Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Eyjafjarðarsól

Það var einu sinni hjón á bæ og áttu eina dóttur sem hét Eyjafjarðarsól. Foreldrum hennar var einu sinni boðið í veizlu, en hún var heima so það kom maður til hennar og beiddi hana að gefa sér að drekka. Hún þrívegis neitar hönum það so hann segir að henni skuli einhvörn tíma hitna fyrir hjartarótunum eins og sér sé núna. So fer hann og foreldrar hennar koma heim. So líða nú fram stundir að ekkert ber til tíðinda þangað til eitt kvöld að þau stóðu úti í glaða tunglsljósi. Þau sjá að koma fjórir menn á gráum hestum og ríður sá fremsti með stéttinni og grípur Eyjafjarðarsól þegjandi á bak og ríður í fluginu í burtu, en þau komu öngu orði við. Ríða þau so í fluginu þangað til þau komu þar sem var skelfing stór hjörð. Hann spyr hana hvort hún vilji eiga þann sem eigi þetta. Hún segir já. So ríða þau lengra þangað til þau koma þar sem er stór nautaflokkur. Hann spyr hana að sama. Hún segir já. So ríða þau lengra þangað til þau koma að skelfilega stórum hestaflokk. Hann spyr hana hvort hún vilji eiga þann sem þetta eigi. Hún segir já. So ríða þau stundarkorn þangað til þau komu að einum bæ; þar stóð kona fyrir dyrum. Hann heilsar móður sinni og segir henni að taka við stúlkunni; so hún fer með hana inn og hús af húsi þangað til þær koma í níunda húsið; þar hangir, sér hún, fatnaður af níu kvenmönnum. So fer hún með hana í tíunda húsið og þar er eitt rúm og borð og bekkur. So fer hún að bjóða henni að borða; hún þáði það ekki. Hún segir hún eigi að liggja í þessu rúmi og hún eigi nú að ganga í kirkju með sér á morgun. Hún segir sér þyki ekki margt að því. Um morguninn fara þær í kirkjuna og sita undir prédikunarstól, en þegar presturinn er kominn upp í stólinn þá heyrist henni hann vera að lesa formælingar og blót. Henni finnst eitthvað vera að rífa fæturnar á sér og naga; so fara þær úr kirkjunni. So kemur þessi kona til hennar á mánudagsmorguninn með öxi reidda og segir: „Hvurnin líkaði þér að vera í kirkjunni í gær?“ „Ekki nema upp á það bezta,“ segir hún. Hún segist skuli drepa hana ef hún segi sér ekki satt, Hún segir hún megi það upp á það. So líður nú vikan; en á laugardagsmorguninn kemur þessi kona og segir hún eigi að ganga í kirkju með sér á morgun. Hún segir sér þyki nú ekki margt að því. Nú fara þær í kirkjuna. Henni heyrist presturinn vera að fara með ennþá verra og er verið að kreista hana og klóra upp á hné. So fara þær úr kirkjunni þegar er úti. En á mánudagsmorguninn kemur gamla konan með öxi og segir: „Hvurnin líkaði þér að vera í kirkjunni í gær?“ „Ekki öðru vísi en vel,“ segir hún. Hún segist skuli högga af henni hausinn ef hún segi sér ekki satt. Hún segist ekki [geta] sagt henni sannara. So fór hún út. Nú, þriðja laugardagskvöldið kemur hún inn til hennar gamla konan og segir að hún eigi að ganga með sér í kirkju á morgun. Hún segir sér þyki ekki margt að því. So fara þær í kirkjuna og þegar presturinn kemur upp í stólinn þá heyrist henni hann vera að fara með ennþá verra heldur en hina dagana og henni finnst að verið sé að klóra sig upp í mitti. So var hún borin úr kirkjunni af því hún var so aum. Nú – á mánudagsmorguninn kemur gamla konan með öxina. „Hvurnin líkaði þér að vera í kirkjunni í gær?“ „Upp á það bezta,“ segir hún. So dregur hún hana fram á rúmstokkinn og tekur með annari hendi í hárið á henni, en reiddi öxina með hinni og segist skuli drepa hana ef hún segi sér ekki satt. So fer hún út, en sleppir henni. So þegar stundarkorn er liðið kemur inn maður og þakkar henni fyrir að hún hafi komið sér úr álögunum og henni móður sinni, því það hafi verið lagt á sig að hann skyldi ekki komast úr álögunum fyr en hann fengi þann kvenmann sem ekki hræddist dauða sinn, og væru komnar níu sem allar hefðu hræðzt dauða sinn og hún væri sú tíunda sem hefði hjálpað þeim, og átti hana síðan og var mikil veizla og mörgum boðið. So liðu fram stundir þangað til konan átti barn; so vóx hann upp. So fóru þau með hann einn góðan veðurdag út á skóg. Þau settust undir eina eik og höfðu barnið á milli sín. So þau geta ekki haldið sér uppi fyrir svefni, sofna nú öll. So þegar þau vakna þá er barnið hvorfið. Þeim verður heldur en ekki illt við og fara að leita þangað til þau mæta manni og hann heilsar upp á þau. Þau spurja hann hvort hann hafi ekki séð neinn á ferð með barn. Hann spyr hvort þau vanti það. Þau segja það vera, þau hafi setzt undir eina eik og hafi sofnað, en þegar þau hefðu vaknað þá hefði það verið hvorfið. Hann spyr hana þessi aðkomumaður hvort henni sé ekki farið [að] hitna fyrir hjartarótunum. Hún segir það vera. So hann segir að hún skuli hvorki neita matar né drykkjar neinum manni sem til hennar komi, þá sé vegur til að bæta úr því að það finnist barnið. So hún lofar bót og betran. Hann tekur þá barnið hjá sér og fær henni og það verður fagnaðarfundur fyrir foreldrunum. Þetta var þá sami sem hún hafði neitað um drukk. Þau fara svo með barnið. Þau lifðu svo vel og lengi og áttu mörg börn.

Og endar so sagan af Eyjafjarðarsól og hennar manni.