Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Glímu-Björn á Silfrúnarstöðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Glímu-Björn á Silfrúnarstöðum

Björn sonur bóndans á Silfrúnarstöðum sem ekki er getið um hvað hét ólst upp hjá foreldrum sínum. Var hann bráðgjör í æsku, snemma mikill og sterkur. Vandi hann sig mjög við glímur og leika sem ungum mönnum voru tíðar í þann tíma; var enginn hans jafningi. Þegar hann var fjórtán vetra fór hann á Suðurland til sjóróðra. Glímdi hann þar við alla sem hann fékk, og fann hvörgi jafningja sinn. Líka fór hann vestur undir Jökul til veiðifanga. Kom þar enginn sem nokkuð þyrfti við hann að keppa í nokkrum leik.

Liðu svo nokkur ár þar til hann var átján vetra; þá vissi enginn hans afl. Lofaði hann hverjum þeim sem kæmi með mann sem hans jafnoki væri stórgjöfum, en það treystist enginn að gjöra. Var kaupamaður um sumarið hjá þeim feðgum að sunnan sem Guðmundur hét, mikill og sterkur. Eitt sinn er þeir voru á engjum bauð Björn kaupamanni til glímu, en hann vildi ekki, kvað það þó allundarlegt að enginn fengist sem Birni væri ofstýri að glíma við. Björn mælti: „Ef þú getur útvegað mér jafningja minn skal ég gefa þér heila krónu og smjörfjórðung þegar þú ferð í haust.“ Líða nú tímar. Að hausti kemur Björn að máli við Guðmund kaupamann og spyr hvar hann viti mann er jafnsnjallur muni hönum. Kaupamaður svarar: „Ég veit einn kotbæ nálægt Skálholti. Þar er einn bóndi sem á fjóra syni, þrjá ektaborna og einn launson er Gísli heitir. Ef þú finnur þar ekki jafningja þinn þá mun hverki ég né aðrir vísa þér á hann.“ Þegar hann fór um haustið gefur Björn honum það lofaða.

Undir jólin um veturinn býr Björn sig til ferðar austur. Faðir hans latti hann og bað hann að vera til páska þar til færi að lengja dag. Björn vildi það ekki. Fór hann á stað snemma morguns og bjó sig sem léttilegast. Fór hann fram úr Skagafjarðardölum hjá Hofi og svo á Kjalveg. Um kvöldið var hann kominn austur í Skálholt og þaðan að kotbænum er hönum var til vísað. Var þá meira en hálfrökkvað. Björn kvaddi dyra. Bóndi kemur út. Sýndist Birni hann mikill og þreklegur. Björn heilsar hönum. Bóndi tók vel kveðju hans og spyr hann að nafni. Björn segir til sín og kveðst vera norðan úr Skagafirði og eiga heima á Silfrúnarstöðum. „Nær fórstu heiman að?“ segi bóndi. „Í morgun,“ segir Björn. Bónda undrar það mjög og spyr hvörsu gamall hann sé. Björn kvaðst átján vetra. „Munu slíkir margir í Norðurlandi?“ segir bóndi. „Það veit ég ógjörla,“ segir Björn. Leiðir bóndi hann síðan í stofu og lætur veita hönum beina og draga af hönum vosklæði. Bóndi spyr að erindum; Björn segir slík sem voru, „og vil ég leita þar til ég finn jafningja minn.“ Bóndi kvað hönum það ekki mundi auðið verða og allra sízt hér. Er Björn þar um nóttina í góðum beina.

Um morguninn er Björn snemma á fótum og bóndi. Spyr nú Björn hvört bóndi vill veita sér þá ánægju að láta sonu sína glíma við sig. Bóndi kvað svo vera skyldi, með þeim skilmála að þeir færu ómeiddir frá hönum. Björn lofar því. Vill nú bóndi hann hvíli sig um daginn, en Björn vill strax glíma og gengur út á víðsýnan hól einn þar í túninu. Bóndi gengur inn og kemur út að stundu liðinni með þrjá syni sína. Sýndist Birni þeir allir mannvænlegir menn svo hann hafði ekki aðra vænni séð. Gengur nú sá fyrsti fram og ræður á Björn. Takast þeir nú fangbrögðum og gangast að fast þar til bóndason fellur. Gengur þá annar fram og ræður Björn á hann; glíma þeir allsterklega og ekki lengi áður bóndason fellur. Gengur þá fram hinn þriðji bóndason. Ganga þeir saman í þriðja sinn og glíma sterklega. Hann var þeirra mestur og sterkastur. Verður nú harður aðgangur og langur áður bóndason fellur. Þá mælti bóndi: „Nú vil ég, Björn, þú gangir inn og takir hvíld; er ekki að búast við að synir mínir glími til jafns við þig þar hvergi finnst þinn jafningi.“ Björn mælti: „Ef þú átt fleiri sonu muntu vilja lofa mér að glíma við þá alla.“ Bóndi gengur inn, kemur út aftur og leiðir við hönd sér mann mikinn svo hann hefur höfuð yfir alla hina. Er þó þessi maður unglegur og mjög herðaþrekinn. Björn mælti: „Ærið þrekinn er þessi maður og hef ég engan slíkan séð.“ Bóndi mælti: „Það er nú allur arfur hans því það er launsonur minn.“ Björn mælti: „Enginn er arfurinn betri; eður hvörsu gamall er hann?“ „Átján vetra,“ segir bóndi. „Fáir munu slíkir,“ segir Björn, „eður mun ég nú fá að glíma við hann nokkuð?“ Bóndi kvað svo vera skyldi. Gengur nú Gísli fram; mætir Björn hönum. Tekst nú glíma mjög harðfeng. Þykir Birni þessi maður harður undir höndum. Áttu þeir harðan og langan aðgang. Gjöra þeir nú lotu langa og harða þar til Björn fellur á annað hné. Stendur hann þá aftur á fætur; takast þeir þá fangbrögðum og glíma lengi svo nálega þótti jörðin skjálfa. Glíma þeir til kvölds og fellur nú Björn um síðir. Spyr nú bóndi hvört hann muni nú hafa fundið jafningja sinn. Björn kvað fátt svo ágætt að ekki fyndist jafnágætt – „en fyrst þetta er allur arfur hans þá vil ég nokkru við bæta. Býð ég hönum nú fóstbræðralag; er ég nú einn erfingi föður míns sem nú á yfir tuttugu jarðir og þar eftir af lausafé. Skal hann erfa mér að öllu jafnt eins og hann sé minn réttur bróðir.“ Gísli þakkar hönum með mörgum fögrum orðum og ganga þeir síðan til borða. En nær þeir voru mettir heimtar Björn blek og penna; skrifar hann nú gjörninginn og gefur Gísla hann. Er Björn þar um jólin í góðu yfirlæti.

Eftir jólin búa þeir sig til heimferðar því Gísli fór með Birni. Bóndi latti og vill þeir fari ekki fyrri en á útmánuðum, en þeir létu ekki letjast. Bóndi bað þá búa sig vel og fara byggðir, en ekki fjöll; þeir lofa því. Nú fara þeir á stað snemma morguns og bregða á sitt ráð og fara fjöll. En er þeir voru komnir upp á fjöllin þykknaði loft. Gjörði fyrst logndrífukafald og þar næst hríð mikla með frosti svo þeir villast fljótt. Halda þeir áfram þann dag allan og nóttina í hríðinni fram á miðjan dag daginn eftir. Setjast þeir þá til matar og taka hvíld. Birtir enn ekki hríðina. Fara þeir þá aftur á stað og ganga sólarhring annan eftir það. Setjast þeir niður undir einn stein og taka til matar. Eru þeir þá nokkuð farnir að þreytast. Tala þeir þá um hvað þeir muni komnir vera, en geta ekkert um það vitað. Standa þeir upp síðan og ganga lengi alla þá nótt og fram á dag. Voru þeir þá þreyttir og móðir mjög. Setjast þeir nú niður og taka hvíld og matast. Tala þeir þá um hvar þeir munu komnir vera, en hverugur gat úr því leyst. En er þeir voru þetta að tala sáu þeir til lofts og rofaði hríðina nokkuð. Sáu þeir þá eina fjallsbrún langt nokkuð frá sér. Kemur þeim saman um að halda þangað. Standa þeir síðan upp og halda þangað. Komu þeir þá á eina dalsbrún; finna þeir einstig og sjá þar er dalur fyrir. Ganga þeir þá ofan í dalinn. Birtir nú upp hríðina; er niður í dalnum sólskin og bjart veður. Ganga þeir nú eftir dalnum og sjá fé og hross báðum megin í hlíðunum. En er þeir komu lengra sáu þeir kvenmann; var hún að smala. Þótti þeim hún heldur stórvaxin, ganga þó í veg fyrir hana. En er þau finnast horfir hún á komumenn stundarkorn; síðan ræður hún á Björn. Sviptast þau fast þar til hann fellur á kné. Þá mælti hún: „Þú ert þá ekki kvensterkur ennþá.“ Eftir það ræður hún á Gísla, en hann tekur fast í móti. Verða nú sviptingar miklar; fellur hún þó að lyktum. Þeir spyrja hana að nafni, en hún kvaðst Guðrún heita. Hún spyr þá að heiti, en þeir sögðu sem var og spurðu hvar þeir væru komnir. Hún kvað það vera Ódáðahraun. Kvað hún það mjög illt að þeir yrðu drepnir hér, svo mannvænir menn úr byggð – „og er ykkur ómögulegt að komast lífs héðan úr dalnum því ég á tvo bræður. Eru þeir hamramir mjög og þá þeir sjá menn úr byggðinni ganga þeir berserksgang, hamast að þeim og drepa þá, því þeir geta ekki stillt sig. Veit ég engan þann mennskan mann er standist átök þeirra.“ Björn spyr: „Hvað sterkir eru bræður þínir, hvað er margt fólk á bæ þínum og eru hér fleiri bæir í þessum dal?“ Hún svarar: „Ekki eru hér fleiri bæir í dalnum, en á bænum eru foreldrar mínir og bræður tveir og eru þeir svo sterkir að þó ég og Gísli förum á móti öðrum í einu mundi hann okkur báðum efri verða. En úr því þið eruð hingað komnir verður eitthvað úr að ráða.“ Hún fellur þá sjálf ofan í grjótið á andlitið og heggur sig um höfuðið alla með steinum. Síðan biður hún þá að flytja sig heim. Fara þeir þá eftir tilsögn hennar þar til þeir sjá bæ mikinn og reisuglegan. Flytja þeir hana nú til bæjardyra og gnýja hurðir fast. Kemur út karl gamall með öxi mikla; mikill var hann og tröllaukinn. En er hann sér dóttir sína illa útleikna spyr hann hvört mennirnir hafi farið svona illa með hana. Hún segist hafa hrapað og vera mjög máttfarin. „Hafa þessir menn hjálpað mér og borið mig heim þar ég hefði að öðrum kosti dáið. Nú bið ég þig, faðir minn góður, að hjálpa þessum mönnum sem hafa villzt hingað og gefa þeim líf, því valla koma hér vænni menn úr byggð.“ Karl mælti: „Það er ráð fyrir þig dóttir að ganga inn, en þeir bíði hér þar til ég kem.“ Ganga þau nú inn, en þeir eru úti þar til karl kemur. Skemma stóð þar á hlaði og var rammlega læst. Þótti þeim hún heldur sterklega gjör. Að stundu liðinni kemur karl út og tekur í hönd Gísla, leiðir þá að skemmunni og lýkur upp. Lætur hann þá þar inn fara og mælti: „Héðan megið þið ekki fara fyr en ég kem út og aðvara ykkur, hvað sem í gjörist. Hér er nóg grjót inni og skal hlaða því fyrir hurðina. Skulu þið sjálfir standa við þar sem helzt með þarf.“

Nú fer karl burt og læsir skemmunni, en þeir hlaða grjóti fyrir dyrnar. Nú heyra þeir úti dunur miklar; þykjast þeir vita að bræður muni heim komnir. Nú koma bræður heim; er þá karl úti staddur. Tala þeir um að nú muni komnir menn. Karl neitar því þverlega. Nú kemur á þá berserksgangur og hlaupa á skemmuna svo hart að hún hristist mjög. Hugsa þeir er inni voru að þeir muni geta hrist hurðina af járnunum og standa við að innan af öllu megni. Gjöra bræður langa og harða lotu, en ekki bilar skemman og nú hætta þeir. Líður nú stundarkorn. Vita þeir sem inni voru ekki fyrri til en bræður hlaupa enn á skemmuna. Verður nú þessi hríð lengri og meiri en hin fyrri. Þeir er inni voru standa við þar er þurfa þykir, af öllu afli. Enn hætta bræður og taka hvíld. Nú styrkja þeir sem inni voru húsið þar sem þurfa þykir. Nú líður nokkur tími. Koma nú bræður í þriðja sinn og ráðast á húsið með svo miklum æðigangi að stoðir hússins og máttarviðir gengu úr grópunum. Skalf húsið sem á þræði léki. Hristu þeir svo mjög skemmuna að jörðin titraði. Þeir er inni voru studdu við af öllu megni þar sem þurfa þótti og lá þeim nú við föllum því þessi hríð var hörðust og lengst; var allt húsið bilað og brotið. En er af bræðrum leið berserksgangurinn fóru þeir inn og tóku til matar. Nú kemur karl út og lýkur upp skemmunni og bauð inn gestum. Fögnuðu bræður þeim þá vel og voru þeir þar fram á einmánuð í góðu yfirlæti. Fóru þeir Björn með bræðrum til veiðiskapar og fjárgeymslu; glímdu þeir Björn báðir við annan þeirra og urðu ýmsir undir eins og Guðrún hafði sagt þeim.

Um vorið búast gestir til heimferðar. Fylgja bræður þeim á veg og karl faðir þeirra og systir. Skildu þeir við karl og Guðrúnu með mikilli vináttu, en bræðurnir fylgdu þeim úr dalnum þar til þeir koma að einu felli. Þeir ganga upp á fellið og þaðan sjá þeir til mannabyggða; er það nærri suðurferðamanna vegi. Nú setjast þeir niður og taka til matar. En er þeir voru ferðbúnir mæltu bræður: „Það vil ég við finnumst hér á hvörju hausti og hvörju ári þegar þið farið um þennan veg.“ Þessu lofar Björn og þeir báðir til samans. Skilja þeir nú að því búnu með mikillri vináttu. Fara nú bræður heim, en þeir fóstbræður léttu ekki sinni ferð fyrri en þeir komu heim að Silfrúnarstöðum. Var bóndi þar þá búinn að senda austur í Skálholt að leita þeirra. Var svo þaðan farið að ráðum biskups, skrifað og leitað í allar áttir og fundust hvergi né fréttist til þeirra. En er þeir fóstbræður komu heim verða allir menn þeim fegnir mjög, einkum foreldrar Björns. Eru þeir nú heima þar til um sumarið að þeir fara suður og finna þeir þá bræður undir fellinu.

Líða svo nokkur ár að þeir fara suður á vetrum og norður á sumrum og finnast þeir ætíð undir fellinu í hvörri ferð, glíma þar og leika sér mjög til gamans og halda áfram uppteknum hætti. Eitt sinn finnast þeir undir fellinu. Eru þá fjallbúar daufari en fyr. Spyrja fóstbræður hvað því valdi. Þeir kváðu föður og móðir sína dauða og mundi Guðrún systir þeirra vilja í sveit fara þar henni þótti dauflegt hjá þeim að vera. Bað hún þá fóstbræður að taka sig burt úr eyðidal þessum; þeir játa því. Fylgja þeir nú bræðrum á fjöll upp og í dalinn; er Guðrún þar fyrir og fagnar þeim vel. Leysa nú bræður systir sína af hendi og heimanfylgju í peningum, hrossum, smjöri, ull, tólk og kjöti og allri landvöru. Fengu þeir henni fjórtán hross, nokkur hundruð fjár sem þeir gátu með komizt. Þeir buðu bræðrum með sér að vera, en þeir vildu það ei, kváðust ekki mega hjá mönnum vera fyrir ósköpum þeirra og hamremi. Fylgdu bræður þeim á veg og skildu hjá fellinu með kærleikum.

Nú fara þeir fóstbræður heim að Silfrúnarstöðum og setjast um kyrrt. Um haustið giftust þeir báðir; átti Gísli Guðrúnu, en Björn fékk göfugt kvonfang. Tóku þeir sína jörðina hvör og skildu ekki sína vináttu meðan þeir lifðu báðir, bjuggu til elli. Lúkum vér svo þessari sögu.