Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Eiðsteinn
Eiðsteinn
Einu sinni var smali í Stórumörk undir Eyjafjöllum er Bjarni hét. Einu sinni bar svo við að illa heimtaðist so Bjarni bauðst til að fara með öðrum tveimur, og réðst það af að þeir fóru; fara so á stað og ganga vel og lengi þangað til þeir sjá fáeinar kindur og eru þær allar frá þeim nema ein dilkær sem þeir þekktu eigi og var dilkurinn mjög fallegur. Og þegar ærin sér þá tekur hún til ferða að hlaupa og hitt féð á eftir. Hlaupa þeir þá og ætla að komast fyrir þær, en ærin stekkur so mikið að hún hverfur þeim og niðrí einn dal og þeir [á eftir]. En af því myrkt var af nótt sáu þeir ekki hvað af henni varð. Þegar þeir koma niðrí dalinn fara þeir heim að einum bæ sem þeir sjá þar, klappa so upp á dyr. Það kemur kall til dyra. Bjarni biður hann að lofa sér að vera og félögum sínum. Karlinn lofar það og fer með þá inn í baðstofu. Hann sér þar öngan mann. Bjarni segir hvort hann ætli ekkert að gefa sér að éta. Karlinn segir nei. Bjarni spyr hvort hann vilji ekki selja sér það þá. Karlinn segir sama og áður og spyr hvort þeir vilji ekki koma að sjá hann Eiðstein. Bjarni segir það megi vera hvort vildi. Karlinn fer so með þá frá bænum að einum stórum steini. Bjarni sér þar mikið af mannabeinum hjá þessum steini. Karlinn segir að þetta sé Eiðsteinninn og alla þá sem þangað hafi komið hafi hann látið sverja sér eið við steininn, en þá sem ekki hafi viljað gera það hafi hann drepið; spyr því Bjarna að hvort hann vilji ekki sverja sér eið. Bjarni sagði nei. Hann spyr þá félaga hans hvort þeir vilji ekki sverja sér eið; þeir segja sama og áður. So spyr hann þá alla aftur að því sama; þeir segja nei. Karl spyr Bjarna þá í þriðja sinn hvort hann vilji ekki sverja sér eið; Bjarni segir nei. Hann spyr þá félaga hans. Þá segir Bjarni: „Og sverjið þið kallfjandanum eið.“ Þeir sverja hönum þá eið. Þá segir karl við Bjarna að þó hann hefði ekki svarið sér eið tryði hann hönum betur en lyddunum sem með hönum væru. So kallar hann þá aftur í bæinn og gefur þeim að borða; so fara þeir allir að sofa. Um morguninn fá þeir að borða ket og þar lá oná mjög stór sauðarsíða. Þeir éta svo, en smakka ekki á henni. Karlinn gefur Bjarna síðuna og segir að þeir skuli borða hana í dag þegar þeir hvíla sig. Bjarni þiggur það; fara síðan allir á stað og karl með þeim; segist hann ætla að fylgja þeim áleiðis. Þeir koma so að einni rétt; hún er full af lömbum. Karl segir þeim að taka þau sem þeir þekki og eigi; þeir gera það. Karl spyr Bjarna hvort hann eigi nokkra kind. Bjarni segir nei. Karl segir það gangi yfir sig að hann húsbóndi hans gefi hönum ekki kind, so góður smali sem hann væri, og spyr hvort hann eigi ekki að gefa hönum kind. Bjarni þiggur það. Gefur hönum þá nokkur lömb; halda so áfram nokkra stund; koma so að annari rétt; hún er full af ám. Bjarni tekur þar úr kindur sem hann þekkir. Kall gefur hönum so nokkrar [ær]. Bjarni sér þar dilkána sem hann elti og segir kalli að hann hafi komizt í að elta hana og mikið væri fallegur dilkurinn. Karl gefur hönum ána með dilkinum. Koma þeir so að þriðju réttinni og er hún full af sauðum. Kall skipar hönum að taka það sem hann þekkti; gefur honum so nokkra sauði og var karl þá búinn að gefa hönum þrjátíu kindur. Karl forbannar Bjarna að gefa nokkra kind lyddunum sem með hönum séu; hann lofar því. Halda þeir so á stað og fylgir kall þeim áleiðis þangað til að hann snýr aftur og skilja þeir með vináttu. Halda so fram í sveit og skilar af sér fénu. Reisti so bú á Sandgili á Rangárvöllum og þessir sem fóru með hönum í eftirleitina fóru að búa í nánd við hann.
Einu sinni fóru þeir að safna afréttinn með öðrum fleirum og var mjög stórt safnið. Þá segir einhvur að stórt sé safnið. Þá segir maðurinn sem var með Bjarna. „Einhvurn tíma höfum við séð eins stórt, lagsmaður.“ Þá segir Bjarni: „Atlarðu ekki að þegja, djöfullinn þinn? Manstu ekki að þú sórst eið?“ – og rekur hönum um leið kjaftshögg, en hinum varð hvumsa við og þagnaði. Bar so ekki á þessu meira. Varð Bjarni ríkur mjög, lánsmaður mikill og bjó þar til ellidaga. Endar svo þessi saga.