Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sigríður á Skatastöðum
Sigríður á Skatastöðum
Á Skatastöðum – fremsta bæ í Skagafirði – átti einu sinni heima kvenmaður sá er Sigríður hét. Eitt sinn er hún var að smala fram til fjalla villtist hún í níðaþoku svo hún vissi ekki hvert hún gekk. Loksins kom hún að dal einum og gekk ofan í hann og kom að bæ einum. Á bænum var ekki heima nema ein kona; bað hin aðkomna stúlka hana að hjálpa sér, en hún sagðist ekki mega það. Tautaði hún þá við skó sem hún var að sauma að hún skyldi fara upp með einu gili og fara undir foss í gilinu. Þegar hin heyrði þetta tók hún það eins og talað væri til hennar sem og hefur verið. Gekk hún upp með gilinu. En þegar hún er komin nálægt fossinum verður hún vör við að henni er gjörð eftirför. Fer hún þá undir fossinn, en þeir sem vóru að leita héldu lengra upp með gilinu og svo bíður hún þarna þangað til þeir fara ofan hjá aftur. Þegar þeir eru komnir ofan hjá fyrir stundu gengur hún upp með gilinu og upp á fjöll og komst heim að Skatastöðum. Verður hún eftir þetta huglítil og þreyjulaus að vera þarna og um vorið fór hún til vistar að Hrafnagili. Um sumarið þegar hún er að mjólka ærnar á kvíunum sem vóru sextíu að tölu kemur til hennar maður og spyr hana hvort henni þætti ekki mikið ef allar ærnar dæju fyrir eina. Svo fer hann á burt. Vorið eftir fór hún að Espihóli í Eyjafirði. Um sumarið vildi svo til að hún var að raka niður á nesi um kvöld. Þá kemur maður til hennar ríðandi og segir: „Þú ert þá hérna.“ Í sömu svipan kemur annar ljótur og illilegur og vill þegar að Sigríður sé drepin fyrst þeir hafi nú getað náð fundi hennar. En hinn verður æfur við og aftekur að henni sé nokkurt mein gjört. Fer þá þessi ljóti á burt, en hinn verður eftir og fór svo að hann giftist Sigríði og sagði hann henni þá að það hefðu orðið illindi og manndráp út úr því þegar hún hefði sloppið burtu úr dalnum.