Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af bræðrunum Árna og Grími

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af bræðrunum Árna og Grími

Maður er nefndur Þórálfur; hann bjó á bæ þeim í Húnavatnssýslu er heitir að Þóreyjarnúpi; hann var kvongaður og átti tvo sonu barna; hét hinn eldri Árni, en hinn yngri Grímur. Árni var fjórum árum eldri en Grímur. Segir ekki frá uppvexti þeirra bræðra fyrri en Árni var orðinn sextán vetra, en Grímur tólf; þá fóru þeir fyrsta sinn til sjávar; urðu þeir tvö fyrstu árin samferða mönnum er til sjóar fóru úr því byggðarlagi; en úr því fóru þeir að fara einir saman fjöll, en engan mannaveg; héldu þeir því áfram tvö ár.

En þegar Árni var tuttugu en Grímur sextán vetra gjörði mikil ísalög og harðindi þegar komið að vertíð; þá ætluðu bræðurnir að fara vanaveg sinn, en foreldrar þeirra, frændur og vinir réðu þeim frá því; sögðu þeir að illfært mundi vera að fara fjöll, bæði sökum ófærðar og íllviðra, en þeir fóru samt sínu fram. Lögðu þeir nú af stað; en er þeir komu upp á fjöllin fengu þeir bylji með frosti svo að þeir villtust og vissu eigi hvar þeir fóru. Tóku þeir það þá loksins til bragðs að þeir bundu hestana á streng og tóku af þeim baggana, en sjálfir fóru þeir að ganga um sér til hita, en svo var hríðin svört að þeir villtust frá hestunum og gátu eigi fundið þá aftur. Fundu þeir þá eigi fyrri til en þeir hröpuðu ofan í gjá eina djúpa; var svo hátt niður í hana að þeim hélt við svíma er þeir komu niður. Fóru þeir nú að leita fyrir sér hvort ekki yrði komizt upp úr henni. Komust þeir þá að því að barmarnir voru alstaðar svo háir að hvergi varð upp komizt. Þá tók Árni til orða og mælti: „Nær hefði okkur verið, bróðir, að fara að góðra manna ráðum en að fylgja fram einræði voru því að nú lítur helzt út fyrir að vér förumst hér í gjá þessari af kulda og sulti.“ Grímur mælti: „Of seint er séð og hefði fyr verið betra, en ekki tjáir að saka sig um orðinn hlut, því að harmatölur stoða okkur lítið, en tökum kallmannlega því sem að höndum ber.“

Þegar þeir voru að tala um þetta verða þeir varir við að maður kemur fram á gjáarbarminn; sá var í blárri úlpu síðri með hatt á höfði og fremur roskinlegur. Þessi maður heilsaði þeim bræðrum með nafni og mælti: „Illa eruð þið nú staddir, og hefði ykkur verið nær að hlýða góðra manna ráðum; hefði þá betur farið fyrir ykkur.“ Grímur mælti: „Drenglegar færist þér ef þú hjálpaðir okkur heldur en að atyrða okkur; kemur okkur það að litlu haldi.“ Hinn gamli maður mælti: „Nokkuð verðið þið til lífgjafar að vinna, og er ykkur skjótt til að segja að þú Árni átt að taka mig í skiprúm í vetur (því að hann var þá orðinn formaður), en þú Grímur átt að vera hjá mér kaupamaður í sumar.“ Þeir bræður játtu þessu og þótti ekki mikið til lífgjafar unnið. Kippti kallinn þeim þá upp úr gjánni og leiðbeindi þeim til hesta þeirra. Hvarf hann þar frá þeim og báðu hvorir aðra vel fara. Létti nú þegar upp hríðinni og gekk þeim vel það sem eftir var leiðarinnar og komu suður með heilu og höldnu.

Árni lét vanta einn mann á skip sitt því að hann bjóst við kallinum. Leið svo vertíðin, að ekki kom hann; en þegar ein vika var til loka þá réð Árni mann sem honum bauðst í skiprúm kallsins; en fyrsta daginn sem maðurinn réri hjá honum þá var kallinn í fjörunni þegar þeir komu að um kvöldið, en þegar skipið kenndi botnsins tók hann í framhnýfilinn allknálega og kippti því á þurrt. Þótti þeim er á skipinu voru hann taka allsterklega á. Hann heilsaði þeim bræðrum og sagðist kominn til þess að vitja skiprúmsins. Árni sagði að það væri til reiðu. Kom hann þá háseta þeim er hann hafði ráðið í stað kallsins, fyrir annars staðar.

Reri nú hinn gamli maður hjá þeim bræðrum til loka og fiskuðu þeir mjög vel. En lokamorguninn var kallinn horfinn með allt sitt og vissi enginn um burtför hans. Þeir bræður reru vorvertíðina, en um Jónsmessu bjuggust þeir til norðurferðar og höfðu skreið á tíu hestum.

Þegar þeir komu norður á fjöllin slitnaði ístaðsólin hjá Grími; sagði hann þá við Árna bróður sinn að hann skyldi keyra áfram hestana á meðan hann gjörði við ól sína. En þegar leiti bar á milli þeirra kom hinn gamli maður ríðandi til hans, heilsaði honum að fyrra bragði og mælti: „Nú er ég kominn, Grímur, til þess að sækja þig í kaupavinnuna.“ Grímur sagðist fyrst þurfa að fara heim til sín og segja foreldrum sínum frá hvort hann færi svo að þau undruðust eigi um sig. Hinn gamli maður sagði að hann yrði að koma þegar í stað. Grímur sagðist að minnsta kosti verða að kveðja bróður sinn. En hinn gamli maður sagði að það væri óþarfi; varð Grímur þá að fara með honum þótt nauðugur væri. Héldu þeir áfram lengi unz þeir komu í dal einn mikinn og fagran. Þar sá Grímur mikinn fjölda af alls konar fénaði og þótti honum sá allur vænni en hann hafði vanizt. Þeir fóru lengi eftir dalnum unz þeir komu á slétta völlu. Þar á völlunum stóð hús eitt lítið; ekki sá Grímur þar fleiri hús og ekki varð hann við menn var. Þá mælti hinn gamli maður: „Í þessu húsi áttu að vera og slá þennan völl sem hér er í kringum. Ekki muntu við menn verða var nema mig, en allt muntu fá sem þú þarft við; hér sérðu brekkubarð fyrir neðan húsið; fram af því máttu eigi skyggnast; liggur þar við líf þitt ef þú brýtur boð mín í því.“ Fór hann síðan frá Grími, en hann fór að hátta, því að kveld var komið. Um morguninn var kominn til hans matur og sömuleiðis orf og ljár; fór hann þá til sláttar og sló allan dag til kvelds; leið þannig út sú vika að hann varð ekki við menn var.

Á laugardagskveldið fór hann að hátta eins og hann var vanur; en þegar hann var háttaður fór hann að hugsa um hvað við mundi liggja ef hann gjörði á móti boði karlsins; varð hann því forvitnari sem hann hugsaði lengur um það; og þar eð hann hélt að karlinn mundi ekki með neinu móti geta vitað það hljóp hann á fætur í nærklæðum og fram á barðið og sá hann fyrir neðan á tún; þorði hann þá eigi að fara lengra, heldur hljóp inn í rúm sitt aftur og svaf af um nóttina. Um morguninn vaknaði hann við það að karl kom inn; sýndist honum hann þá í illu skapi. Hann bauð Grími góðan dag og mælti síðan: „Góður sláttumaður ertu, en svikið hefur þú mig þar eð þú hefur brotið boð mín, og kostar það líf þitt ef þú gjörir það aftur; nenni ég eigi að drepa þig núna, heldur ætla ég að láta þig slá eina viku enn og vita hvort þú sýnir mér óhlýðni aftur; en gjörir þú það mun ég eigi láta lenda við hótanir einar.“ Síðan gekk hann burt frá Grími.

Næstu viku var Grímur í húsi sínu, og bar ekki til tíðinda; en á laugardagskveldið hljóp hann fram á barðið og nokkuð lengra en hið fyrra skiptið; sá hann þá á bæ; einnig virtist honum sem hann sæi kirkju. Síðan hljóp hann til rúms síns aftur. Um morguninn kom kallinn inn til hans ærið illúðlegur; var hann þá gyrður saxi. Hann talaði harðlega til Gríms og hafði í frammi við hann hótunaryrði, en sagði jafnframt að hann væri svo góður sláttumaður að hann yrði að láta hann slá hjá sér eina vikuna enn. Fór hann eftir það á burt.

Segir nú ekki af Grími fyrri en á laugardagskveldið fór hann eftir vana fram á barðið; fór hann þá sýnu lengst. Hann sá þá gjörla bæinn og kirkjuna, hljóp því næst inn aftur og fór að sofa. Um morguninn kom karlinn og hafði bert sax í hendi sér; var hann þá mjög harðyrður við Grím og sagðist nú skyldu drepa hann. Grímur gaf sig lítið að því og sagðist einu sinni eiga að deyja og gjörði lítið til hvurt það yrði deginum fyrri eða síðar. Karlinn bauð þá Grími með harðri hendi að fara úr rúminu, því að hann sagðist ekki vilja blóðga rúmfötin. Grímur fór þá að klæða sig, en fór sér þó mjög hægt svo að karlinum leiddist og rak ákaflega eftir honum. Þegar Grímur var loksins kominn á fætur sagði karlinn að honum væri bezt að fylgja sér, því að hann, hvort sem væri, væri búinn að forvitnast um allt sem hann hefði ekki átt að vita. Gengu þeir þá ofan hina áminnztu brekku og komu að húsabæ einum miklum; þar var kirkja og sá Grímur að kirkjufólk var farið að koma að kirkjunni; leizt honum ískyggilega á suma af þeim er hann sá þar. Hinn gamli maður fylgdi Grími í bæinn og leiddi hann í stofu; engan mann sá Grímur þar. Síðan gekk hinn gamli maður út, en litlu síðar komu inn konur tvær; var önnur þeirra hnigin á efra aldur, en hin var ung og fríð. Þessar konur heilsuðu Grími og þökkuðu honum fyrir vinnuna. Nokkru síðar kom inn gamall maður; sá var í hempu og hafði digran gullhring á hendi. Þekkti Grímur þar hinn sama er hann hafði kynnzt við. Hann heilsaði Grími blíðlega og þakkaði honum fyrir vinnuna. Síðan fór hann í kirkju og var til messu tekið. Grímur fór í kirkju lítilli stundu síðar; sá hann kirkjuna alskipaða fólki, en prestsþjónustu gegndi hinn gamli maður. Þegar úti var messan fór Grímur úr kirkjunni; þá kom presturinn til hans og bauð honum inn aftur. Leiddi hann þá Grím í stofu þá er hann áður hafði í setið. Voru þar þá konurnar hinar sömu. Var nú borinn matur á borð fyrir Grím. En þegar Grímur hafði snætt spurði hinn gamli maður hann að hvort hann vildi ekki að hann segði honum ævisögu sína og hvers vegna hann hefði farið svona að við hann. Grímur sagðist það gjarnan vilja.

Tók hinn gamli maður þá til orða og mælti: „Það er þér að segja að ég er prestssonur og var ég settur til mennta í Skálholtsskóla, en þegar ég var því nær búinn að ljúka af skólaveru minni henti mig sá glæpur að ég átti barn við systur minni; en áður en almenningur vissi það flúði ég með hana hingað í þennan dal og er hún þessi aldraða kona er þú sér hér, en hin unga stúlka er dóttir okkar. Þegar við vorum hingað komin náði ég mér fjárstofni af fjallafé manna og aflaði mér með því móti stofns. Þegar ég var búinn að vera hér nokkurn tíma komu hingað smám saman fleiri; voru það sakamenn og þeir sem eigi þóttust fá viðhaldizt í byggðinni. Var ég skoðaður sem eigandi dalsins og forráðamaður manna hér. Er ég nú búinn að vera hér í dalnum milli tuttugu og þrjátíu ára og er farinn að eldast mjög svo að ég má búast við dauða mínum þá og þá, en dóttir mín verður aðstoðarlaus þegar mín missir við; vildi ég því fá mann handa henni sem jafnframt gæti verið forráðamaður dalsins; áleit ég þig til þess hæfan og vildi reyna þig; þess vegna gjörði ég galdraveður að ykkur bræðrum og villti um ykkur svo að þið duttuð ofan í gjána, til þess að fá tilefni til að komast í kunningsskap við ykkur og hafa ástæðu til að krefjast af ykkur að þið gjörðuð bón mína. Upp frá því veiztu hvernig farið hefur á milli okkar, en samt vil ég skýra þér frá hvers vegna ég hef látið þig vera einan í sumar og bannaði þér að skyggnast fram af brekkunni; gjörði ég það til þess að reyna þrek þitt og karlmennsku, en nú er reynslutíminn á enda, og skaltu vera það sem eftir er sumarsins hjá hinu fólkinu. Því næst skaltu fara heim til foreldra þinna; en að vori komanda vil ég biðja þig að koma hingað í dalinn og taka hér við búi og dóttur minni. Skaltu sumardagsnóttina fyrstu vera kominn með allt þitt út fyrir túngarð; mun ég þá koma þar og sækja þig, en engum máttu segja hvert þú farir og eigi einu sinni foreldrum þínum.“ Grími þótti mikið fyrir að lofa þessu, en með því honum leizt vel á stúlkuna og þótti dalurinn fagur þá lét hann til leiðast.

Grímur var í dalnum þangað til úti var slátturinn. Kunni hann hvern daginn öðrum betur við sig; en um haustið fór hann heimleiðis með mjög mikið kaup. Foreldrar hans og frændur urðu honum mjög fegnir og þóttust hann úr helju heimt hafa. Var hann spurður hvar hann hefði verið, en hann vildi ekki segja annað um það en hann hefði verið hjá góðum mönnum og vel hefði um sig farið. Var hann nú heima um veturinn, en mót sumri bjó hann sig til ferðar og hina fyrstu sumarnótt hafði hann flutt allan farangur sinn út fyrir túngarð, en lagði seðil á rúmið sitt og sagði í honum að hann færi til góðra manna og bannaði að leitað væri eftir sér. Því næst fór hann út fyrir túngarðinn og beið þar búinn. En þegar lítil stund var liðin kom karlinn með hesta, bæði handa Grími að ríða og undir farangur hans, og fór hann með honum þegar.

Liðu nú fram tímar. Foreldrar Gríms dóu og Árni tók við föðurleifð sinni og kvongaðist, en þegar hann var orðinn áttræður fór hann einu sinni sem oftar skreiðarferð vestur fyrir Jökul. En þegar þeir komu vestan aftur mætti Árni manni á fjöllunum; hann var mjög hniginn á efra aldur; virtist Árna hann vera á aldur við sig eða litlu yngri. Þessi maður fékk Árna bréf sem hann sagði honum að opna þá er hann kæmi heim og kvaddi hann síðan.

En þegar Árni var heim kominn opnaði hann bréfið; var þar þá saga þessi rituð á og því við bætt að Grímur sagðist hafa farið aftur í dalinn og nokkru síðar gifzt dóttur hins gamla manns. Síðan hefði hann verið í dalnum og hefði sér liðið vel. Endaði hann söguna með því að hann ætti uppkomin og efnileg börn, en væri sjálfur hættur við búskap því að hann hefði nóg að lifa af. Að endingu beiddi hann Árna að láta engan sjá söguna fyrri en eftir sinn dag því að þá sagðist hann einnig mundu verða kominn undir græna torfu. – Lýkur hér svo sögunni af Árna og Grími.