Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Helga og fjallastúlkunni
Sagan af Helga og fjallastúlkunni
Meðal nokkurra manna er á grasafjall fóru var drengur nokkur sextán vetra er Helgi hét. En er það hafði lengi tínt kom svo mikil þoka að Helgi villtist frá fólkinu og gekk hann langa stund þar til hann kom á dalbrún eina. Þar sér hann rjúka á þremur bæjum. Hann gengur þá ofan í dalinn og að einum bænum er honum leizt bezt á. Þar úti stóð stúlka ein á hlaðinu. Hann heilsar henni og tók hún kveðju hans. Hann biður hana að gefa sér að drekka. Hún fer inn aftur og færir honum sauðaáir, og er hann hafði drukkið ræður hún á hann og glíma þau lengi þar til loks hún fellur, því Helgi var bæði liðugur og glíminn, en styrkari var hún honum. Hún bað hann gefa sér líf; hann segist ei gjöra það nema með því móti hún sjái til þess hann verði ekki drepinn og að hann komist til mannabyggða. Hún játar því; síðan fara þau inn. Síðan fer hún með hann í eitt jarðhús og segir hann hafi verið heppinn að enginn varð var við hann. Síðan fær hún honum mat og annað það hann með þurfti. En er líður á daginn verður hann þess var að þrír menn koma og eru að skrafa saman og virðist honum á tali þeirra sem það muni vera feðgar og eru þeir að tala um að þeir hafi aldrei farið jafnarðlitla ferð; þeir hafi ekki getað náð nema eitt þúsund kindum og verði ekki margar sem hverjum beri úr skiptunum. Síðan fara tveir á burtu, en einn varð eftir; það var faðir hinna. Þá spyr dóttir hans hann að hvað hann hefði gjört við byggðarmann ef hann hefði fundið nokkurn. „Hvað ætla ég hefði gjört við hann nema drepa hann, djöfulinn þann?“ segir hann. „En hefði hann nú gefið mér líf?“ „Þá mundi ég ekki hafa drepið hann,“ segir karl. „Hingað kom maður,“ segir hún, „og glímdi ég við hann eins og þú hefir sagt mér og felldi hann mig og gaf mér líf.“ „Hann var heppinn,“ segir karl, „að enginn skyldi hitta hann; og verður hann að vera hér þar til við förum í leitir næsta ár (þeir fóru annað árið á norður- en annað árið á suðurafrétti) því enginn má af honum vita.“
Líður svo tíminn fram til næsta hausts og buggu menn sig til gangna í Norðurlandsafrétti. Þá leggst karl veikur svo hann var ekki fær til ferða. En er synir hans eru farnir rís karl úr rekkju, og finnur dóttur hans hann að máli og segist hún hafa þjónað honum lengi og ekkert fyrir fengið, en synir hans séu búnir að fá mikið og nær hann deyi taki þeir allan arfinn, en hún fái ekkert. Segir hún sig langi að fara með Helga og fái hún það með sér er karl álíti sér bera. Hann tekur því vel og býr nú ferð hennar með Helga og fylgir þeim á leið. En áður þeir skildu sagði bóndi hann fylgdi þeim á leið með því skilorði að hann giftist henni er hann væri búinn að fá sér staðfestu í sveitinni, enda skyldi hann á hverju ári sækja á stað þann er karl til tók á tíu hesta og væri það heimanmundur dóttur sinnar. En yrði hann ekki kominn þangað í ákveðinn tíma þá væri sín ekki að vænta því þá mundi hann dauður vera. Skildu þau síðan með vináttu. Fór Helgi síðan heim og giftist henni að tíma liðnum og fór að búa og sókti ár hvert á tíu hesta þar til loksins einu sinni að karl kom ekki. Voru þá liðin sjö ár frá því hann fór fram í byggð aftur. Helgi varð góður bóndi og unnust þau til elli.