Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Eyjólfur skrifari
Eyjólfur skrifari
Eyjólfur hét maður; hann var skrifari hjá Jóni sýslumanni í Rauðuskriðu.[1] Jón sýslumaður þótti nokkuð harður og refsigjarn; voru þá öll meinamál dæmd eftir stóradómi. Systir átti Eyjólfur þar á heimilinu og unnust þau mikið systkinin. Fór það svo langt með þeim að hún varð þunguð af hans völdum. Setti nú Eyjólf mikil fákæti er hann var þess vís orðinn þó hann léti lítið á því bera við sýslumann. Þekkti hann vel skaplyndi hans og að hann mundi valla vægja sér fremur öðrum ef slíkt yrði uppvíst. Vissi hann nú ekki hvern kost hann skyldi upp taka; þó varð honum það helzt til ráða að reyna til að frelsa líf þeirra með því að flýja til fjalla. Kunningja átti hann góðan sem Jón hét; hann bjó á bæ þeim er fremstur er í Reykjadal. Til hans sendi Eyjólfur mann með bréf og sagði honum frá kringumstæðum sínum í trúnaði og beiddi hann ásjár, því nú yrði hann að reyna að forða lífi sínu með því að flýja á fjöll, en umfram allt beiddi hann [hann] að vera sér trúan. Jón bóndi ritaði honum til baka og sagði honum að ekki vissi hann hvað sér tækist, en það hann orkaði skyldi hann reyna að hjálpa honum þó ekki yrði það árennilegt. Nokkru seinna tekur Eyjólfur sig upp um nótt og klyfjar tvo hesta með rúmfatnaði og eldsgögnum og því hinu helzta sem hann þurfti með að hafa og tók með sér systur sína. Héldu þau sem hraðast mátti til Jóns bónda og urðu engir héraðsmanna varir þeirra. Um morguninn er komið var á fætur hjá Jóni sýslumanni varð fólkið þess brátt víst að þau systkin voru horfin. Lét þá sýslumaður brátt leita þeirra út og suður um allt héraðið, en einkis urðu menn að vísari um ferðir Eyjólfs. Ekki gat sýslumaður heldur gert sér neinn grun um hverrar leiðar hann hefði farið og þótti honum hvarf hans næsta kynlegt og þeirra systkina því ekki var hann orðinn þess vís að hún væri þunguð af hans völdum. Þótti honum og mikið fyrir um hvarf Eyjólfs því hann unni honum fyrir iðnað og trúmennsku í stöðu sinni. En á meðan leitin fór fram var Eyjólfur í leyni hjá Jóni bónda. Þetta var síðla vetrar. Þegar snjóa fór að minnka fór Jón bóndi með þau suður á fjöll allt suður undir Ódáðahraun og fluttu þau með sér rúmfatnað og eldsgögn og matvæli sem bóndi gat látið þau fá. Fór hann með þau þar að helli einum sem hann þekkti; var þaðan skammt að vatni og var í því silungsveiði og lét bóndi þau hafa dálitlar tilfærur til silungsveiða. Í helli þessum bjuggust þau um og var hann víður og kaldur. Fór nú Eyjólfur að hlúa að honum með grjóti og mosa og því hann mátti, en öðru hverju var hann að silungsveiði í vatninu. Leið svona fram eftir vorinu og vitjaði Jón bóndi þeirra smásaman og færði honum matvæli og eitt og annað sem hann mest þarfnaðist. En það lét hann á sér heyra að ekki mundi þar óhultur verustaður ef til vildi til lengdar. Þegar liðið var yfir fráfærur um vorið fór Jón bóndi sem oftar suður á fjöll að finna kunningja sinn; hafði hann þá með sér skyr og osta að færa honum. Þegar hann kom að helli þeim þar sem Eyjólfur átti að vera brá honum mjög í brún er hann var allur í burtu og allt sem hann hafði meðferðis. Leitar hann þá víðs vegar um hraunið þar í kring, en ei að síður varð hann þó nokkurs vísari um Eyjólf og féll bónda það þungt sem sneri við svo búið heim aftur. Liðu nú fram af því átján ár og leitaði Jón bóndi oft að honum, en fór ætíð jafnnær.
Það var á einu hausti að sonur Jóns bónda sem var átján eða nítján vetra fór ásamt þremur eða fjórum mönnum öðrum í fjárleitir suður um fjöll; var þá komið nær veturnóttum og allar eftirleitir afstaðnar. Var það venja að þeir sem fé fyndu að þeim afloknum ættu helming þess sjálfir, en hinn helming eigendur. Þeir höfðu nesti til viku eða meir og fóru nú lengra í leitir suður og austur undir Ódáðahraun en vani var til. Þegar þeir komu undir hraunið skiptu þeir sér í leitir og fór sonur Jóns bónda með öðrum pilti á nokkuð líkum aldri meðfram hrauninu, en hinir fóru aðra leið. Þeir piltar voru báðir vaskir menn og ötulir og fóru þeir víða talsvert inn í hraunið. Einn dag gerði á þá þoku með fjúki svo þeir vissu ekki hvert halda skyldi. Gengu þeir svo allan þann dag til kvölds og lágu í litlu tjaldi er þeir höfðu með sér um nóttina. Daginn eftir var hið sama veður; gengu þeir þó enn sem fyrr í óvissu um áttina allan þann dag þar til komið var nær kvöldi; þá heyra þeir hundgelt. Þeir halda þá eftir því. Þeir sjá þá bráðlega hvar maður fer með fjárhóp; var það unglingspiltur, á vöxt við að vera sextán eða sautján vetra. Þeir fara á eftir honum, en hann rekur féð þar til hann kemur að fjárhúsum og lætur hann það inn. Þegar hann er að enda við það koma þeir að húsunum og heilsa honum. Hann tók kveðju þeirra og spyr hvaðan þeir séu; þeir segja honum það og allt um ferðir sínar. Þeir spyrja hann hvert þeir fái að vera á heimili hans; hann segist halda það. Þeir ganga svo allir frá fjárhúsum og heim til bæjar og var það góður kippur. Þegar þeir koma heim biðja þeir piltinn að skila við húsbónda að þeir beiðist næturgistingar. Hann fer inn og kemur litlu seinna út aftur og segir þeim að þeir fái að vera. Fer hann svo með þá í baðstofu og er ljós kveikt í baðstofunni. Ekki sáu þeir þar annað fólk auk piltsins en konu nokkuð við aldur og stúlku á að geta innan tvítugt, en bónda sáu þeir ekki. Hús var í öðrum enda baðstofunnar afþiljað; þar hélt bóndi sig um kvöldið. Stúlkan dró vosklæði af þeim gestunum og færði þeim mat. Hún og pilturinn sem litu út fyrir að vera systkin voru þeim hin alúðlegustu. Í vökulok las bóndi húslestur í húsi sínu að sið kristinna sveitamanna og söng konan og stúlkan með honum. Að því afloknu voru gestirnir látnir hátta báðir í sama rúmið og skyldu þeir vera tilfætis í rúminu. Þegar þeir voru að því ræddust þau eitthvað pilturinn og stúlkan hljóðlega. Eftir það fór pilturinn til þeirra og bað þá að berhátta. Þeir voru tregir á því, en hann lagði því fastara á að biðja þá og kvað þeim lægi mikið við að gera þetta fyrir sig. Háttaði hann nú sjálfur fyrir ofan son Jóns bónda og berháttaði; fóru hinir þá að orðum hans og dæmi og gjörðu eins. Þegar þeir höfðu háttað og fyrir litlu lagzt út af kemur bóndi fram úr húsi sínu og hefur korða við læri. Hann gengur að rúmi gestanna og lyftir með hægð rúmfötum af þeim að ofanverðu og sér að þeir hafa berháttað, en breiðir þó ofan á þá aftur. Konan kom á eftir honum og segir: „Það er líklegt þú drepir ekki son hans Jóns bónda frá... Þú launaðir honum þá of illa velgjörðir sínar við þig.“ Hann kvaðst verða að reyna þá hvert þeir segðu satt. Gestirnir urðu nú máttvana í rúminu af hræðslu, en hreyfðu sér þó ekki þegar bóndi kom í þessum habít, sem var kjólklæddur. Hann spurði þá að hvaðan þeir væru og hvernig stæði á ferðum þeirra. Þeir sögðu honum allt hið sama og áður. Hann spurði hvert þeir vildu gefa sér eið upp á það; þess kváðust þeir fúsir og sóru honum það. Gekk hann að því búnu til svefnhúss síns, en bað þá áður að vera óhrædda, bauð þeim góðar nætur að sið kristinna manna og kvaðst verða að tala fleira við þá að morgni. Eftir það bráði brátt af þeim hræðslan og sváfu þeir af nóttina. Um morguninn var bóndi snemma á ferli og fór að tala við gesti sína; var hann þá hinn blíðasti. Frétti hann þá margs úr sveitinni af Jóni bónda og Jóni Benidiktssyni sýslumanni. Sagði hann þeim að þeir skyldu nú vera um kjurt í dag og hvíla sig því að næsta degi skyldi hann láta vísa þeim leið úr hrauninu. Þetta boð bónda þáðu þeir og voru þar um daginn í góðu yfirlæti. Um daginn tók bóndi son Jóns bónda afsíðis og töluðu þeir lengi tveir einir ásamt kvenmanni þeim er þeir álitu konu hans. Bóndi spurði piltinn hvert hann hefði aldrei heyrt getið Eyjólfs nokkurs sem hvorfið hefði frá Jóni sýslumanni í Rauðuskriðu. Hann kvað já við því; sagði hann að faðir sinn hefði oft sagt sér frá honum og hvernig hann hefði horfið úr helli þeim sem hann hefði komið honum í, og aldrei getað fundið hann síðan þó hann hefði oft leitað hans, og hefði honum verið oft þungt af því, en nú héldi faðir sinn hann dauðan fyrir löngu. Bóndi sagði við piltinn um leið og hann tók í hönd honum: „Ég er nú þessi sami Eyjólfur. Er nú komið á nítjánda ár síðan ég fór í þessa útlegð. Þessi kona sem hér er er systir mín og höfum við átt saman þessi tvö börn, piltinn og stúlkuna sem þú hefur séð hér. Er mér nú orðin ærið leið útlegðin því margt hef ég orðið að reyna og vinna sumt það er gagnstætt hefur verið vilja mínum og skapsmunum. Ég færði mig hingað úr helli þeim sem faðir þinn færði mig í, því ég vogaði ekki að halda þar til vegna ásóknar annara hraunbúa sem löngum hafa ásókt mig með ýmsu móti, og orðið því að brúka sterka varúð við brögðum þeirra sem ég hef aldrei mátt vera óhræddur um, og því hafði ég slíka aðferð við ykkur í gærkvöldi. En það hafði ég svarið að vega aldrei nakinn mann í rúmi og hefur það nú máske frelsað ykkur að þið berháttuðuð og mig frá því níðingsverki að drepa son velgjörðavinar míns sem faðir þinn er. Nú vil ég biðja þig að bera kæra kveðju foreldrum þínum og bréf frá mér til föður þíns og biðja hann um aðstoð og traust sitt til að fá aftur inngöngu í sveitina og frelsi úr útlegðinni. Og fari svo sem ég treysti, að hann vilji veita mér styrk sinn eins og forðum, vildi ég þá mælast til að þið feðgar kæmuð hingað að næstkomandi vordögum og hjálpuðuð mér með flutning minn í byggðina.“ Bóndason kvað hann mundi eiga það víst að faðir sinn liðsinnti honum það hann mætti því jafnan minntist hann þess með trega er hann hefði horfið honum svo skjótlega; ekki kvaðst hann heldur skyldi spilla máli hans það hann mætti. Slepptu þeir svo talinu. Leið svo tíð til næsta morguns og kunnu þeir ferðamennirnir vel hag sínum. Var þá veður gott. Bjuggu þeir sig nú til heimferðar og kvöddu húsbónda, en hann fékk þeim að skilnaði nesti og skó til heimleiðar og syni Jóns bónda bréfið til föður hans og gott fingurgull með er hann skyldi eiga til merkis um að hann væri enn á lífi. Lét hann síðan son sinn fylgja þeim á leið þar til þeir kæmu út úr hrauninu. Skildu þeir svo með vináttu. Á leiðinni um hraunið sagði sonur Jóns bónda syni Eyjólfs frá mörgu úr sveitinni. Var hann honum því eiginlegri sem honum leizt vel á piltinn og þó ekki síður á stúlkuna systir hans, því honum fannst mikið um fegurð hennar og kurteisi. Þegar pilturinn hafði farið svo langt að þeim var óhætt úr hrauninu skildi hann við þá og kvöddust þeir með kærleikum. Héldu þeir nú hið hvatasta heimleiðis því þeir voru búnir að vera ærið lengi og hinir leitarmennirnir komnir heim fyrir löngu.
Seint að kvöldi komu þeir heim til Jóns bónda og var þar fagnafundur, því talið víst orðið að þeir hefði orðið úti á fjöllunum og kona Jóns bónda nær af því lögzt í rúmið. Segja þeir nú Jóni frá ferðum sínum, en sonur hans færði honum einslega bréfið og hringinn. Varð nú bóndi frá sér numinn af fögnuði er hann frétti nú móti von sinni til Eyjólfs vinar síns og lofaði hann að vitja hans að vordögum. Leið nú þannin veturinn og fram til fardaga að fannir leystu af fjöllum. Tók þá Jón bóndi hesta þá sem hann hafði og sonur hans með honum og fóru suður í hraun. Hittu þeir þar bæ Eyjólfs og varð þar hinn mesti vinafundur er þeir hittust Eyjólfur og Jón bóndi. Er nú ekki getið neins að við bæri í þeirri ferð nema þeir feðgar fluttu Eyjólf og búslóð hans heim til sín, en þó á laun við héraðsmenn fyrst. Eftir það fór Jón bóndi að hitta Jón sýslumann Benidiktsson. Sagði hann honum alla söguna um hvarf Eyjólfs og hvað honum hefði til gengið og beiddi honum góðrar ásjár og héraðsvistar. Var það allt auðfengið hjá sýslumanni því hann tregaði Eyjólf fyrir dugnað hans og holla þjónustu og bauð hann þeim systkinum því aftur heim til sín. Fór nú Jón bóndi aftur heim til sín og sagði Eyjólfi orð sýslumanns og boð hans og þáði hann það og þau systkini og urðu þau síðan hjá Jóni sýslumanni til dauðadags og var hann jafnan vel til Eyjólfs sem áður. En þeir Eyjólfur og Jón bóndi voru jafnan tryggðavinir og sendust gjöfum, en fjárhlut sinn mestan gaf Eyjólfur börnum sínum sem bæði voru mannvænleg og vel að sér um flesta hluti. Giftist síðan stúlkan syni Jóns bónda og bjuggu [þau] eftir föður hans á sömu jörðinni og voru jafnan vel metin. En sonur Eyjólfs átti dóttir Jóns bónda sem líka var einkadóttir Jóns. Hvorutveggja þeirra hjóna voru líka vel á legg komin og talin í beztu bænda röð. – Og allt þótti það mannvænlegt fólk og sumt stórmenni er frá þeim Eyjólfi og Jóni bónda var komið.
- ↑ Átt er við Jón Benediktsson sem var sýslumaður í Þingeyjarþingi 1734-76 (sbr. hér síðar í sögunni og Látra-Björg).