Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Ketilríði bóndadóttur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagan af Ketilríði bóndadóttur

Í fyrndinni bjó bóndi í dal einum á Austurlandi, í Suður-Múlasýslu, er Grímur hét. Kona hans hét Þórkatla, en dóttir Ketilríður, og áttu þau ei annað barna. Dalur þessi var albyggður. Það bar til eitt haust að menn heimtu sauðfé venju framar illa; voru gjörvir út menn til eftirleita um Öræfi, en kom fyrir ekki. Föður Ketilríðar vantaði mest og nálega allar geldar kindur. Hann og aðrir kunnu þessu stórilla, en fengu ei við gjört.

Snemma vetrar kom Ketilríður að máli við föður sinn á þessa leið: „Ég vildi, faðir, að þú gæfir mér orðlof til að ferðast um óbyggðir og leita fjár þíns. Er mér grunur sá að ei muni ég til einkis fara ef þitt leyfi fengist hér til.“ Grímur mælti og brosti: „Fyrri vissi ég það, dóttir, að þú ber karlmannshug í konubrjósti, en ekki þykir mér ferð þessi mjög fýsileg. Kann vera að tröll, vættir eður stigamenn haldi sig í óbyggðunum, sitji fyrir þér og taki þig; yrði það þinn bani eður að minnsta kosti slyppirðu aldrei úr höndum þeirra.“ Ketilríður mælti: „Meira mun orð á gjört um slíkt en að hæfa sé fyrir, og hræðist ég það alls ekki.“ Hún neyddi föður sinn þar til hann gaf henni leyfi til fararinnar. Segir hann að smalapiltur skuli fylgja henni. Hún lét það svo vera; býr sig nú með vistir og skó því hún bjóst við að ganga ekki allstutt. Kvaddi hún foreldra sína og hélt af stað með piltinum, en lét hann snúa heim aftur er þau vóru komin úr augsýn. Fór hann nauðugur og sagði Grími að hún vildi ekki fylgd hans. Fekk það bónda ógleði því hann varð hræddur um dóttur sína, að feigð mundi hana kallað hafa.

Ketilríður gengur lengi um óbyggðir. Loks fór að dimma veður, gjörði drífu mikla og sá lítið. Tók hún að villast; gekk hún svo lengi að hún veit ei hvurt, unz hún finnur undir fótum sér egg eða fjallsbrún. Hér gengur hún ofan og mundi þó flestum þykja ófært sakir kletta og harðfennis. Eftir langa þraut kemst hún ofan á sléttlendi; var hríðin svo svört að ekkert sást frá sér. Hún hélt þetta vera dal; rann eftir honum á með ísbrúm. Hún hafði stutt gengið ofan með ánni er hún hittir sauðahús mikið. Sér hún mann við dyrnar og fjölda fjár. Ei þótti henni maðurinn illilegur. Hún heilsar honum, en hann tók því stutt. Hér þekkir Ketilríður fé föður síns og hinna dalbúanna. Maðurinn hleypir inn fénu og Ketilríður hjálpar honum til, spur hann síðan að nafni og hvar hún sé komin. Hann kveðst Þorsteinn heita, en dalinn nefndi hann ekki og sagði hann lítt byggðan og ei vera þar utan einn bæ. Ketilríður kvaðst þar mundi beiðast húsa yfir nóttina. Hann kvað það óráð ef hún vildi lifa; „er hér engum grið gefin er gistinga beiðist, en þó mun ég svo til sjá að þig saki ekki ef þú vilt mér heim fylgja. Veit ég erindi þitt og vildi ég gjarnan að þú færir góða för.“ Ganga þau nú heim og inn í bæjardyr; rótar hann þar til í horni einu, tekur upp hlemm; er þar undir jarðhús lítið. Þar lætur hann Ketilríði koma í og sagði henni að láta ekki til sín heyra hvað sem á gengi og hún heyrði, ella yrði það hennar bani. Byrgði hann síðan jarðhúsið og gekk burt.

Nokkru síðar heyrir hún brauk mikið og mannamál; heyrði hún að ekki mundu þeir færri en sex og vóru að leita og spurja eftir gestinum. Hún heyrði Þorstein neita að nokkur hefði þar komið. Ketilríður varð óttaslegin af ógangi þessum því brothljóð var í hvurju tré og skalf jarðhúsið af fótasparkinu. Síðan þagnaði það og var þá allt hljótt. Ketilríður sofnar nú skjótt því bæði var hún syfjuð og þreytt. Um morguninn snemma vakti Þorsteinn Ketilríði, biður hana koma með sér; var hún þá ekki sein að standa á fætur. Fór hann með henni til sauðhússins og greiddi henni fé föður hennar og hinna í dalnum, fylgdi henni síðan úr dalnum; var þá veður bjart. Þorsteinn mælti til Ketilríðar að skilnaði: „Nú mun ég ljá þér hund minn til fylgdar heim til þín og mun hann þér á við góðan mann til fjárrekstra. Skilja mun hann við þig heima hjá vallargarði. En þess bið ég þig að þú safnir mönnum er þú ert heim komin og eigir þá vísa ef á þarf að halda. En ei skaltu hingað með þá vitja nema ég sendi þér Sörla minn (svo hét hundurinn) og mun ég liðs þurfi. Þess vil ég líka biðja þig að eigi giftist þú fyrr en þú veizt hvað um mig verður.“ Að svo mæltu skildust þau. Hélt Ketilríður heim og rak Sörli féð allt að vallargarði föður hennar.

Ketilríður gekk nú heim og urðu foreldrar hennar stórglöð, því þau þóttust heimta hana úr helju. Spurðu þau hana frétta. Hún sagði af hið ljósasta. Nú fengu menn aftur fé sitt. Lofuðu þeir Ketilríði, kváðu hana mikinn dugnað og hugrekki sýnt hafa. Hún fór brátt að safna liði og fékk tuttugu og fjóra vaska menn úr sveitinni. Sá hét Ketill er fyrir þeim skyldi vera. Leið nú fram á veturinn.

Nótt eina dreymir Ketilríði Þorstein biðja sig um liðveizlu. Vaknar hún snemma morguns og klæðist, gengur út; stendur þá Sörli við bæjardyr og flaðrar upp um Ketilríði. Brá hún skjótt við, sendi eftir mönnum þeim er hún hafði til fengið að veita henni lið. Gekk skjótt búningurinn; Var Sörli í broddi fylkingar. Komu þau í dalinn og allt til bæjarins; Var það seint á degi. Enginn maður var úti. Ketilríður talar við menn sína: „Bíðið mín á húsabaki. Mun ég fyrst ein inn ganga, en bregðið við skjótt ef ég kalla.“ Þeir játa því. Gengur hún í bæinn og í baðstofu; var þar pallur. Settist Ketilríður þar niður þegjandi. Sér hún karl og kerlingu og sex pilta. Allt var það illmannlegt á svip. Kerling talar nú til Ketilríðar og spur ef hún vilji mat, gat til hún mundi svöng. Ketilríður þáði boðið. Sækir kerling fram ketfat og fær Ketilríði. Hún tók við, en leizt ei vel á er hún skoðaði, því mannaket var á fatinu. Kvaðst hún óvön slíkri fæðu og bað kerlingu útvega sér aðra betri. Kemur gamla konan með sauðakjöt. En þá sér Ketilríður að karl tekur hníf og fer að hvetja. Segir hann við pilta sína bezt muni að drepa Ketilríði sem skjótast og biður þá taka hana. Þeir standa upp. Hún biður þá lofa sér að syngja andlátsbæn sína því hún væri kristin. Karl var enginn trúmaður og vill það ekki. Sonum hans var forvitni á að heyra bænina því slíkt höfðu þeir aldrei heyrt og fékk hún því leyfi hér til. Hún bað þá fara með sig út á bæjardyraþrepskjöld því guð mundi ei vilja sækja sálu sína inn í bæ þeirra. Karl vildi þetta ekki, en synir hans ráða og fara nú með hana fram á þrepskjöldinn, en karl kemur á eftir með hnífinn. Fór nú Ketilríður að biðja á þessa leið:

„Keta, Keta, Keta mín
kom þú hér með sveina þín
og sæktu hingað sálu mín.“

Brugðu þeir Ketill við skjótt, hlaupa til dyra með vopnum sínum. Slepptu þá piltarnir Ketilríði og vildu forða sér, en máttu ekki. Drápu þeir allt illþýði þetta og brenndu síðan. Fóru þeir nú að leita eftir Þorsteini. Vísaði Sörli þeim á hann í húsi einu læstu; sat hann á stóli með bundnar hendur við stólbrúðirnar. Fætur hafði hann að knjám í vatnskeri. Fat stóð fyrir honum með sauðakjöti reyktu, en ei kunni hann til þess ná. Var hann leystur og hresstur við. Sagði hann þeim hvaðan hann var. Hafði illþýðið stolið honum úr byggð því hann var góður fjármaður. Var nú bærinn brenndur. Fluttu þeir allt í burt er þess var vert; var þar ógrynni auðæfa og eignaðist Þorsteinn og Ketilríður það allt. Ferðuðust þau heim til byggða með fjárhlut sinn, borguðu vel liðsmönnum sínum ferðina. Eftir þetta biður Þorsteinn Ketilríðar og svaraði Grímur því máli vel. Giftust þau síðan og bjuggu á bæ Gríms eftir hann látinn. Unntust þau hugástum til elli og vóru hin ríkustu hjón í þá daga.