Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón bóndi Bjarnarson

Einu sinni var prestur í Stærrárskógi er Snæbjörn hét; hann var vel metinn af öllu sínu sóknarfólki. Skammt frá staðnum var einn kotbær. Þar bjó fátækur bóndi sem Jón hét og var Bjarnarson; hann átti konu þá er Hallbera hét. Þau áttu einn son, hann hét Bjarni, og tvær dætur; hét önnur Sigríður, en hin Guðríður. Bóndi þessi var með stærstu mönnum í þá daga og svo sterkur að hann hafði gott tveggja manna afl. Hann var mesti vinur prests því hann gjörði oft Jóni gott þá hann var svangur.

Nú bar svo við einu sinni að það gjörði mikil bágendi manna á milli eitt vor. Fóru þá margir úr ráðaleysi í heiðar að taka grös að lifa á þeim. Sama var fyrir presti að hann átti bjargræði með minnsta móti og helzt af korni. Nú gjörir prestur Jóni boð að finna sig. Jón fer strax og finnur prest. Hann tekur Jóni vel og segir við hann: „Nú ætli ég að biðja þig bónar, Jón minn, það er það að fara fyrir mig til grasa fram á fjöll, því þau eru þar nóg til. Ég skal gjöra þig út með nóg nesti og allan útbúnað sem þú þarft með. Tjald skaltu líka hafa með þér, tvo hesta undir reiðingi til að flytja á grösin heim aftur og þriðja til að ríða á.“ Þá segir Jón: „Þetta vil ég gjöra fyrir yður, en ég vil ekki fara einn; ég ætli að láta Bjarna son minn fara með mér, því þá gengur fljótara að taka grösin ef við erum báðir eða hvað sem upp á kann að falla.“ „Það er satt,“ segir prestur, „þið skuluð báðir hafa nóg nesti og hesta að ríða.“

Nú er Jón búinn á stað og Bjarni með honum. Þegar hann er albúinn og þeir báðir kveðja þeir prest og stíga á bak og ríða hvað leið liggur fram á fjöll allt þangað til að þeir eru komnir þangað sem þeir sjá nóg grös og þó enn meira af kræðu, því hún lá í stórum flekum svo ekki þurfti annað en fletta þeim saman. Nú stíga þeir af baki, spretta af hestum sínum og flytja þá í haglendi. Svo standa þeir hjá þeim lítinn tíma að sjá sig um; svo fara þeir aftur til farangurs síns og settu niður tjald sitt og bjuggu vel um sig. Svo fóru þeir að taka sér til matar og svo að sofa það sem eftir var dags. Um kvöldið vakna þeir og fóru að taka grösin og því héldu þeir áfram í fjórar nætur og grösuðu vel. En fimmtu nóttina þegar þeir voru í mesta ákafa að taka grös sín þá sjá þeir að það kemur til þeirra maður, heldur stór vexti, illilegur og ljótur svo Jón þóttist aldrei hafa séð eins voðalegan mann. Strax sem aðkomumaður kemur til þeirra þá segir hann við Jón: „Leggðu af við mig hesta þína og það sem þú hefur meðferðis eða ég drep þig.“ Jón segir: „Valla mun ég gjöra það að óreyndu.“ Þegar aðkomumaður heyrir það hleypur hann á Jón; hann tekur á móti honum kallmannlega. Jón finnur að komumaður er sterkur vel. Nú glíma þeir langan tíma þar til að komumaður fellur og nú drepur Jón hann og dysjar hann þar í móunum.

Nú fara þeir að taka grösin aftur, en þegar lítil stund er liðin sjá þeir að kemur kvenmaður ef svo skyldi kalla; hún hleypur og stekkur sem hamhleypa, bæði há og digur. Þá segir Jón við Bjarna son sinn: „Þessi mun vilja finna mig og mun hún vera kona manns þess sem ég drap áðan og mun hún ætla að hefna hans, og svo lízt mér á hana að hún mun ekki vera betri viðureignar en karl hennar. Og ef svo fer að þú sér, Bjarni minn, að hún ætlar að hafa betur en ég þá skaltu hlaupa aftan að henni með kníf þennan er ég fæ þér og skera aftan á fætur hennar og í sundur aflsinarnar.“ Þessu lofar Bjarni og tók við knífnum. Nú kemur konan til þeirra bólgin af reiði og þótti Jóni karl hennar vera sem gull hjá henni; og nú stekkur hún á Jón í mesta jötunmóð og tekur Jón á móti henni af öllum kröftum og ætlar ekki að duga, því aldrei hafði hann komið í verri hendur á ævi sinni. Nú glíma þau langan tíma þar til að Jón er orðinn móður og lúinn svo hann finnur það að hann muni falla fyrir konu þessari, en hún linast ekkert nema alltaf verri. Kallar hann þá til Bjarna og biður hann að koma. Hann bregður við og hleypur með knífinn aftan að kerlingu og sker í sundur báðar hásinarnar á fótum hennar inn í bein og við það fellur hún aftur á bak og þá grípur Jón knífinn af Bjarna og bregður á háls henni og drepur hana. Svo dregur hann hana þangað sem karl hennar var og dysjar hana hjá honum. Er þá Jón bæði stirður og móður eftir starf þetta.

Ganga þeir svo heim að tjaldi sínu. Þá segir Jón við Bjarna: „Nú skulum við fara og leita að híbýlum þeirra.“ Svo fara þeir á stað og ganga lengi í sömu átt og þeir sáu þau koma fjallahjónin. Nú um síðir koma þeir að einni á; við hana stóð lítið kothreysi. Þeir ganga inn í það og finna þar ungt piltbarn í vöggu og var það sofandi. Nú segir Jón við Bjarna: „Nú veit ég ekki hvað ég á að gjöra við barn þetta, því þó ég vilji fara með það til byggða þá lifir það ekki mjólkurlaust svo langa leið – eða drepa það.“ Bjarni segir hann skuli ráða. Nú ræður Jón það af að hann ber barnið út og kæfir það í ánni. Eftir það fara þeir inn í kotið að leita betur og fundu ekkert af neinu nema ögn af grösum. Nú fóru þeir þaðan og heim að tjaldi sínu. Þá segir Jón: „Hér skulum við ekki vera lengur og skulum við halda heim, því hér kann að vera fleira af illþýði þessu og vil ég ekki bíða eftir því.“ Nú gjöra þeir þetta að þeir taka sig upp og halda heim, og segir ekki frá ferð þeirra heim að staðnum, og finna prest. Hann tók þeim vel og spurði þá frétta, en Jón sagði frá öllu því er gjörzt hafði í hans og þeirra ferð. Þótti presti að þeir hefðu lukkulega komizt frá þessum vondu mönnum og lofaði Jón í hvörju orði fyrir kallmennsku hans og dugnað. Svo afhenti Jón presti grösin og var hann ánægður með þau. Galt þá prestur Jóni kaup fyrir ferð þeirra feðga og héldu þeir svo heim í kot sitt og settust að um kyrrt eftir það og urðu mestu vinir prests. En Jón bjó í kotinu með konu sinni til elli og dó þar. – Og er svo á enda þessi litla saga.