Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Hálfdan í Möðrudal og vinnumaður hans
Hálfdan í Möðrudal og vinnumaður hans
Það var einu sinni ríkur bóndi í Möðrudal á Fjöllum sem Hálfdan hét; hann átti fjölda sauða. Bóndi hélt þrjá vinnumenn; einn af þeim passaði sauði bónda á vetrum og stóð jafnan yfir þeim. Eitt haust um veturnætur gjörði hríð og snjó mikinn svo það varð nærri jarðlaust. Þá bar svo við að vinnumaður hvarf í burtu með alla sauðina. Bóndi lét leita hans vandlega í marga daga, en vinnumaður fannst hvörgi og ekkert af sauðunum. Af þessu varð bóndi mjög aumur og hélt að allt væri dautt. Nú leið veturinn fram að jólum að á aðfangadagskvöldið þá allir sátu inni á heimili bónda að borða jólanæturveizluna þá kemur vinnumaður inn í baðstofuna og heilsar upp á bónda og er vel kátur og frískur. En bóndi tekur honum vel og gleðst mjög af komu hans og býður vinnumanni að setjast hjá sér og lætur bera honum nógan mat. Nú fer bóndi að spyrja vinnumann að hvar hann hafi verið, en vinnumaður segir að hann varði ekkert um það og hann megi vera ánægður að hann hafi séð sig lifandi og allir sauðirnir hans séu lifandi. Nú var vinnumaður um jólin, en eftir þau hvarf hann og vissi enginn hvört hann fór. Nú leið af veturinn og bar ekkert til tíðinda. En á sumardaginn fyrsta kom vinnumaður með alla sauðina og færði bónda og höfðu aldrei verið eins feitir á neinu vori.
Nú líður sumarið allt að hausti og um sömu mundir hverfur vinnumaður með alla sauðina eins og hið fyrra haust. Ekki varð bónda mikið um það því hann hugsaði að vinnumaður mundi koma aftur – eins og varð, að á aðfangadagskvöldið fyrir jól kom vinnumaður inn í baðstofu þá bóndi og fólk hans var að borða. Hann heilsar upp á bónda; hann tók því vel og lætur hann setjast hjá sér og lætur færa honum að borða. Nú spyr bóndi vinnumann hvar hann hafi nú verið. Vinnumaður segir: „Ég hef verið í sama stað og í fyrra og enn eru allir sauðir þínir lifandi.“ „Það þykir mér gott,“ segir bóndi, „en samt er ég ekki ánægður nema þú segir mér hvar þú hefur verið.“ „Það færðu aldrei að vita,“ segir vinnumaður. Nú skildu þeir talið. Eftir jólin ætlar vinnumaður í burtu, en gat það ekki því bóndi sat um hann. En samt fór svo að einu sinni þá bóndi lagði sig út af og sofnaði litla stund þá fór vinnumaður á meðan. Nú þegar bóndi vaknaði saknaði hann vinnumanns og þótti það miður, en hann mátti hafa það svo búið. Nú leið veturinn þar til á sumardaginn fyrsta; þá kom vinnumaður með alla sauðina og færði bónda og voru í bezta útliti. Nú var vinnumaður heima um sumarið.
En um haustið í sama mund og áður hvarf vinnumaður með alla sauðina. Þegar bóndi vissi það tók hann ungan og alinn hest sem hann átti og setti hann inn í hús og ól hann á töðu til þess að hafa hann til þá vinnumaður kæmi. Á aðfangadagskvöldið fyrir jól kom vinnumaður eins og hann var vanur inn í baðstofu þá allir sátu undir mat sínum og heilsar bónda; hann tekur vel vinnumanni og býður honum að sitja hjá sér og lætur sækja honum að borða. Nú spyr bóndi vinnumann hvar hann hafi verið. Vinnumaður segir: „Í sama stað og hina veturnar og allir eru sauðir þínir lifandi.“ Þá segir bóndi við vinnumann: „Segðu mér nú rétt og satt hvar þú hefur verið.“ Þá segir vinnumaður: „Það færðu aldrei að vita.“ Þá segir bóndi: „Ég sleppi þér þá aldrei í burtu.“ „Þú hefur verst af því sjálfur,“ segir vinnumaður, „því þá færðu aldrei sauðina þína.“ Skildu þeir svo talið og þótti báðum miður. Nú liðu jólin og þá ætlaði vinnumaður að fara eins og hann var vanur, en hann komst það ekki því bóndi passaði hann. Nú liðu enn nokkrir dagar að ekki komst vinnumaður. Gengur hann til bónda og biður hann að sleppa sér – „því nú er ég búinn að vera miklu lengur en ég lofaði og fyrir það verð ég drepinn.“ Bóndi segir: „Segðu mér þá hvar þú hefur verið.“
„Ég er búinn að segja þér það nokkrum sinnum að ég gjöri það aldrei,“ segir vinnumaður. „Ég sleppi þér þá aldrei,“ segir bóndi. Vinnumaður anzar öngvu, en gengur í burt mjög reiður.
Litlu þar á eftir bar svo við að bóndi hafði lagt sig út af og sofnaði litla stund, en á meðan fór vinnumaður í burtu. En þegar bóndi vaknaði saknar hann vinnumanns og veit að hann muni vera kominn í burtu, hleypur út og sér eftir hann slóðina hvar hún liggur frá bænum. Hann hleypur inn og grípur hnakk sinn, hleypur út að húsinu þar sem hestur hans var inni. Bóndi tekur hestinn, leggur á hann hnakkinn, stekkur á bak og ríður eftir vinnumanni og nær honum. Þegar vinnumaður sér að bóndi er kominn til hans spyr hann bónda hvað hann ætli að fara. Bóndi segir: „Ég ætli að fylgja þér eftir.“ Vinnumaður segir: „Þér er það ekki til neins nema kannski til ills eða viltu sjá að ég verði drepinn fyrir það sem þú ert búinn að halda mér svo lengi?“ Bóndi segir: „Segðu mér þá hvar þú hefur verið.“ Vinnumaður segir: „Það gjöri ég aldrei.“ „Svo fylgi ég þér eftir,“ segir bóndi. Nú heldur vinnumaður áfram og gengur í mesta flýtir, en bóndi ríður á eftir og það gengur lengi sem þeir halda áfram, þar til um síðir að bóndi sér eitt mikið fjall. Þangað stefnir vinnumaður, og í mitt fjallið sér bóndi að er skarð mikið. Nú heldur vinnumaður að fjallinu og það upp og stefnir á skarðið og nú halda þeir upp í það. Þegar þeir koma þangað þá sér bóndi í dal einn og á skarðsbrúninni við dalinn stendur stór steinn mjór að neðan, en mikið breiður ofan með stórum öxlum. Ekki gat bóndi séð ofan í dalinn fyrir steini þessum. Nú stefnir vinnumaður [á] steininn og þegar hann á ekki eftir að honum nema lítinn spöl stendur vinnumaður við og segir við bónda: „Viltu ekki snúa aftur?“ Bóndi neitar því. Þá segir vinnumaður við hann: „Gjörðu þá eins og ég segi þér, farðu af baki og teymdu á eftir þér hestinn og gakktu í sporin mín.“ Það gjörði bóndi. En þegar þeir eru komnir fast að steininum þá nemur vinnumaður staðar og segir við bónda: „Farðu nú ekki lengra; leggðu þig niður, haltu í hestinn og hyggðu undir steininn, en ég ætli að halda áfram og þá sérðu hvað af mér verður og hvar ég hefi verið. En mundu mig um það að þegar þú ferð í burtu að fara ekki á bak við steininn, heldur gakktu frá honum sporin okkar og teymdu hestinn þar til þú ert kominn þangað sem þú fórst af baki. Bóndi lofar þessu, en vinnumaður heldur áfram. Bóndi leggst niður og hyggur undir steininn og sér ofan í dalinn og var hann allur rauður. Í dalnum sá hann stóran og reisuglegan bæ og þar úti átján karlmenn og vóru að glíma. Og í því sér hann vinnumann sinn að hann gengur heim að bænum, en þegar dalabúar sjá hann hlaupa þeir allir á móti vinnumanni, fagna honum og leiða hann heim með sér. Þetta þótti bónda vænt um að sjá og gleðst af því að vinnumaður var ekki drepinn og því líka að hann er nú búinn að vita hvar hann hafði verið.
Nú hugsar bóndi með sér að það saki ekkert þó hann fari á bak við steininn, því dalabúar munu ekki gá að því. Stendur þá bóndi á fætur og stekkur á bak, en um leið hljóp hesturinn út undan steininum og sáu dalabúar bónda. Þá hleypur einn þeirra á stað, en bóndi sér að dalabúinn eltir sig. Slær hann þá hestinn og ríður þá bóndi það sem hann getur og hesturinn gat farið. Þegar bóndi er kominn nokkuð frá fjallinu lítur hann til baka. Sér hann þá að dalabúi er kominn á handahlaup á eftir sér. Nú segir ekkert af ferðum þeirra fyrri en bóndi er kominn að gróf einni sem er rétt fyrir sunnan túnið í Möðrudal. Þar nam hesturinn staðar og var þá fjallabúi nærri búinn að ná bónda. Þegar hann sér það slær hann hestinn svo hann hendir sig yfir grófina svo að bóndi var nærri hrokkinn af baki. Þá er dalabúi kominn að grófinni og nemur þar staðar og kallar til bónda og segir honum að standa við. Bóndi stillir hestinn og lítur til baka. Sér hann þá að fjallabúi er að hnoða saman snjó á milli handa sér. Bóndi vill ekki bíða eftir kökklinum og snýr við hestinum, og í því kastar fjallabúi á milli herða bónda svo fast að blóðgusa hrökk upp úr honum. Þá segir fjallabúi: „Hafðu þetta fyrir forvitnina.“ Fór svo fjallabúi sína leið, en bóndi reið heim og komst inn með veikum burðum, lagðist upp í rúm, lá í tvo daga og dó. En vinnumaður kom á sumardaginn fyrsta og færði ekkjunni alla sauðina, fór sem fyrst til baka og settist að hjá fjallabúum sínum.
Lýkur svo sögu þessari.