Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sögubrot af Sigríði Eyjafjarðarsól

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sögubrot af Sigríði Eyjafjarðarsól

Í einu koti norður í Eyjafirði bjó einu sinni bóndi. Hann átti þrjú börn, einn son og tvær dætur. Sú eldri dóttirin hét Ingibjörg, en sú yngri Sigríður og var kölluð Eyjafjarðarsól. Ekki er getið um nafn sonarins. Téður bóndi hélt kaupamann á hvörju sumri er Jóhannes hét og átti heima suður á Álftanesi. Þessi biður eitthvort sumarið Sigríðar sér til handa og gengur það og talast so til að hún skuli um haustið alfarin fara suður með honum og á bróðir hennar að fylgja þeim alveg suður og eiga þau að fara suður Sprengisandsveg, en þau áttu varast að vera á ferð á þeim sandi eftir dagsetur. Þau þrjú fóru á stað suður og þá þau lögðu á Sprengisand var orðið áliðið dags. Þau höfðu lest og vissi Sigríður ekki hvað farið var eða hvað vegi leið þegar nótt var komin. En einhvörn tíma þegar hún leit upp gat hún ekki séð nema einn mann með lestinni so hún fer að kalla á Jóhannes aftur og aftur og gegnir hann ekki. So fer hún að kalla til bróður síns og gegnir hann heldur ekki. Loksins er henni þó gegnt og sagt hana varði ekki um hvar þeir séu; hún fer þá að gráta. Þau halda so áfram lengi þangað til þau koma að einum miklum garði og stórum stað sem lítur eins út og hann sé allur högginn úr marmara. Maðurinn tók Sigríði af baki og bar hana inn fyrir hliðin, en talaði ekkert orð við hana og leiðir hana strax inn í bæ og í gegnum fernar dyr og eru járnhurðir fyrir hvörjum. Hann fer með hana upp á loft og er þar í rúmi kall og kelling, en á öðru rúmi situr þar rauðklæddur maður og er Sigríður látin setjast hjá honum og sezt þar líka maðurinn sem var með henni – hann var bláklæddur – og líður strax yfir Sigríði og segir þá kerlingin við stúlku sem þar var á gangi: „Sæktu henni Sigríði vatn, Silphá mín.“ Það er gert, en henni finnst henni batna betur eftir því sem hún færðist nær rauðklædda manninum. Þegar kemur undir kvöld segir kerling: „Farðu að búa um hana Sigríði, Silphá mín...[1]

  1. Hér þrýtur handritið og hefur aldrei verið lengra.