Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Prestsdóttirin frá Stað í Hrútafirði
Prestsdóttirin frá Stað í Hrútafirði
Einu sinni bjó prestur að Stað í Hrútafirði. Hann átti tvö börn, son og dóttur; voru þau orðin fullorðin er saga þessi gjörðist. Prestur hafði misst konu sína svo nú hafði hann dóttur sína fyrir bústýru. Prestur átti bróður á Melstað; hann var sýslumaður. Fer nú prestur að gjörast gamall og lasinn svo allir ráða honum til að segja af sér prestsembættinu, og verður það úr að hann fastsetur það með sér og ætlar að flytja sig og allt sitt til bróður síns að Melstað.
Næsta vor eftir þessa ráðagjörð fer prestur að flytja sig og sendir fjármuni sína á undan sér, en sjálfur fer hann á eftir með son sinn og dóttur. Þegar þau koma á Hrútafjarðarháls koma tólf menn ríðandi á móti þeim. Þeir fara að presti og syni hans og drepa þá báða, en taka prestsdóttur og ríða með hana fram í fjöll. Þeir ríða lengi þangað til þeir koma að kofa einum í óbyggðum. Þar stíga þeir af baki og leiða prestsdóttur í kofann og segja henni að nú eigi hún hér að vera og þjóna þeim, því til þess hafi þeir náð henni. Líður nú fram á sumar og eru útilegumenn allgóðir við prestsdóttur nema einn; hann er henni verstur og getur varla séð hana í friði. Þegar líður undir réttir fara útilegumenn að tala um að ganga á fjöll og safna sér skurðarfé. Verður það samkomulag þeirra að sá sem verstur er við prestsdóttur skuli vera heima og gæta hennar; færist hann þó undan því, en það tjáir ekki og verður hann heima, en hinir leggja á fjöllin. Þá kemur sá sem heima var, að máli við prestsdóttur og mælti: „Ekki er það af mannvonzku að ég hefi verið þér eins slæmur og ég hefi verið; hefi ég gjört það til þess að útilegumenn skyldu láta mig vera heima, því það er ætlan mín að frelsa þig frá þeim ef ég gæti. Þeir hafa einnig stolið mér úr sveit svo ég veit um hvað sárt þú átt að binda. Ég á hér hest einn góðan. Hann skaltu nú söðla og reyna að ríða af stað; en fari svo að lagsbræður mínir sjái til þín og nái þér þá skaltu segja að ég hafi verið svo slæmur við þig að þú hafi ekki haldizt hér við.“ Prestsdóttir þakkar honum nú tillögur sínar, tekur hestinn, söðlar hann og ríður af stað. Líður ekki á löngu þar til útilegumenn sjá hana; þeir elta hana og ná henni. Segir hún þeim þá að hún hafi ekki haldizt við í kofanum fyrir vonzku stráksins. Þeir fara nú með hana heim aftur og berja þann sem heima var drjúgum. Þeir koma bráðum með féð af fjöllunum og slátra og er nú ekkert til frásagnar þangað til á næsta hausti.
Þegar líður að þeim tíma að fara á að leita fjöllin leggst sá maður veikur sem gætti prestsdóttur fyrra haustið. Útilegumenn ráðgast þá um hver heima skuli vera og kemur þeim saman um að það skuli vera sá sami og heima var fyrra árið, en hann færist undan með öllu móti, kveðst heldur vilja ganga á fjöll þó vesall sé en að vera heima. Þó leggja þeir nú svo að honum að hann má til að vera heima eftir. Fara nú útilegumenn einn morgun snemma á fjöllin. Sá sem heima var rís nú skjótt úr rekkju og mælti við prestsdóttur: „Ennþá er það fast í huga mínum að koma þér héðan ef ég gæti. Skaltu nú taka hest minn þann sama og í fyrra og reyna að ríða honum til byggða; mun hann rata sjálfur hinn rétta veg. Sjái nú útilegumenn til þín þá skaltu slá hann eitt högg; ef þér þá sýnist að þú ætlir ekki að komast undan þá skaltu slá hann annað högg til, og hið þriðja höggið skaltu slá hann ef um lífið er að tefla. Og fari nú svo að þú komist undan þá bið ég þig að muna til mín.“ Þakkar nú prestsdóttir honum fyrir hjálp hans; er hesturinn tekinn og söðlaður. Prestsdóttir átti litla peningaskjóðu. Hún bindur hana við söðulbogann og ríður svo af stað. Þegar hún hefur riðið nokkra stund sjá útilegumenn hana og elta þeir hana þá fljótt. Prestsdóttir slær þá hestinn eitt högg og rennur hann þá vel. Dregur nú saman með henni og útilegumönnum í annað sinn og slær hún þá hestinn aftur og hefir hann þá svo mikla ferð að í sundur dregur. Þó færast þeir nær og nær henni að nýju svo hún slær hestinn þriðja höggið og hefir hann þá óstöðvandi ferð að útilegumenn ná henni ekki og hesturinn staðnæmist fyrst á hlaðinu á Melstað, en þeir snúa aftur við túnið. Gengur nú prestsdóttir í bæinn og gjörir vart við sig og er henni vel fagnað. Hún segir sýslumanni frá öllu eins og til hafði borið; lætur hann þá safna mönnum og fara að kofanum. Er svo sagt að útilegumenn þessir allir væru drepnir nema sá sem hjálpaði prestsdóttur, því hún hafði beðið fyrir hann; var hann hafður heim að Melstað og þar í haldi. Fjármunum öllum sem í kofanum fundust var skipt meðal fátækra manna. Útilegumenn voru einnig búnir að smala saman um tólf hundruð fjár og var það rekið til byggða og fékk hver af því sem hann átti. Af manni þeim sem hjálpaði prestsdóttur er það að segja að hann var dæmdur útlægur. Fengu þau ekki að kveðjast, hann og prestsdóttir, en hún gat komið til hans peningaskjóðu sinni svo lítið bar á og fór hann síðan af landi burt.
Líða nú mörg ár. Biðja margir menn prestsdóttur því hún þókti beztur kvenkostur þar um sveitir, en hún vill engan mann eiga. Er nú eigi frá sagt fyrr en að eitt sinn kemur kaupskip að landi á Skagaströnd; hafði skipið vörur miklar og átti stýrimaður allar vörurnar og skipið með. Stýrimaður heimsækir oft prest einn er þar bjó nálægt. Einhverju sinni segir hann presti að hann hafi ásett sér að giftast ekki fyrri en hann fengi íslenzka konu og biður prest að útvega sér efnilega stúlku ef kostur væri. Prestur segir að hér sé ekki um margar efnilegar stúlkur að velja; það sé reyndar ein á Melstað sem sé öðrum fremri og kvenkostur góður, en hún vilji engan mann eiga. Þó talast þeim svo til að prestur og stýrimaður fara að Melstað í bónorðsför. Fylgir nú prestur málinu fast við sýslumann og er hann því ekki fráleitur, en þegar til prestsdóttur kemur þá gengur allt örðugra. Er nú prestsdóttir kölluð til stofu, en þar voru fyrir sýslumaður, prestur og stýrimaður. Það er sagt að þegar prestsdóttir sá stýrimann hafi hún roðnað mjög. Er nú málið borið upp fyrir henni, en hún tekur því dauflega. Þó verður það úr fyrir fylgi sýslumanns að þau trúlofast stýrimaður og prestsdóttir. Er nú búið til stórrar veizlu og haldið brúðkaup þeirra með miklum sóma; eru nú bæði brúðhjón hin glöðustu. Þegar allir voru til borðs setztir í veizlunni tók stýrimaður til orða og mælti: „Það gjöri ég öllum mönnum kunnugt að ég er sá sami maður sem hjálpaði þessari prestsdóttur frá útilegumönnunum hérna um árið og var síðan dæmdur útlægur. Hefir hagur minn blómgazt svo erlendis að ég á nú að öllu leyti skipið sem ég er á, með öllum farmi.“ Líkaði nú öllum vel og fór veizlan vel fram. Svo er sagt að stýrimaður færi utan með konu sína og kæmu þau hingað á hverju sumri til verzlunar. Tóku þau sér bólfestu í útlöndum og þegar þau gátu ekki komið hingað sjálf skrifuðu þau kunningjum sínum meðan þau lifðu.