Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Eyvindur og Halla
Eyvindur og Halla
Um afgang Höllu hefur Gísli snikkari Jónsson í Reykjavík sagt mér að þegar hún seinast gaf sig upp eða var tekin þá hafi hún verið orðin svo farlama að hún hafi ekki verið haldin í tugthúsinu, heldur fengið að hafast við í koti nokkru upp í Mosfellssveit. Hún dvaldist þar nokkurn hluta sumars. Um haustið var einhvern dag sólskin og fagurt veður með hægri kælu; sat Halla þá úti undir bæjarvegg og hafði orð á því „að fagurt væri á fjöllunum núna.“ Nóttina eftir hvarf hún og fannst ekki aftur. En nokkrum árum seinna fannst lík hennar upp í Henglafjöllum og tveir sauðir hjá er hún hafði krækt á hornunum undir styttuband sitt. Hyggja menn Halla hafi orðið þar til þegar hún strauk því veður hafði spillzt rétt á eftir. Þó hef ég heyrt þá tilbreyting á þessari sögu, án þess að muna sögumanninn, nema hvað það var hér austanfjalls, að bærinn sem hún strauk frá seinast hafi verið í Grafningi eða Þingvallasveit og að lík hennar og kindaskrokkarnir hafi átt að finnast upp undir Skjaldbreið, og má marka af því að sagan gengur víðar hér syðra, en er líklega ekki mjög almenn.
Hreysi Eyvindar í Arnarfellsmúlum á ekkert skylt við hin hreysin tvö fyrir austan Þjórsá. En svo hefur sagt mér bæði Oddur Jónsson frá Hamarsheiði og Magnús á Efrahvoli er báðir höfðu vörð þar upp á fjöllunum undir fjárkláðanum að hreysin fyrir austan Þjórsá væru tvö. Hreysið sem ég kom að er vestanvert við Sprengisandsveg, nær Þjórsá, móts við Arnarfellsver. Þúfuver (ekki Þúfnaver) er austanvert við Þjórsá, rétt fyrir innan Sóleyjarhöfða. Dregur það nafn af hól nokkrum er gengur fram í verið niður af sandinum og heitir Biskupsþúfa. Hafði þar til forna verið tjaldstaður Skálholtsbiskupa er þeir fóru vísitatíuferðir norður í Múlasýslu. Hafa þeir þá líklega farið Vatnajökulsveg. Sumir segja að það hafi verið á þessum stað sem bóndinn beið eftir Oddi biskupi og kvað vísuna: „Biskups hef ég beðið með raun.“[1] Inn af Þúfuveri, rétt við Þjórsá til landnorðurs, er Eyvindarkofaver, og er valla meir en stundar reið þangað úr Þúfuveri, en austar og innar og bilkorn frá Þjórsárkvíslum eru Háumýrar og eru það efstu grös að sunnan sem ekki er víst að ókunnugir hitti á. Ekki hef ég heyrt nefnt Eyvindarver né Eyvindarsand austur undir Tungnafellsjökli, en það getur verið öðrum kunnugra. Hitt er víst að ekki er þar annað graslendi en í hinum svokallaða Nýjadal – og ef telja skal grasteygingarnar í kringum Tómásarhaga og í honum.
Ekki man ég með vissu hvort Samson skáld var Jónsson eða Sigurðsson. Þeir eru tveir af sömu ætt, og hygg ég hinn yngri hafi lifað til skamms tíma í Reykholtsdalnum. Samson eldri dó fyrir mitt minni norður í Húnavatnssýslu. Var hann hnyttilegt skáld, og eftir hann er hinn tilvitnaði vísuhelmingur. En Gísli snikkari getur með vissu sagt yður föðurnafn hans.[2]
Ólíklegt þykir mér að Eyvindur hafi nokkurn tíma gefið sig upp á Þingeyrum, allra sízt dvalið þar nokkuð, því þess heyrði ég aldrei getið í ungdæmi mínu og var ég þó í næstu sveit og hygg það mætti sleppa þeirri sögn. Það hefði helzt átt að vera þegar Oddur notarius[3] bjó þar. Saga Eyvindar er annars mjög ill viðfangs því hún er hvorki saga (Historie) né hjátrúarsaga, heldur blendingur, og mér er mikið efunarmál hvert hinar ómerkari og ólíklegri missagnir ættu ekki helzt bæði í þessari sögu og öðrum að standa neðanmáls til þess að glundra ekki frásögnina. Ef lýsing þeirra Eyvindar fyndist í Alþingisbókunum gömlu, sem mér þykir ekki ólíklegt, yrði sagan miklu líflegri ef hún væri tekin upp. Jón heitinn bóndi í Ytri-Svartárdal í Skagafjarðardölum sagði frá því svo ég heyrði að hann hefði séð Arnes í tugthúsinu syðra. Hefði hann verið meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og íbyggilegur. Lítur svo út eftir því sem hann sagði frá, að hann hafi verið í miklum metum hjá hinum sakamönnunum og jafnvel hjá yfirmönnunum sjálfum með dularfullum dylgjum. Þannig hafði hann, svo Jón heyrði, haft það í skopi að helsingjar flygju af landi burt á vetrum án þess að vilja þó segja hvar þeir hefðust þá við. Er enginn tugthúsjournal til sem getur upplýst það hvort hann var í því og hvenær?
Svo hefur mér virzt sem heimskari alþýðumenn og jafnvel þjófarnir sjálfir mundu hafa trúað því að þeir yrðu frjálsir eftir tuttugu ára útlegð. Orðið útlegð sýnist líka benda til hinna fornu laga og skóggangs. Það er líka trú alþýðu að útilegumenn veiti ekki sekum byggðamönnum viðtöku til langframa, og mun það vera byggt á sögu Grettis um vist hans í Þórisdal og viðskiptum hans við Hallmund. Þó hugðu strákar þeir er hérna um haustið struku úr Árnessýslu og sem Eystrihreppsmenn tóku í Arnarfellsverum að þeir kynnu að geta komizt á náðir útilegumanna. Hef ég talað við annan þeirra og skilið það á honum.
Ég gleymdi að geta þess fyr að í Þúfuveri er vanalegur áfangastaður áður lagt er á Sprengisand, og liggur vegurinn ofan til við verið svo ókunnugir eru vissari að hitta það en hina efri áfangastaði, enda er þar snemmgrónara. Þetta er nú allt það sem ég get sagt yður til leiðbeiningar með Eyvind.
- ↑ Sjá Systkinin í Ódáðahrauni
- ↑ Sjá neðanmálsgrein í Fjalla-Eyvindi.
- ↑ Oddur Stefánsson (1741-1804), ritari við yfirréttinn, bjó á Þingeyrum 1783-1803.