Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sæmundur smiður

Sæmundur hét maður fyrir norðan. Hann var góður smiður og var það vandi hans á útmánuðum að fara suður yfir heiðar og selja smíðar sínar um Borgarfjörð. Sæmundur var röskur og rammur að afli. Einu sinni seldist honum vel svo hann hafði mikla peninga með sér og gekk hann norður Tvídægru snemma á einmánuði. Þegar hann var kominn norðar en á miðja heiði og beygði fyrir melkast nokkuð kom maður að honum, mikill vexti og illilegur. Réði sá þegar á hann. Var aðgangur þeirra harður og féllu báðir jafnsnemma, en þó svo að Sæmundur lá verr við og varð því undir. Tók útilegumaðurinn þá upp kníf og veitti Sæmundi tilræði, en hafði þó ekki meiri yfirhönd en svo að tilræðið mistókst og skeindist Sæmundur lítið hjá viðbeini. En þegar hann sá blóðið úr sjálfum sér gjörðist hann óður, bylti útilegumanni ofan af sér, náði knífnum, stakk honum fyrir brjóst útilegumanns og risti niður úr og lét knífinn standa í sárinu. Rak útilegumaðurinn upp hátt hljóð í því hann lézt svo það nötraði undir. Sæmundur flýtti sér nú slíkt sem af tók norður í leið, en sá von bráðar annan mann veita sér eftirför, og var hann sporadrjúgur. Þó dró aftur nokkuð sundur með þeim við það að hann stóð um hríð kyrr og starði á þann er fallinn var. Fal þá sýn milli þeirra. Hljóp Sæmundur sem mest mátti hann, en þegar stund var liðin sást hinn á næsta leiti og fór mikinn. Þegar þetta var tók heldur að skyggja. En þó komið væri niður undir byggð sá Sæmundur að hann mundi ómögulega draga undan, enda var hann stirður og mæddist af blóðrás. Svo vildi nú til að hól bar á milli; var jarðfall undir honum og skreið Sæmundur þar inn undir skúta einn og faldist. Útilegumaðurinn kom að vörmu spori og stökk yfir skurðinn. Leit hann við í því og sá Sæmundur að andlit hans var þrútið og svart og hafði hann atgeir í hendi. Þar skildi samt með þeim því útilegumaður sá hann ekki. Um nóttina stóð Sæmundur upp; var hann þá bæði stirður og móður. Komst hann með illan leik til byggða og lá veikur nokkrar vikur, en komst þó á fætur. Hætti hann síðan öllum ferðum suður yfir fjöll og settist um kyrrt.