Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bjarni í Stórumörk

Bjarni er maður nefndur er bjó í Stórumörk í Dalshverfi. Einu sinni urðu fjárheimtur mjög slæmar af öllum framafréttum. Leituðu menn fyrst í söfnum öllum og eftirsöfnum og fannst ekki. Tóku þá Dalshverfingar sig saman um að leita í óbyggðir, því menn höfðu fullan munninn af að útilegumenn mundu valda hvarfi því hinu mikla. Var Bjarni foringi leitarmanna; gengu þeir nú langt í óbyggðir. Komu þeir um síðir að dal einum og sáu þar bæi marga. Einn bærinn sýndist þeim reisuglegastur og þangað héldu þeir. Þar var úti staddur aldraður maður. Honum heilsuðu þeir, en hann tók dauflega kveðju þeirra. Bjarni var djarfur mjög við karlinn og einarður. „Geturðu ekki léð okkur hús þín náttlangt, bóndi?“ segir Bjarni. „Það er frá,“ segir bóndi. „Geturðu þá ekki gefið okkur að éta því við erum svangir?“ segir Bjarni. „Nei,“ segir bóndi, „en viljið þið ekki skoða hann Auðstein?“ „Það er frá,“ segir Bjarni. „Viljið þið það þá ekki, piltar?“ segir hann. Þeir neita. „Viltu ekki koma að Auðsteini, Bjarni?“ En Bjarni neitar enn; „en fara megið þið ef ykkur líkar,“ segir hann og lítur til félaga sinna. Þeir láta það svo vera og fylgist Bjarni með; komu þeir að steini einum miklum. „Hér hjá steini þessum hefi ég margan mann af lífi tekið,“ segir bóndi, „og mun ég yður sama veita nema þér sverið við stein þenna að segja engum manni frá fundi vorum.“ „Ekki sver ég,“ segir Bjarni. „En þið piltar?“ segir bóndi. Þeir létu svo vera mega og svóru honum knéfallandi fyrir steininum trúnaðareiða. „Viltu ekki sverja, Bjarni?“ segir bóndi. „Ekki sver ég,“ segir Bjarni. „Ég hræðist þig og ekki að þú segir til híbýla minna,“ segir bóndi; „meir hræðist ég hinar bleyðurnar sem með þér eru. En komið nú heim því velkomið er ykkur að vera náttlangt.“ Fylgir hann þeim nú inn og veitir þeim hinn bezta beina. Ein sauðarsíða var þar svo feit að þeir gerðu henni lítinn texta; karlinn bað Bjarna stinga henni á sig. Um morguninn fylgjast þeir með bónda og koma að lambahóp miklum. Ráku þeir þau inn með honum og bað hann þá draga út ef þeir kenndu nokkuð; fundu þeir þar margt lamba. Enn fylgdi hann þeim lengra og komu að öðrum fjárhnapp. Þar voru tómar ær; þekktu þeir þar enn nokkrar. Seinast komu þeir að sauðabreiðu mikilli og kenndu þar marga sauði. Svo voru sauðir þessir stórir að sveitarféð var þar sem lömb meðal fullorðins fjár. Karlinn gekk í réttina, tekur þar úr einn bezta sauðinn, fær Bjarna og bað hann eiga; – „manstu þá þó heldur eftir að einu sinni fórstu í eftirsafn.“ Karl fylgir þeim nú og leiðsegir til byggða. Átu þeir síðuna á leiðinni fram eftir.

Eftir þetta fluttist Bjarni búferlum á Rangárvelli og einn af félögum hans með honum. Einu sinni er menn voru í rétt þar á Rangárvöllunum kom þar sauður einn er menn undruðust og dáðust að hve stór væri. Þá segir félagi Bjarna til hans: „Stærri voru þó sauðirnir um haustið, lagsmaður.“ „Haltu kjafti! Þú sórst, en ekki ég,“ segir Bjarni og rak honum um leið gildan snoppung og lét hinn sér segjast við ráðninguna og áminninguna. En sögu þessa sagði Bjarni fjörgamall. Vissu menn þá fyrst hvernig á barsmíðinni stóð við manninn.