Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Sigríði prestsdóttur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Sigríði prestsdóttur

Prestur er Jón nefndur, en ekki er þess getið hvar hann bjó. Hann átti dóttur er Sigríður hét, en ekki er þess getið að hann hafi átt fleiri börn. Það er sagt að Sigríður hafi verið vel að sér til munns og handa og með öllu karlmanns ígildi að hverju sem hún gekk.

Eitt haust var það að Jón prest vantaði allt geldfé sitt og víða þar í sveitinni vóru vondar heimtur. Sigríður kemur einu sinni um haustið að máli við föður sinn og segist ætla að fara að leita fjár hans. Prestur segir að það sé ekkert annað en hún fari til þess. Hvernig sem faðir hennar letur hana þess, þá kemur það fyrir ekkert; Sigríður er staðráðin í því að fara hvað sem hver segir. Hún fer svo að búa sig til ferðarinnar. Þegar hún er tilbúin heldur hún á stað og gengur á daginn, en er um kjurt á næturnar þangað til vika er komin. Þá kemur hún að stórum steini. Þar barst hún fyrir um nóttina. En um morguninn þegar hún vaknar er komin kolniðaþoka. Hún heldur á stað og gengur í þokunni að hún hélt í tvö dægur. Þá kemur hún á dalbrún og er að sjá bjart í honum; hún gengur svo ofan í hann. Þegar hún er búin að ganga nokkra stund eftir honum sér hún hvar maður fer á undan sér og rekur stóran fjárhnapp. Hún fer þá að greiða ganginn svo hún nær honum. Þegar þau finnast spyrja þau hvort annað að heiti. Hann segist heita Ólafur, en hún segir honum til nafns síns. Hún spyr Ólaf hvað margmennt sé í dal þessum. Hann segir að það væri einn bær í honum og á honum væru foreldrar hans og tveir bræður hans. Hann spyr Sigríði hvað hún sé að ferðast; hún segist vera að leita að fé föður síns. Hann sagði að hún mundi valla fá það þó það kynni ef til vill að vera hér. Þau fara svo heim að fjárhúsunum og hýsa féð. Ólafur segir að það sé óráð fyrir hana að fara heim því hún verði drepin. „Á það verð ég þó að hætta.“ – Svo ganga þau heim til bæjarins. Þar fer hann með hana að jarðhúsi, lætur hana fara ofan í það og sagði að hún skyldi vera þar þangað til að hann kæmi til hennar. Þegar hún er búin að vera nokkra stund í jarðhúsinu heyrir hún allra mestu ólæti upp yfir sér; verður hún þá svo hrædd að hún hné í ómegin hvað eftir annað, en altént þegar hún raknaði við heyrði hún sama óganginn þangað til um síðir að honum linnir. Þá heldur hún að allt sé dautt og hugsar nú með sjálfri sér að hún muni deyja þar í jarðhúsinu, en hún gat ekki komizt upp því Ólafur lét hellu á jarðhúsmynnið, svo þá líður ennþá einu sinni yfir hana. Þegar hún raknar við aftur er Ólafur kominn til hennar og er að dreypa á hana. Þegar hún er búin [að] fá mál og rænu segir Ólafur við hana að mikið sé hann búinn [að] vinna fyrir hana; hann sé búinn að drepa foreldra sína og bræður. Hún segir að það séu mikil undur. Ólafur spyr hana að hvort hún vilji heldur vera hjá sér í vetur eða að hann fylgi henni til byggða. Hún segist heldur vilja vera hjá honum. Síðan fara þau upp úr jarðhúsinu. Ólafur segist ætla að biðja hana að hafa alla hússtjórn á hendi fyrir sig; hún segir að það sé annaðhvert þó hún gjörði það. Þau eru svo þar um veturinn. En um vorið fer Ólafur að reka féð saman og vóru það rétt sjö hundruð, og tólf hestar vóru þar líka; höfðu þau flutning á tíu. Síðan halda þau á stað. Ólafur segist nú ætla að biðja hana að vera sér trúa og hjálpa sér þegar hann þyrfti með; hann segist vera óbyggðamaður og vissi ekkert um siðu byggðamanna. Hún sagði að það væri skylda sín. Þau halda svo ferð sinni áfram og gengur hún vel þangað til að þau komu til byggða. Þegar þau komu til prests þá verður hann glaðari en frá megi segja, þegar hann sá dóttur sína því hann var orðinn þess afhuga að hann mundi sjá hana framar. Hann spyr dóttur sína hvaða maður það væri sem kæmi með henni. Hún segir honum frá því og svo frá öllu sem fyrir hana hafði borið síðan hún fór að heiman. Hún segist ætla að biðja hann að sjá um þenna mann því hann sé lífgjafi sinn. Prestur tekur vel í það.

Nú líður vorið fram að fráfærum; er þá féð haft í seli og er Sigríður á selinu og smalinn, en Ólafur er heima hjá presti. Þau fundust einstöku sinnum Sigríður og Ólafur þegar hún var komin á selið. Það bar við einhvern tíma þegar komið var undir sláttarkomu og smaladrengur kom heim með féð að hann sezt á kvíagarð og raular vísu þessa fyrir munni sér:

Arkarsmiðirnir unnu gagn, en aðrir nutu.
Verknað sinn þeir vanda hlutu;
í vatnsflóðinu sjálfir flutu.

Sigríður fer að spyrja hann hvernig því sé varið að hann væri að raula vísu þessa. Hann segist hafa verið að því rétt að gamni sínu. Sigríður segir að það hafi ekki verið. Hún fer svo að ganga á hann, en hann vill ekki segja henni frá því, þangað til um síðir að hann segir henni að faðir hennar hafi farið með Ólaf í morgun suður til Reykjavíkur og ætlar að láta drepa hann. „Hafðu sæll sagt!“ sagði Sigríður. „Ég ætla að biðja þig að fara undireins og sækja tvo beztu hestana sem við Ólafur komum með í vor og leggja á þá handa okkur.“ Þegar hann var búinn að því stíga þau á bak og halda á stað, en áður en þau fóru tók Sigríður með sér skriffæri. Þau ríða svo þann dag allan að kvöldi; þau fara þá heim að bæ nokkrum sem varð fyrir þeim og biðja að lofa sér að vera. Þau spyrja hvert enginn hafi komið þar. Var þeim sagt að þaðan hefðu farið í morgun tveir menn og hefði annar þeirra heitið Jón og verið prestur, en hinn Ólafur. Þau vóru þar svo um nóttina og héldu á stað um morguninn. Getur ekki um ferðir þeirra annað en það að þau komu þar að kvöldi sem þeir fóru frá að morgni. Hvar sem þau áðu var Sigríður að skrifa eitthvað. Þegar þau vóru nærri því komin til Reykjavíkur fara þau af baki og gengur Sigríður heim til víkurinnar undireins, en drengur er eftir hjá hestunum. Þegar hún er búin að ganga dálítinn spöl mætir hún tveimur mönnum með Ólaf bundinn á milli sín og áttu að drepa hann. Hún kastar kveðju til þeirra, sendir sinni spesíu í hvern þeirra og biður þá að bíða sín dálitla stund. Hún fer svo frá þeim og gengur undireins inn í þingstofuna, kastar kveðju á þá sem þar eru inni. Hún sér þar föður sinn næstan dómaranum. Hún gengur fyrir dómarann og leggur skrifuð skjöl á borðið fyrir hann; hann tekur þau og les. Þegar hann er búinn segir hann: „Ég held að það sé um seinan.“ „Ekki held ég það,“ segir hún, „ég bað þá að standa við.“ Dómari skipaði að sækja hann strax; svo var það gjört. Dómari snýr þá máli sínu að presti og dæmir hann líflausan, en Sigríður bað þess að hann mætti halda lífinu. Þá dæmdi hann hann ærulausan, en Sigríður bað honum vægðar svo hann dæmdi ekki nema það að yrðu upptækar eigur hans og að hann missti prestinn, en Sigríður beiddist þess að mega gefa honum það sem hún vildi og leyfði dómari henni það. Síðan halda þau á stað og er ekki getið um ferðir þeirra fyrr en þau komu heim. Þegar þau eru fyrir skömmu komin heim tekur Sigríður það sem hún vill úr búi föður síns og giftist Ólafi. Fara þau svo á beztu jörðina sem faðir hennar átti. En smaladrenginn elur hún upp þangað til hann er orðinn fullvaxta. Þá giftir hún hann og gefur honum svo aðra jörð sem faðir hennar átti. Og lýkur svo af þeim að segja.