Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Gunnar og Ólöf
Gunnar og Ólöf
Það var einu sinni bóndi í Bárðardal. Hann átti væna konu og með henni einn son er Gunnar hét; hann var mjög fríður og vel að sér um alla hluti. Foreldrar hans unnu honum mjög og hann var þeim líka mjög eftirlátur. – Á næsta bæ voru önnur hjón. Þau áttu eina dóttir er Ólöf hét; hún var mjög fríð og vel að sér í öllum kvenlistum. Voru þau Ólöf og Gunnar fríðust þar af ungu fólki og mjög líkt um aldur þeirra. Oft kom Gunnar og fann Ólöfu og sat hjá henni og var það mál manna að þau mundi vilja ná saman, en foreldrar Ólafar vildu ekki að Gunnar ætti hana og stóðu á móti því. Hjá þeim var vinnumaður er Björn hét; hann vildi eiga Ólöfu og spillti því á allar síður að Gunnar fengi hana, en hún vildi ekki Björn.
Nú bar svo til eitt kvöld seint sumars að Ólöf gekk út og voru allir háttaðir. Nú leið langur tími að ekki kom Ólöf inn. Fór þá fólkinu að lengja eftir henni. Fór móðir hennar á fætur til að vitja um hana; leitaði hún úti og inni og fann Ólöfu hvörgi. Fór þá konan inn aftur við svo búið og sagði tíðindin. Þá héldu allir að hún hefði farið að finna Gunnar. Nú fóru allir að sofa og leið nú af nóttin að ekki kom Ólöf. Um morguninn strax var farið að leita að Ólöfu á bæ Gunnars og var hún ekki þar og Gunnar horfinn líka; var þeirra leitað víða og fundust hvörgi. Var það allra manna mál að þau hefðu strokið. Féll það mjög illa foreldrum þeirra og verstur varð Björn af því að missa Ólöfu. En samt var hann kyr hjá hjónunum.
Nú liðu mörg ár þar til eitt haust að það vantaði margt af fjallafé víða í sveitinni og einna mest hjá foreldrum Ólafar. Nú tóku sig saman nokkrir menn að gjöra eftirleit, því það var bezta tíð um haustið. Nú bjuggu þeir sig til ferðar með nesti og allan góðan útbúnað er þeir þurftu með. Líka höfðu þeir tjald að sofa í og var Björn forsprakki þeirra. Og þegar þeir voru ferðbúnir héldu þeir á stað einn morgun og allir ríðandi. Nú leita þeir um fjöll, heiðar og dali og finna ekkert og var það búið að ganga í marga daga. Svo halda þeir fram á öræfi og leita víða og fundu enn ekkert.
Eitt kvöld þá þeir eru setztir að í tjaldi sínu þá koma þeir út áður en þeir fóru að sofa; var þá gott veður og tunglsljós og stóð lítil gola af jöklum. Þá finna þeir reykjarlykt úr golunni. Þetta þykir þeim undarlegt af því þeir voru komnir svo langt frá mannabyggðum. Þá segir Björn við menn sína: „Hér mun ekki vera langt frá einhvörjir menn og skulum við fara að leita að þeim og finna þá.“ Nú gjöra þeir að þeir fara á stað og halda í goluna á reykjarlyktina og ríða hvað þeir geta langan tíma þar til þeir sjá lítið kot. Þá segir Björn: „Nú skulum við fara hljótt og ríða á bak við kotið og fara þar af baki. Þar skulu þið bíða mín, en ég ætli að ganga heim og vita hvörs ég verð var.“ Nú gjöra þeir þetta, en Björn gengur heim. Sér hann þá að bærinn er opinn. Þar gengur Björn inn og inn göngin þar til hann kemur fyrir eldhúsdyr; þar sér hann kvenmann og er að færa slátur upp úr potti í trog; hann þekkir það er Ólöf. Nú gengur Björn inn lengra þar til að hann kemur að baðstofu. Hann lítur fyrir ofan hurðina og sér þar situr maður á rúmi og styður hönd undir kinn sér; hann þekkir að það er Gunnar. Nú gengur Björn fram aftur og fer nú hægt þar til hann er kominn fram fyrir eldhúsið; þar stendur hann kyr þar til að Ólöf gengur inn með sláturtrogið, en hún gáir ekkert að komumanni. Björn gengur á eftir henni. Þegar Ólöf kemur til Gunnars réttir hún að honum trogið og segir um leið við hann: „Ettu nú, Gunnar minn.“ Hann segir: „Nú get ég ekki étið því nú er ég skammlífur.“ Þegar Björn heyrir þetta þá gengur hann út og til manna sinna og segir þeim frá hvað hann hafi orðið var við og hann hafi séð Gunnar og Ólöfu. Og nú segir hann þeim að koma með sér. Fara þeir nú og Björn á undan. En þegar þeir koma heim að bæjardyrunum þá gengur Gunnar út og í því hleypur Björn að honum og rekur Gunnar í gegn með knífi og lét hann þar líf sitt; og þótti þeim það illt verk sem með Birni voru.
Nú tekur Björn Ólöfu og fer með hana heim til foreldra hennar, en hún var mjög stúrin af fráfalli Gunnars. Var Ólöfu tekið vel, því allir kenndu í brjósti um hana. Nú bað Björn að gefa sér Ólöfu, en hún aftók að eiga hann og sagðist þá drepa sig ef sér væri nauðgað til þess, því hann hefði ekkert átt með að drepa Gunnar og svo hefði hann gjört það með svikum. Þegar yfirvöldin fréttu að Björn hafði drepið Gunnar þá þótti þeim það illt verk af honum og sögðu að hann hefði ekkert átt með það og það hefði verið þeirra að gjöra við hann hvað þeim hefði líkað. En fyrir það að Gunnar var sem strokumaður þá var Björn ekki drepinn, heldur var hans allt upptækt sem var mikið af peningum og öðru fleira og svo rekinn í burtu langt úr sveitinni og er hann svo úr sögunni.
En það er af Ólöfu að segja að hún vildi aldrei giftast og vildi þó margur eiga hana. Hún lét sækja í kotið það sem þar var af fémunum og átti hún það sjálf sem ekki var mikið. Svo var hún hjá foreldrum sínum á meðan þau lifðu og eftir þeirra fráfall fékk hún eigur þeirra. Eftir það var hún sjálfrar sinnar, tók dreng til fósturs sem Gunnar hét og gaf honum allt sitt eftir sinn dag. – Og er svo búin saga þessi.