Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón Einarsson, Andrés Jónsson og útilegumennirnir
Jón Einarsson, Andrés Jónsson og útilegumennirnir
Einar hét maður; var hann Arngrímsson. Bjó hann á Gili í Borgarsveit. Oddný hét kona hans; ei vitum vér ætt hennar. Son áttu þau er Jón hét; var hann snemma mikilhæfur, harðger og skapstór þá hann var reiður, en spaklyndur og reiddist sjaldan. Annar son Einars hét Arngrímur. Er ei getið annars en Jón þroskaðist hjá foreldrum sínum þar til hann var nítján vetra; var hann þá sem fullorðnir menn að afli og vexti. Arngrímur bróðir hans var og mikilhæfur maður.
Andrés hét maður; ógjörla vita menn ætt hans; halda menn hann hafi verið Jónsson, máske bróðir Oddnýjar móðir Jóns Einarssonar, en víst var Andrés náfrændi Jóns. Var Andrés þennan tíma mjög við aldur, en samt var hann mjög mikilhæfur, sterkur og harðger. Þennan tíma tíðkuðust mjög grasaferðir, bæði úr Hegranessþingi og úr flestum héröðum landsins. Fóru þeir vestur á Kúluheiði til grasa frændur, Jón Einarsson frá Gili í Borgarsveit og Andrés; var hann bóndi í Borgargerði skammt frá Sjáarborg. Voru með þeim þrír kvenmenn og fóru þau fimm saman vestur í Búrfjöll; liggja þau að austanverðu við Langjökul til landsuðurs og útnorðurs rétt við jökulinn. Lágu þau þar um tíma og grösuðu lítt.
Einn góðan veðurdag tóku þeir frændur Jón og Andrés hesta sína og riðu langt burtu frá stúlkunum. Segir ekki af ferðum þeirra fyrri en þeir komu í eina fagra grasbrekku. Fóru þeir þar af baki og vóru þar svo mikil grös að þeir þurftu ekki annað að gjöra en sópa þeim saman með höndum sínum og láta í pokana; stóðu hestarnir á meðan hjá þeim með söðlunum. Nú sjá þeir hvar þrír menn gengu og stefndu að þeim; var einn þeirra mikill vexti svo ekki höfðu þeir slíkan séð, og tveir minni, en þó báðir miklir; allir báru þeir lagvopn í höndum og voru á sauðsvörtum prjónafötum. En er þeir voru komnir svo nær að heyra mátti mál þeirra mælti sá stóri: „Ég skal glíma við manninn, en þið báðir skuluð taka strákinn.“ Jón hleypur að hesti sínum og tekur tygilkníf sinn, skar ístaðið frá hnakk sínum; var það úr járni, mjög stórt og þungt og járnsviptur við það eins og gömlu ístöðin voru. Nú voru þeir komnir og stendur Jón þeim megin við hestinn, en útilegumennirnir hinumegin. Reiðir Jón þá upp ístaðið og slær af öllu afli framan á höfuð útilegumannsins með svo miklu afli að höfuðið brotnaði og heilinn rauk úr brotunum og hann féll dauður niður. Sá sem eftir stóð réð þegar á Jón; glímdu þeir allsterklega hvörutveggju. Féll útilegumaðurinn um síðir. Er þá sagt að Jón næði ekki vopni til að drepa hann og biti þess vegna sundur í hönum barkann. Á meðan glímdi hinn útilegumaðurinn við Andrés; varð sú glíma mjög harðfeng. Urðu nú sviptingar miklar áður Andrés féll. Lét þá útilegumaður kné fylgja kviði; grúfði fjallbúi þá niður að Andrési og með því hann var líka orðinn vopnlaus vildi hann þá bíta hann á barkann. Var þá Jón laus og hleypur þangað; tekur hann báðum höndum undir kjálka á fjallbúanum og setur knéð í hrygginn og brýtur hann á háls ofan á Andrési; en sumir segja hann skæri fyrst með knífi sundur í hönum barkann inn á milli liðanna og bryti síðan úr hálsliðnum; gengu þeir af honum dauðum. Varð honum þó ekki lítið til fjörs. Eftir það dysjuðu þeir þá, stigu síðan á hesta sína og riðu til tjaldsins.
Af öllu saman umfangi þessu lagðist Jón veikur svo valla komst hann af fjöllunum, en þó komst það fólk til byggða stuttu þar eftir. Eftir það batnar Jóni og varð hann aldrei samur maður síðan, en frá Andrési er það að segja að hann bjó í Borgargerði til dauðadags. Hans börn voru Þorleifur Andrésson er lengi var böðull og skarpréttari í Hegranesþingi, og Jórunn vinnukona hjá Sveini Jónssyni sem lengi var í Utanverðunesi. Dó hún ógift og er engin ætt frá þeim systkinum. Er Andrés úr sögunni. – Systur Jóns Einarssonar hétu Oddný og Sigríður, og voru öll börn Einars bónda mikilhæf og mannvænleg.[1]
- ↑ Framhald þessarar frásagnar er sagan Jón Einarsson á Sauðá.