Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Prestsdóttirin úr Þingeyjarsýslu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Prestsdóttirin úr Þingeyjarsýslu

Það var einu sinni prestur austur í Þingeyjarsýslu; hann var giftur og átti tvö börn, son og dóttur. Þau voru nálægt sextán ára aldri þegar sagan gjörðist. Prestur sækir um prestakall á Suðurlandi og fær það. Hann byrjar að flytja sig næsta vor og fer suður Sprengisand. Allan flutning sinn lætur hann fara á undan sér, en sjálfur fer hann á eftir með konu og börn og hefur einn vinnumann sinn með sér. Þegar prestur er kominn nokkuð suður á Sandinn sér hann hvar tíu útilegumenn koma hlaupandi að sér ofan úr jöklinum. Þeir ráðast á prest og fólk hans með ofbeldi og drepa það allt saman nema dóttur prestsins svo að vörn eða bæn kom fyrir ekki. Fyrirliði útilegumannanna kveðst ekki geta drepið dóttur prestsins því hún væri svo falleg. Unglingspiltur sem með þeim var gall þá við og sagði að það mundi verða ógæfa þeirra ef hún væri látin lifa. En þó varð svo að vera sem fyrirliðinn vildi og báru þeir hana til skiptis til hesta sinna sem bundnir voru uppi undir jöklinum. Þá stíga þeir á bak og reiðir fyrirliðinn stúlkuna. Þeir ríða lengi þangað til þeir koma í fallegan dal. Þeir ríða í dalinn og eftir honum þangað til þeir koma að skála nokkrum; hann var heimili þeirra. Stúlkan er látin í skálann og er fyrirliðinn og allir góðir við hana nema þessi unglingspiltur sem áður er getið, hann er henni ávallt slæmur og vill jafnvel láta drepa hana.

Nú líður fram undir haust; þá fara útilegumenn að tala um að safna sér fé áður en farið sé að leita í sveitum. Fyrirliði útilegumanna þorir engan að láta vera heima til að annast prestsdóttur nema unglingspiltinn, en er þó hálfhræddur um að hann muni drepa hana. Hann var hræddur um hana fyrir hinum því þeir voru góðir við hana. Það varð þó úr að unglingspilturinn varð heima. Þegar mennirnir eru farnir í burtu kemur unglingspilturinn til prestsdóttur og er nú glaður og góður. Hann segist hafa gjört þetta af góðu að vera henni slæmur. Hann segist vera prestsson úr sveit og þessir menn hafi drepið föður sinn á Sprengisandi, en fyrirliðinn hafi ekki viljað drepa sig, heldur haft sig hingað og látið sig þjóna honum. „Nú skaltu,“ segir hann, „kvarta undan mér þegar þeir koma heim og segja að ég hafi verið þér slæmur. Eins ætla ég að segja að mér hafi mjög leiðzt hjá þér meðan þeir voru burtu. Ég gjöri þetta af því ég ætla að reyna að koma þér í burtu, en ég get það ekki næsta ár og skulum við því ætíð láta okkur koma illa saman þegar þeir eru heima.“

Nú koma útilegumenn heim og þau kvarta hvort undan öðru við þá. Líður nú fram að næsta hausti svo að ekkert ber til tíðinda. Þá fara útilegumenn í fjárleitir og segir fyrirliðinn að unglingspilturinn skuli vera hjá prestsdóttur, en enginn annar. Piltinum er það þvernauðugt. Þegar þeir eru komnir í burtu fara þau að tala saman og fer vel tal þeirra. „Ég ætla að segja þér,“ segir hann, „hvernig þú átt að komast í burtu. Þú verður að vera hér næsta ár og þá ætla ég í fjallleitir að haustinu. Þú hefur nú lykla að hirzlum öllum hér í bænum nema að einni kistu; í henni eru peningar geymdir. Nú afhendi ég þér tösku þessa. Í hana skaltu láta peninga úr kistunni sem ég skal sjá um að þú skalt fá lykilinn að. Fyrirliðinn á hest góðan sem hann ljær engum; hann er nýtaminn. Sá hestur mun verða heima þegar við erum farnir í leitir; hann skaltu söðla og binda töskuna aftan við söðulinn, fara honum síðan á bak og keyra eitt högg; mun hann þá halda þangað sem þú munt helzt óska. Fari svo að leitarmenn sjái til þín sem vel getur orðið skaltu slá hann annað högg og mun hann þá enginn þeirra hestur fá náð honum, en minn hestur mun þó næst fá komizt. Skyldi það heppnast að þú komist undan þá minnstu þess að ég hafði fremur öðrum reynt að hjálpa þér.“

Nú koma útilegumenn heim og kvartar nú prestsdóttir mjög undan hinum unga manni og hann á sama hátt undan henni; segist hann nú ekki fleiri haust muni verða heima þá aðrir fari í leitir, heldur muni hann fara líka hvað sem hver segi. Líður nú fram til næsta hausts svo að ekki ber til tíðinda. Þá fara útilegumenn að búast í fjárleitir og segir fyrirliðinn hinum unga manni enn að vera heima, en hann kveður þvert nei við og prestsdóttir neitar því líka; segist hún vel geta ein verið þenna tíma, hann verði ekki langur. Það verður út úr að útilegumenn fara allir, en prestsdóttir verður ein heima. Þá fer hún eins að öllu og unglingspilturinn hafði ráðlagt og stígur á bak með töskuna fyrir aftan og keyrir hestinn eitt högg. Þá rennur hann af stað sem hvatlegast. Að lítilli stundu liðinni sér hún hvar allir útilegumenn ríða að henni. Hún heyrir að hinn ungi maður kallar og segir að svona hafi henni verið varið, nú ætli hún að svíkja þá og segja til þeirra og verði þeir nú líklegast drepnir. Þeir ríða nú sem mest þeir geta og verður unglingspilturinn fljótastur og hefur nærri náð henni þegar leiti bar á milli þeirra og hinna mannanna. Þá slær hann á hestinn prestsdóttur svo hann hleypur ákaflega. En hún hafði gleymt því af hræðslu. Hinn ungi maður hvetur þá að ríða eftir henni og það gjöra þeir þangað til þeir ganga af öllum hestum sínum dauðum. Þá fara þeir eftir henni á fæti, en hún ríður undan og það alla leið niður í byggð; þar kemur hún að höfuðbóli einu og býr þar sýslumaður. Prestsdóttir segir honum þegar frá óförum sínum og að útilegumenn séu hér á hælum sér. Sýslumaður rannsakar nú mál þeirra og dæmir alla til dauða og lætur drepa þá nema hinn unga mann því prestsdóttir beiddi fyrir hann. Sýslumaður dæmdi hann útlægan og þegar hann ætlaði utan kom hann að máli við prestsdóttur og bað hana að gleyma sér ekki, og ef svo væri að sér auðnaðist að koma til landsins aftur kvaðst hann mundi vitja hennar. Hún fékk honum peningatösku þá er áður er getið, fulla af peningum og skildu síðan.

Nú liðu mörg ár. Margir beiddu prestsdóttur æðri og lægri stéttar menn, en hún neitaði öllum. Sýslumaður kvað þetta óráð fyrir hana að neita svo mörgum vænum manni, en hún lét sér ekki segjast. Nokkru síðar kemur til sýslumanns útlendur maður; hann var efnilegur og lærður vel. Hann biður sýslumann veturvistar því hann átti engan verustað vísan, og fær hann það. Hann fellir ástarhug til prestsdóttur og biður hennar, en hún gefur honum afsvar. Hann talar um þetta við sýslumann og biður hann liðveizlu. Sýslumaður segir það muni koma að litlu haldi, hún muni engan ætla að eiga, hún hafi tekið það fyrir sig. Einhverju sinni kemur sýslumaður að máli við prestsdóttur og eggjar hana mjög að eiga mann þenna, en hún færist undan. Kveðst þá sýslumaður muni taka af henni ráðin og skuli hún eiga hann, svo miklu skuli hann ráða. Þorir hún þá ekki annað en að gjöra sem sýslumaður vill; lofast þau nú og er ákveðinn brúðkaupsdagur. Brúðkaupið fór vel fram, en þó er brúðurin döpur mjög. Um kvöldið fylgir sýslumaður brúðhjónum til svefnherbergis og fær brúðurin þá hvert yfirliðið á fætur öðru. Fellur sýslumanni það þungt og angrast með sjálfum sér yfir því að hafa þröngvað prestsdóttur til að giftast. En brúðgumi lét vel yfir og kvað slíkt mundi lagast með tímanum. Nú hátta þau samt. Maðurinn vill nú láta vel að konu sinni, en það tjáir ekki og snýr hún þá við honum bakinu og mælti til hans þungum orðum. Þá segir hann: „Illa ætlarðu að launa mér keyrishöggið forðum.“ Og sagði hann henni þá að hann væri sami maður sem hefði hjálpað henni frá útilegumönnunum, og það svo kunnuglega að hún trúði þegar. „Hef ég nú,“ segir hann, „varið peningunum sem þú fékkst mér, til að afla mér andlegrar fræði í útlöndum.“ Sorg brúðarinnar snerist þá í innilega gleði og segir hún honum að því hafi hún verið svona hrygg að hún hafi ekki þekkt hann. „Ætlaði ég engan mann að eiga ef ég fengi þig ekki,“ segir hún, „og hef ég mörgum neitað þín vegna.“ Næsta morgun kemur sýslumaður og spyr hvernig brúðurinni líði og lætur hún vel yfir. Nú segja þau sýslumanni upp alla sögu og hvers vegna prestsdóttir hafi áður verið svo angurvær, en nú svo glöð. En honum þykir mikils um vert. Hinn útlendi maður fær brauð þar nálægt og flytur þangað; sækir hann allt sem fémætt var í útilegumannakofanum og flytur heim. Þar bjuggu þau hjón vel og lengi síðan og unnu hvort öðru hugástum, og kann ég ekki þessa sögu lengri.