Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sigríður Eyjafjarðarsól (1)

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sigríður Eyjafjarðarsól

Það er upphaf sögu þessarar að í Möðrufelli í Eyjafirði bjuggu eitt sinn rík hjón og er ekki getið um nafn þeirra; ekki varð þeim barna auðið utan einnar dóttur er hét Sigríður. Hún var allra kvenna fríðust og var þess vegna kölluð Eyjafjarðarsól. Hún var eins dyggðug eins og hún var fríð. Þegar hún var vaxin orðin komu lærðir menn og ólærðir að biðja hennar sér til handa. En faðir hennar stóð fast á móti öllum bónorðum enda þótt hún sjálf hefði viljað taka einhverjum þerra er báðu hennar.

Á þeim tíðum var siður að messa á jólanætur og kepptu allir við að fara til kirkju, en samt vildi enginn vera einn heima á neinum bæ. Einn vetur í Möðrufelli var vinnufólk að tala um hver mundi vilja verða heima á jólanóttina. En eitt sinn þegar það er að metast á um þetta kom Sigríður þar að og spurði hvað það vildi gefa sér fyrir að vera heima svo allir mættu fara til kirkju. Allir svöruðu í einu hljóði að ef nokkuð væri til í eigu sinni sem hún vildi eiga þá skyldi það vera henni falt. Kvaðst hún þá hafa verið að spauga við það og vildi ei þiggja neitt af neinum, en sagðist samt mundi verða heima ef það svo vildi. Allir héldu að hún mundi eigi fá það fyrir föður hennar. En hún kvaðst ætla að spyrja föður sinn að því, hvað hún gjörði. Hún segir honum að hana langi til að vera heima fyrir fólkið því hún haldi að sig saki ekki um það. Faðir hennar tekur því illa og kvað það undarlegt að hún skuli vilja vera heima, en fara ekki með þeim sem vandi hennar var til. Hann segir sig gruni að fyrir henni liggi einhver ólukka fyrst hún hafi svo sterka löngun að vera heima. Hún kvað nei við, að sig mundi ekkert saka, hún hefði traust á því. Karlinn lætur þá þetta eftir henni fyrst hún vilji svo hafa það, og verður hún því heima og megi það því fara. Nú verður fólkið þessu fegið að það megi fara.

Nú líður fram til jóla og aðfangadagur kemur svo það fer að búa sig með mesta fögnuði og var fagurt veður, rauð jörð með frosti, en tunglsljóslaust. Þegar fólkið er tilbúið segir hann því að kveðja hana, en hann segist sjálfur ætla að kveðja hana síðast og sjálfur búa um bæinn og skilja við. Hún fer nú fram með fólkinu og kveður það hana. En faðir hennar segir við hana að hún skuli passa upp á það að lofa engum manni inn í nótt því að þó verði barið að dyrum eða guðað á glugga skuli hún engan gaum gefa að því. Nú kveður hann hana og segist vona að engin lifandi vera komist inn í bæinn utan hann sé opinn tekinn. Nú fer fólkið allt á stað, en hún fer inn aftur og fer að búa sig, og að því búnu kveikir hún kertaljós, tekur bók og fer að lesa í svefnherbergi foreldra sinna. Síðan líður fram til miðnættis að hún verður einskis vör og þá er allt í einu drepið á dyr og er hún samt kyrr inni sem áður. Síðan er barið í annað skipti og það fer á sömu leið að hún situr kyrr. Enn er aftur barið í þriðja sinni og miklu meir en fyrri svo ef bærinn hefði ei verið ramgjör svo hefði hann farið í mola. Hún gegnir ei að heldur. Nú líður dálítil stund. Þá heyrir hún gengið upp á bæinn og eftir honum að glugganum er var yfir henni. Hún heyrir þá kallað á gluggann og heilsað upp á hana og tekur hún kveðju hans. Hún lítur út í gluggann. En svo var dimmt úti að hún sá vel andlitið á manninum og þótti henni það svo frítt að slíkt hafði hún aldrei séð eins fagurt á ævi sinni. Hann biður hana að finna sig út. Það segist hún hverki geta né mega. Hann biður hana því betur, það skuli ei tefja hana lengi. Hún segir það sé hið sama, hún gjöri það ekki, því hún segir hann geti talað inn um gluggann það hann vilji. Það segist hann ekki geta, hann þurfi að ná fundi hennar því hann þurfi að fá að drekka. Hún segist geta ráðið bót á því, þar ausa sé á bæjarveggnum og lækur renni hjá honum og þar geti hann fengið að drekka og hafi hún ei ráð á öðrum svaladrykk. Hann segist ekki geta drukkið vatnið einsamalt. Þá segist hún ekkert geta upp á hann hjálpað. Hann segist þá verða að fara svo búinn frá henni, en það segist hann segja henni að einhvern tíma muni henni hitna eins mikið um hjartaræturnar sem sér sé núna. „Það fer sem auðið verður,“ segir hún. Nú fer hann sinn veg og verður hún nú einkis vör framar um nóttina.

Nú kemur fólkið heim um morguninn og undireins og karlinn er búinn að heilsa henni spyr hann hana áhyggjufullur hvert hún hafi orðið einkis vör um nóttina. Hún segir nei, það hafi enginn komið. Hann segir hún þurfi nú ekki að segja sér neitt um það, hann viti nú það vel og sjái á henni; og gengur hann svo strangt á hana að hún verður að segja honum upp alla söguna. Hann spyr hana hvert hún hafi ei opnað dyrnar fyrir honum, en því kvað hún nei við. Hann segir hún hafi gjört það vel. Það segir hún gefi tíðin að vita hve hollt sér verði það að hafa ekki gjört það. Er nú ekki meir um þetta talað.

Nú líður fram til næstu jóla og verður nú tilrætt um milli fólksins hver nú muni vilja vera heima, og segir Sigríður að hún sé til með að verða heima aftur sem fyrr fyrir það, og verður það ráðum ráðið að hún verði heima næstu jólanótt. Nú kemur aðfangadagskveld og er sama veður sem áður, en tunglsljós og þess vegna bjart um nóttina. En þennan sama dag verður móðir hennar svo snögglega illt að hún treystist ei til að fara og segir Sigríður að fleiri muni verða heima en ætlað var í fyrstu því faðir hennar muni varla fara. Nú býr fólkið sig til kirkjunnar og fer utan foreldrar Sigríðar og hún. Nú lokar karlinn sjálfur bænum og býr um hann sem fyrri og fer nú að lesa. Þegar hann er búinn að því og líður fram að miðnætti þá er barið ógurlega að dyrum. Sigríður spyr þá föður sinn að hvert hún eigi að koma til dyra eða hann fari sjálfur. Karlinn segir nei, aðkomendurnir vilji fyrr finna sig en hana, og skuli hann því fara. Nú fer karlinn út og er svo lengi í burtu að þeim mæðgum er farið að leiðast. Hún segir því við móður sína hvert hún eigi ekki að vitja um föður sinn, en móðir hennar sagði hún skyldi enn bíða við, því ekki væri betra að hún færi og kæmi aldrei aftur ef óvættur hefði grandað föður hennar, og leið og beið enn. Þá ætlar Sigríður fram, en í því kemur karlinn inn og er svo æðisligur að hann skipar henni að búa sig hið snarasta, því nú sé sá kominn er hann hafi geymt hana lengst handa. Hún kemur þá fyrir sig hvörki orði né eiði og spyr hver það sé og hvert hún eigi að fara. Hann segir hún fái að vita það seinna, hún þurfi bara að flýta sér, því hann vilji ei bíða. Móðir hennar spyr hvernig á þessu standi (og versnar henni við þetta) og í hvaða höndur hann ætli að láta hana, og þetta sé undarlegt af honum. Karlinn segir að þær skulu ekki neitt hugsa um þetta. Nú fer hún að búa sig til og segir hann hún skuli nú kveðja móður sína og segir sgan að nærri muni geta með hvaða skaplyndi að þær hafi skilið og segir móðir hennar að þó von hefði verið að sér mundi batna gæti það ei orðið við þetta tilfelli. Nú fylgir karlinn henni út. Þegar hún kemur út sér hún standa þrjá menn á hlaðinu og vóru þeir líkari tröllum en mennskum mönnum og einn þó stærstur og ljótastur að því skapi illilegur svo Sigríði stóð megn ótti af. Vóru þar á hlaðinu fjórir hestar og var reiðhestur Sigríðar einn af þeim með söðli hennar á. Síðan kemur hinn ljótasti af mönnum þessum og drífur hana upp í söðulinn. Nú kveðja þeir karlinn og þessi eini hann með kossi og handabandi og Sigríður kveður hann líka.

Nú héldu þeir af stað og hinn ljótasti fer á undan er henni virtist biðillinn og ríða fram fjörð og svo upp á fjöll, og veit hún ekkert hvað þeir fara framar. Ekki tala þeir neitt til hennar og þeir ekkert sín á milli; fer hana nú að syfja svo hún ríður til í söðlinum. Svona héldu þeir áfram, að henni virtist í þrjú dægur, unz þeir komu að einstigi síðla dags; þá fara þeir allir af baki. Nú gengur þessi eini að henni og þrífur hana úr söðlinum og segir henni stuttur í svari að hún verði að ganga hér ofan. Nú teyma þeir hestana, en hún gengur á eftir ofan þennan einstig er var svo brattur að hún varð að styðja sig við lendina á hesti hennar er aftastur gekk, og þegar þeir eru komnir ofan sér hún að þetta er djúpur dalur er þeir eru komnir í, og fara þeir nú allir á bak aftur og lætur þessi eini hana hryssingslega upp í söðulinn án þess að tala við hana nokkuð. Ríða þeir nú fram dalinn sem var grasi vaxinn og blóðrauður upp á fjallatinda. Á ein rennur eftir dalnum. Engi sér hún þar mannaverk. En hefði hún verið í góðu skapi þá hefði henni fundizt ánægjusamur og fagur dalurinn. Þeir ríða nú þegjandi fram dalinn; í því sér hún mikinn hrossaflokk með alla vega litum hestum og á ýmsum aldri. Þá kallar þessi eini til hennar og spyr hvört hún vildi ekki eiga þann er þetta ætti. „Betra er yndi en auður,“ segir hún. Nú ríða þeir ennþá; þá sér hún mikinn uxaflokk engu miður fallegan en hinn og vóru nautin á ýmsum aldri. Hann kallar þá til hennar sömu orð og fyrr, en hún svarar því sama. Þar næst sér hún fjarska stóran kindaflokk svo hana furðu gegnir, og þó allt fé úr Eyjafirði væri komið saman héldi hún það væri ei fleira. Hann kallar til hennar enn sömu orð og svarar hún hinu sama.

Nú ríða þeir áfram enn; þá sér hún mikinn bæ og reisuligan, allur skrúðgrænn og vel byggður. Fleiri bæi sér hún ei. Nú komu þeir að miklum túngarði og var hlið á honum og tröð heim, slétt túnið vaxið ýmsum fögrum grösum. Þeir ríða heim á hlaðið og sér hún þar litla en snotra kirkju, og þykir henni það betra en hitt. Þeir fara nú af baki og tekur þessi eini hana úr söðlinum og segir við hana: „Hvörs viltu óska?“ „Ganga í kirkju,“ segir hún. „Þá verður þú að ganga með mér,“ og tekur hann lykilinn upp hjá sér og lýkur henni upp og segir henni að fara inn, en þegar hún sé búin að vera lyst sína í henni skuli hún koma aftur heim á hlaðið. Síðan gengur hún inn í innsta sætið og sezt þar niður. En þegar hún hefur gjört bæn sína sofnar hún út af og dreymir hana þá að henni þykir bláklæddur kvenmaður koma upp úr kórgólfinu og ganga fram í kórdyrnar og segja: „Þú ert þá komin hingað, Sigríður Eyjafjarðarsól. Faðir þinn hefur ekki geymt þig til ónýtis. Þessi maður hefur gift sig tveimur konum og ég er sú seinni og hefur hann ráðið okkur báðum bana, og kemur það til af því er ég mun segja þér, að þeir eru þrír bræður og eru allir í álögum.[1] En fyrir því að fyrsta kveldið sem hann ætlaði að hátta hjá okkur bar hann upp þær spurningar er við gátum þá ei leyst úr, og þess vegna rak hann okkur í gegn. En nú veit ég hverju við hefðum átt að svara og vil ég því segja þér það því vel get ég unnt þér lengri sambúðar við hann en okkur,“ og segir hún henni það þrisvar og lætur hana hafa orðin eftir sér og biður hana að muna sig að taka vel eftir og muna það, því henni megi ekki verða orðfall, og svara hverri spurningu þá hann sé búinn að bera hana upp og ekki láta hugfallast þó henni sýnist hann vera í versta ham. Nú þykist hún hafa eftir henni þrisvar orð þessi, en að því búnu hrekkur hún upp og sýnist henni hún sjái á eftir konunni. Nú man hún orðin og hefur þau oft upp fyrir munni sér, gengur nú út úr kirkjunni og heim á hlaðið. Þar stendur falleg stúlka í bæjardyrum er heilsar henni og leiðir hana inn og segist vera systir bræðranna og er hún skemmtileg í tali. Hún sýnir henni nú upp og niðri allt í bænum og finnst henni mikið um alla reglusemi og fegurð með alslags auðæfum, en ekkert sér hún fleira fólk en þá bræður og stúlkuna. Nú leið hálfur mánuður þangað til að stúlkan segir henni að nú standi til brúðkaup þeirra og fagnar Sigríður lítt þeirri frétt.

Nú kemur brúðkaupsdagurinn og er nú búizt við með mestu viðhöfn. Þar kemur prestur og nokkurt fólk annað. Eru þau nú gefin saman og svo haldin veizla og er nóg af öllu, bæði vínföngum og öðru. En að henni lokinni fer hver maður sem snarast burt, en bræðurnir eru orðnir [svo] svíndrukknir að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð og láta nú svo illa sem verstu tröll. Hús var dálítið út úr baðstofunni er þeir héldu sig í er þeir voru í þessum ham. Þarna drasla þeir nú fram á nótt. Þá segir stúlkan til Sigríðar að nú sé ekki að fresta því að ganga til hvílu og eru nú báðar í döprum hug og fylgdi hún Sigríði í lítið afhús er ætlað var fyrir svefnhús hjónanna og var allsnoturt. Stúlkan segir Sigríði að hátta fyrst, hann muni koma bráðum. Sigríður háttar nú og skömmu síðar snarast þeir nú fram og fara þeir nú sinn í hvern stað, en brúðguminn kemur inn og sezt á rúmstokkinn hjá Sigríði mjög illúðligur og ber upp fyrir henni spurningarnar,[2] og um leið lézt hann vera að þreifa eftir einhverju niður með rúmstokknum. En óðar en hann hafði sleppt spurningunum hafði hún svarað honum hinu rétta er konan hafði sagt henni, og í þessu dettur hann ofan á gólfið í öngvit og er þá orðinn hinn fríðasti maður og eins fór fyrir bræðrum hans. Þá kom fjöldi fólks að stumra yfir honum og hinum tveimur. Nú fer Sigríði að þykja vænkast ráðið og sýnist henni hann ganga næst þeim að fegurð er kom á gluggann forðum á jólanóttina. Nú raknar hann við og háttar hjá henni og er hann nú og bræður hans stilltir og viðkunnanlegir menn. Takast nú með þeim Sigríði góðar ástir. Nú um morguninn er hún kemur á fætur fer hún út að skoða sig um. Sér hún þá bæi og fólk beggja vegna í dalnum og nóg af körlum og konum á heimilinu. Sigríður er nú í góðu yfirlæti og hefur nóg af öllu og hefur frjálsræði að brúka allt eftir sínu eigin höfði, því hann var henni mjög eftirlátur.

Að ári liðnu eignast þau eina dóttir er Sigríður hét, í höfuð móður sinni. Þegar stúlkan óx upp var hún móður sinnar sönn eftirmynd að sjón og allri hegðan. Dalbúar vóru vanir að fara í kaupstað á hverju sumri allir í félagi og voru ekki skemur í burtu en þrjár vikur. Hann býður Sigríði að fara í kaupstað til að skoða sig um, en hún kvaðst ekki vilja það og því heldur sem hún væri nýbúin að eignast barn er hún þyrfti að annast. Nú fer hann í kaupstað. En þegar hann kemur aftur úr honum fær Sigríður með honum bréf frá föður sínum þess efnis að móðir hennar sé sáluð og megi hún vitja arfs í Eyjafjörð. Hún skrifar föður sínum næsta sumar er maður hennar fór í kaupstað, þess efnis að faðir hennar skuli skipta arfi sínum milli hinna fátæku í Eyjafirði því hún hafi nógan auð.

Nú er þess að geta að á þriðja sumri, er stúlkan var þriggja ára, var það einn góðan veðurdag að átti að binda hey af engi hjá Sigríði og var enginn heima utan Sigríður og barnið. Þá er barið að dyrum. Hún kemur til dyra og barnið með henni. Hún sér að maður fagur ásýndum og tígugliga klæddur sem fyrirmaður og hefur fallegan hest söðlaðan – hann gengur til hennar og heilsar henni og biður um að drekka. Hún tekur því vel og fer inn og sækir mjólk að drekka og færir honum. Hann drekkur og fær henni askinn aftur og fer hún inn með hann og kemur út aftur. Er hann þá allur á burt og barnið líka er verið hafði á hlaðinu á meðan að leika sér. Henni verður bilt við þetta og þykir undarligt að hún skuli hvergi sjá á eftir honum, hve fljótt hann hafi horfið úr augsýn. Hún leitar samt innan og utan bæjar og kallar á barnið, en til einkis. Í þessu kemur drengur einn heim með heyferð. Hún kallar þá til hans og skipar honum að taka heybaggana sem fljótast ofan, taka einhvern fljótasta hestinn, ríða til mannsins síns og segja honum að hún þurfi að fá hans fund, því henni liggi lífið á. Drengur gjörir þetta. Bóndinn kom svo strax heim og sagði Sigríður honum frá hvarfi barnsins, og varð honum mikið um, en hann stillti sig þó vegna konu sinar. Var nú fólkið kallað frá heybindingum og farið að leita. Líka fekk hann alla úr dalnum til að leita og varði hún í þrjá daga um allar áttir, en árangurslaust. Lagðist nú Sigríður í rúmið og lá nokkra stund og var hún talin frá. Hughreysti hann nú hana að öllum stundum er hann gat. Þegar missirið er nú liðið fer Sigríður á fætur aftur; er hún þó jafnaðarlega föl og dauf. Líða nú stundir fram. Hann býður henni að fara með er hann fer í kaupstað, en hún kveðst ei hafa af því neina ánægju.

Nú líða tólf ár að ekkert ber til tíðinda. Þá ber það við á sumri næsta á eftir að þeir bræður búa sig í kaupstað. Þá hefur Sigríður máls á því að hana langi til að fara með fremur en vant er og heldur hún [sé] töfruð. Hann verður þessu feginn og veit að henni muni gleymast missirinn og tekur vel undir þetta og lætur söðla bezta hestinn er hann átti. Nú fer allt á stað til kaupstaðarins og er ei getið ferða þess unz það kemur í hann og tjölduðu þeir nú nálægt honum því kveld var komið. Um morguninn segir hann Sigríði að koma með sér til búðar kaupmanna og sjá sig um og skoða, því þar sé margt að sjá. Hann segist hafa sína höndlun við einn kaupmann og séu þó fleiri. Í því bili er hann leiddi hana til búðar gerði svo mikla skúr að hann fór með hana inn í eina stofu hvar kaupmaður sat inni og var að skrifa. Þau heilsa honum, en hann tekur því vel. Þar eru ekki fleiri í stofunni en kaupmaður. Hann biður kaupmann að lofa konu sinni að sitja þar inni meðan skúrin gangi af. Kaupmaður segir það velkomið, tekur stól og setur öðrumegin við borðið er hann sat og býður henni þar að sitja. En maðurinn fer svo út aftur, en Sigríður sat eftir. Kaupmaður situr við skriftir, en engu orði varpar hann á Sigríði, en það sér hún að kaupmaður gefur henni smátt og smátt auga, en hún þykist eins og sami andlitssvipur hafi fyrir sig borið einhvern tíma. Hann byrjar þó loksins máls á því og spyr hana hvert hún hafi aldrei fyrr komið þar í kaupstað og þyki sér það undarlegt að hafa aldrei komið með manni sínum, og segist hann vera honum alkunnur. Hún segist aldrei hafa haft löngun til þess og hafi sér þó staðið það til boða, en nú hafi sér fallið inn að fara einu sinni. Hann segir það hafi farið mikið vel að henni hafi dottið það í hug núna. Nú hættir hann að skrifa og spyr hana enn fremur hvort þau hjón eigi ekki nein börn. Hún kvað nei og bregður lit. Hann gætir þess, brosir við og segist ekki trúa því að hún segi sér satt. Hún segir hann ráði hverju hann trúi, en ekkert barn eigi þau nú. Hann segist þá vera ríkari en hún þar hann eigi unga stúlku, en sé þó ekki giftur, „og held ég verði nú að gjöra þér það til skemmtunar að sýna þér hana“. Hann stendur þá upp og gengur í eitt hliðarherbergi er var í stofunni. Er hann nú litla stund á burtu og kemur aftur með stúlku er Sigríður ímyndaði sér að væri á fimmtánda - sextánda ári. Hún heilsar henni nú og sér hún að stúlkan er fríð og efnileg og yfirganganlega vel klædd. Hann segir þetta sé nú stúlkan er hann hafi getið um. Sigríður hefur nú ei augun af stúlkunni og virðir hana vel fyrir sér. Kaupmaður sezt nú aftur niður og sér að Sigríður fer að verða litverpt í andliti. Síðan spyr hann Sigríði hvert hún sé ei ættuð úr Eyjafirði. Hún kvað svo vera. Hann spyr hvert hún hafi verið í Möðrufelli. Hún segir já, „og bjuggu foreldrar mínir þar“. Hann spyr hvert hún muni ei eftir því að hún hafi verið heima eina jólanótt. Hún segist muna það. Hann spyr hvort hún muni eftir því að maður hafi talað við hana gegnum glugga. Það segist hún ogsvo muna. Hann spyr hana hvört hún muni hvað þau hafi þá talazt við. Hún játar því. Hann segir hvört hún haldi ekki það sé fram komið er hann hafi síðast mælt til hennar. Það heldur hún vissuliga sé gengið í uppfylling. Hann segist nú ekki geta verið að dyljast henni lengur og sé hann nú sami maður er þá hafi talað við hana fyrr, „og meðkenni ég nú það fyrir þér að hefðirðu í það sinn lokið upp fyrir mér hefði ég haft þig á burt með mér. En þegar það gat ekki lukkazt kom í mig glettni og hef ég valdið hvarfi dóttur þinnar, og eru nú tólf ár síðan, en þá var hún þriggja ára, og er þetta hún er hér er nú hjá mér og hef ég hana haldið sem hún hefði verið mér fædd og hef ég látið kenna henni allar kvenligar listir og uppfrætt hana eftir efnum. Og gekk mér það til þess að taka stúlkuna að ég þóttist fá þar aftur ímynd yðar er ég unni mikið, og er ég nú búinn að meðkenna þetta allt saman fyrir þér, en hvernig mér lukkast nú áform mitt er undir þér eða ykkur hjónum komið þar ég hef nú reitt þig til reiði, þar ég við biðja ykkur um stúlkuna til eignar og hef ég haldið hana sómaliga.“ Sigríður segir það satt vera að ekki hefði hún eins getað alið hana upp eða menntað, en hún segist ekki vera einráð um gjaforðið. Ekki segist hann nú bera kvíðboga fyrir manni hennar því þeir séu góðir kunningjar. Í því kemur drengur einn framan úr búðinni. Hún gerir með honum boð að hún vilji finna mann sinn og kemur hann að vörmu spori. Sigríður segir honum þá upp alla söguna og verður þar fagnaðarfundur að finna dóttur sína. Þá hefur kaupmaður upp bónorð sitt við þau þar hann segir stúlkan sé viljug. Maðurinn segist ekkert á móti því ef móðir hennar vilji og stúlkan, og gáfu þær jáyrði til þess, og fastnaði kaupmaður stúlkuna og segir hann fyrst hann sé viss um að enginn taki hana frá sér sé henni bezt að fara heim með þeim [þeim] til ánægju og vera þar þrjú ár því hann sé ei svo bráðlátur að eiga hana fyrr en hún sé orðin átján ára. Hún er spurð að því hvort hún vilji heim fara. Það segist hún ekki geta því hún geti ekki af honum séð einn einasta dag. Foreldrar hennar segja hún skuli ekki leggja það á sig því þau viti það að hún elski hann fyrir alla hans meðferð á henni og svo séu þau vel ánægð að vita af henni þar og lengur hafi þau verið án hennar, og varð hún kyrr, en þau héldu sína leið heim að afloknum erindagjörðum.

Að þremur árum liðnum fór Sigríður með manni sínum aftur í kaupstað og hélt þá kaupmaður brúðkaup sitt með mestu viðhöfn, og er ei annars getið en kaupmaður og kona hans lifðu vel og farsællega til ellidaga, en Sigríður fór heim með manni sínum, en fór hvert sumar í kaupstað með honum eftir þetta að finna dóttur sína. Sigríður og þau hjón lifðu til ellidaga í dalnum. Og ljúkum vér svo sögunni af Sigríði Eyjafjarðarsól.

  1. En hvernig á álögunum stendur eða [hver hafði] lagt á þá vantar hér.
  2. Hér vantar hverjar spurningarnar voru og svör hennar. Sumir segja að spurningarnar hafi veri þrjár, en aftur aðrir ein.