal hvurs að Þorsteinn spyr Sigmund að hvernin Bjarna smalamanni líði. Sigmundur segir: „Honum líður vel að kristinna manna trú því hann dó í morgun, og var það auðséð í gærkvöld þar eð bein hans voru víða brotin og hold murið frá beini.“ Þorsteinn varð hljóður mjög þegar hann heyrði þetta, en þókti þó annars vegar vænt um úr því sem ráða var, að hann skyldi deyja hjá vænum mönnum. Svo spyr Þorsteinn Sigmund að hvurnin standi á þeim sem byggi þenna dal. Sigmundur segir: „Það eru sakamenn sem stúdent nokkur undir Eyjafjöllum hefur hjálpað hingað. Hann lærði til prests í Skálholti, en hefur aldrei sókt um neitt brauð og býr sem bóndi á bæ undir Eyjafjöllum. Hann er nú hniginn á efri aldur og ég hef heyrt sagt að hann væri fjölkunnugur. Hann á bróður sem lærði til prests, en vildi sú slysni til að hann átti barn þegar hann var í skóla, og fékk þess vegna ekki prestinn; svo bróðir hans kom honum í þenna dal og hann er presturinn okkar. Faðir minn heitir Sighvatur og á bróður sem heitir Jón og er hreppstjóri okkar eins og ég gat um við þig fyrri. Þessi stúdent sem ég gat um við þig gifti föður mínum og föðurbróður mínum dætur sínar. Jón föðurbróðir minn á marga sonu og eru þeir hinir mestu oflátungar og halda að enginn finnist þeirra jafningi.“
Svo ríða þeir heim á prestssetrið. Páll prestur spyr Sigmund að hver sé sá hinn mikli maður sem hafi þetta hræðilega vopn í höndum og hver það væri sem með honum sé. Sigmundur segir honum það og það að hann sé búinn að drepa allt illþýðið í dalnum. Prestur segir: „Hann á þá víst skilið að honum sé boðið inn.“ Síðan segir hann þeim öllum að koma inn. Svo lét hann halda þeim gleðiveizlu. Svo fara þeir að tala um afreksverk Þorsteins og sögðu að hann væri búinn að vinna til þess að eiga landið sem þrælarnir höfðu átt og svo allt dautt og lifandi er þeir áttu, og annast um kvenfólkið. En Þorsteinn vildi ekkert hafa með það nema systurnar á yzta bænum. Svo voru þeir að þrefa um þetta þangað til að prestur segist skuli sjá um þessa fimm kvenmenn sem voru á tveimur bæjunum. Svo afgjörðu þeir það að Þorsteinn skyldi setjast að þeim eigum er þrælarnir höfðu átt, bæði dauðu og lifandi. En Þorsteinn sagðist verða að fylgja bróður sínum til byggða áður en hann setjist þar að. Síðan fara þeir allir þaðan og yfir til Jóns hreppstjóra. Þegar þeir komu þar þá stóð Jón bóndi út á hlaði. Hann vék strax á tal við Sigmund og segir: „Hver er sá hinn mikli og vænlegi maður sem reiðir það ógurlega vopn og hefur báðar hendur blóðugar til axla og ríður á Skjóna þínum?“ Sigmundur segir honum það og það með að hann væri búinn að drepa allt illþýðið í dalnum. Jón segir: „Hver er það sem með honum er?“ Sigmundur sagði honum það. Síðan segir Jón þeim að koma inn og lætur halda gleðiveizlu. Að endaðri veizlunni segir Sigmundur að nú sé bezt að koma út og glíma. Hann segir við syni Jóns að hér sé drengur sem muni þora að glíma við þá. Svo fóru þeir að glíma og það voru lögin að hver skyldi glíma þrjár glímur. Svo glímdu synir Jóns bónda við Þorstein hver á eftir annan, en hann felldi þá alla. Svo glímdi Sigmundur við hann og sögðu menn það að Þorsteinn hefði ekki kært sig um að fella hann svo þeir sýndust jafnir. Svo glímdi Bjarni og yngsti sonur Jóns og þeir voru jafnir. Svo glímdi Bjarni og Sigurður bróðir Sigmundar og þeir voru jafnir. Þegar þeir hættu að glíma þá fóru þeir aftur til prestsins. Það er sagt að hann ætti tvær dætur; hét sú eldri Sigurbjörg, en hin yngri Björg. Strax sem Þorsteinn sá þær fékk hann svoddan brennandi ástarhuga til Sigurbjargar því svo falleg sem honum þókti Signý systir Sigmundar þá þótti honum þessi langtum fallegri. Svo bað hann hennar og var það auðsókt af hennar hendi og í sama máta af foreldrum hennar. Einu sinni segir Bjarni við bróður sinn: „Ég ætla að biðja þig þegar þú ert setztur að hér í dalnum að biðja Bjargar mér til handa.“ En Þorsteinn tók ekkert undir það. Svo sátu þeir sumardagagleði í dalnum. Eftir sumardaginn fyrsta ráku dalbúar saman féð er þrælarnir höfðu átt, og fundust þá í því þrjátíu sauðir af þeim sem Þorgrím bónda vantaði og héldu menn að þrælarnir hefðu verið búnir að lóga þeim sem vantaði. En dalbúar bættu við þá svo þeir urðu eins margir eins og þeir áður voru.
Síðan héldu bræður á stað með sauðina og dalbúar létu fylgja þeim yfir jökulinn og fóru þeir þá leið skemmri en þeir höfðu áður farið. Svo getur ekkert um ferðir þeirra fyrr en þeir komu heim og var þá Þorgrímur bóndi orðinn hugsjúkur út af burtveru þeirra bræðra. Þá segir Þorsteinn við bróður sinn: „Farðu inn í baðstofu til föður þíns og segðu honum fréttirnar, en ég ætla inn í eldaskála til móður minnar og segja henni fréttirnar.“ Svo gengur Bjarni inn í baðstofu til föður síns og sagði honum tíðindin. En þegar hann var búinn að segja honum tíðindin segir faðir hans honum að fara fram og segja Þorsteini að koma inn. Þegar Þorsteinn kemur inn tekur karl honum vel og segir: „Mikið vel og drengilega hefur þú þetta af hendi leyst og ert þú mikilla og góðra launa verður.“ Síðan gefur hann honum þrennan nýskorinn fatnað og peningasjóð. Eftir þetta fór Þorsteinn ekki í eldaskála; hann smíðaði sér hús inn í baðstofu. Svo gekk hann að öllum verkum. Svo bað faðir hans hann að segja fyrir verkum. Þeir bræður smíðuðu allt sem þurfti til heimilisins. Svo gekk Þorsteinn til sláttar um sumarið og þókti föður hans muna um brýnuna hans þó hann væri ekki vanur að slá. Svo heyjaðist hreint með bezta móti það sumar og var Þorgrímur bóndi mjög glaður yfir heyjum sínum.
Einu sinni voru feðgar að hlaða upp að heyjum, Þorsteinn og Þorgrímur. Þá fer Þorgrímur að tala um giftingu og spyr son sinn að hvert hann ætli ekki að fara að biðja sér stúlku. Þorsteinn segir: „Ekki meir en ég er búinn því ég trúlofaðist stúlku í dalnum og er ég þegar á förum héðan því ég lofaðist til að koma í haust og ætla ég að setjast að þeim eignum er þrælarnir áttu.“ Þorgrímur lætur sér fátt um finnast og segir: „Ég hélt að annar eins maður og þú ert þyrfti ekki að fara í afdali til að biðja sér stúlku því þú hefðir mátt ganga í valið og biðja þér hverrar þeirrar stúlku er þú helzt vildir bæði í Skagafjarðar- og Eyjafjarðar- og Húnavatnssýslu.“ Þorsteinn segir: „Þeir menn sem eru í dalnum eru ekki nema byggðamenn sem hefur verið hjálpað þangað og ég er viss um að sú sem trúlofaðist mér stendur ekki á baki byggðastúlknanna.“ Þorgrímur segist vilja fara með honum. Þorsteinn lætur sér það vel líka. Svo bjuggust þeir til ferða og Bjarni með þeim. Svo þegar þeir voru ferðbúnir héldu þeir á stað og svo segir ekkert af ferðum þeirra fyrr en þeir komu á prestssetrið í dalnum. Þá var gamli stúdentinn kominn þar og var búinn að flytja öll veizluföng þangað. Þorgrími bónda leizt vel á sig í dalnum. Hann sagði þegar hann sá unnustu Þorsteins: „Hefði ég verið á mínum yngri árum þá hefði ég kosið mér þessa stúlku ellegar einhverja af dætrum Sighvatar.“ Séra Páll gaf þau saman í hjónabandið og var þar svo slegið upp einni dýrðlegri veizlu og öllum dalbúum boðið til hennar. Eftir veizluna fór Þorsteinn að reisa sér bæ úr hinum mikla timburskógi er áður var um getið og gekk Bjarni bróðir hans að þeim störfum með honum og þeir dalbúar. En að lokinni bæjarsmíðinni fóru þeir feðgar heim til sín, Þorgrímur og Bjarni. Þegar Þorsteinn var setztur að búi þá tók hann systurnar fyrir vinnukonur til sín og hafði þær í þrjú ár og komst ekki að neinum svikum af þeim. Hann gjörði líka vel til þeirra og svo gifti hann þær vænum mönnum í Skagafjarðarsýslu, og eru þær svo úr sögunni. Eftir að þrjú ár voru liðin frá því að Þorsteinn giftist þá giftist Bjarni bróðir hans Björgu dóttur prestsins í dalnum af tilstilli Þorsteins og bjó svo á þriðjungi úr jörðu föður síns og varð þar ríkur bóndi. Synir Sighvatar giftust allir kvenmönnum úr byggðum. En Þorsteinn bjó í tuttugu ár í dalnum og á þeim tíma var hann vanur að taka geldfé af föður sínum til hagagöngu á vetrum og á þeim árum græddi Þorgrímur bóndi á tá og fingri og keypti margar jarðir bæði í Skagafjarðarsýslu og í Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Þorgrímur bóndi lagðist svo veikur og hélt að veiki sú mundi draga sig til dauða. Þá lætur hann kalla Bjarna fyrir sig og biður hann að sækja Þorstein son sinn sem fljótast hann geti, því hann sagðist ekki mundi eiga langt eftir ólifað. Svo sókti hann bróðir sinn, en þegar þeir komu til karls segir hann: „Ég ætla að biðja ykkur synir mínir að taka helming af eigum mínum úr búi mínu og gefa þær fátækum hér í sveitinni og í næstu sveitum.“ Svo gjörðu bræður sem karl lagði fyrir, en að því búnu segir Þorgrímur bóndi: „Þorsteinn, ég gef þér þær jarðir sem ég hef keypt í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og skaltu búa á þeirri sem þér bezt líkar. En þér, Bjarni, gef ég þær jarðir sem ég á í Skagafjarðarsýslu.“ Þegar hann hafði lokið þessari ráðstafan dó hann og var hann þá rétt áttatíu ára gamall. Svo smíðaði Þorsteinn utan um föður sinn og gjörði hans útför virðuglega. Síðan fór Þorsteinn heim til sín. En skömmu eftir það andaðist Sighvatur bóndi. En áður en hann dó bað hann um að flytja lík sitt til byggða og grafa sig hjá Þorgrími bónda því þeir höfðu verið mestu vinir, og var honum veitt það. Svo flutti Þorsteinn bú sitt [í] Vatnsdal og svo fluttu synir Sighvatar bú sín á jarðir þær sem Þorsteinn byggði þeim í Vatnsdal því þeir höfðu allir svarizt í fóstbræðralag og útentu þeir þar tíð sína í góðri elli. En það er að segja af Bjarna að hann bjó til dauðadags á föðureign sinni og varð þar hinn mektugasti bóndi. En séra Páll og Jón hreppstjóri og hans synir bjuggu í dalnum til dauðadags – og lýkur hér svo sögu þessari.