Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Grasafjallsferðin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Grasafjallsferðin

Einu sinni var bóndi á bæ; hann átti tvö börn, sonur hans hét Bjarni, en dóttir hans Margrét. Honum þótti mikið vænt um þessi börn sín, en þó einkum um dóttur sína því hún var bæði falleg stúlka, efnileg og eftirlát föður sínum. Börn þessi voru um tvítugsaldur er saga þessi gjörðist og faðir þeirra ekkjumaður. Það var venja bónda að láta fara á grasafjall og ætlaði hann enn eitt vor að gjöra hið sama. Talar hann nú við börn sín að hann þurfi að láta fara á grasafjall, en hann hafi nú slæmar fólksástæður og engan til að láta fara. Börnin bjóðast þá til að fara. Hann tekur því dauflega, en segist þó halda að hann megi til, það verði eigi umflúið sem fram eigi að koma. Kvöldið áður en þau eiga að fara fær bóndi þeim tvö ljós og segir þeim að kveikja á þeim um nóttina. Þegar þau kveikja, deyr strax annað ljósið og þegar bóndi veit það segir hann að þetta hafi sig grunað, hann geti ekki almennilega hamlað þeim að fara þó illa leggist það í sig.

Nú fara systkinin á grasafjall og tjalda. Næsta dag er þoka og grasa þau þá ekki vel og fara stutt frá tjaldinu. Um nóttina verður Margrét lasin og versnar henni meir og meir svo að um morguninn er hún orðin mállaus og rænulaus. Þegar líður á daginn sér Bjarni að tveir menn koma ríðandi að tjaldinu. Er annar á rauðum kjól með gyltu belti um sig, en hinn á dökkum kufli með svarðreipi. Þeir stíga af hestum sínum við tjaldið. Hinn rauðklæddi maður mælti til Bjarna: „Komdu sæll Bjarni minn.“ Bjarni tekur því dauflega því nú lá illa á honum. Hinn rauðklæddi maður talar við hann um ýmsa hluti. Síðan tekur hann dósir úr vasa sínum og tekur í nefið, fær Bjarna dósirnar og spyr hvort hann vilji ekki eiga þær. Bjarni segir sig langi ekkert til þess og fær honum dósirnar aftur, en sér þó að þær eru afbragðs fallegar. Hinn rauðklæddi maður segir við Bjarna: „Nú er þér óhætt að vitja um hana systur þina því nú er hún dáin. Við þetta verður hann hryggur mjög, sækir nú hesta og reiðir hana heim; verður þá harmur mikill fyrir föður hans og heimafólki.

Nú líða mörg ár og ber ekkert til tíðinda. Einu sinni vantar bónda allt fé sitt. Bjarni leitar víða, en finnur ekki. Hann hugsar sér nú að gjöra langa leit, fær sér nesti og nýja skó og gengur á fjöll upp; gengur hann lengi þangað til þoka mikil dreifir sér yfir fjöllin svo hann villist og veit ekkert hvert hann fer. Loksins sér hann mann sem rekur stóran fjárhóp; létti þá þokunni lítið eitt frá svo hann sér fyrir sér dal einn, mikinn og fagran. Í dal þessum er byggð mikil og margir bæir, en þó ber einn bærinn af öllum. Bjarni gengur þá í dalinn og að þessum stóra bæ. Þar kemur stúlka til dyra. Hann biður hana skila til húsráðanda að hann biðjist húsa; kemur stúlkan jafnskjótt aftur með þau orð að hann fái að vera; fylgir stúlkan Bjarna í bæinn og í afsíðis herbergi og fer síðan út. Hann undrar það að stúlka þessi er svo ógnarlega lík Margréti systur hans og það svo að þetta vekur upp fyrir honum angursamar tilfinningar og liggur honum við að gráta. Um kvöldið kemur sama stúlkan til hans, færir honum mat, lætur hann hátta og tekur vosklæði hans. Sefur hann þarna um nóttina að mestu leyti óhræddur. Um morguninn færir stúlkan honum mat og önnur föt, segir að hans föt hafi verið vot, enda fái hann ekki að fara í dag því nú sé sunnudagur og ætli faðir sinn að messa. Eftir þetta kemur til hans maður á rauðum kjól. Hann segir: „Komdu sæll Bjarni minn,“ og spyr hvort hann vilji koma með sér í kirkju. Bjarni er því ekki fráleitur. Fara þeir nú í kirkju og er margt fólk við kirkjuna og fer messan vel fram. Þegar messan er nýbyrjuð kemur kona í kirkjuna; hún heldur á barni og leiðir annað við hlið sér, en stúlkan gengur með henni sem Bjarni hafði áður séð. Nú undrar hann hvað kona þessi er lík systur hans; sýnist honum enda hún vera það þó honum þyki það ótrúlegt.

Nú líður messan og fer prestur með honum inn í bæ. Hann spyr þá Bjarna hvað hann sé að fara. Hann segist leita að fé föður síns. Hann spyr hvort hann þekki sig. Ekki kveðst Bjarni vera viss um það. Hann spyr hvort hann hafi ekki einu sinni farið á grasafjall. „Já,“ segir Bjarni og kvaðst ekki geta á það minnzt. Prestur tekur upp dósir og sýnir honum og spyr hvort hann þekki þessar dósir. Bjarni segir: „Já.“ Prestur kvaðst nú vera sá sami maður sem komið hefði til hans á grasafjallinu. „Er það mér að kenna,“ segir hann, „að þú ert hingað kominn, ég villti þig hingað í þokunni. Þegar systir þín var hjá þér á grasafjallinu þá náði ég henni, en lét þér sýnast að hún væri dauð, og skal ég nú sýna þér hana til sannindamerkis.“ Kom þá systir Bjarna til hans með börn sín, heilsar bróður sínum og kveðst lifa hér góðu lífi og sé prestur þessi maður sinn sem sé mjög góður við sig. Bjarni ætlar lengi ekki að trúa, en getur þó ekki neitað að þetta sé systir sín. Þau faðma hvort annað, en Bjarni grætur gleðitárum. „Hér er nú fé föður þíns,“ mælti prestur, „og er það mér að kenna að það er komið hingað. Vil ég að þú farir nú með féð og segir föður þínum frá þessum tíðindum, og vilji hann sjá dóttur sína þá komdu með honum hingað; vil ég veita honum þá gleði í elli sinni að hann fái að sjá dóttur sína og vita hvernig henni líður.“

Fer nú Bjarni með féð heim og segir föður sínum frá öllu. En hann getur ekki trúað sögunni í fyrstu; er nú ekki annars getið en að bóndi og sonur hans flytja með allt sitt í dalinn og að þar verður fagnaðarfundur mikill. Fær Bjarni systur prestsins fyrir konu og fer að búa í dalnum. Er svo sagt að fólk þetta lifir allt góðu lífi í dalnum til elli og kann ég ekki þessa sögu lengri.