Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Hellismanna saga

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hellismanna saga

Það er sögn manna að á fyrri tímum hafi átján skólapiltar frá Hólum lagzt út. Segja sumir að sú hafi verið orsökin að þeir hafi drepið kerlingu eina á staðnum. Þeir gjörðu þá félag með sér og hétu hver öðrum tryggri fylgd og tóku sér bólfestu í Surtshelli hjá Kalmanstungu. Tvo kvenmenn höfðu þeir hjá sér. Þeir voru frá Kalmanstungu. Stúlkur þessar hurfu um kvöld þegar þær létust ætla út til að taka inn þvott. Var þeirra fyrst lengi og mikið leitað, en þegar aðgætt var um eigur þeirra vantaði margt það sem þær máttu sízt án vera, svo sem fatnað, nálar, skæri, hnífa og þar fram eftir. Þóttust menn þá vita hvað um stúlkur þessar hefði orðið og var þá hætt að leita þeirra. Sagt er að Hellismenn hafi átt börn með stúlkum sínum, en þeim hafi þeir drekkt, jafnóðum og þau fæddust, í tjörn þeirri sem er í hellinum. Þeir ræntu sauðfé manna um heiðarnar í kringum hellinn og ráku það heim til sín á haustin svo hundruðum skipti. Ráku þeir það fram að gati því hinu mikla sem er á hellisþakinu skammt fyrir innan dyrnar og hrundu því þar fram af svo þeir þyrftu ekki að vera að skera það; því það þótti þeim of mikil fyrirhöfn og umstang. En stúlkurnar tóku á móti fénu rotuðu þegar það kom niður og hirtu það og matreiddu. Af þessum aðförum Hellismanna urðu slæmar heimtur hjá bændum og báru þeir sig illa yfir því, en gátu ekki að gjört; því enginn vildi hætta sér í hendur hellisbúa. Ekki ræntu þeir bæi né drápu menn, en jafnan voru þeir með vopnum og margir saman. Ekki fóru þeir dult og það var siður þeirra að sækja kirkju að Kalmanstungu. Stóðu þeir þá í röð á miðju gólfi og sneru bökum saman. Vopn höfðu þeir á hlið svo ekki var aðgengilegt fyrir bændur að sækja þá þar þó þeir hefðu viljað. Þó gátu Hellismenn að lyktum ekki varazt svik sveitabúa.

Hvítsíðingar urðu fyrir hvað mestum skaða af sauðaránum Hellismanna. Þeir tóku því saman ráð sín um það hvernig þessum óaldarflokki yrði stökkt úr nágrenninu eða bani ráðinn. Gekkst þá bóndasonurinn í Kalmanstungu undir það að svíkja Hellismenn, en áskildi sér að bændur létu sig einan ráða aðferðinni og veittu sér trausta fylgd hvenær sem hann vildi. Var nú þetta að ráði gjört og er þess ekki getið að bóndasonurinn hafi áskilið sér laun af bændum fyrir starfa sinn.

Eftir þetta fór nú bóndasonurinn á fund Hellismanna, beiddi þá ásjár og kvaðst vilja ganga í félag með þeim. Hellismenn voru ófúsir á að taka við honum og sögðu að þar mundu svik búa undir. Hann neitaði því og vann þeim fúslega hina dýrustu trúnaðareiða. Tóku þeir þá við honum því þeim leizt rösklega á manninn og þótti ódrengilegt að reka þann frá sér sem flýði á náðir þeirra og þeir ættu alls kostar við. Nú var þá bóndason kominn í félag Hellismanna og vann það sem þeir vildu. Samt höfðu þeir jafnan gæzlu á honum. Leið svo hið fyrsta ár að hann sá sér ekkert færi á að komast burtu frá þeim eða vinna þá. Kunni hann þá illa við sig niðri í þó hann léti Hellismenn ekki verða þess vara.

Þegar haustið kom og vika var til gangna fóru Hellismenn að vana sínum að leita sauða. Allir fóru þeir í för þessa nema einn var eftir í hellinum hjá konunum. Þeir tóku og bóndason með sér. Gengu þeir vítt sem vegir liggja um heiðarnar og komu með ógrynni fjár aftur. Ráku þeir féð heim í Vopnalág og bjuggust þar um nóttina áður en þeir rækju féð heim að hellinum til slátrunar. Lögðust þeir allir í röð á lágarbarminn og stungu vopnum sínum niður í kringum sig. Er mælt að lágin dragi nafnið af þessum sið Hellismanna. Morguninn eftir risu þeir upp, ráku saman féð og fóru með það heim að hellinum. Hrundu þeir því ofan af gatbrúninni og gekk það fljótt. Bóndason gekk og að þessu starfi með þeim og mátti hann hafa það svo búið hvort sem honum líkaði það betur eða verr. Eftir þetta settust Hellismenn um kyrrt og lifðu eins og þeim líkaði bezt um veturinn. Nú fór bóndasyni að gjörast órótt í huga að hann gat hvorki komizt í burtu eða séð ráð til að vinna Hellismenn. Leið svo veturinn og sumarið fram að hausti. Gjörði þá bóndason sér upp veiki og lézt ekki geta farið í sauðaleitina með þeim og kaus sér að vera heldur heima og gæta kvennanna. Ekki þótti hellisbúum þetta tryggilegt, en létu þó loksins til leiðast. Átti þá bóndason að geyma hellisins með konunum. En til þess að vera vissir um að hann stryki ekki á meðan þeir væru að heiman skáru hellisbúar að mestu í sundur á honum hásinarnar á báðum fótum og létu hann enn vinna sér eiða að því að hann skyldi ekki svíkja þá. Að því búnu fóru Hellismenn burtu í sauðaleitina, en bóndason lá eftir í sárum. Gættu konurnar hans og græddu sár hans.

Nú þótti bóndasyni vænlegast að reyna að vinna á Hellismönnum þegar þeir kæmu úr leitinni aftur. Hann skreið því einhverja nótt burtu úr hellinum og vildi þá svo vel til, að hann fann hest skammt þaðan á eyrunum við fljótið. Hann tók hann og reið nú til byggða. Lét hann þá boð ganga um sveitirnar og stefndi að sér öllum vopnfærum mönnum. Varð það skjótt margmenni sem hann fékk og allir sæmilega vel búnir að vopnum eftir því sem auðið var. Sagði þá bóndason þeim ráð sitt og skoraði á þá að fylgja sér ódeiglega. Þeir riðu því næst á stað kvöldið sem bóndason vissi að Hellismenn voru vanir að koma í Vopnalág. Hafði hann margfalt meira lið en hellisbúar. Þeir riðu að öðrum enda lágarinnar; þar stigu þeir af hestum sínum og skyldu nokkrir af flokknum gæta þeirra svo hellisbúar gætu ekki náð þeim og komizt undan á þann hátt. Gjörir nú bóndason þá skipun á sem honum þótti bezt. Sagði hann að nú skyldu þeir ganga hljóðlega eftir láginni og taka vopn öll frá Hellismönnum sofandi. Síðan skyldi sá maður sem hann til tók ganga að þeim hellisbúa sem lægi í miðjum hópnum og hefði yfir sér valnastakk og höggva af honum höfuðið. „Ríður oss mikið á því,“ segir hann, „því sá maður verður oss skæður ef hann nær að komast á fæturna. Hann er langhraustastur allra Hellismanna og hafa þeir mikið traust á honum. Hann hefur búið sér til stakk úr sauðarvölum sem engin járn bíta.“ Þegar hann hafði þetta mælt gengu þeir allir samt eftir láginni og sjá nú hvar Hellismenn liggja og sofa. Fara þá bændur að þeim hljóðlega og taka vopn þeirra öll. Síðan vegur sá sem til var nefndur að manninum í valnastakknum, en náði ekki til svo höggið kom á annan mann sem næstur honum lá, og tók af honum höfuðið. Vöknuðu þá hellisbúar við illan draum og stukku á fætur. Þá segir einn þeirra: „Varaðu þig Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki!“ Varð nú aðgangur allharður. En af því hellisbúa vantaði vopn sín gátu þeir ekki staðizt mannfjöldann. Féllu þeir hver um annan þveran. Þó gátu bændur ekki drepið nema fáa af þeim þar í láginni og hlupu þeir víðs vegar, en hinir eltu þá og drápu þá hvar sem þeir náðu þeim. Þorvaldur var drepinn á Þorvaldshálsi, Geiraldur við Geiraldargnípu norður á Arnarvatnsheiði. [Atli var drepinn við Atlalæk, Ásgeir við Ásgeirsbrunn.[1] Þiðrik var drepinn við Þiðrikstjörn, Þórir við Þórishól og Böðvar við Böðvarshaug á Tvídægru. Vilmundur var drepinn hjá Vilmundarsteini fyrir utan Húsafell; Gunnlaugur á Gunnlaugshöfða við Hvítá. Sveinn féll á Sveinsstíg, en Þormóður við Þormóðslæk fyrir ofan Hallkelsstaði. Krákur var drepinn í Krákslág fyrir utan Hallkelsstaði. Gísli var drepinn í Gíslabrekkum og Mundi eða Guðmundur á Mundaflöt fyrir framan Haukagil. Einn af Hellismönnum hét Eiríkur. Honum er viðbrugðið fyrir hreysti og frækleik. Hann fór á handahlaupi upp undir jökulinn sem síðan er við hann kenndur og kallaður Eiríksjökull. Eiríkur hljóp upp gnípu eina norðan í jöklinum sem síðan er kölluð Eiríksgnípa. Voru þá sveitamenn svo nærri honum að einn þeirra hjó til hans svo af tók fótinn í öklalið. En Eiríkur komst samt úr höndum þeirra og upp á gnípuna. Þá kvað hann:

„Hjartað mitt er hlaðið kurt,
hvergi náir að skeika;
með fótinn annan fór ég á burt,
fáir munu' eftir leika.“

Bændur urðu þá frá að hverfa; því enginn treystist til að renna upp gnípuna, enda var þeim dauðinn vís sem það hefði reynt.

Þegar búið var að vinna á Hellismönnum fóru bændur heim að hellinum og ætluðu að taka konurnar og það sem þar væri fémætt. En konurnar vörðust vel og báru bæði eld og vatn sjóðandi á þá. Er það sagt að sveitamenn þóttust hér hafa komizt í mesta hættu og þeim hafi þótt verra að vinna konurnar en alla hellisbúa. En þó fór svo að þær urðu unnar eins og við var að búast af slíkum mannfjölda; því enginn má við margnum. Ekki er þess getið hvort þær voru drepnar eða ekki; þó er það líklegast. Þess er ekki heldur getið að mikið fémætt hafi fundizt í hellinum, en það sem þar var tóku sveitamenn með sér. Þeir tóku og sauðfé það allt sem þeir fundu og Hellismenn höfðu rekið saman og fóru heim með það.

Sumir segja að bóndasonurinn frá Kalmanstungu hafi með tímanum orðið albata af sárum sínum og setzt að búi í Kalmanstungu eftir föður sinn og hafi dáið þar í góðri elli. Aðrir segja að hann hafi sýkzt stuttu eftir dráp Hellismanna og hafi enginn getað læknað hann. Hafi hann lifað mörg ár við örkuml og seinast rotnað lifandi eða visnað upp áður en hann dó.

Enn aðrir segja öðruvísi frá. Þeir segja að Eiríkur hafi farið af gnípunni þegar sveitamenn voru heim komnir. Fór hann þá til sjávar, segja þeir, og kom sér í skip með farmönnum. Komst hann fljótt í vinfengi við skipverja og varð uppgangsmaður mikill og siglingamaður. Nokkrum árum eftir þenna atburð kom skip að landi við Reykjavík. Það var kaupskip mikið og frítt og hafði mikinn varning og góðan. Keyptu landsmenn fúslega af skipverjum og barst það út um landið að þessir kaupmenn gæfu, en seldu ekki. Flykktust þá sveitamenn að þeim hópum saman. Þangað fór og bóndinn frá Kalmanstungu, en það var sá sem fyrrum sveik Hellismenn. En þegar hann var kominn út á skipið kom maður upp á þilfarið sem landsmenn þóttust ekki fyrri séð hafa. Hann var hár vexti, þreklegur og að öllu hinn knálegasti maður. Hann var á rauðum kyrtli og gekk á tréfæti. Þessi maður gekk að bóndanum, tók í hann með hendinni og sagði að landsmenn skyldu allir í burtu fara ef þeir vildu halda lífi og limum. Er þá sagt að landsmenn yrðu hræddir og hrukku þeir ofan af skipinu og fóru í land. Sáu þeir þá að kaupmenn léttu akkerum þegar í stað, undu upp segl og létu í haf með sama. Þóttust menn vita að hér mundi verið hafa Eiríkur og hefði ætlað að launa bóndanum svikin. Hann átti og að hafa heitið því þegar hann stóð á gnípunni forðum að hann skyldi grimmilega hefna Hellismanna hvenær sem hann kæmi því við. Ekki vissu menn neitt framar um kaupskipið né Eirík né Kalmanstungubóndann eða hverja hegningu hann fékk. Og lýkur hér sögu Hellismana.

  1. Frá [ sleppa sumir.