Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þorsteinn Fljótshlíðingur og fjallbúarnir
Þorsteinn Fljótshlíðingur og fjallbúarnir
Þorsteinn hét maður; hann ólst upp í Fljótshlíð. Ekki er þess getið á hvaða bæ það var. Snemma var hann mikill og sterkur og glímumaður hinn bezti. Þegar hann var átjan vetra var hann svo glíminn og sterkur að enginn var sá maður í Fljótshlíð að þyrfti að reyna við hann afl eða glímu og þó víða væri leitað; var honum og títt um að leita fyrir um afl manna, en hvergi fann hann þann er hann ætti ekki alls kosti við í þrekraunum. Honum þótti mikið um að finna hvergi þá menn er honum væri nokkrir jafningjar að hreysti. Hann hafði heyrt sagt að í Ódáðahrauni væri byggð og útilegumenn og væru þeir flestum sveitabúum meiri og sterkari. Hann fýsti því mjög að leita þessara manna og reyna við þá orku sína.
Einn sumardag tekur hann sér ferð á hendur, var hann þá um tvítugt, og hefur þrjá hesta til reiðar, alla góðhesta, gráskjóttan, brúnskjóttan og rauðskjóttan. Ríður hann nú norður á Sprengisand þar til hann kemur að hrauninu og lengi með hrauninu, en hvergi sér hann fært í það svo hann er orðinn nær vonþrota að komast nokkurstaðar í það og kominn nær að því að snúa aftur. Verður þá á vegi fyrir honum maður með fjárhóp. Hann kastar á hann kveðju sinni. Fjármaður spyr Þorstein hvað hann sé að fara. Hann segir honum að hann sé að leita að vegi í hraunið og biður hann að vísa sér á. Fjármaður segir að hann hafi þangað ekkert að gera og sé bezt að snúa aftur. Hann gengur að hestunum og lítur á; þykir honum þeir fallegir. Hann skorar á Þorstein að leggja af við sig hestana; hann kveðst valla muni gera það að óreyndu. Hinn segir að þá verði þeir að láta höndur skipta með [sér]. Þorsteinn kveðst fús á það. Fer hann þá af baki og takast þeir á; verður með þeim harður aðgangur og langar sviptingar og þykist Þorsteinn aldrei hafa tekizt á við jafnsterkan mann, en nokkuð var hann stirður. Gengur svo lengi að ekki sér hann upp á milli hver sigra muni, en um síðir fer þó svo að Þorsteinn fær komið honum undir. Biður hann þá Þorstein að gefa sér líf. Þorsteinn kveður það verði með þeim eina kosti að hann vísi sér leið í hraunið. Það segist hann vel geta, en ekki vilji hann ráða honum til þess og það sé einlæg ósk sín að hann snúi til baka, því þar séu svo miklir menn fyrir sér að ekki hafi hann neitt í höndur þeirra að gera þar sem honum hefði ekki veitt léttara að fella sig, tólf vetra gamlan ungling. Hann kvaðst eiga tvo bræður heima er annar væri tvítugur, en hinn hefði tvo um tvítugt, sem báðir væru að því skapi sterkari sem þeir væru eldri; en þó væri kallinn faðir þeirra allra þeirra langsterkastur og vildi hann að hann hætti sér ekki á það. En samt sem áður vill Þorsteinn með engu móti aftur hverfa og lætur það vera hið eina skilyrði fyrir að hann gefi honum líf að hann vísi sér veg í hraunið. Semst það þá með þeim að hann segi honum til leiðar og hvar hann skuli á leita. Vísar hann nú Þorsteini á götustíg í hraunið og segir honum að fara hann; liggi hann heim að heimili sínu, því ekki sé annarstaðar fýsilegra á að leita, því nú sé ekki heima nema faðir sinn og systir fullorðin, en bræður sínir séu í kaupstaðarferð, en heim muni þeir koma í kvöld eða á morgun.
Skiljast þeir nú að sinni og heldur Þorsteinn leiðar sinnar, en hinn til kinda sinna. Fer nú Þorsteinn eftir fyrirsögn piltsins þar til hann kemur að húsabæ miklum og reisuglegum með skíðgarði umhverfis; þar er hraunið slétt og graslendur fagrar út í frá. Þorsteinn finnur hlið á garðinum og ríður á hlað heim; ekki fer hann af baki, heldur ríður að bæjardyrum og ber af hestbaki. Að skömmu liðnu kemur stúlka til dyra sem hann veit að muni vera bóndadóttir. Hún er kvenmaður með stærra móti og lagleg álits. Þorsteinn heilsar henni og biður hana að gefa sér að drekka. Hún tekur kveðju hans, fer strax inn aftur og sækir mjólkurkönnu og færir honum á hestbak. Hann tekur við og hvomar úr könnunni, því hann var þyrstur og móður af viðureign þeirra piltsins, en gefur þó stúlkunni auga á meðan. Hún gengur að gráskjótta hestinum sem Þorsteinn teymdi aftast og var þeirra fráastur og sterkastur. Hún setur olnboga á herðakamb hestinum og styður hönd undir kinn meðan hann drekkur, og sýnist honum hesturinn svigna fyrir, en lítið talar hún. Fer honum nú ekki að lítast á og að bezt muni að halda til baka, og það skilur hann á tilliti stúlkunnar. Þegar hann hefur drukkið úr könnunni lætur hann krónu í hana og fær henni; fer hún eftir það inn. Nú hvatar hann sér að hafa hestaskipti og leggja á þann gráskjótta, bindur hvern hestinn aftan í annan og ríður á stað og hugsar sér að hraða [sér] sem auðið er. Er það jafnsnemma að Þorsteinn ríður á stað og kallinn kemur út – sýnist honum hann ærið mikilmenni og fasmikill – og tekur hlaup á eftir honum. Keyrir hann þá upp á Skjóna og hugsar að brátt muni skilja með þeim, en karl færist þá í ásmegin að elta hann og dregur hann svo uppi að hann nær í taglið á aftasta hestinum þegar hann er kominn út í hraunþrengslin þar sem pilturinn vísaði honum á slóðina. Þorsteinn keyrir hestinn og stritast við að halda áfram, en kall togar ei að síður aftur á bak alla trossuna á tagli hestsins þar til hann hefur kippt þeim svo mikið aftur að fremsti hesturinn er kominn þar sem sá aftasti var, en taumarnir vóru lítt fúnir [svo] að ekki gengu þeir í sundur. Sér nú Þorsteinn að ekki muni annað duga en fara af baki, en hugsar gott til að láta hann mæða sig á þessu fyrst. Hlaupast þeir þá saman og verða þar harðar sviptingar svo að kallinn treður jörðina til ökla, en Þorsteinn gerir sem hann má að verjast, því hann finnur að mikið skortir hann á krafta við kall. En það var hann mjúkur og liðugur að ætíð kom hann á fæturna hvernin sem kallinn sveiflaði honum; en með tímanum fer hann að mæðast og linast. Fer þá svo að Þorsteinn kemur á hann bragði og fær hann undir. Þegar svo er komið biður hann Þorstein um líf og grið. Þorsteinn kveðst atla að drepa hann því það hafi hann atlað sér. Kallinn segir það hefði óvíst verið, en hann hefði atlað sér að reyna að vita hver hann var; og þó hann dræpi sig væri óvíst að hann kæmist undan sonum sínum sem koma mundu að kvöldi, en ef hann gæfi sér líf þá skyldi hann reyna að hlífa honum sem hann gæti. Fer nú svo að Þorsteinn fellst á fortölur kalls að hann gefur honum líf og lætur hann lofa sér trúnaði. Taka þeir nú hestana og fara heim til bæjar kalls. Lætur hann þá hestana inn og leiðir Þorstein í baðstofu og vísar honum í kjallara eða jarðhús bak við rúm sitt og biður hann að hafa hljótt um sig, og lofar Þorsteinn því.
Um kvöldið heyrir hann að piltar koma heim og býsna hávaðamiklir. Þeir segja við kallinn að hér hafi einhver komið í dag. Hann kveðst ekkert vita til þess. Þeir segja að þar hafi víst komið einhver sveitamanna – „sáum við hér ærið sporaspark bæði hesta og manna, og var það eftir sveitamanna hesta, því bæði voru sporin minni en vorra hesta og líka hafði verið járnað með járnskeifum, en það veiztu að ekki eru nema hornskeifur undir okkar hestum;“ þykki sér það undarlegt ef hann viti ekki neitt um slíkt. Ekki kveðst kall halda það geti verið og ekki sé það að sinni vitund, en vel megi vera að einhverjir hafi um veginn farið og geti það hæglega að borið svo hann ekki vissi, gamall og skammskyggn. Fellur nú tal þetta að sinni. Er nú Þorsteinn þar í jarðhúsinu og færir ýmist kallinn eða dóttir hans honum mat á nóttum. Kall segir við Þorstein að torvelt muni sér verða að verja hann ef til vill fyrir enum eldri sonum sínum; en það sé frá dóttur sinni að segja að hún vilji fá hann sér að eignarmanni, en það furði sig mest að yngsti sonur sinn leggi ekkert til máls er talað sé um komu hans og valla muni hann verða á móti; og vilji nú Þorsteinn verða við óskum dóttir sinnar kveðst kall skuli leggja sig allan fram að koma honum í sátt við þá eldri bræður hennar eða að öðrum kosti skuli þá eitt yfir þá ganga. Þessu játar Þorsteinn fúslega. Fer þá kall að sinni. Þegar hann hefur verið fjórar nætur í jarðhúsinu kemur kall og leiðir hann í ljós. Segir þá ekki annað af því en allt fer vel og friðsamlega fram með þeim og verður það samningur þeirra að hann skal eiga dóttur kalls og má hann gera hvert hann vill að taka hana og hafa heim með sér – en engum má hann þá segja hvaðan eða með hverjum hætti hann hefur eignazt hana – eða fara snöggva ferð heim til sín að ráðstafa fjármunum, því hann var maður vel efnaður, og koma síðan til þeirra í hraunið, og þótti Þorsteini sá kostur fýsilegri. Færa þeir honum þá hesta sína; skilja nú með vináttu og fylgja honum í leið. Þótti honum búlegt og álitlegt í hrauninu. Fer hann nú beinlínis heim til sín. En þegar hann er heim kominn fer hann að þrútna og stirðna eftir viðureign þeirra hraunbúa. Fer hann svo versnandi að hann leggst rúmfastur og verður banvænn. En á banasænginni sagði hann frá þessari sögu og hvað hann hefði atlað fyrir sér og dó síðan af þeirri veiki.