Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Glímumaðurinn
Glímumaðurinn
Bóndi nokkur bjó í Skagafirði; hann átti tvö börn; var það piltur og stúlka. Þau voru snemma efnileg. Þegar pilturinn fór að stálpast var hann so glíminn að enginn gat komið honum af fótunum; strengdi hann þess heit að gifta engum systir sína nema þeim sem felldi sig í glímu; fór hann nú að ferðast víða til að reyna glímni sína við menn.
Það var einhvurju sinni að hann fór suður á land; þó fann hann engan sem bæri hann ofurliði. Þaðan fór hann austur í Skálholt; kom hann þar að kvöldi dags; vóru þar tólf skólapiltar. Hann baðst þar gistingar og stóð honum það frítt fyrir; hjöluðu skólapiltarnir margt við hann um kvöldið; buðu þeir honum í glímu. Hann kvaðst ekki vera vanur glímum, en þó glímdi hann við einn þeirra og stóð hann ekki lengi. Þá gekk til annar og fór á sömu leið og so hvur eftir annan, og féllu allir þar til ekki vóru eftir nema tveir; hlupu þeir báðir á hann, en hann hefur annan á loft og kastar honum niður so fast að hann féll í óvit, en keyrir hinn undir sig; var hann þar um nóttina.
Um morguninn spyr hann þá hvurt þeir viti ekki af neinum miklum glímumönnum. En þeir sögðu að ei mundu þar vera eins miklir menn sem hann, nema þeir sögðu þar væri karl í koti sem ætti tvo syni; sögðu þeir að þeir vildu aldrei glíma, en þó hugðu þeir að ei mundu þar meiri menn vera. Hann biður þá fylgja sér þangað. Þeir gjöra nú so; gjöra þeir boð eftir karlinum. Karlinn kom út. Þeir biðja hann að lofa sonum hans að glíma við sig um daginn. Hann segir að ei muni vera hent fyrir börnin að glíma við slíka menn og gekk snúðugt inn aftur. Þeir fóru eftir honum og lögðu sína spesíuna hvur þeirra í lófa hans. Hann fór þá til sona sinna og bað þá glíma við þá sem komnir væri. Þeir fóru út; tóku þeir til að glíma á dagmálum; glímdi eldri karlssonur við skólapiltana, en sá yngri við Norðlendinginn. En á hádegi var eldri karlssonurinn búinn að fella alla skólapiltana, en Norðlendingurinn búinn að fella þann yngri. Þá fóru þeir að glíma sem eftir stóðu, og glímdu so lengi að hvurugur féll; hættu þeir nú um stund. Þá mælti karlssonur: „Kanntu nú ekki fleiri brögð?“ „Nei,“ sagði Norðlendingurinn. Glíma þeir nú enn lengi þar til karlssonurinn hóf hinn á loft og brá honum þegar hann kom niður so hann féll flatur.
Þá sagði Norðlendingurinn þeim frá ferðum sínum og so heiti sínu og bauð þeim báðum að fara með sér norður. Þeir taka nú það ráð að fara með honum að leyfi föðurs síns. Fóru þeir nú Kjalveg. Mörgum þótti þetta óráð, að fara þessa leið, því það var seint um haust er þeir fóru og var snjór kominn á fjöllin. Héldu þeir nú áfram leiðar sinnar; hesta höfðu þeir til reiðar. Þegar þeir eru komnir upp á fjöllin kom á þá hríð mikil; héldu þeir nú áfram og vissu ei hvurt þeir fóru þar til þeir sáu í dal nokkurn. Þeir komust einhvurs staðar ofan í dalinn. Einn bæ sáu þeir í dalnum og margt fé. Þá var liðið að kvöldi; sjá þeir nú hvar stúlka kemur frá bænum og hóar saman fénu. Þeir finna hana; sýnist þeim hún vera þrekleg, en þó rétt fríð. Þeir heilsa henni. Hún tekur því vel. Norðlendingurinn sló upp í spaug við hana og bauð henni í glímu. Hún var til í það og glímdu þau nú lengi og gat hann ekki komið henni niður þar til hún féll á einu bragði er hún varaðist ekki. Þeir spurðu hana hvur byggi þar. Hún sagði það væri faðir sinn. Þeir spurðu hvurt þeir mundu ekki fá að vera þar um nóttina. En hún sagði þeir skyldu ekki þar heim koma ef þeir vildu lífi halda, en fara upp úr dalnum sem fljótast. Þeir sögðu að hestar sínir væru so þreyttir að þeir yrðu að vera þar á meðan þeir væru að aflýjast þó þeir biðu bana af því. Stúlkan sá að það var satt og fann það ráð að hún klórar sig í framan so hún varð alblóðug, og slítur af sér hárið og segir einn þeirra skuli reiða sig heim. Þeir gjöra nú so.
Þegar þeir koma að bænum er karlinn úti heldur ófrýnilegur. Þá mælti stúlkan: „Líklegt þykir mér að þú reynist þeim vel faðir minn því þeir hafa bjargað mér. Ég var hröpuð hér í fjallinu og komst ei neitt þaðan.“ Þá mælti karlinn: „Þú mátt sjá um þá þegar piltarnir koma heim í kvöld.“ Hún leiðir þá í einn skála; þar vóru tólf rúm og hvurt þeirra var nóg fyrir tvo. So sækir hún þeim mat og þurr föt. En þegar þeir eru búnir að eta o. s. f. tekur hún hlemm upp úr gólfinu og lætur þá fara þar niður. Þar var stiga ofan að ganga og jarðhús undir. Nú vóru þeir þar lengi áður þeir heyrðu hark og mannamál í skálanum; heyrðu þeir að stúlkan var þar og þjónaði þeim er komnir voru. Þeir spurðu hana hvurt nokkrir hefðu þar komið um daginn. Hún sagði engvir hefði þar komið. Þeir trúðu henni ei og leituðu um allan bæinn, en fundu þá þó ekki. Nú fóru þeir að hátta, en til ólukku hóstaði einn þeirra er í jarðhúsinu var. Þá stukku hinir upp allir og þrifu hlemminn úr gólfinu og fóru hvur eftir annan niður í húsið, en ei gat nema einn í einu farið niður, en þeir sem í húsinu voru lögðu þá alla í gegn um leið og þeir hlupu niður, en þegar þeir voru allir drepnir hlupu hinir upp og so út. Þá kom karlinn og þreif til Norðlendingsins og ætlaði að nísta hann sundur. Þá kom eldri karlssonurinn og felldu þeir so karlinn báðir og skáru hann á háls. En þá var kerlingin búin að tæta yngri karlssoninn og leggja hann niður og vildi bíta hann á barkann. Þeir tóku hana og ætluðu að brjóta hana úr hálsliðunum, en í því bili kom stúlkan og sagði þeir skyldu gefa móður sinni líf og so gjörðu þeir; voru þeir nú þar það sem eftir var næturinnar. En um morguninn bjuggu þeir sig af stað; tóku þeir hesta sína og marga aðra er þar voru, og bundu klyfjar á þá af því er þar var fémætast til. Síðan tóku þeir stúlkuna og allt sauðfé er til var nema tuttugu og fjórar ær er þeir skildu eftir hjá kerlingunni því hún vildi ekki fara.
Nú halda þeir af stað og reka nú féð, en stúlkan rak lestina. Nú vildu þeir fara eftir endilöngum dalnum, en stúlkan sagði að þeim væri dauðinn vís. Þeir spurðu hana hvurnin á því stæði. En hún sagði að tólf menn mundu koma um daginn með fé úr göngum, sem verið hefðu vinnumenn hjá föður sínum og væru miklu meiri fyrir sér en hinir fyrri. Þeir sögðust ekki vera hræddir við drengi þessa. Hún ráðlagði þeim að fara upp skarð nokkurt er var í fjallið. Þeir kváðu það væri verra fyrir hestana og fóru eins og þeim þótti bezt. Nú héldu þeir eftir dalnum. En er þeir komu þangað sem dalurinn þraut sjá þeir koma menn móti sér með fé og eru þeir tólf saman; en er þeir nálægjast þekkja þeir féð og hestana og sleppa fénu og hlaupa heldur ófriðlega móti þeim. En hinir fara þar í brekku eina og bera saman grjót mikið og búast þar við sem bezt gátu þeir; koma nú hinir og sækja að þeim allrösklega, en þeir verjast með grjótinu og féllu nú hinir fljótt margir, en enginn af þeim þremur því þeir áttu hægra með að verjast; vóru þeir þar til að hinir voru allir dauðir, og fóru síðan af stað og tóku hesta alla og sauðfé og var féð þá orðið sex hundruð; gekk þeim nú vel á leiðinni og komu að stuttum tíma liðnum í Skagafjörð og sögðu allt eins og farið hafði. Gifti Skagfirðingurinn eldra karlssyninum systir sína, en hinn yngri átti einhvurja stúlku þar í sveitinni, en sjálfur Skagfirðingurinn átti stúlkuna er þeir fengu á fjöllunum og fóru að búa sinn á hvurri jörð þar í sveitinni nálægt hvur öðrum og héldu vináttu sína til dauðadags.