Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sendimaður Hólabiskups
Sendimaður Hólabiskups
Einu sinni var biskup á Hólum í Hjaltadal; hann hélt tólf vinnumenn og dreng þann þrettánda sem hann hafði helzt til að passa hesta sína; drengurinn hét Þórsteinn. Annars biskups er getið er var í Skálholti fyrir sunnan. Það var siður biskupsins á Hólum að hann sendi árlega einn vinnumann sinn með bréf suður í Skálholt til biskupsins sem þar var; en það gilti einu hvurn vinnumann sinn biskupinn á Hólum sendi, þá kom hann aldrei aftur.
Eitt haust þurfti biskupinn á Hólum endilega að koma bréfum suður, en þá vildi enginn vinnumanna hans verða til að fara með þau. En hestadrengur biskups bauðst til að fara, en samt með svofelldum móti að hann fengi vænan kníf til að hafa með sér. Biskup tekur þá járnsmið og lætur hann smíða sax (kníf). Drengur skoðar síðan saxið og þókti það lélegt og mölvaði það. Með það smíðaði járnsmiðurinn aftur annað sax að öllu leyti vandaðra og betra. Drengur skoðar það og líkar það allvel.
Næsta morgun eftir býr Þorsteinn sig á stað og fær biskup honum tvo beztu hestana sína og voru báðir brúnskjóttir. Síðan fær hann honum hund er hann átti og segir honum að hann skuli fara allt á eftir hundinum. Þorsteinn játti því, en hélt þó að lítið mundi vera að hræðast. Síðan fer hann á stað og fylgir biskup honum á leið og biður mikið vel fyrir honum þegar hann skildi við hann. Svo heldur Þorsteinn áfram og er ekki getið um ferðir hans fyrr en hann kom suður í Skálholt og tók biskup vel á móti honum og sat Þórsteinn þar í tvo daga í góðu yfirlæti. Svo býr Þórsteinn sig á stað og biður biskup hann að fara ekki á öræfin, heldur að fara þar skemmst væri í milli byggða. Þorsteinn heldur að það sé lítið að hræðast, en þó lofar hann því. Síðan heldur hann á stað og upp á fjöllin. En þegar hann var kominn nokkuð áleiðis þá dimmir á hann allt í einu, og svo mikið að Þorsteinn veit valla hvað hann fer og hundur hans vill ekki fara það sem hann fer. Þorsteinn hugsar með sér hann skuli ekki vera að taka mark á því þó hundurinn sá arni vilji ekki fara það sem hann fer, og heldur hann áfram til kvölds og hundur hans druslast á eftir honum með miklu spángóli. Svo tjaldar hann þar og bindur hesta sína á streng og er þar yfir nóttina. En um morguninn er grenjandi stórhríð, en hann leggur samt upp og heldur áfram. En hundurinn var eins og fyrri daginn; hann vildi ekki fylgja honum, en Þórsteinn kallar á hann og hann kemur svo og lallar á eftir honum.
Að áliðnum degi kemur Þorsteinn ofan í dal einn mikinn og rekst þar á hús eitt; hann finnur dyr á því, lýkur því opnu og sér að það er hesthús. Hann leiðir hesta sína inn og er hey í stalli. Svo fer hann út, sér að hríðina er heldur að birta og sér hann bæ mikinn með háum garði í kringum túnið. Hann gengur heim að garðinum og kemst ekki upp á hann þar. Svo gengur hann með garðinum þar til hann kemst yfir hann og fer hann svo heim, og er þar mjög háreistur bær. Hann ber þar að dyrum og kemur um síðir út kvenmaður; hann heilsar henni. Hún segir: „Guð blessi þig.“ Hann spyr hana að heiti; hún segist heita Guðrún. Hann spyr hana hvurt foreldrar hennar búi hér; hún játar því. Hann spyr hana hvurt að hann fái ekki að vera hér í nótt; hún segist ekki vita það. Hann segir sér þyki það heldur hart ef að hann fái ekki að vera. Hún fer inn og kemur að vörmu spori aftur og segir að hann eigi að koma inn. Hún leiðir hann inn löng og dimm göng; hún hvíslar að honum og biður hann að vera varan um sig. Hann heldur að lítið sé að hræðast. Svo leiðir hún hann upp stiga sem voru í tuttugu og fimm rimar og ein alin milli hvurrar rimar; svo kemur hann upp á loft mikið og sér þar stúlku fyrir framan húsdyr, því þar var afþiljað hús. Hann heilsar henni; hún segir: „Blessi þig.“ Svo sér hann kall mjög ískyggilegan og ljótan inn í húsinu og kellingu er honum leizt betur á. Hann heilsar kalli; hann segir: „Blessi þig.“ Svo heilsar hann kellingu; hún segir: „Guð blessi þig.“ Svo stendur hann þarna stundarkorn; hann segist halda að hann verði að fá sér sæti fyrst að sér sé ekki boðið að sitja. Kelling kallar til Gunnu og segir henni að láta manninn setja sig niður; hún gjörir það svo. Hann situr svo stundarkorn þangað til hann segir að sér þyki það hálfþurlegt fólk hér að það skuli ekki skrafa neitt, því ekki sé það svo í sinni sveit þegar gestir komi. Og því er ekki anzað neinu og hann spyr að ýmsu og það þegja allir – þangað til Þórsteinn spyr hvurt það eigi ekki að gefa sér neitt að éta. Bóndi talar til Gunnu og segir henni að sækja manninum að éta, en kallaði hana samt fyrst til sín og hvíslaði einhverju í eyra henni. Svo fór hún fram og kom aftur með fullt kjöttrog og færði Þórsteini, en honum þókti þar óvanaleg fæða fram borin, því mannshönd lá ofan á kjötinu. Þórsteinn var matlystugur og tók til matar og byrjaði á hendinni og lét sem hann borðaði hana með mestu lyst, en hann laumaði hverjum bita í hundinn og tók Þórsteinn eftir því að karl var að gægjast að sjá hvert hann æti hendina. Þórsteinn át svo af kjötinu sem honum sýndist, en er hann hætti að éta tók Guðrún trogið og bar það burtu. En þar litlu eftir fór bóndi fram og kallaði á Fríðu að koma með sér; það var stúlkan sem sat við húsdyrnar. En þegar þau voru farin heyrði Þórsteinn að kelling andvarpaði þungan og sá hún var að tyggja eða sleikja skinnskekla og sýndist honum þeir með tóbakslit. Fór hann þá og þakkaði henni fyrir matinn og laumaði um leið í lófa hennar tóbaksrullu er hann hafði hjá sér. Varð þá kelling hýr og mælti: „Líkast verð ég aldrei maður til að launa þér þetta og get ég því ekki annað en beðið Guð að launa þér fyrir mig.“ Síðan spurði hún hann hvað hann væri að fara og sagði hann henni það. En er hún vissi að hann var Hólabiskups sendimaður spurði hún hann mikið eftir biskupi hvernig honum liði og grannt yfirhöfuð eftir ástandi hans, og þókti Þórsteini það kynlegt. En er þau vóru að tala um þetta kom Fríða upp í stigann og talaði til Þórsteins og segir að faðir sinn vilji finna hann fram. En þær mæðgur báðu hann fara varlega og sagði kelling: „Mun vera eins og vant er.“ Hann kvað ekki mundi mikið að hræðast. Svo gekk hann ofan stigann og seppi með honum. En þegar hann kom neðarlega í stigann var gripið utan um hann. Var þá bóndi kominn þar og vildi hafa hann undir, en Þorsteinn vildi það ekki. Flugust þeir svo á þar til bóndi fellur. Kom þá Fríða og vildi hjálpa kalli, en Þorsteinn vísaði hundinum á hana. Hafði hann hana þegar undir og vildi helrífa hana; hljóðaði hún þá mjög. En þegar karl sá hvernig fór bað hann Þórstein þá gefa sér líf, en hann kvað þess eigi kost. Samt fyrir beiðni hans og það loforð að glettast ei meira til við sig gaf hann karli líf og aftraði seppa að drepa Fríðu; síðan fóru þau aftur upp á loftið.
Leið svo kvöldið þar til fara skyldi í rekkju. Sagði þá bóndi Guðrúnu að fylgja manninum til rúms. Fór hún þá með hann í hinn baðstofuendann; þar var eitt rúm og dimmt á því, en meðan hann var að hátta brá hún upp ljósi. Sá Þórsteinn þá að skot nokkuð var fyrir ofan rúmið og var þar í tréstabbi digur. Kallaði þá bóndi byrstur til hennar og spurði hvað hún væri að gera með ljós. Hún sagðist leita að nál sinni. Hann hélt henni mundi ekki liggja neitt á henni núna. Síðan slökkti hún ljósið og nú háttuðu þau og slökktu ljós. En þegar að var setzt fór Þórsteinn hljóðlega á fætur og tók tréstabbann og lét í rúmið, en fór sjálfur í skotið og lét seppa vera hjá sér. Var þá skammt þess að bíða að hann heyrði gengið hægt að rúminu og lagt í það sverði og sagt: „Farðu allra manna armastur!“ – og var þetta bóndi. Hljóp Þórsteinn þá á hann og rak hann undir. Kom þá seppi og vildi rífa hann, en hann bað um líf; en Þórsteinn tók því ekki. En í því kom kerling og bað hann gefa karli líf í þetta sinn, og fyrir hennar orð gerði hann það; var kyrrt til morguns.
En um morguninn bjóst so Þórsteinn til ferðar og fór að taka hesta sína. En þegar hann var að leggja á hestana komu þau karl og Fríða. Hafði hann þá byssu og skaut til Þorsteins, en hann vék sér í skjól hestsins og í hann kom skotið, en Þórstein sakaði ekki. Tók hann þá bónda, en hundurinn Fríðu og drápu þau. Síðan fór Þórsteinn heim aftur að bænum. Tóku þær mæðgur honum vel og skuldaði kerling hann ekki fyrir þó hann dræpi bónda hennar. Síðan sagði kerling honum að hún væri systir Hólabiskups – „og hef ég verið hér,“ mælti hún, „síðan ég var á tvítugsaldri; þá rænti þessi gamli maður mér og var ég stödd við laug þegar hann tók mig. Síðan mátti ég vera sem kona hans þó mér þungt félli, og áttum við saman fimm börn: þessar stúlkur sem þú hefur hér séð og þrjá sonu og eru þeir ekki heima. Nú bið ég þig,“ mælti hún, „að vitja mín aftur í vor og vertu þá fjölmennari en þú ert nú, en engum skaltu segja frá því er ég hef sagt þér. Nú máttu velja úr hestum mínum hvern hestinn sem þú vilt fyrir þann er þú misstir; þeir eru tólf í umgirtum högum hér skammt á burtu. Svo skal Guðrún dóttir mín fylgja þér á rétta leið, en varastu að láta hestinn vera úti því hann mun vilja strjúka.“ Fór nú Þórsteinn og valdi sér hestinn. Svo kvaddi hann kerlingu og fór þá leið sína og Guðrún fylgdi honum mótmælalaust. En er þau áttu skammt á rétta leið vóru fyrir þeim tvö dalverpi. Kvaðst Guðrún þá aftur hverfa. „En þú,“ segir hún, „skalt fara hinn vestari dalinn, en varastu þann austari því bræður mínir eru í fjárleit og koma þeir hinn austari dalinn og fer einn þeirra fyrst; sá rekur lömb og mun brátt hingað koma. Annar rekur ær og hinn þriðji rekur sauði; og far þú því hinn vestari dalinn að þú mætir þeim eigi.“ Síðan skilja þau og minntust með blíðu og fóru svo leið sína. En þegar þau vóru skilin hugsar hann með sér að gaman væri að sjá piltana og réð það af að fara austari dalinn. Svo þegar hann er skammt kominn heyrir hann hóað og því næst sér hann hvar maður rak fé, og ber þá fljótt saman. En þegar þeir mættust skaut Þórsteinn hníf sínum gegnum hann og deyr hann þegar. Svo heldur Þórsteinn áfram og var skammt þar til hann mætti öðrum bróðurnum og fór eins með hann. Og nú heldur hann enn áfram þar til hann mætir hinum þriðja; sá rak sauði. Þórsteinn skaut að honum hnífnum, en missti hans. Réðust þeir þá á og glímdu lengi með hörðum sviptingum þar til Þórsteinn fellur. Kallaði hann þá á hundinn og hann kom og beit sauðarekinn í andlitið. Linaðist hann þá svo Þórsteinn komst ofan á. Bauð hann hinum þá líf, en hann neitaði og kvaðst ætla hann mundi hafa drepið föður sinn og bræður og því ei vilja lifa; síðan drap Þórsteinn hann. Síðan fór hann að hyggja að sauðunum og þá þekkti hann þar tólf sauði frá Hólum, og var einn móbíldóttur forustusauður; allir vóru þeir tvö hundruð að tölu. Tók þá Þórsteinn hesta sína og rak með sér sauðina heim til Hóla og byrgði þá þar í fjárrétt. En er hann kom að bænum var biskup úti og fagnaði honum vel og spurði tíðinda, en Þórsteinn kvaðst engin segja. Tók hann þá af hestum sínum og sagði svo fyrir að byrgja skyldi hinn ókunna hestinn í húsi og láta ekki út að sinni. Líka sagði hann til sauðanna í réttinni; var þá farið að skoða þá og draga sundur og áttu þeir heima þar um Skagafjörðinn. En er hann var spurður hvar hann hefði fundið þá sagði hann það engu skipta. Nú þegar Þórsteinn var kominn inn með biskupi og hafði afhent bréfin frá Skálholtsbiskup tók biskup eftir því að af honum dró eins og ætlaði að síga að honum ómegin. Sá hann þá líka að hann var digrari en hann átti von á og fötin vóru svo þröng á honum. Sagði biskup þá skera skyldi utan af honum fötin og var svo gjört og sáu menn þá að hann var allur blár og bólginn. Lét þá biskup gera honum hitabað, og mýktist þá og minnkaði bólgan; samt lá hann í viku. En þó hann væri spurður hvernin þessu væri varið sagði hann ekkert um það. Síðan tók hann að hressast og varð þá brátt jafngóður. Var hann nú í miklu meiri metum en áður bæði hjá biskupi og öðrum og hlógu þeir nú ekki að honum sem áður höfðu haft hann í skimpi.
En þegar leið á veturinn bað Þorsteinn biskup að ljá sér vinnumennina sína alla í vor, mælti hann, einn eða tvo daga og því lofaði biskup honum. Svo þegar vorið kom bjó Þórsteinn ferð sína með tólf menn og tuttugu hesta lausa. En ekki sagði hann hvað hann ætlaði, en réði alltaf leiðinni og stefndi suðrá fjöll; og segir ei af ferðum þeirra fyr en þeir komu í dalinn til þeirra mæðgna. Fögnuðu þær Þórsteini vel og þeim öllum. Síðan bjuggu þeir búslóð kerlingar til burtflutnings og bundu margan bagga og fluttu allt fémætt þaðan nema kerling skildi eftir svo sem svaraði eins árs forða handa einum manni og sagði ef einhvern kynni bera þar að húsum skyldi hann geta nært sig á því. Ráku nú sumir fé, en sumir fóru með klyfjahesta og vóru mæðgur kátar og sagði kerling þetta væri sá fyrsti gleðidagur sem yfir sig hefði upp runnið síðan hún hefði verið numin úr byggðum. Gekk þeim ferðin vel heim til Hóla; fagnaði biskup þeim vel. Leizt honum vel á mæðgur og spurði Þórstein hvaðan þær væru og hvað til hefði borið á ferðum hans. En hann sagði þær gætu sagt það; þeim væri það eins kunnugt og sér. Var þeim þá fylgt til stofu og settist biskup á tal við kerlingu. Spurði hún hann þá hvert hann þekkti sig ekki, en hann kvað nei við. „Enda er það nú ekki von,“ mælti hún, „því langt er nú síðan við sáumst. En ég er nú systir þín samt og var mér stolið ungri og síðan hef ég á fjöllum verið þó þungt hafi fallið.“ Mundi biskup þá eftir því þegar systir hans hvarf, og þekkti hana nú og fagnaði henni vel. Sagði hún honum þá af ævi sinni og hvernin Þórsteinn fyrirkom karli hennar og börnum. Bað hún þá að Guðrúnu væri kenndur kristindómur og skírð og komið í kristinna manna tölu. Var svo prestur fenginn til þess og kunni hún þá vel allar barnaspurningar og gat gjört grein á trú sinni. Hafði móðir hennar kennt henni það og sagði hún svo að ekkert barna sinna hefði viljað neitt guðlegt læra nema Guðrún, heldur hefðu þau fetað í fótspor föður síns, en hún ætíð verið sér hlýðin og eftirlát. Og bað nú kerling bróður sinn að sjá fyrir ráði þeirra þaðan af og gjörði biskup það á þá leið að hann lét systir sína vera hjá sér, en gifti Þórsteini Guðrúnu og gaf honum góða bújörð. Og þar reisti Þórsteinn bú og þókti hinn nýtasti drengur og átti margt barna og varð gamall maður og þau hjón bæði.