Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Gunnar ráðsmaður, Svanborg og Sumarfríður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Gunnar ráðsmaður, Svanborg og Sumarfríður

Á bæ einum í Skagafirði bjó einn ríkur bóndi er Eyjólfur hét. Hann átti eina dóttur barna er Svanborg hét; hún var hin fagrasta mær og góður kvenkostur að öllum listum. Hún var á seytjánda aldursári þá saga þessi gerðist. Bóndi hélt ráðsmann er Gunnar hét; hann var fríður sýnum, svartur á skegg og hár, mikill að vexti og vissu menn ei gjörla afl hans. Hann átti tvo hesta, brúnan og gráan, er báru af flestum hestum þar í byggðarlagi.

Eitt sinn kom Gunnar á tal við bóndadóttur þess erindis að biðja hennar sér til eiginkonu, en hún tók því allvel; þó með þeim móti að faðir sinn væri því samþykkur. En hún sagðist búast við að honum mundi þykja hann bæði fátækur og af lágum stigum kominn. Eftir það slitu þau samtalið. Nokkru síðar vekur hann bónorð sitt við bónda og biður dóttur hans, en hann tekur því langt fjarri og þykist hafa tekið Gunnar af sveit lúsugan og auðvirðilegan á allan hátt og kveðst ekki láta dóttur sína í höndur á soddan förukallssyni sem ekki eigi svo mikið sem leppana utan á sig. Lauk so samtali þeirra í þetta sinn og varð mjög fátt í milli þeirra á eftir. Næsta vor eftir kom bóndi dóttur sinni í annað hérað langt í burtu til eins vinar síns til að sporna við samfundum þeirra Gunnars og hennar því hann gat ekki eingang vitað að hann fengi að sjá hana og því síður að þau gæti nokkurt orð saman talað. En það sama vor vóru þeir báðir staddir í kaupstað bóndi og Gunnar, og var mikið fjölmenni þar saman komið og vóru þá margir ölvaðir og bar þeim þá margt á góma. Var þá tilrætt um fagrar stúlkur og vel menntaðar, meðal hvurra bóndi minntist á dóttur sína og gerði mikið úr fríðleik hennar. En þegar Gunnar heyrði Svanborgu nefnda varð hann bæði hryggur og gremjufullur. Kom þá fram í orðræðum þeirra hvar mundi vera að finna fagrasta mey í öllum Skagafirði. En þegar Gunnar heyrði það kveðst hann mundi geta komið með miklu fríðari stúlku úr óbyggðum heldur en þeir þó þeir leiti um allan Skagafjörð. Lauk so að þeir slógu veð Eyjólfur bóndi og Gunnar um tvö þúsund dali (og var álitið að jörðin og allt búið bónda gerði ei betur en hrökkva til), að Gunnar sagðist skyldi koma með mikið fríðari og betur menntaða stúlku úr óbyggðum heldur en bóndi, enda þó hann leitaði um þrjár sýslur. Og nú var til tekinn sá 16. september um haustið sem átti að vera stefnudagur þeirra. Eftir það ríða menn heim.

Gunnar fór til starfa sinna og nú byrjast sláttur. Alltaf var Gunnar við verk sitt þangað til þremur dögum fyrir fjallleitirnar. Gengur hann þá fyrir bónda og mælti: „Nú segi ég þér upp vinnu minni og mun ég ekki fleiri verk fyrir þig vinna.“ Að því mæltu gengur Gunnar í smiðju og smíðar kröftug járn undir hesta sína og stóran járnhún á svipuskaft sitt. Eftir það járnar hann hesta sína og býr sig so skyndilega í burtu og ríður nú upp fjöll og hálsa og heldur nú til jökla. Ríður hann nú eftir hraunum lengi þar til hann kemur á dalbrún eina; heyrir hann þá hó mikið. Hann gengur á hljóðið þar til hann sér mann sem rekur fjárhóp á undan sér; hann var lágur vexti, en gildur mjög. En er hann sá Gunnar æpir hann ógnarlega. Stígur þá Gunnar af baki og býst til varnar. Hlaupa þeir þá saman. Reiðir nú Gunnar strax svipuskaft sitt og kemur það í höfuð á dalbúa so hann féll í ómegin. Gunnar stumrar þá yfir honum litla stund þar til hann sækir vatn í hatti sínum og dreypir á hann; raknar hann þá bráðum við. Býður Gunnar honum þá líf með þeim móti að hann lofi því að verða sér trúr og veita sér lið ef sér liggi á. Hann lofar því og kveðst allt vilja til vinna og segist skuli verða honum trúr í öllu ef hann gefi sér líf. Lét Gunnar hann þá upp standa og talast þeir nú við litla stund. Tekur þá dalbúi til máls og segir að í þessum dal búi foreldrar sínir og eigi þau þrjá syni og eina dóttur; „og er ég yngstur bræðra minna,“ segir hann. „Faðir minn er gamall orðinn og undireins er hann sá mesti mannhatari við sveitafólk, og öngvan mann lætur hann lifandi héðan komast sem í þennan dal kemur og hann augum lítur. Systir mín er so fríð og fögur að aldrei hef ég augum litið eins dægilegan kvenmann. Eftir því er hún að öllum kvenlegum listum prýdd að varla munu finnast margar hennar líki; og er það ekki að furða því hún hefur verið í fjögur ár í kennslu hjá þeirri mestu konu í Ódáðahrauni er ég til þekki. En ef þú vilt heim fara þá vara ég þig við því að á leiðinni eru báðir bræður mínir; þeir eru að smala fé sveitabænda því það er vani okkar á hvurju hausti fyrir göngurnar, og erum vanir að reka heim þrjú hundruð á hvurju hausti. En ef þú vilt endilega heim fara, þá verður fyrst fyrir þér yngri bróður minn og hefur hann miklu meira afl en ég, og seg þú honum að þú hafir hitt mig og yfirunnið mig og gefið mér líf, og haf þú hatt minn til sannindamerkis að þú hafir satt að mæla,“ – og skiptu þeir svo um höfuðföt.

Eftir það skilja þeir og gengur nú Gunnar eftir leiðsögn dalbúa þar til hann sér hvar maður rekur fé með miklum ákafa. Kallar þá Gunnar til hans og biður hann að bíða. Lítur hann þá við og sér að Gunnar brúkar hatt bróður síns. Hrópar hann þá til hans með óttalegum hljóðum og segir hann hafi drepið bróður sinn því hann þekki hatt hans á höfðinu á honum. Kemur þá Gunnar öngvu orði fyrir sig því hann hlýtur strax að búast til varnar. Hleypur þá smalamaður að Gunnari og reiðir öxi stóra er hann bar í hendi. Hleypur þá Gunnar undir höggið og grípur um hann miðjan. Lætur hann þá strax öxina lausa og takast þeir nú á allsterklega. Fann Gunnar strax að við mikinn aflsmun var að eiga, en neytti þess að hann var liðugri. Berast þeir nú víða um völlinn þar til fjallabúa verður fótaskortur so hann féll. Biður hann þá Gunnar að gefa sér líf. Játar hann því með þeim móti að hann lofi því að verða sér trúr og veita sér lið ef hann þurfi með; játar hann því. Lét Gunnar hann þá upp standa. Þakkar þá fjallabúi Gunnari lífgjöfina og segir honum: „Það er nú það fyrsta ef þú vilt fara heim og finna föður minn að þá er bróðir minn hér á leið þinni og hefur hann tvöfalt afl við mig og er ákaflega grimmur og vondur sem faðir minn. En öxi mína gef ég þér til sannindamerkis að þú hafir yfirunnið mig og mun hann þá nokkuð til vægja þegar hann veit að þú hefur gefið mér líf og okkur báðum bræðrum. En kappkosta skaltu að reyna fangbrögð við hann, en ekki höggorustu.“ Að so mæltu skilja þeir.

Gengur nú Gunnar lengi þar til hann heyrir hó mikið. Sér hann þá hvar maður er á ferð og er mikill vexti og stefnir nú Gunnar til hans. En er hann á skammt til hans stígur Gunnar af hesti sínum, leysir ístaðið frá hnakknum sínum og vefur ólinni um hönd sér og fleygir frá sér öxinni so hún trylli hann ekki eins og hatturinn þann fyrri. Eftir það verður fjallabúa litið við og sér hvar Gunnar stendur við hest sinn. Hleypur hann þá að honum með óttalegu ópi og óhljóðum. Biður þá Gunnar hann að standa lítið eitt við og lofa sér að tala fáein orð við hann, en hann kvað nei við og mælti: „Undarlega hefur þú komizt hjá báðum bræðrum mínum og er það annaðhvurt að þú hefur gengið frá þeim báðum dauðum eða þú hefur villt fyrir þeim sjónir so þeir hafa ekki séð þig, og skaltu nú ekki lengra fara og var vel að við fundustum.“ Í því slær Gunnar ístaði sínu á handlegg risans so upphandleggurinn molast í sundur og við það linast hann mikið. En þó var grimmd hans so mikil að hann hleypur á Gunnar og takast þeir nú á allsterklega og þykist nú Gunnar fljótt finna að ekki hafi hann annarar handar afl við risa; og hvar sem hann tók til heila handleggnum finnst Gunnari sem hann klípi þar hold frá beini. En fyrir það að hann bilaði handlegginn mæddist hann um síðir og féll loksins um stein einn er fyrir honum varð. Stundi hann þá mæðulega og mælti: „Nú er so komið að sveitamaður á ráð á lífi mínu og hélt ég það mundi aldrei upp á koma, og máttu nú gera hvurt þú vilt, drepa mig hér strax eða gefa mér líf, og skal ég þá veita þér lið ef þú þarft á að halda.“ Þá mælti Gunnar: „Ég hef yfirunnið báða bræður þína og gefið þeim báðum líf og vil ég slíkt hið sama við þig gera.“ En er fjallabúi heyrði það að hann hafði gefið bræðrum sínum líf hljóp hann á háls Gunnari og kyssti hann og um leið sagði að hann skyldi fá systir sína, því hann væri hennar einn verðugur, en enginn annar. „En nú hlýtur þú að bíða hér þangað til annað kvöld um þetta leyti því þá komum við allir bræðurnir saman og þá skal ég fylgja þér heim og afhenda þér systir mína.“ En Gunnar kveðst ekki mega það, því að sá tiltekni tími sé þegar liðinn sem hann megi vera í burtu – „so er það annað að mig fýsir sem fyrst að komast heim og sjá systir þína so ég viti hvurt þið bræður hafið sagt mér hið sanna af henni.“ Þá segir fjallabúi að hann skuli vara sig við að fyrir innan túngarðshliðið sé bringuhár eggjasteinn og þar sé faðir sinn vanur að hryggbrjóta alla sem hann ráði ekki við á annan hátt. Eftir það skilja þeir.

Heldur nú Gunnar heim eftir tilsögn fjallabúa þar til hann kemur að stóru túngarðshliði. Fer hann þá af baki af gráa hestinum og á þann brúna því hann var langtum sterkari, og ríður so heim á hlaðið og að dyrunum. Slær hann þá ofurlítið á dyrnar rétt so naumast skyldi inn heyrast, en situr kjur á hestbaki. Litlu síðar kemur stúlka til dyranna; var hún so fríð og fögur að aldrei þykist hann slíka séð hafa. Hann heilsar upp á hana, en hún tekur því lágt. Hann biður hana að gefa sér að drekka. Hún fer inn og kemur skjótt út aftur og bar honum fulla mjólkurkönnu, en hann drakk fljótt og réttir henni síðan könnuna og þakkar henni fyrir. Segir hún þá við hann að hann skuli fara varlega því faðir sinn sé sofandi, en vakni bráðum. Kveður hann hana þá því hann þorði ekki að haldast þar við lengur og hugsar sér nú að fara og finna bræðurnar aftur og ríður nú á stað úr hlaði í þungum þönkum. Veit hann þá ekki fyrri til en kall er kominn út og þrífur í tagl á hestinum sem hann reið og kastar honum flötum so Gunnar hraut langt út á völl, en stóð þó skjótt á fætur aftur. Beið þá kall ekki lengi þar til hann hleypur á Gunnar. Dró þá Gunnar ekki af afli sínu og gat þó naumast varizt falli. Glímdu þeir so alllengi að kall kom honum ekki af fótunum; en hvar sem kall tók á honum var rétt sem hann kreisti þar hold frá beini so Gunnar atlaði naumast að þola hans grimmdarlegu átök. En þá kall fann það að honum tókst ekki að koma Gunnari af fótunum þá lét hann leikinn færast ofan með túngarðinum. Þóttist þá Gunnar vita að hann muni atla sér á steininn þann fyrnefnda, en lætur þó berast að steininum. En er þeir vóru komnir nærri steininum tekur Gunnar af alefli ofan yfir handleggi báða á kalli og yfrum hann og í sama bili stökkur hann yfir steininn og lét kall falla á bringsmalirnar. Gengu þá inn bringuteinarnir so hann lá sem dauður væri.

Í þeim svifunum koma bræðurnir hlaupandi og ötluðu að fara að vitja um Gunnar því þeir vóru orðnir hræddir um líf hans. Var hann þá setztur á þúfu nærri sprunginn af mæði og örkumslum. Þótti þeim bræðrum vænt um að sjá Gunnar lifandi, en ekki er getið um að þeim hafi neitt mislíkað þó þeir sæi föður sinn hálfdauðan. Báru þeir hann þá heim; fer hann þá að smáhressast aftur. Segja þeir bræður honum þá að Gunnar hafi gefið honum líf og þeim öllum. Verður þá kall ákaflega reiður og lætur kalla til sín Gunnar og skipar honum að höggva af sér höfuðið því líf vilji hann ekki þiggja af sveitamanni. En Gunnar vill það öngvan veginn gera og biður hann heldur að gefa sér dóttur sína og skuli þeir so skilja sáttir. Ekki var kalli það ljúft, en þó fyrir fortölur bræðranna varð það um síðir að kall sagði að hún skyldi fara með honum. Var hún þá búin heiman að með tveimur hestum klyfjuðum af peningum og alslags gersemum. Kveður hún so foreldra sína og bræður. Stígur hún so á Brún Gunnars og ríður hann so heim með hana og var þá stefnudagur Eyjólfs og Gunnars að morgni. Morguninn eftir gengur hún til laugar og býr sig so í þann fagrasta búning er hún átti til í eigu sinni. Gengur so Gunnar síðastur á þingið og leiðir með sér Sumarfríði. En er hann kom á þingið með hana þótti hún bera langt af öllum, en áður bar Svanborg af öllum er fyrir sátu, og vóru þær þó fimmtán að tölu. En nú bar Sumarfríður so langt af henni bæði að fríðleik og öllu því sem nokkurn kvenmann kann að prýða. Eftir það skipar Gunnar Eyjólfi bónda að greiða veðféð, en hann kvaðst ekki geta það nema hann léti bú sitt eins og það væri og jörðina líka. En Gunnar kveðst ekki eiga að sjá fyrir því og segist vilja hafa veðféð. Varð so bóndi að láta jörðina og aleigu sína. Síðan bauð hann Gunnari Svanborgu dóttur sína til eiginkonu, en hann þáði ekki. Settist þá Gunnar í bú Eyjólfs bónda og var þá strax haldið brúðkaup þeirra Gunnars og Sumarfríðar og bjuggu þau þar í tuttugu ár. Ekki er getið um að þau hafi átt börn utan einn son er Goðfreyr hét og er sagt að mönnum hafi þótt hann vera fremur illur og ódæll þegar honum mislíkaði eitthvað. Einn vetur tók Sumarfríður sótt og andaðist og var það sá tuttugasti vetur frá því þau komu saman.

En það er frá Svanborgu að segja að í þessi tuttugu ár var hún alltaf ógift því hún gat ekki þýðzt nokkurn mann þegar hún fekk ekki að eiga Gunnar. En eftir dauða Sumarfríðar giftist Gunnar Svanborgu og er sagt að hann hafi elskað hana langtum meir en þá fyrri. Ekki er getið um að þau hafi átt nein börn. Saman bjuggu þau til elliára og unntu hvurt öðru mikið meðan þau lifðu. Og endar hér sagan af Gunnari ráðsmanni.