Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Arngrímur lögsagnari drepur útilegumann
Arngrímur lögsagnari drepur útilegumann
Þegar Bjarni Halldórsson var sýslumaður í Húnavatnsþingi og umboðsmaður yfir Þingeyraklaustri þá sat hann að Þingeyrum svo sem kunnugt er, en hélt annað bú í Brekku, hið þriðja í Hnausum og það fjórða á Kornsá.
Þá bjó á Aðalbóli í Miðfjarðardölum Arngrímur lögsagnari Jónsson. Einn tíma öndverðan vetur fékk Bjarni sýslumaður Arngrím til að fara fyrir sig með peninga suður að Bessastöðum til Thodals stiftamtmanns. Arngrímur var snarmenni og hinn mesti glímumaður; treysti hann sér allvel og tókst ferðina á hendur. Var færð og veðurátt góð er hann lagði af stað; hann fór Tvídægru og gekk vel ferðin suður. Lauk hann erindum sínum syðra og hélt svo norður aftur. Hann lagði upp á Tvídægru og gekk norður vatn eitt sem er á heiðinni. Hann sá þar mann á vatninu; sat hann á dorg og veiddi silung. Arngrími stóð stuggur af manninum og gekk á snið við hann. Þegar veiðimaður sér það stendur hann upp og hleypur í veg fyrir Arngrím. En er þeir hittast mælti útilegumaður: „Þú skalt ekki flytja fréttir af mér norður í land.“ Arngrímur svarar: „Því mun guð ráða, en ekki þú.“ Eftir það tóku þeir saman; var útilegumaður rammur að afli, en Arngrímur aftur glímnari; þó fann hann brátt að sér mundi eigi endast að eiga við heljarmann þenna; fór hann því undan í flæmingi, en lét útilegumann sækja á og mæðast. Þegar útilegumaður finnur það að hann fær ei komið Arngrími niður, en er farinn að gerast móður, þá fer hann ofan í vasa sinn og dregur þar upp kníf; hélt hann á blaði knífsins skeiðalausu; var þá Arngrímur eigi seinn og þrífur um skaft knífnum og fleygir honum, særðist útilegumaður um leið á hendinni. Héldu þeir nú enn fram glímunni; sá Arngrímur að útilegumaður vildi færa hann að vökinni, og lét hann þá berast þangað með vilja. En er þeir voru komnir mjög svo á vakarbarminn brá Arngrímur útilegumanni til sveiflu svo að hann hrataði með vinstra fótinn ofan í vökina. Arngrímur herti þá á takinu og gekk þá í sundur fóturinn á útilegumanni fyrir ofan kné, en hann rak upp öskur mikið um leið og hann kenndi sársaukans. Gekk Arngrímur þar af honum dauðum. Eftir það tók hann tösku sína og gekk í áfanga norður að Þingeyrum; sagði hann Bjarna sýslumanni allan atburð um viðureign sína við útilegumanninn. Sýslumaður mælti er hann hafði heyrt söguna: „Segðu engum frá því, karl minn, að þú hafir drepið manninn.“ Arngrímur lá síðan sex vikur eftir glímuna, en varð þó heill og jafngóður að lyktum.