Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Eiríkur, Árni og Ingibjörg
Eiríkur, Árni og Ingibjörg
Einu sinni var ríkur bóndi í Borgarfirði; eigi vitum við nafn hans eða heimili. Son átti hann við konu sinni er Árni hét. Þar ólst upp hjá honum sá piltur er Eiríkur er nefndur og var hann nokkrum árum eldri en bóndasonur. Bóndi unni þeim báðum jafnt, og þeim sjálfum kom ætíð vel saman. Í öllu var Eiríkur fremri bæði að kallmennsku og skerpu, en Árni var þar á móti hæglyndur og kom sér vel. Þegar Eiríkur var orðinn fulltíða maður tók bóndi sótt er hann fann sig mundi til bana leiða. Lét hann þá kalla Eirík fyrir sig og mælti: „Ég ætla að biðja þig bónar.“ Eiríkur kvaðst það gjöra mundi, því hann hefði reynzt sér eins og bezti faðir. Bóndi mælti þá: „Ég finn að sótt þessi muni leiða til bana og bið ég þig gjöra útför mína heiðarlega og sjá um konu mína og son til þess hann er sjálfbjarga og fjár síns ráðandi og ætla ég að gefa þér hálfa jörðina á móti syni mínum og þriðjung lausafjár.“ Eiríkur kvaðst mundi verða við bón þessari eftir því sem hann gæti. Skömmu síðar andaðist bóndi. Nú fær Eiríkur hálfa jörðina og þriðjung lausafjár eins og bóndi ákvað. Nokkru síðar fær Eiríkur gott kvonfang og fer að búa á allri jörðinni. Sá hann nú vel um ekkjuna, en Árni er vinnumaður og er hann Eiríki hlýðinn og trúr í öllu og fer í öllu að ráðum Eiríks og kemur þeim svo vel saman að þeir mega aldrei skilja. Þegar Árni er búinn að vera nokkur ár hjá Eiríki og orðinn fulltíða maður ræður Eiríkur honum að hann fari nú að taka við hálfri jörðinni og fjárhlutum sínum, gifti sig og fari að búa og spyr Eiríkur hann hvort ekki sé neinn kvenmaður er hann hafi hug á, fremur einn en annar. Árni kvað það ei vera. Eiríkur kveðst þó ætla það á annan veg. Árni segir þá að ein sé sú stúlka er hann hafi hug á og sé það Ingibjörg prófastsdóttir. Eiríkur ræður honum þá að fara strax og biðja hennar og kveðst hann ætla það mundi hlíta, því hann væri bæði vel kynntur og efnaður. Árni býr sig nú á fund prófasts og kemur þar seint um kveld og eru allir háttaðir nema vinnukona ein. Kemur hún til dyra og spyr Árna að heiti. Hann biður hana að skila um að hann biðji að lofa sér að vera. Gjörir hún það og leiðir hann síðan til rúms undir lofti í baðstofu. Dregur hún skóklæði af honum og færir honum mat og leggst hann nú til svefns og sefur til morguns; þá fer hann snemma á fætur og kemur út að skoða til veðurs. Er hann gengur inn mætir hann prófasti í dyrum. Árni kveður prófast og þakkar honum næturgreiðann. Prófastur tekur því vel og býður honum til stofu. Nú spyr prófastur hann frétta og hvert erindi hans væri. Árni segir honum erindið og tekur prófastur því vel og kveðst hafa heyrt vel af honum látið og sé það sinn vilji ef dóttir sín sé því ei mótfallin. Kallar nú prófastur dóttur sína og segir henni erindi Árna og tekur hún því dauflega og kveðst ei hafa hugsað að giftast svo fljótt, en ef það sé vilji föður hennar þá muni hún ei gjöra móti honum. Árni festi þá stúlkuna. Þá mælti prófastur: „Nú verður þú, Árni, að bíða hér nokkra daga meðan dóttir mín býr sig til ferðar með þér, því ég vil að þú setjist þegar á jarðarhelminginn og farir að búa, en eigi skaltu halda brúðkaupið fyr en í haust að búið er að ganga fjallagöngur.“ Bíður svo Árni til þess stúlkan er ferðbúin. Kveður hann foreldra hennar og óskar prófastur þeim hjónaefnum allra heilla. Síðan ríða þau heim á bæ Árna og er þeim þar vel fagnað. Árni reisir nú bú með Ingibjörgu. Líður nú sumarið allt til hausts. Var Ingibjörg jafnan ókát um sumarið, en kom sér þó vel við alla. Árni unnir henni mjög og má ei af henni sjá.
Um haustið fara þeir fóstbræður sunn[u]dagskveld eitt í fjallagöngur ásamt með öðrum bændum þar úr sveitinni. Ákveðið er að þeir séu viku í burtu og segja þeir fólki, áður þeir fara, að viða heim eldivið meðan þeir séu á brott. Á mánudaginn er allt fólk í viðarmó nema Ingibjörg og smaladrengur einn. Veður var þannig að það var dimm þoka svo ekkert sá. Þegar leið fram á miðjan dag er drengur úti og sér hann að Ingibjörg gengur til lækjar með tvær fötur. Í því sér hann koma mann ríðandi á rauðum hesti. Maðurinn er á bláum kjól, stór vexti og honum ókenndur. Maður þessi víkur að læknum til Ingibjargar, heilsar henni blíðlega og tekur hún því eins. Þau talast við í hljóði skamma stund. Þá sér drengur að hann kippir henni á bak fyrir aftan sig; ríða þau svo út í þokuna. Þetta þykir dreng kynlegt, en getur þó ekkert að gjört. Um kveldið kemur fólkið heim og saknar það vinar úr stað er Ingibjörg er horfin, og segir drengur því hvað hann hafði séð síðast til Ingibjargar. Er þá farið til næstu bæja að spyrja að henni og hvert ei hafi séðst til mannsins, en ekkert verður uppvíst.
Nú er þar frá að segja er þeir fóstbræður koma heim og frétta tíðindin. Verður Árni þá svo aumur og frá sér numinn að hann leggst fyrir og getur ekki séð um bú svo Eiríkur verður að hafa umsjón beggja búanna á hendi. Líður nú haustið og veturinn og liggur Árni alltaf í rúminu. Sumarið næsta líður til hausts. Fer þá Eiríkur í göngur ásamt öðrum. Er hann kemur heim og fer að rannsaka fé sitt vantaði þá þriðjung þess, en enga menn aðra vantaði svo mikið. Enn líður að öðru hausti og fara menn enn í göngur, Þegar Eiríkur kemur heim fór ekki betur og vantar nú helming af fé þeirra. Svo líður til þess þriðja hausts og ríður Eiríkur í göngur. Fer nú enn sem fyr að þá vantar helming fjárins. Eiríki gremst nú hið fyrsta fjármissirinn, gengur til Árna er alla jafna hefur haldið við rúmið. Þá mælti Eiríkur: „Margur hefur misst stúlku og ekki legið í þrjú ár út af því. Við missum fé vort á hverju hausti og er það ekki lítill skaði og er þér sæmra að rísa úr rekkju, og búum við okkur á stað og leitum að fénu!“ Árni hlýðir þessu ráði og býr sig með Eiríki með nesti og hvað annað og létust þeir mundu verða lengi í burtu. Þeir halda nú á stað og ríða yfir fjöll og firnindi í marga daga og finna ekkert. Loksins eru þeir staddir undir háu fjalli. Settu þeir nú niður tjald sitt, ráku hesta sína á beit í góðu graslendi, en sjálfir fóru þeir að sofa. Um morguninn vakna þeir snemma og er þá mjög fagurt veður. Árni segir við Eirík: „Nú lízt mér við snúum aftur og hættum leit þessari.“ „Ekki vil ég það,“ mælti Eiríkur, „ég vil ganga upp á þetta fjall og vita hvert ég finn þar ekki neinar kindur.“ Hlaut svo að vera sem Eiríkur vildi. Riðu þeir upp á fjallið og könnuðu það víða. Hinumegin fjallsins sjá þeir dalverpi nokkurt. Vill þá Árni enn snúa aftur, en það tjáði ekki fyrir Eiríki og héldu þeir áfram og riðu inn í dalinn. Eftir sem fram eftir dró verður hann grösugri og skógi vaxinn. Ríða þeir allt til kvelds; sjá þeir þá einn bæ mikinn og reisulegan. Nú segir Árni við Eirík: „Ég vil við snúum hér aftur og förum ekki heim á bæ þennan því enginn veit nema þar búi ómildir menn.“ „Ekki vil ég það,“ mælti Eiríkur, „heldur fara heim á bæ þenna, fá þar gisting og spyrja að fé okkru.“ Þetta verður að ráði að þeir ríða heim. Var þá dimmt orðið og sjá þeir ekkert til í dalnum. Stíga þeir nú af baki og berja að dyrum. Strax kemur til dyranna ungur kvenmaður. Virðist þeim fóstbræðrum stúlkan lagleg mjög. Heilsa þeir henni og tekur hún því blíðlega, spyrja hana að heiti, en hún kveðst Hildur heita. Spyr Eiríkur hana hvaða pláss þetta sé. Hún segir þeim lítið um það og spyr þá að heiti og hvaðan þeir séu og hvað þeir séu að fara. En Eiríkur segir henni allt hið sanna. Þeir biðja hana skila inn til húsráðanda að þeir biðji að lofa sér að vera. Hún gengur inn hið hraðasta og kemur strax aftur og segir þeir fái gistinguna, tekur í hönd Eiríki og lætur Árna koma á eftir, fylgir þeim í hús eitt og er það allt þiljað í hólf og gólf, og borð og bekkur og tvö rúm voru í húsinu. Setur hún þá við borðið. Ljós brann þar inni. Gengur hún svo í burtu, kemur aftur með mat og setur fyrir þá á borðið; er hann allsæmilegur. Er þeir hafa snætt leiðir stúlkan þá til rúms og spyr þá hvort þeir vilji sofa saman eða sinn í hverju rúmi. Eiríkur segir þeir séu lúnir og vilji sofa sinn í hverju lagi. Þegar þeir eru háttaðir spyr hún þá hvert hún eigi að láta ljósið lifa hjá þeim. Eiríkur svarar: „Er okkur nokkur hætta búin svo ljós þurfi að lifa?“ „Ekki framar en mér,“ sagði hún. „Þá þarftu ei að láta það lifa,“ sagði Eiríkur. Hún slökkur þá ljósið og gengur burt. Þeir sofna strax og sofa allt til dags. Þegar þeir eru vaknaðir kemur stúlkan aftur til þeirra með þur fótaplögg þeirra og býður þeim góðan dag. Þeir klæðast skjótt, koma út; er þá bjart og gott veður svo þeir sjá um allan dalinn. Töldu þeir þar þá tíu bæi í dalnum fyrir utan þann er þeir voru á. Mest furðar þá á því hvað bærinn var stór og mikill að sjá að utan, en þeir hafa ekki séð nema þetta eina hús að innan. Þeir ganga nú inn aftur í sama húsið og fara að aðgæta bygging á því. Sýnist þeim þá vera greypt hurð í stafninn á húsinu og í þessu lýkst hún opin. Gengur þar fram maður, mikið stór vexti, bláklæddur, á kjól og berhöfðaður. Eiríki dettur í hug að þetta muni vera húsráðandinn. Heilsa þeir honum og þakka honum fyrir næturgreiðann. Hann tekur því vel og glaðlega og spyr þá að nafni og hvar þeir eigi heima. Eiríkur leysti úr því. Hann spyr þá nú almæltra tíðinda, en Eiríkur er alltaf fyrir svörunum, en Árni þegir. Víkur þá kjólmaður sér að Árna og segir: „Þú ert mikið daufur, maður minn, og talar ekkert og mun þér eitthvað búa í skapi. Kom þú hér inn í húsið, en Eiríkur skal vera kyr.“ Verður þá Árni mjög hræddur og hugsar hann ætli að drepa sig. Samt gengur hann með honum inn í húsið, en kjólmaður læsir á eftir sér. Datt Eiríki nú það sama í hug sem Árna og þykir verst að hann getur ekki veitt Árna neinn styrk ef í illt slægist, því Eiríkur var hraustmenni og treystir sér vel. Gengur hann þá að þilinu og sér þar um eina rifu að kjólmaður setur Árna á rúm og fær honum þrjú sendibréf og segir við hann að hann skuli lesa þau sér til skemmtunar. Eiríkur sér er Árni fer að lesa bréfin að hann roðnar við og er hann er búinn leggur hann þau þegjandi á borðið. Nú lýkur kjólmaður opnu og segir Eiríki að koma inn og setur hann á rúmið hjá Árna, tekur aftur sömu bréfin, fær Eiríki og segir hann megi lesa, og gjörir Eiríkur það þegar og leggur á borðið, en talar ekkert. Þá segir kjólmaður við Árna: „Þú munt hafa átt þér trúlofaða stúlku sem bæði þér og öðrum hefur þókt hverfa undarlega á brott, og er það af mínum völdum og er ég sá sami maður sem sókti hana er þið voruð í fjallleitunum, því þó enginn vissi vorum við trúlofuð áður löngu en þú baðst hennar, og eru bréf þessi trúlofunarbréf þau er gengu milli okkar. Ég veit vel hvaða sorg þú hefur borið eftir hvarf hennar, en til að bæta úr raunum þínum vil ég nú gefa þér dóttir mína Hildi; það er sú stúlka er þjónaði ykkur til rúms í gærkvöldi og átti ég hana með fyrri konu minni. Ég veit hún er í engan máta síður að sér en Ingibjörg.“ Árni svarar engu, en Eiríkur mælti þegar: „Þetta er stórmannlega og vel boðið og skalt þú, Árni, eigi neita ráðahag þessum.“ Þá fellst Árni á þetta og þakkar kjólmanni boðið. Kjólmaður mælti þá enn fremur: „Og til að fullkomna þetta skal ég nú fylgja ykkur hér inn í annað hús inn af þessu svo þið getið þar séð þær báðar Ingibjörgu og Hildi og talað við þær um þetta allt saman.“ Þeir ganga nú með honum inn í húsið þar sem þær sitja Ingibjörg og Hildur. Heilsa þeir Ingibjörgu blíðlega og tekur hún kveðjunni vel og setur þá á rúm hjá sér. Fer hún nú að minnast á fyrri samveru þeirra Árna og burthvarf hennar og segir honum það hið sama er maður hennar var búinn að segja honum af áður – „og hafi hann boðið þér, Árni, góða kosti þá skalt þú ganga að þeim, því dóttir hans er fullt eins væn stúlka sem ég og vel menntuð að öllu.“ Árni tekur þessu öllu vel og kveðst þiggja mundu boðið. Ingibjörg segir þeim að hún sé hér vel ánægð því maður sinn sé sér góður; láti hann að öllu eftir vilja sínum; hann sé og sýslumaður hér í dalnum. Að tali þeirra lyktuðu kemur sýslumaður þar inn og heilsar upp á þau blíðlega og spyr Árna hvort hann ætli ekki að standa við það sem þeir hafi talað um áðan og þiggja stúlkuna. Þeir félagar kváðu nú boði því skyldi sætt verða. Sýslumaður bað þá dvelja þar nokkra daga á meðan þeir væru að hvíla sig og segir þeim að kindur þær er þá hafi vantað þessi þrjú haust séu hjá sér, „og tók ég þær til þess að þið skylduð leita þeirra og koma þannig á fund minn. Nú getið þið fengið kindurnar aftur í mikið betra standi en þær voru í hjá ykkur og skal ég bæta við þær ef þið viljið. Þú, Árni, skalt fara heim með Eiríki með fé ykkar, en láta Hildi vera hér eftir. Látið þið samt lítið á bera við sveitamenn hvar þið hafið fundið kindurnar nema þær hafi verið á fjöllum og afdölum. Svo skalt þú, Árni, vera hjá Eiríki í vetur allt til þess á miðvikudaginn fyrir sumar, þá skuluð þið binda klyfjar upp á átján hesta og láta það vera þá hluti er Árni vill helzt eiga. Á sumardagsnóttina fyrstu mun ég koma sjálfur og sækja Árna með farangri hans og flytja í dal þenna og skal hann þá eiga Hildi og búa hér. En Eiríki skal Árni gefa jarðarpartinn og allt það annað er eftir verður fyrir alla þá hjálp, trú og hollustu er hann hefur sýnt honum. Máttu svo, Eiríkur, koma að hausti og vitja okkar; skulum við þá gefa þér styrk til bús þíns af kindum ef þú þarft þess við.“ Sýslumaður lauk þá tali sínu, en Eiríkur þakkar honum tillögurnar og boðin með mörgum fögrum orðum. Þegar þeir félagar hafa verið þar á bæ nokkra daga búast þeir til heimfarar. Fékk sýslumaður þeim þær kindur allar er þeir höfðu misst og bætti við tíu sauðum er hann sagði þeir skyldu hafa fyrir ómakið. Líka lét Ingibjörg þá hafa nóg kjöt og ost til nestis og allt hvað þeir þurftu við. Þeir kvöddu þær Ingibjörgu og Hildi með mesta kærleika, en sýslumaður sjálfur reið með þeim á veg. Skildu þeir og við hann í mesta kærleika. Héldu svo fóstbræður heim með féð og er þeim vel fagnað og spurðir hvar þeir hefðu fengið fé þetta, en þeir kváðu það verið hafa á fjöllum og afdölum, en gátu ei annars. Mörgum þókti það samt ótrúlegt að það ekki væri frá mönnum, því þeir höfðu aldrei séð vænlegra og stærra fé. Sátu þeir nú um kyrrt þann hinn næsta vetur með gleði og ánægju og hefur Árni aldrei verið glaðari en þann vetur. Líður nú að sumri. Á miðvikudaginn seinasta í vetri fara þeir bændur að ruska til búi sínu og binda klyfjar upp á átján hesta. Er þá margrætt á bæ þeirra hvað þetta skyldi, en þeir gáfu það ei uppskátt. En á sumardagsmorguninn fyrsta sakna menn Árna og klyfjanna. Er nú Eiríkur spurður hvað af Árna muni orðið, en hann lætur sem hann hafi sofið fast og hafi Árni hvorfið á meðan svo hann viti ei framar um hann. Eiríkur býr nú þar eftir með sóma og eftirlæti með konu sinni og er hann vel kynntur í allri þeirri sveit. Á hverju hausti er hann burtu ekki minna en hálfan mánuð og kemur aftur með stóra og feita sauði, en gefur aldrei uppskátt hvaðan þeir séu. Þrjú börn átti hann: syni tvo og dóttur. Þegar Eiríkur lá banalegu sína sagði hann konu sinni að hún skyldi fara í dal þenna að sér dauðum því nú væri Árni orðinn sýslumaður eftir tengdaföður sinn. Elzti sonur Eiríks erfði fasteignina eftir föður sinn og fékk hann góða giftingu. Hin systkinin fengu og góða giftingu og bjuggu þar í grennd.
Og endar þar sögunni af þeim Árna og Eiríki.