Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Skólapiltur og útilegumenn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skólapiltur og útilegumenn

Það var einu sinni prestur sem tók einn skóladreng. En í sókninni þar, þegar menn fóru til sjóróðra, kom enginn aftur. Þegar vinnumenn hans voru farnir langar hann að fara. Prestur er tregur, fyrst hann nefndi það ekki áður en þeir fóru. Hann biður þess ákafar. Hann lætur það eftir hönum og fær hönum hvítan hund og segir hann skuli ekkert annað fara en sem hundurinn fari. Hann lofar því. Prestur fær hönum klyfjaðan hest af nesti og færið hans. So fylgir hann hönum lengi; so þeir skilja. Prestur sá mikið ettir hönum, hugsa; hann muni ekki sjá hann oftar. So heldur hann áfram og gengur vel og lengi þangað til að kemur á hann myrkvaþoka. So þegar hann er dálitla stund búinn að ganga í þokunni þá stekkur hundurinn aftur fyrir hestinn og skrækti hátt. Strákur segir að hann verði ekki að elta þennan bölvaðan hund og yfirgaf so hundinn, gengur so vel og lengi þangað til hann kemur að háum garði; hann gengur með hönum þangað til hann finnur hlið; hann fer inn um það og kemur so að hellir. Hann ber upp á dyr; það kemur stúlka til dyranna; hann biður hana að skila að fá að vera. Hún segir hann skuli ekki vera hér, það sé hvur maður drepinn. So hún skilar því og hann fær það; hann tekur af hestinum. og lætur það í hellirsdyrnar og teymir hestinn inn og fer so inn. Hann sér þar ekkert nema kall og kellingu hvort öðru ljótara. Hann heilsar þeim; þau taka ekki undir. Hann segir fólkið sé heimamannlegt, það taki ekki undir þegar það sé heilsað.

Hann stendur þarna so enginn talar við hann allt kvöldið. Þau fara fram; þá segir hann þau muni ætla að fara að sjóða dilkaspað handa sér. Þau koma so inn og setast niður. Þegar hann sér það segir hann þau séu gestrisin, hann megi fara að éta úr sínum poka og skipar stelpunni að sækja hann fram. Hún sækir hann og so fer hann að éta og so skipar hann stelpunni að éta; hún þorir það ekki og neitar því. Hann segir hún sé ekki so feit og skuli hann drepa hana ef hún geri það ekki, so hún þorir ekki annað, og þegar hún er [að] éta skipar kerling stelpunni að fleygja undir hann gæruskinnum á gólfið. Og á meðan stelpan er að því þá segir hann við hana hvað sé gert við þetta upp í mænir, blóðuga öxi og blóðuga skál með gati og á gólfinu blóðuga þró, þetta sé skrýtið. Það anzar honum enginn. So fer hann að hátta og þá varar hún hann við að berhátta. Hann fer úr öllum fötunum og so fer stelpan að hátta, en þau ekki. Hann segir þau muni ætla að sjóða eitthvað handa sér og gefa sér á milli dúranna. So breiðir hann upp fyrir höfuð og læzt sofa; þá fara þau fram. Þá segir stelpan að nú sé farið að kveikja, það eigi að fara að drepa hann. So koma þau inn með ljós og þá seilist kall upp í mænir og tekur öxina og skálina, og seta so af sér ljósið og fara bæði að laga skálina, að seta hana á þróna. Hún fer aldrei eins og þeim líkar og kenna so hvort öðru hvaða klaufar þau séu. So leggjast [þau á] hnén og koma so loksins skálinni fyrir. So ætla þau að rísa upp, en þá er skálin föst við þróna og höndurnar á þeim við skálina, hnén við gólfið, hælarnir við rassinn, og eru so þarna. So skipar strákurinn stelpunni að fara ofan og búa um bælið sem hún liggi í, hann liggi ekki lengur á gólfinu. Hún býr um og so leggst hann þar og skipar stelpunni að hátta hjá sér. Hún vill það ekki; hann segist þá skuli drepa hana þá, so hún háttar hjá hönum. Kall og kelling eru að smárykkja á, en það kemur fyrir sama, þau eru föst. So fer hann að spurja hana að hvað þau eigi mikið til af fénaði, og um allt spyr hann hana að hvað þau eigi. Hún segir þau eigi fjögur hundruð fjár, tólf hesta sem þau höfðu rænt og mikið af peningum og fötum. Þau fara so á fætur um morguninn og smala saman öllu fénu og hestunum og leggja so á hestana og fara með allt sem fémætt var og féð, og fer með stúlkuna og fer svo norður til prestsins sem var að kenna honum. Þegar hann var nærri því kominn norður segir hann það sé mál að losa [sig við] kindaskörnin og fer so norður og lætur prestinn fá helminginn af fénu; og hann er þar til kennslu hjá hönum þangað til hann var búinn að læra. Þá kaupir hann jörð og á so stúlkuna og varð so prestur, fékk so brauðið eftir gamla prestinn og er þar so prestur í sókninni. Og endar so þessi saga.