Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Saga af Jóni Miðfirðingi
Saga af Jóni Miðfirðingi
Maður er nefndur Jón; hans heimili var einhvörstaðar í Miðfjarðardölum. Faðir hans var ríkur bóndi. Ólst Jón upp með föður sínum þar til hann var tuttugu ára gamall. Var hann snemma mikill og sterkur og myrkur í skapi og vissu menn ógjörla afl hans og atgjörvi. Á einu hausti vantaði geldinga bónda, yfir sextíu; var þeirra víða leitað og fundust þeir hvörgi. Býður nú Jón föður sínum að leita og vill helzt fara einn, en bóndi vildi það ekki. Tók hann þá með sér þrjá menn, hina hraustustu sem hann þekkti þar í kring. Býður hann þeim að fara í skinnklæði og vera svo vel útbúnir sem auðið er, en þeir kváðust það ekki vilja; mundi þess ekki þurfa þar veðurátta væri góð. Fóru þeir með vikumat og tjald, allir skinnklæðalausir, nema Jón var með öllu skinnklæddur. Fara þeir nú á fjall upp og ganga rösklega. Einn þeirra hét Björn; var hann þeirra mestur og sterkastur og gekk næstur Jóni að öllum íþróttum. Halda þeir áfram hinn fyrsta dag, en að kveldi reisa þeir tjald sitt og sofa af um nóttina og finna ekki fé.
Daginn eftir er þykkt og dimmt veður af norðri. Leita þeir nú þennan dag allan og finna ekki fé. En er á leið dag gjörði bleytukafald svo þeir urðu votir, nema Jón var þur undir skinnklæðum sínum og bar sig kallmannlega. Að kvöldi reisa þeir tjald sitt. Um nóttina gjörir frosthríð mikla og hélzt hún daginn eftir og voru þeir um kyrrt.
Daginn þar eftir var sama hríð. Þá mælti Jón: „Nú er það séð hvörsu verða vill; munum vér hér verða skjótt matarlausir og að lokum frjósa til bana. Vil ég nú freista hvört ég kemst til byggða og fara héðan einn því ég er einn skinnklæddur, en þið eruð með öllu ófærir og megið til að sitja hér þar til veður batnar. Og nái ég byggðum mun ég vitja ykkar þegar mögulegt er og færa ykkur heim hvört þið verðið dauðir eða lifandi. Malpoka minn skil ég eftir hjá ykkur; er það nokkur viðbót.“ Vildu þeir nú ekki við hann skilja, en þó varð svo að vera því enginn var til þess fær nema Björn; hann vildi með engum móti eftir vera, heldur fara með Jóni. Jón vill það ei, en Björn kvað ekki tjá að letja sig. Skildi hann líka eftir hjá þeim malpoka sinn. Nú kveðjast þeir. Halda þeir Jón og Björn nú á leið ofan í Miðfjarðardali, en þá var hríðin mjög ógurleg og villtust þeir strax. Gekk svo lengi að þeir vissu ekki hvar þeir fóru. Héldu þeir nú áfram sólarhring fullan og vissu nú ekki hvar þeir höfðu farið.
Líður svo tími þar til Björn fer að þreytast og leiðir Jón hann. Gekk svo lengi þar til Björn sezt að öllu leyti fyrir og má sig hvergi hræra. Leggur Jón hann nú á herðar sér og ber hann enn mjög lengi þar til hann finnur að hann er stirðnaður og dauður; leggur hann þá líkið niður og grefur í snjó, gengur enn nú mjög lengi í sömu hríð þar til hann finnur eins og dalverpi nokkurt og minnkar nokkuð ófærðin. Kemur hann þá loksins að einum stórum túngarði; var hann bæði hár og rammgjör. Verður þá fyrir hönum hlið eitt. Fer hann þar inn um; og er hann kemur á túnið sér hann stóran húsabæ. Þangað gengur hann og ber að dyrum; var það seint um kvöld. Kemur stúlka til dyra. Hann heilsar henni og biður gistingar. Hún tók því fálega og mælti: „Hér er ekki gott að gista; er betra fyrir þig að vera í húsunum eður fara í burtu og forðast menn og reyna að bjarga lífinu.“ Hann svarar: „Ekki er mér dælt að fara og kemst ég ekki lífs úr þessari hríð og skal víst ekki fara lengra.“ Fór hún þá inn, en að vörmu spori kemur út karl gamall, mikill og illilegur. Jón heilsar hönum og biður gistingar. Karl tekur því fálega og kvað hann skyldi eiga erindi og býður hönum inn; gengur hann svo hart á undan hönum að Jón getur ekki fylgt hönum. Verður hann eftir og gengur þá þar til hann finnur hurð fyrir sér, lýkur henni upp og kemur í baðstofu; var það mikið hús og ramgjört. Tveir voru pallar, sinn í hverjum enda, og var langt og slétt gólf á milli þeirra. Fer Jón upp á þann pallinn sem auður var og sezt þar niður á flet eitt. Ekki sá hann manna nema karl og kerlingu og tvær stúlkur ungar; var það fólk allt á hinum pallinum. Enginn dregur af Jóni vosklæði eða talar við hann, því síður að hönum sé gefið að éta. Þá mælti Jón: „Ekki þykir mér fýsilegt að gista hér. Er það engra manna siður að láta gesti liggja vantandi inni hjá sér nema ykkar; er líkast að hér séu ekki annað en þjófar og þorparar.“ Var hönum engu svarað. Að litlum tíma liðnum gengur kerling fram. Að stundu liðinni kemur kerling inn með kjöttrog allmikið; var soðin mannshönd þar ofan á; fær hún það Jóni. Hann tekur við, þrífur til matar, tekur fyrst mannshöndina, limar hana í sundur og étur. Er hann þá ógurlegur og fleygir hann öllum beinum úr henni í kallinn jafnótt og hann étur. Undir í troginu er mjög feitt sauðakjöt og matast hann nú hressilega þar til hann hefur lokið með öllu. Kastar hann síðan troginu með beinunum í karlinn þegjandi.
Liður nú á kvöldið og koma þrír menn ungir inn á gólfið. Eru nú dregin af þeim snjóklæði og þeir setjast upp til karls og kerlingar. En er þeir hafa matazt stund nokkra mælti karl: „Það væri gaman, Brynjúlfur, að þú reyndir þig við gestinn hérna á gólfinu.“ Jón mælti: „Það vissi ég að hér væru fyrir illmenni, en hitt ekki að hér væru níðingar.“ Nú fer Brynjólfur ofan; var hann að sjá mikill og tröllaukinn. Jón fer á móti hönum. Ræður nú fjallbúinn á Jón, en hann tekur fast í móti. Glíma þeir nú mjög harðfengilega þar til báðir verða móðir mjög. Dregur þá úr fjallbúa, en Jón sækir þá að sem fastast þar til fjallbúi fellur; þá mælti karl: „Nú er nóg glímt og hættið þið nú.“ Fer Jón upp á pall sinn og sezt á fletið.
Eftir það mælti karl: „Far þú nú, Jón, og glímdu við nafna þinn.“ Fór þessi maður ofan og Jón líka; var fjallbúinn mikill og sterklegur. Ráðast þeir nú á og glíma heldur sterklega; gengur allt upp hvað fyrir þeim varð. Að lyktum féll fjallbúinn; þá mælti karl: „Hættið þið! Nóg er nú glímt í bráð.“ Fer síðan hvör upp á sinn pall.
Ekki höfðu þeir lengi setið áður karl talar til Björns og biður hann að reyna við jafnaldra sinn. Björn kvaðst þess ófús; mundi hann ekki nenna því. Karl mælti: „Alténd ertu viljugur, bölvaður letinginn!“ Fór nú Björn ofan er stund leið og horfir á Jón því hann situr kyr. Horfast þeir í augu þar til Jón fer ofan. Ráðast þeir nú á og glíma heldur sterklega. Finnur Jón að hann muni verða aflvana fyrir Birni; þó finnur hann jafnskjótt að Björn hlífir hönum. Glíma þeir þar til Björn fellur; sá Jón að hann féll viljandi. Nú biður karl þá að hætta og svo gjörðu þeir.
Sefur nú Jón af til morguns. Þá er karl snemma á fótum og kemur út og skoðar veður. Jón spyr karl: „Hvörnin er veðrið?“ Karl kvað sama veður. Þá mælti Jón: „Þetta muntu ljúga!“ Nú klæðir Jón sig skjótt og hleypur út; var þá blindhríð. Snýr Jón þá inn aftur og sezt á flet sitt. Er hönum nú veittur beini og tekur hann til matar, en að því búnu spyr hann bónda hvört hann vilji láta sig vinna nokkuð um daginn. Karl kvaðst ætla að biðja hann að þæfa fyrir sig vaðmálsstúf, en Jón kvað sig það einu gilda færi vel um sig. Var nú þvætt voðin bæði löng og breið, og síðan undin. Fylgir nú karl Jóni fram í fjósloft og tekur nú Jón til verka og kvað karl sjálfan skyldi þófið passa eður það mætti ónýtt verða fyrir sér. Bóndi kvað svo vera skyldi og gengur burt. Tekur Jón nú til verka og þæfir af hinu mesta kappi lengi. Líður svo langt á dag fram; kom þá karlinn aftur að skoða voðina og var hún þá orðin ónýt. Fóru þeir inn síðan og er Jón þar um nóttina.
Morguninn eftir er karl snemma á fótum. Spurði Jón hann þá eftir veðri, en karl kvað ófært vera. Jón klæðist skjótt, og gengur út; sá hann þá að var forráðsveður. Fór hann þá inn aftur og voru þá borð upp tekin og er Jóni borið hangið kjöt og síðan skyr og mjólk; borðaði hann þá hressilega. Síðan spur hann bónda hvað hann vilji láta sig vinna í dag. Bóndi kvað stúlkurnar mundu biðja hann að þæfa pilsefni handa sér. Var þá voð tekin og þvætt. Að því búnu fór önnur stúlkan með Jón fram í fjósloft og tók hann þá að þæfa með miklum æðigangi. Bað hún hann að gjöra nú ekki þessa voð ónýta. Hann kvað hana sjálfa þar að gæta skyldu. Fór hún þá burt og kom aftur að stundu liðinni að skoða þófið og var það þá fullþæft. Spurði hann þá stúlkuna að nafni, en hún kvaðst Guðrún heita. Mælti hún þá: „Ekki get ég nú goldið þér neitt í þófaralaunin því ég hefi ekkert til.“ Hann svarar: „Bezt mun þá vera að draga ekki af því sem til er, og tek ég þau nú út sjálfur.“ Tekur hann nú um háls henni og kyssir hana og setur niður hjá sér og féll vel á með þeim og fékk hann hjá henni allan sinn vilja í þófarakaupið. Eftir það fara þau inn. Sezt hún niður við tóvinnu sína, en bræðurnir sátu á móti henni og hlógu nú mjög að systir sinni nema Björn; hann þagði.
Morguninn eftir er bóndi snemma á fótum. Jón spur að veðri. Karl sagði nú væri gott veður. Hleypur Jón á fætur skjótt og bjóst til ferðar. Eru þá bræður á fótum allir. Tekur Björn þá belg stóran undir hendi sér og gengur út á eftir Jóni. Eru þá bræður hans komnir til fjárins. Kvaddi Jón engan mann og gekk mikið. Fór Jón undan, en Björn eftir þegjandi. Ganga þeir svo um stund þar til þeir sjá fjárhóp og menn hjá; voru það bræður. Björn spur Jón hvört hann vilji skoða kindur þessar. Hinn kvað so vera. Gengu þeir þá að fjárhópnum og finnur Jón þar sauði föður síns og fleira fé úr sveitinni. Taka þeir þennan fjárhóp og reka til byggða. Halda þeir nú áfram til kvelds þar til Björn bað Jón setjast niður. Tók Björn þá matpoka sinn og fór að borða hangið kjöt; býður hann Jóni til matar. Síðan lögðu þeir sig fyrir til svefns og voru þar um nóttina. Að morgni komanda voru þeir snemma á fótum, tíndu saman féð. Fylgir Björn Jóni ofan undir Miðfjarðardali; setjast þeir þá niður og taka til matar. Þá mælti Björn við Jón: „Nú muntu heim fara og ekki segja hvar þú hefur verið. Svo muntu nú fá hvörjum sitt. Þú munt fara suður í vetur og skalt þú róa suður í Höfnum; mun annarstaðar fiskilítið. Síðan skaltu leggja allan þinn fisk í salt[1] því þú munt fiska vel. Hestum þínum skaltu sleppa þegar þú kemur í veiðistöð, og ekki skipta þér af þeim framar. Þá þegar þú ferð norður aftur í sumar þá skaltu kaupa harðan fisk á einn hest og taka síðan hesta þína þar sem þú áður skildir við þá. Þegar þú ert til ferðar kominn skaltu láta upp tauminn á áburðarhestinum og reka síðan; mun hann rata í þennan dal til föður míns og þá skaltu gefa hönum fiskinn.“ Jón svarar: „Þetta eru miklar reglur og kemur það fyrir ekki því ég mun mínum ráðum fram fara, en ekki þínum.“ Björn mælti: „Þá hefur þú illt af öllu saman því ég hygg Guðrún systir mín sé með barni þínu, en sjálfur vissir þú að ég átti alls kostar við þig þegar við glímdum, hefði ég viljað beita því, og mun svo enn ef við reynum til þrautar.“ Jón kvað svo vera; síðan skildu þeir. Fer nú Jón heim og fær hvörjum sitt; varð hann af því vinsæll. Var nú strax farið að vitja um þá menn er Jón skildi við í tjaldinu og voru þeir dauðir, en Björn fannst ekki.
Liðu svo tímar þar til Jón fór suður eftir venju og gjörði eins og Björn sagði hönum og breytti í engu út af og fór eins og Björn hafði hönum sagt. Þegar hann lagði upp að sunnan hafði hann fisk á einum hesti; lagði hann upp tauminn. Rataði sá hestur allvel. Segir ekki af ferðum hans fyrri en hann kemur í dalinn. Er þar fólk úti og bóndi. En er Jón kemur í hlaðið ræður karl á Jón og vill setja hann af baki, en Jón varði sig hreystilega, kvað hönum betra að éta fiskinn sem hann færði hönum en fljúga á sig. Karl mælti: „Vilt þú gangast undir barnið sem Guðrún dóttir mín gengur með?“ Jón kvað það vera. Sefaðist þá karl; var þá Jóni vel fagnað. Sat hann þar viku fulla í góðu yfirlæti; bað hann þá Guðrúnar og var það auðsótt. Bauð karl hönum að búa þar í dalnum, en Jón vildi það ei; tók hann Guðrúnu með sér. Vildi Björn þá ekki eftir vera og réðst til ferðar með Jóni. Leysti karl út mund dóttir sinnar með allra handa búshlutum, skepnum og mat. Fóru þau úr dalnum með marga hesta klyfjaða og margt fé svo hundruðum skipti; fór hann til föður síns og fagnar hann þeim vel. Útvegaði bóndi Jóni væna jörð. Reisti hann um vorið mikið bú og fagurt. Um haustið gekk hann að eiga Guðrúnu og gifti Birni væna og fríða stúlku og giftust þeir báðir undireins. Vorið eftir fóru þeir Björn í dalinn og tvær stúlkur og einn maður með þeim. Var því öllu vel fagnað. Gengu þeir bræður að eiga sína stúlkuna hvör og maðurinn hina systirina. Voru brullaupin öll undireins þar í dalnum. Að því enduðu tekur Björn sinn arfahluta. Fara þeir nú til byggða Björn og Jón. Fékk Björn sér jörð og reisti bú mikið. Græddist þeim mikið fé skjótt og urðu þeir hvörutveggju ríkir bændur og kynsælir.
Og lúkum vér svo þessari sögu.
- ↑ Allólíklegt er að saltfiskur hafi átt sér stað í þann tíma. J. G. [Hdr.]