Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sigríður Eyjafjarðarsól og Jórunn systir hennar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigríður Eyjafjarðarsól og Jórunn systir hennar

Einu sinni bjó ríkur og velmetinn bóndi á Grund í Eyjafirði; hann átti þrjú börn, dreng er Ormur hét og systur tvær Sigríði og systir hennar Jórunni. Sigríður var kvenna fríðust norður þar og því var hún kölluð Eyjafjarðarsól. Bóndi hélt kaupafólk á hverju sumri; þar á meðal var kaupamaður einn er Sigurður hét; hann eggjaði bónda á það að láta Orm róa suður að vetrinum og með því Ormur fýstist þess lét bóndi það eftir og flutti Sigurður kaupamaður mötu hans suður að haustinu og hét að útvega honum skiprúm. Veturinn eftir fór Ormur suður og á fund Sigurðar, en Sigurður lézt þá við ekkert kannast og rak hann á burt. Þótti Ormi nú súrt í brotið og reikaði um ráðalaus.

Það var einn dag að hann reikaði með sjó fram og sér hann þá hvar einn maður er að setja fram bát. Ormur gengur til hans og spurði að heiti; þessi kvaðst Skúli heita og vera þar innlendur. Ormur bað hann að lofa sér að róa og lét Skúli það eftir. Ormur réri með hönum um daginn og fiskuðu þeir vel. Fór svo að Skúli réði hann til skips með sér og fengu þeir góðan hlut um veturinn, en um vorið gaf Skúli honum þriðjung af sínum hlut. Tvo veturna næstu á eftir réri Ormur hjá Skúla og fór vel með þeim, og í vertíðarlokin gaf Skúli Ormi helming hlutar síns. En seinna vorið bað hann Orm að útvega sér til konu systur hans Sigríði og kvaðst í því skyni vilja ríða norður með honum um sumarið. Ormur sagði að hann mundi veita hönum að því máli, því sér hugnaðist í öllu vel að honum, og bað hann ríða norður með sér á lestunum.

Leið nú vorið og ríða þeir norður um sumarið. Segir eigi af ferðum þeirra fyrr en þeir komu að Grund í Eyjafirði. Hittu þeir þá systurnar á kvíunum og fögnuðu þær vel Ormi bróður sínum og spurðu hver hinn ókunni maður væri; hann kvað þetta vera Skúla vin sinn og velgjörðamann sem hann hefði róið hjá um undanfarin ár. Þegar þeir komu heim í bæinn fögnuðu foreldrar Orms honum og tóku vel Skúla þegar þau vissu hvað vel hann hafði verið Ormi syni þeirra. Honum leizt mætavel á Sigríði og hóf til hennar bónorð sitt, og fór svo með flutningi Orms að hann fékk hennar. Vildi hann þá þegar fá hana suður með sér, en Sigríður gaf þess eigi kost nema Ormur bróðir sinn færi líka. Létu foreldrarnir það eftir henni og bjuggust þau nú suður þrjú og höfðu tvo áburðarhesta með varnaði Sigríðar. Héldu þau suður Eyfirðingaveg og segir eigi af ferðum þeirra fyrr en þau komu suður í Kjalhraun; þar urðu þeir eftir Ormur og Skúli að gera á hesti, en Sigríður hélt áfram veginn á meðan og reið hún gráum hesti er hún átti sjálf og hafði miklar mætur á. Bráðum bar leiti á milli hennar og þeirra og datt þá á hana níðasvört þoka; hélt hún þó veginn áfram því hún hélt að þeir mundu strax ná sér. Bráðum sér hún líka mann koma ríðandi á eftir sér og hélt hún það vera Skúla og spyr hann hvar Ormur bróðir sinn sé. Þessi kvað hann vera á eftir og mundi hann bráðum ná þeim. Ríða þau nú svo um hríð og undrar hana hvað Ormur er lengi. Fer hún þá betur að gæta að manninum og sér að þetta er ekki Skúli, heldur ókunnur maður sem hún aldrei hefur fyrri séð. Verður henni þá mjög bilt við og spyr hann hver hann sé og hvort hann viti nokkuð um þá Orm og Skúla. Hann kvað þá bráðum mundi ná þeim og skyldu þau halda áfram. Hún stöðvar þá hestinn og segist ekkert fet fara lengra nema því aðeins að hann segi sér hver hann sé og hvert vegur sá leiði sem þau nú séu á. Hann sagðist skyldi segja henni hvorutveggja; nafn sitt væri Sveinn og vera huldumaður, bróðir sinn héti Sölvi og væri nú nýkominn frá háskólanum og hann hefði sent sig eftir henni þar honum litist hún fegurst allra þeirra kvenna sem hann séð hefði. Bað hann Sigríði vera óhrædda því ekkert skyldi að henni verða, og ánægða því hún mundi skipta um til mikils batnaðar; bróðir sinn væri vænsti maður, en Skúli illmenni sem hún seinna mundi fá að sanna. Svo kvað hann þau nú vera komin svo langt af veginum að ekki mundi annað hlýða fyrir hana en fylgja sér. Sigríður sá að úr því sem komið var mundi ekki annað verða tiltækilegra en að lofa honum að ráða, því hana hryllti við að villast einmana á heiðum uppi.

Héldu þau nú áfram og vissi hún ekkert hvað þau fóru fyrr en þau komu að bæ einum vel húsuðum; þar var maður að ganga um gólf á hlaðinu í svörtum kjól og fagnaði hann mikið komu þeirra. Sigríður var leidd til stofu; þar var öldruð kona fyrir, móðir þeirra bræðra, og tók hún vel Sigríði; ekki sá hún þar annara manna. Sigríður svaf ein í stofu og er hún var háttuð um kvöldið kom Sveinn og tók frá henni föt hennar og bað hana vera þolinmóða hvers sem hún yrði vör um nóttina. Þegar Sigríður ætlaði að sofna sýndist henni vatn gjósa upp úr gólfinu og kom þar upp skrímsli sem skreið að rúmi hennar og vildi ná að komast upp í það. Sigríður tók þá upp hníf einn er hún leyndi undir kodda sínum og stakk í skrímslið og hvarf það þá niður um gólfið. Svaf hún síðan til morguns. Næsta kvöld þar á eftir tekur Sveinn aftur föt hennar og áminnir hana enn um að vera þolinmóða og óhrædda. Fer þá sem hið fyrra kvöldið að þegar hún ætlar að sofna kemur skrímslið inn og ætlar upp í rúm hennar, en hún beitir sama bragðinu og stingur í það hníf sínum og hvarf það þá í burtu.

Daginn eftir kemur Sveinn inn til hennar og spyr hvort henni leiðist ekki og hvort hún vilji ekki sjá gull þeirra bræðra til skemmtunar. Lýkur hann þá upp skúffu einni og tekur þar upp þrjá gullhringa og spyr hver henni þyki fallegastur. Hringarnir voru misstórir og litust henni allir fallegir, en þó kvað hún að sér þækti sá í miðið fallegastur. „Það máttu ekki álíta “ segir Sveinn, „því það er hringurinn minn. Þér á að þykja fallegastur stærsti hringurinn því það er hringurinn hans bróður míns; minn er sá í miðið, en minnsta hringinn á hún systir okkar, og þegar hann bróðir minn kemur inn til þín í dag þá ríður þér á að segja að þér þyki fallegastur stærsti hringurinn.“ Sigríður kvaðst verða að segja þar um eins og hugur sinn byði.

Þegar Sveinn var farinn frá henni fyrir lítilli stundu kom Sölvi prestur inn til hennar og spurði hvort henni leiddist ekki og hvort hún vildi eigi sjá gull þeirra bræðra. Lauk hann þá upp sömu skúffuna og Sveinn og sýndi henni hringana og spurði hver henni þækti fallegastur. Hún sagði sér þækti stærsti hringurinn fallegastur. Sölvi sagðist verða að taka þau orð hennar trúanleg þó að sér sýndist hún líta hýrara auga til miðhringsins, en af því flyti líka það að hann mundi drekka til hennar brullaup á morgun. Sigríður lét það svo vera og gekk Sölvi síðan í burtu.

Morguninn eftir var búið til dýrðlegrar veizlu og hafði Sigríður aldrei séð eins fagran húsbúnað og dýrgripi og þar komu fram. Systir þeirra bræðra kom til veizlunnar ásamt mörgu stórmenni; fagnaði hún vel Sigríði og urðu þær brátt miklar vinkonur. Veizlan fór vel fram og voru þau saman vígð að kristnum sið. Hjúskapur þeirra fór vel fram. Hafði Sigríður allsnægtir og var vel ánægð. Þau áttu eina dóttur sem snemma var hin efnilegasta.

Einhverju sinni spurði Sigríður mann sinn hvað orðið mundi um þá Skúla og Orm bróður sinn þegar þau hefðu skilið í hrauninu. Sagði hann að þeir hefðu lengi leitað hennar og loksins riðið aftur norður að Grund; hefði síðan Skúli fengið Jórunnar systir hennar og væri hann kominn með hana suður á land.

Það var einhverju sinni mörgum árum seinna að Sigríður spurði mann sinn hvernig Jórunni systur sinni mundi líða. Sagði hann henni þá að meðan Ormur bróðir hennar hefði verið þar syðra hefði Skúli verið henni góður, en þegar hann hefði norður farið hefði brugðið svo við að Skúli hefði orðið henni mjög illur, dregið hana á hárinu og barið og hefði líf hennar síðan verið hið hörmulegasta. „En í kvöld er Skúli á sjó,“ segir hann, „en hvassveður mikið svo ekki er séð hvort hann kemst að landi.“ Við þessa fregn varð Sigríður mjög hrygg og sinnti varla öðrum, en nokkrum kvöldum seinna kom Sölvi prestur inn til hennar og bað hana koma út og fagna gestum sínum. Var þar þá komin Jórunn systir hennar og var nú orðin ekkja, fátækleg til fara og hrygg í huga. Sigríður bað hana inn ganga, klæddi hana í ný föt og hughreysti hana með öllu móti; dvaldi hún þar síðan í góðu yfirlæti.

Þegar dóttir þeirra hjóna var orðin tólf ára gömul spurði einhverju sinni sr. Sölvi konu sína hvort hana langaði eigi til að sjá foreldra sína áður en þau dæju, og kvað hún já við því. Bjuggu þau þá ferð sína, tóku dóttur sína með sér og margar gersemar og héldu af stað. Léttu þau ekki fyrri en þau komu að Grund og tjölduðu þar fyrir utan túnið. Gerðu þau síðan boð hinum gömlu hjónum að finna sig og varð þar mikill fagnaðarfundur. Gáfu þau þeim margar gersemar og fásénar og gerðu þá skipan á áður en þau fóru að dóttir þeirra skyldi verða eftir og skyldu þau gömlu hjónin ala hana upp og gifta Ormi syni þeirra, en Sveinn bróðir sr. Sölva skyldi eignast Jórunni dóttur þeirra. Eftir það skildist skyldfólkið með kærleikum og hefur eigi síðan frétzt af þeim systrum.