Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón á Sauðá

Jón hét maður og var Einarsson og bjó hann að Sauðá í Hegranesþingi, karlmenni mikið svo kallaður var hann gildur tveggja maki; mundi fáir jafnokar hans að hraustleik nema Jón sterki á Hryggjum Þorsteinsson af Hrólfs sterka ætt. Voru þeir kallaðir sterkastir menn í Skagafirði á sínum dögum og þó víðar væri leitað. Jón á Sauðá var og farmaður mikill bæði til Drangeyjar og í hákarlalegum. Bróðir hans var Arngrímur á Gauksstöðum á Skaga, faðir Péturs á Geirmundarstöðum, glímumanns mikils og karlmennis.

Það varð er Jón Einarsson mundi nær hálfþrítugur að hann lá með grasafólki fram í Tjarnardölum eður Þjófadölum þar áður hétu Hvinverjadalir. Jón var einn karla við grösin og ynglingur allungur er Jón hét Jónsson Styrbjörnssonar er síðar var ýmist kallaður Jón stutti, Staðar- eða Vatnshlíðar-Jón og lengi var lausamaður; hefur hann frá þessu sagt, því ei vildi Jón Einarsson sjálfur um það ræða. Margt var kvenna með þeim á grasfjallinu. Var það þá í göngu einni er þoka var á að maður allgildlegur kom til einnar grasakonu þar hún var ein. Spurði hann hvaðan fólk þetta færi er hún var með. Hún segir sem var: „Úr Skagafirði.“ Frétti hann þá hvað margt karlmanna væri með því. „Einn,“ kvað hún „og ynglingur lítill; á hann að gæta hrossanna.“ Hún spyr þá hvaðan hann var. Hann lézt sunnan úr Biskupstungum. Skildu þau við það. Gat hún um þetta við tjaldið þá til svefns var gengið. Jón Einarsson kvaðst hyggja að maður sá hefði logið að henni hvaðan hann væri því engi tjöld lægi þar til grasa námunda sunnan eða austan; var að sjá sem honum þætti þetta grunsamt, en mælti ei um fleira.

Það var litlu síðar að Jón litli fór til hrossa og segir sig vanta þrjá beztu hestana og einn frá folaldsmeri er hann hefði aldrei við skilið. Jón Einarsson kvað það ei mannlaust orðið hafa, fór þegar af stað með sveininum og kvaðst sjá vilja hvað dyggilega hann hefði aðgætt. En er til hrossanna kom sá Jón að sveinninn hafði satt sagt. Tók Jón heim þá tvo hesta. Riðu þeir nú ei lengi áður Jón kæmi á þriggja hesta spor í moldflagi. Riðu þeir þá sem skjótast í þá átt er þau lágu. Leið og ei langt áður þeir sáu tvo menn ríðandi og teyma lausan hest. Þekkti Jón þar hesta sína. Kallar hann þá hátt og heimti að þjófar þeir sleppti hestunum. Var hann og maður skapbráður. Stöldruðu þeir þá við og báðu hann sækja þá ef hann þyrði og hefði þrek til. Jón hafði járnbúna svipu í hendi allþunga; en í því að þeir allir stigu af hestum vóð Jón að þeim og sló af öllu afli svipunni í höfuð öðrum þeirra svo hann svimaði við og rauk út af í öngvit, en sá eftir var réðist móti Jóni; glímdu þeir allsterklega; stóð svo langa hríð að ei sást fyrir hver af öðrum bera mundi, áður útilegumaðurinn féll. Kyrkti Jón hann þá; voru ærin umbrot hans meðan, en Jón skar þann í öngvitinu lá og var Jón þá svo afar reiður að hann æskti að leika mætti hann svo við fleiri þjófa og illræðismenn, dysjaði þá síðan í moldflagi einu, tók síðan hesta sína, en bannaði sveininum harðlega um að geta við neinn mann, og það enti Jón stutti meðan Jón Einarsson lifði þótt að síðar segði hann frá því; var og áður ymtur á því. Það hélt Jón stutti að líkast væri sem hamremmi eður berserksgangur færi að Jóni er hann fékkst við útilegumenn þessa; væri hann og nálega allt sumar það skaphægri en venja hans var til.