Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Frá Jóni presti og fylgdarmönnum hans
Frá Jóni presti og fylgdarmönnum hans
Jón hét prestur austur í Múlasýslu (á Kolfreyjustað?). Hann var auðmaður mikill. Einu sinni var stolið frá honum 1100 ríkisdala í peningum. Grunaði hann vinnumann sýslumannsins, en sýslumaður kenndi vinnumanni prests, en vildi ekki skipta sér af þessu. Prestur reið þá suður og útvegaði amtsskipun til sýslumanns að taka upp málið og það gjörði hann. Meðgekk þá vinnumaður prests að hann hefði vitað stuldinn með vinnumanni sýslumanns og tveim öðrum. Annar þessara meðgekk líka meðvitund með hinum, en þeir meðgengu ekkert. Þessir tveir sem meðgengu, voru dæmdir í tukthús, en prestur fekk ekkert í skaðabætur. Hann undi því illa og reið suður aftur og fór nú Vatnajökulsveg til að fá skemmri leið. Með honum var drengur á þrettánda árinu, er Jón hét, son annars vinnumanns prestsins. Þeim gekk vel suður og fóru austur aftur sömu leið. Að líkindum hafa þeir villzt, því eitt kvöld um haustið komu þeir fram úr óbyggð að Hólum, efsta bæ í Biskupstungum. Tveir fylgdarmenn vóru með þeim sem mönnum þóttu undarlegir. Þeir voru í músgráum prjónaslyppum með kollhúfur prjónaðar og öll föt eftir því. Þeir riðu gráum hestum og höfðu lítilfjörleg og ljót reiðveri. Jason hét bóndinn á Hólum. Prestur bað þeim gistingar. „Við getum sjálfir beðið fyrir okkur,“ sögðu fylgdarmenn. „Ég bið þá,“ segir prestur, „fyrir mig og barnið sem með mér er.“ Jason spurði fylgdarmenn prests hvaðan þeir væri, þeir sögðust vera að norðan. Jasoni þótti þeir ólíkir öðrum Norðlendingum og spurði úr hvaða sýslu þeir væri. Þeir sögðu að Sunnlendinga varðaði ekkert um það. Þar vóru þeir um nóttina. Um kvöldið var fólki gefinn fiskur og smjör og öllum söl með nema presti og drengnum. Eldri fylgdarmaðurinn spurði til hvurs þessi svarti matur væri borinn fram. „Til þess að hann sé étinn,“ segir bóndi, „eða eru söl ekki etin fyrir norðan?“ „Því er fjærri,“ segir hinn. Síðan segir hann við félaga sinn: „Þú skalt ekki smakka á þessum bölvuðum svarta mat; aldrei hefi ég vitað slíkt lagt sér til munns.“ Eftir vöku var gefin mjólk og skyr, en kastað var út í handa prestinum og drengnum. Þegar hinir sáu það litu þeir illilega til þeirra. Um morguninn var komin níðaþoka. Fylgdarmenn tóku hesta sína. Jason sagðist ekki vilja að nokkur maður færi frá sínu heimili út í slíkt myrkur. Þeir sögðust ekki vera í hans ábyrgð og riðu út í þokuna og sáust ekki framar. Presti og drengnum var síðan fylgt bæ frá bæ. Þeir höfðu þrjá hesta báðir og ekkert meðferðis og voru í lakasta lagi klæddir, sem verða mátti í langferð. Þeir komu að Minnahofi litlu eftir Veturnætur. Þar var þá Gunnhildur Jónsdóttir hin gamla hjá foreldrum sínum. Sá hún prestinn og heyrði að hann var spurður um ferðir sínar og vildi hann ekkert um þær tala og sízt um fylgdarmenn sína. Hann sagði svo: „Eins og fyrri ferðin tókst mér upp á það bezta, eins tókst þessi seinni upp á það versta. Ég villtist, en guði sé lof ég er kominn úr þeirri villu.“ Drengurinn vildi leika sér við bróður Gunnhildar sem var á rek við hann, en prestur leið honum ekki að fara feti lengra frá sér. Hélt prestur svo áfram austur og segir ekki meira af honum. Vinnumaður hans var og nótt á Minnahofi er hann fór í tukthúsið. Það höfðu menn fyrir satt að fylgdarmenn prestsins hefðu verið útilegumenn og hefði hann villzt til þeirra, þeir hefðu tekið af honum allt sem hann hafði fémætt, en hann hefði unnið það til lífs að vinna eið að hann skyldi ekki segja frá þeim og þá hafi þeir flutt hann til byggða. Höfðu menn fyrir sér búning og siði fylgdarmanna, en einkum það að prestur vildi ekkert um þá tala.